Gera má ráð fyrir „verulegum breytingum“ á ströndinni við Vík

Munnar jarðganga í Reynisfjalli yrðu á „alræmdu“ snjóflóðasvæði og „einu þekktasta“ skriðufallasvæði landsins. Vegur um ósbakka og fjörur samræmist ekki nútíma hugmyndum um umhverfisvernd. Kjarninn rýnir í umsagnir um áformaða færslu þjóðvegar í Mýrdal.

Yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og þeirri skipulagslínu nýs vegar sem er að finna á aðalskipulagi Mýrdalshrepps.
Yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og þeirri skipulagslínu nýs vegar sem er að finna á aðalskipulagi Mýrdalshrepps.
Auglýsing

Gangamunnar áformaðra jarðganga í gegnum Reynisfjall eru annars vegar á einu þekktasta skriðufallasvæði landsins og hins vegar „á alræmdu“ snjóflóðasvæði. Til að verjast þessu þyrfti gangaskáli í austurhlíðum Reynisfjalls að vera á þriðja hundrað metra langur og hannaður til að standast stór berghlaup, allt að milljón rúmmetrum, sem hafa fallið í gegnum tíðina og mælst á jarðskjálftamælum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Veðurstofu Íslands um drög að matsáætlun um færslu hringvegarins um Mýrdal.

Hafrannsóknarstofnun bendir í sinni umsögn á að í Dyrhólaósi, sem vegurinn mun mögulega liggja yfir eða við, og ám og lækjum sem í hann renna, séu ekki aðeins mikilvæg búsvæði fugla heldur einnig fiska og annarra vatnalífvera og Fuglavernd segir veg um svæðið ekki samræmast „nútíma hugmyndum um umhverfisvernd, stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði náttúruverndar“.

Samkvæmt þingsályktunartillögu um vegaáætlun, sem Landvernd fjallar um í sínum athugasemdum, kostar allt að 15 sinnum meira að fara þá leið sem Vegagerðin leggur til en að lagfæra núverandi veg um Gatnabrún. Með færslu vegarins mun hringvegurinn styttast um þrjá kílómetra sem réttlætir engan veginn, að mati íbúasamtaka, þann „gríðarlega kostnað og óafturkræfu umhverfisáhrif sem jarðgöng og þjóðvegur eftir fjörum, leirum, ósbökkum og votlendismýrum hefðu í för með sér“.

Auglýsing

Umsagnir og athugasemdir frá tólf stofnunum og félagasamtökum bárust Vegagerðinni við drög að matsáætlun varðandi fyrirhugaða færslu hringvegarins um Mýrdal. Veglína við sjóinn og um jarðgöng í Reynisfjalli var sett á aðalskipulag Mýrdalshrepps fyrir nokkrum árum. Þetta er nú sú leið sem Vegagerðin stefnir að þó fjallað sé um aðra valmöguleika í drögunum. Í inngangi skýrslunnar, sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir stofnunina, segir: „Áformað er að færa hringveg um Mýrdal. Í stað þess að vegurinn liggi um Gatnabrún og í gegnum þéttbýlið á Vík er stefnt að því að færa veginn þannig að hann liggi suður fyrir Geitafjall, meðfram Dyrhólaósi og í gegnum Reynisfjall í jarðgöngum sunnarlega í fjallinu. Vegurinn myndi svo liggja sunnan við Vík og tengjast núverandi vegi austan við byggðina.“

Fyrsta skrefið í matsferli

Drög að matsáætlun er fyrsti fasi í umhverfismatsferli framkvæmdar og rann frestur til að skila athugasemdum við þessa tilteknu tillögu út í febrúar. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að nú sé verið að vinna úr umsögnum og ábendingum og að brugðist verði við þeim í tillögu að matsáætlun sem sé næsta skrefið í matsferlinu. „Tillagan verður síðan send til Skipulagsstofnunar sem mun auglýsa hana og þá gefst öllum aftur kostur á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum um hvernig verði staðið að mati á umhverfisáhrifum vegarins. Skipulagsstofnun tekur síðan í framhaldinu ákvörðun um matsáætlun sem Vegagerðin mun vinna eftir við umhverfismatið.“

