svarthvittalvogen.jpg

Stríðið í Alvogen: Morðhótanir, ofbeldi og misnotkun á fjölmiðlum

Einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman hefur stigið fram sem uppljóstrari og gert stjórn lyfjafyrirtækisins Alvogen grein fyrir ýmiskonar ósæmilegri hegðun forstjóra þess. Mennirnir tveir hafa staðið þétt saman í 18 ár í gegnum allskyns storma þar sem uppljóstrarinn, Halldór Kristmannsson, hefur varið Róbert af hörku. Nú er staðan önnur og fyrrverandi samherjar eru skyndilega orðnir hatrammir andstæðingar.

Stormur geisar innan íslensku lyfjafyrirtækjanna Alvogen og Alvotech eftir að einn nánasti samstarfsmaður forstjóra þeirra, Róberts Wessman, steig fram sem uppljóstrari og lagði fram gögn sem sýna fram á ósæmilega hegðun forstjórans yfir margra ára tímabil. 

Uppljóstrunin kemur á afar viðkvæmum tíma fyrir fyrirtækin. Alvogen hefur ekki gengið sem skyldi. Í febrúar lok breytti láns­hæf­is­mats­fyr­ir­tækið Moo­dy’s til að mynda horf­um Al­vo­gen í Banda­ríkj­un­um úr stöðugum í nei­kvæðar og vísaði til þess að end­urfjár­mögn­un­ar­áhætta fé­lags­ins hefði auk­ist. Ólíklegt væri mark­mið þess um að ná skuld­um und­ir fimm­faldri EBITDA á þessu ári muni nást.

Stóri lottóvinningurinn í samstæðunni er því Alvotech, sem ætlar að setja á markað sam­heita­lyf innan tveggja ára og hefur byggt lyfjaverksmiðju í Vatnsmýrinni. Í nýlegu viðtali við Kastljós hélt Róbert því fram að útflutn­ings­tekjur fyr­ir­tæk­is­ins muni nema um 20 pró­sentum vergrar lands­fram­leiðslu innan fárra ára.

Stærsti hlut­haf­inn í Alvotech er Aztiq Pharma, sjóður sem er undir stjórn Róberts. Í fyr­ir­tækja­skrá er Róbert skráður óbeinn end­an­legur eig­andi að 38,6 pró­sent hlut í Alvotech, sem gefur til kynna að það sé eign­ar­hlut­ur­inn sem hann stýr­ir. Næst stærsti hluthafinn er svo áðurnefnt Alvogen, sem er í meirihlutaeigu alþjóðlegu fjárfestingarsjóðanna CVC Capital Partners og Temasek. Róbert á svo óbeint um fimmtung í Alvogen í gegnum áðurnefnt Aztiq Pharma.

Auglýsing

Stefnt er að skrán­ingu Alvotech í kaup­höll í Hong Kong síðar á þessu ári eða að skráningu í Bandaríkjunum í gegnum sameiningu við annað lyfjafyrirtæki, samkvæmt heimildum Kjarnans. 

Alvotech vantar hins vegar fjármagn til að geta starfað fram að þessum tímamótum og hefur ekki getað sótt það fjármagn alþjóðlega. Þess vegna hafa forsvarsmenn fyrirtækisins komið „heim“ í leit að peningum.

Í síðustu viku greindi Frétta­blaðið frá því að Alvotech hafi alls náð að sækja sér um 100 millj­ónir dala, um 12,7 millj­arða króna, í nýtt hlutafé á und­an­förnum fjórum mán­uð­um. Síð­ast bætt­ust TM, fjár­fest­ing­ar­fé­lagið Hvalur og tveir sjóðir Stefn­is, sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækis Arion banka, í hóp­inn.  

Hneyksli á færibandi á versta tíma

Vegna viðkvæmrar stöðu mála þá má Alvogen/Alvotech illa við því að lenda í hringiðju hneykslismála. Það er þó nákvæmlega það sem hefur gerst. Fyrst stefndi bandarískt  lyfjafyrirtæki, AbbVie, Alvotech og segir að það hafi stolið trúnaðarupplýsingum úr sínum herbúðum. Sagt var frá stefnunni í síðustu viku. Alvotech hafnaði málatilbúnaðinum í yfirlýsingu og ásakaði AbbVie um „ljótan leik.“

Höfuðstöðvar Alvogen/Alvotech í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Mynd: Aðsend