Í drögum að matsáætlun er greint frá nokkrum valkostum um veglínu. Flestar þeirra liggja við eða yfir Dyrhólaós og í jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Mynd: VSÓ ráðgjöf

Vel þekkt skriðusvæði

„Á komandi áratugum má gera ráð fyrir verulegum breytingum á ströndinni við Vík vegna landhæðarbreytinga, sjávarstöðubreytinga og ágangs sjávar,“ segir í umsögn Veðurstofu Íslands. Einnig sé vel þekkt að ströndin geti færst til vegna efnisburðar ef til Kötluhlaups kæmi. Í drögum að matsáætlun komi fram að fjaran sé ekki stöðug og því þörf á varnargarði við veginn þar sem hann liggur í Víkurfjöru. „Mikilvægt er að betur sé gerð grein fyrir sjóvörnum meðfram veginum og hvernig þær taki tillit til mögulegra breytinga á sjávarstöðu og ströndinni sjálfri.“

Segir stofnunin vert að minna á viðmiðunarreglur um skipulag á lágsvæðum í þessu samhengi þar sem fram kemur að gera þurfi ráð fyrir a.m.k. 1 metra hækkun sjávarstöðu á öldinni. Einnig sé rétt að minna á að á næstu öldum megi búast við verulegum sjávar- og landhæðarbreytingum. Tillögum um varnargarð samhliða veginum þyrftu því að fylgja lýsing á því hvernig slíkt mannvirki yrði aðlagað breyttri sjávarstöðu eða auknum ágangi sjávar.

Ekki minnst á áhrif á vatnalíf Dyrhólaóss

Hafrannsóknarstofnun bendir í sinni umsögn á að rannsóknir hafi sýnt að í Dyrhólaósi séu m.a. mikilvægar fæðuvistir sjóbleikju og sjóbirtings. Að auki er á það bent að ósinn sé á náttúruminjaskrá. Stofnunin vekur svo athygli á að í drögum Vegagerðarinnar sé „ekki getið nokkurs mats á áhrifum framkvæmda á vatnalíf í Dyrhólaósi eða nærliggjandi vatnsföllum“. Einungis sé minnst á fuglalíf og annað lífríki. Ekki sé vikið sérstaklega að áhrifum á fiska og annað vatnalíf „þó svo að sýndar séu veglínur sem liggja með fjöruborði eða þveri Dyrhólaós. Í drögum að matsáætlun er þess getið að ár og lækir verði ýmist brúaðir eða ræsum komið fyrir en ekki getið neins mats á lífríkisáhrifum þeirra verkþátta“.

Dyrhólaós er þekkt búsvæði tuga fuglategunda. Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglavernd telur að af þeim valkostum sem fjallað er um í drögunum hafi fjórir í för með sér „veruleg neikvæð og varanleg umhverfisáhrif“. Segja samtökin að aðeins einn kostur, lagfæring á núverandi vegi, komi til greina.

Samtökin gera athugasemdir við að í drögunum sé ítrekað talað um að „í nágrenni framkvæmdasvæðis“ sé að finna svæði sem séu bundin verndarákvæðum. Telja þau þetta orðalag ónákvæmt og að hluta til rangt „og til þess fallið að slá ryki í augu þeirra sem kynna sér drögin og milda áhrif framkvæmdarinnar á verndarsvæði sem eru til umfjöllunar.“ Eðlilegra sé að tala um að verndarsvæði séu „á og í“ nágrenni við framkvæmdasvæði.

Árið 2013 vann Jóhann Óli Hilmarsson skýrslu um fuglalíf við Dyrhólaós en hennar er hvergi getið í drögum Vegagerðarinnar. Í henni kom m.a. fram að verndargildi svæðisins fari vaxandi og telur Fuglavernd niðurstöðurnar geta gefið tilefni til þess að Dyrhólaós eigi heima á skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna, BirdLife International, um Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (IBA).