Í morgun steig svo fram áðurnefndur uppljóstrari. Hann heitir Halldór Kristmannsson og hefur gætt hagsmuna Róberts Wessman í 18 ár, fyrst sem upplýsingafulltrúi Actavis þegar Róbert var þar forstjóri, og síðustu árin sem framkvæmdastjóri í Alvogen/Alvotech samstæðunni. Líklega eru fáir, ef einhverjir, sem vita meira um starfshætti, fjármál og hegðun Róberts Wessman á síðustu tæpu tveimur áratugum en Halldór, enda hefur hann haft það meginhlutverk að slökkva elda og mála upp jákvæða ímynd af forstjóranum. 

Í fyrrahaust slettist upp á milli mannanna tveggja og Halldór vék úr starfi. Þann 20. janúar sendi hann erindi til stjórnar þar sem hann kvartaði yfir hegðun Róberts og lýsti ýmiskonar athæfi hans.

Málið hefur nú tekið á sig alþjóðlega mynd, en Bloomberg greindi frá því fyrr í dag.

Deilur og morðhótanir

Á þeim tíma sem Halldór hefur starfað með Róberti hefur ýmislegt gengið á. Róbert hefur til að mynda staðið í deilum við Björgólf Thor Björgólfsson, fyrrverandi aðaleiganda Actavis, árum saman sem hafa tekið á sig allskyns, og stundum súrrealískar, myndir. Þeir hafa tekist á um hvort Róbert hafi verið rekinn frá Actavis í ágúst 2008 eða hvort hann hafi einfaldlega hætt störfum vegna þess að hann hefði verið „kominn með upp í kok“ af því að vinna með Björgólfi.

Auglýsing

Róbert og viðskiptafélagi hans, Árni Harðarson, fjármögnuðu til að mynda hóp­mál­sókn á hend­ur ­Björgólfi Thor sem fyrrverandi hluthafar í Landsbanka Íslands réðust í. ­Málinu var vísað frá.

Björgólfur Thor stefndi á móti bæði Róbert­i og Árna fyrir að hafa á ólög­­mætan hátt ­dregið að sér fjórar millj­­ónir evra frá sér og nýtt í eigin þágu. Krafðist Björgólfur þess að fá greiddar tvær milljónir evra í skaðabætur vegna málsins. Hæstiréttur sýknaði Róbert og Árna af kröfunum árið 2017. 

Þegar málarekstur skaðabótamálsins stóð yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar 2016 bar Mark Keatly, fyrrverandi fjármálastjóri Actavis, vitni fyrir hönd Björgólfs Thors. Á þeim tíma rak Keatly ráðgjafafyrirtæki með Claudio Albrecht, fyrrverandi forstjóri Actavis. Stundin greindi frá því í dag að Róbert hefði reynt að hringja í Keatly eftir að vitnisburði hans lauk og í kjölfarið sent mönnunum tveimur alls 33 smáskilaboð á innan við sólarhring þar sem hann hótað meðal annars að drepa Keatly, að hann myndi vinna þeim og fjölskyldu þeirra skaða.

Róbert gengst við því að hafa sent skilaboðin og upplýsingafulltrúi hans, Lára Ómarsdóttir, segir hann hafa beðist afsökunar á þeim og sjái eftir að hafa sent skilaboðin.

Gerendur á bakvið tjöldin í íslensku fjölmiðlaumhverfi

Pissukeppnin milli Róberts og Björgólfs Thors teygði sig líka inn í íslenskt fjölmiðlaumhverfi, og sýndi svart á hvítu hversu óheilbrigð staða þess er orðin þegar flestir fjölmiðlar landsins eru háðir fyrirgreiðslu milljarðamæringa til að halda sér á floti. 

Björgólfur Thor Björgólfsson og Róbert Wessman hafa verið ósáttir frá því fyrir hrun.
Mynd: BTB.is

Stutta sagan er sú að Róbert Wessman tók þátt í fjármögnun á fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar undir hatti Pressunar, sem reis hæst á árunum 2014 til 2017 með fjölmörgum yfirtökum á öðrum fjölmiðlum. Reksturinn gekk hörmulega og útheimti sífellt meira fé. Það leiddi til þess að í apríl 2017 var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar. 

Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja annarra manna, sem höfðu áður lánað Birni Inga. 

Viðmælandi Kjarnans sem kom að þessari fjárfestingu lýsti henni þannig að þegar hópurinn hafi „kíkt undir húddið“ hafi komið í ljós að ekkert virkaði og staðan var miklu verri en þeim hafði verið talið trú um. Árni Harðarson lýsti því síðar í yfirlýsingu að Björn Ingi hefði hótað sér þegar Dalurinn „vildi ekki setja meiri pen­ing í að bjarga illa reknum einka­banka hans í formi Pressunnar og[...]þegar Dal­ur­inn vildi ekki láta hann fá hlutafé sitt í Press­unni eftir að hann seldi allar eigur þess (fyrir það átti m.a. að greiða með steikum á Argent­ínu fyrir 6 millj­ónir króna).“

Mikið tap á Mannlífi

Þegar Dalurinn vildi bakka út úr því að setja meira fé í rekstur Pressuveldisins gerðist það að Sig­­urður G. Guð­jóns­­son hæsta­rétt­­ar­lög­maður steig fram og keypti  flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu, meðal annars DV og tengda miðla. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn. Verið væri að selja undan þeim eignir sem þeir ættu með réttu.

Auglýsing

Mörgum árum síðar greindi Kjarninn frá því að þau kaup, og rekstur miðlanna næstu ár á eftir, hefðu verið fjármögnuð af Björgólfi Thor, sem lánaði að minnsta kosti 920 milljónir króna til verksins á tveimur árum. 

Dalurinn sat eftir með fjölmiðlafyrirtækið Birting eftir þessar deilur og árið 2018 var eignarhaldið á því fært að öllu leyti yfir til Halldórs Kristmannssonar. Fyrir lá þó að Róbert fjármagni áfram gríðarlegan taprekstur þess, sem stafaði aðallega af útgáfu fríblaðsins Mannlífs. Alls tapaði Birtingur 553 milljónum króna frá 2017 og út 2019. Útgáfu Mannlífs sem fríblaðs var hætt í fyrra og Birtingur var seldur til nýs eiganda. Mannlífshluti útgáfunnar er nú einungis á netinu og aðallega í eigu Reynis Traustasonar.

Reynt að hafa áhrif á fjölmiðla til að koma höggi á menn

Kjarninn hefur rætt við fjölmarga aðila í dag sem hafa staðfest það sem þeir telja tilraunir Róberts til að reyna að hafa óeðlileg áhrif á fréttaflutning miðla sem hann kom að, með það fyrir augum að koma höggi á fólk sem hann taldi sig sökótt við. 

Halldór sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann tjáði sig um þessar tilraunir og hvernig hann var beittur óeðli­legum þrýst­ingi til að koma höggi á óvild­ar­menn Róberts, sem hann bar þungum sök­um. Þar sagðist Halldór hafa talið „fulla ástæðu til þess að setja fót­inn niður og tjáði Róbert ítrek­að, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjöl­miðlum og vega bein­línis að æru og mann­orði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgef­andi Mann­lífs, sem Róbert fjár­magn­aði og átti, en þar mynd­að­ist til að mynda mik­ill ágrein­ingur um rit­stjórn­ar­stefnu og sjálf­stæði. Úr þessu skap­að­ist vax­andi ósætti okkar á milli, sem gerði það að verkum að ég steig nauð­beygður til hliðar tíma­bund­ið, og upp­lýsti stjórnir fyr­ir­tækj­anna um mála­vext­i.  Ég vil standa vörð um ákveðin sið­ferð­is­leg gildi, og lét því ekki hagga mér í þessum mál­u­m.“

Vildi umfjöllun um ríkislögreglustjóra

Annar maður sem Róbert og Árni stóðu í deilum við er Matth­í­as Johannessen. Deilurnar snerust um að mennirnir þrír og einn til, Magnús Jaroslav Magnússon, keyptu saman fjár­fest­inga­fé­lagið Aztiq Pharma Partners sem átti í gegnum dótt­ur­fé­lög 30 pró­sent hlut í lyfja­fyr­ir­tæk­inu Alvogen. Róbert átti langstærstan hluta í félag­inu, eða um 94 pró­sent. Hinir menn­irnir áttu tvö pró­sent hver. Sum­arið 2010 var eign Aztiq Pharma Partners í Alvogen seld til ann­ars félags á nafn­virði. Það félag var í eigu Árna Harð­ar­son­ar. Matth­ías taldi að með þessu hefðu hinir menn­irnir þrír hlunn­farið sig á sak­næman og ólög­legan hátt, stefndi þeim og fór fram á að þeir greiddu sér 3,1 millj­arð króna. Vara­krafa hans hljóð­aði upp á 640 millj­ónir króna og lauk málarekstrinum með því að Hæsti­réttur féllst á hana, auk dráttarvaxta, í febrúar 2018. 