Auglýsing

Fuglavernd rifjar einnig upp að í umsögn Umhverfisstofnunar frá árinu 2006, um þessa fyrirhuguðu legu hringvegarins, er aðalskipulag Mýrdalshrepps var til umfjöllunar, hafi verið lagt til að vernda Dyrhólaey, Dyrhólaós, Reynisfjöru og votlendi norðan óssins sem eina heild þar sem svæðið væri mikilvægt fyrir fuglalíf og nyti vinsælda meðal ferðamanna. Auk þess væri þar að finna vistkerfi sem leggja bæri áherslu á að vernda samkvæmt stefnumörkun íslenskra stjórnvalda. Umhverfisstofnun taldi að vegalagning yfir Dyrhólaós myndi rýra verndargildi svæðisins.

Fuglavernd tekur undir þetta mat og telur að verndargildi svæðisins sem heildar hafi aukist frá því að Umhverfisstofnun gaf umsögn sína. „Fuglavernd telur því að í stað hugmynda um að færa hringveg að Dyrhólaósi væri nær að stækka og sameina náttúruverndarsvæði í Mýrdal og styrkja verndargildi þeirra með endurheimt votlendis í samvinnu við heimamenn og landeigendur.“

Á þetta kort af verndarsvæðum á framkvæmdasvæðinu vantar upplýsingar um svæði sem Náttúrufræðistofnun hefur lögum samkvæmt tilnefnt á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Mynd: Úr drögum að matsáætlun

Í athugasemdum Landverndar kemur fram að mikil náttúruverðmæti séu í húfi á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði er varði alla landsmenn. „Þessum náttúruverðmætum má ekki spilla nema að mjög brýn nauðsyn kalli. Ekkert slíkt er fyrir hendi í þessu máli.“

Í drögum Vegagerðarinnar að matsáætlun kemur fram að fyrstu athuganir bendi til þess að lágmarkshæð vegarins þurfi að vera í 5,7 metrum yfir sjávarmáli og að varnargarður austan við við Víkurá þurfi að vera í um 7,5 m.y.s. „Þetta yrðu því mikil mannvirki og munu hafa mikil áhrif á upplifun og útivist á svæðinu, og þar með líklega ferðaþjónustu,“ bendir Landvernd á.

Verðmætt svæði á lands- og heimsvísu

Náttúruverndarsamtök Suðurlands (NSS) segja í sinni umsögn að ný veglína snerti svæði sem séu mjög verðmæt frá náttúrufarslegu sjónarmiði, bæði á lands- og heimsvísu. Mörg kennileiti, svo sem Víkurfjara, Reynisdrangar og Dyrhólaey séu þekkt um allan heim. Svæðið hafi ómetanlegt náttúruverndargildi en ekki síður efnahagslegt gildi fyrir atvinnulíf og ferðaþjónustu.

Samtökin segja að hugmyndirnar um veglínuna sem Vegagerðin hefur nú sett á oddinn séu 40 ára gamlar. Síðan þá hafi veruleiki íslenskrar ferðaþjónustu og staða ferðaþjónustu í hreppnum gjörbreyst. Veglínan muni liggja um eða mjög nálægt nokkrum þekktustu náttúruperlum landsins og raska þeim. „Vegaframkvæmdir af þeim toga eru alger tímaskekkja í íslensku samfélagi í dag.“

Vanlíðan vegna sífelldrar varnarstöðu í litlu sveitarfélagi

Þá koma samtökin inn á þann samfélagslega skaða sem orðið hefur vegna deilna um veginn og benda á að félagsmenn sem búa í hreppnum eða eru fæddir þar hafi lýst vanlíðan sinni og óánægju yfir því „að hafa þurft að vera í sífelldri varnarstöðu gagnvart þeim öflum sem harðast hafa beitt sér fyrir þessum framkvæmdum og gert athugasemdir