Róbert Wessman fjármagnaði mikinn taprekstur fríblaðsins Mannlífs á meðan að það kom út, en útgáfa þess hætti í fyrra.
Mynd: Mannlíf

Kjarninn hefur heimildir fyrir því að Róbert hafi þrýst á að fjallað yrði með neikvæðum hætti um Harald Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóra og föður Matthíasar, í Mannlífi á árinu 2019.

Í yfirlýsingu sinni í morgun greindi Halldór einnig frá því að hann hefði orðið persónulega fyrir lík­ams­árás úr hendi Róberts og orðið vitni af annarri, þegar hann var undir áhrifum áfengis á við­burðum fyr­ir­tæk­is­ins erlend­is. „Þegar ég síðar nefndi þetta við Róbert sagð­ist hann hafa verið að grín­ast og við hefðum verið í kýl­inga­leik. Ég var bein­línis kýldur kaldur í and­litið án fyr­ir­vara í vitna við­ur­vist. Mér var aug­ljós­lega ekki skemmt, og hef ekki orðið var við það almennt séð að for­stjórar fari í kýl­inga­leiki við sam­starfs­menn,“ sagði Halldór í yfirlýsingu sinni. 

Ekkert að sjá hér

Fyrir tæpri viku síðan sendi stjórn Alvogen frá sér yfir­lýs­ingu þar sem greint var frá því því að kvartað hefði verið yfir hegðun Róberts. Þar sagði að óháð nefnd hefði verið sett á fót til að kanna inni­hald kvört­un­ar­innar og Róbert sagt sig frá störfum fyrir Alvogen á meðan að sú athugun fór fram.

Erlend lögfræðistofa, White & Case, var fengin til að fara yfir kvart­anir Hall­dórs og íslenska lög­manns­stofan Lex veitti ráð­gjöf. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur erlenda lögfræðistofan unnið áður fyrir Alvogen og suma eigendur þess. Rann­sóknin stóð yfir í átta vikur og samkvæmt yfirlýsingu Alvogen var niðurstaðan sú að efni kvartanna ætti sér enga stoð. „Ekk­ert bend­ir til þess að starfs­hætt­ir Rób­erts Wessman séu þess eðl­is sem greint er frá í bréf­in­u og eng­in á­stæð­a er til þess að að­haf­­ast neitt vegn­a þess­a máls.“

Auglýsing

Í ljósi þess að upplýsingafulltrúi Róberts hefur í dag viðurkennt við Stundina að hann hafi sent morðhótanir á fyrrverandi stjórnendur Actavis er ljóst að efni kvörtunar Halldórs á sér hið minnsta þá stoð.

Vildi fá starfið sitt aftur og að Róbert yrði rekinn

Eftir að Halldór steig fram opinberlega í morgun sendi Róbert Wessman svo frá sér aðra yfirlýsingu. Þar sagði að það væri aug­ljóst að ásak­anir Hall­dórs um ofbeldi, morð­hót­anir og skipu­lagðar rógs­her­ferð­ir, væru lagðar fram í fjár­hags­legum til­gangi.

Kjarninn hefur undir höndum bréf frá lögmannsstofu í Boston sem starfar fyrir Halldór Kristmannsson sem sent var 15. mars síðastliðinn vegna málsins þar sem lögð er til sátt í málinu. Þar kemur skýrt fram að Halldór sækist ekki eftir neinum fjárhagslegum ávinningi frá Alvogen heldur byggi kvörtun hans á siðferðislegri afstöðu. Hann áskilur sér hins vegar rétt til þess að stefna Róberti persónulega þrátt fyrir að sátt náist á milli hans og fyrirtækisins. 

Í sáttaboði Halldórs felst að hann vill fá gamla starfið sitt aftur og að Róberti verði gert að víkja sem forstjóra Alvogen. Á móti muni Halldór falla frá öllum fjárkröfum sem hann gæti átt á hendur Alvogen eða Alvotech og skrifa undir trúnaðarsamkomulag. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar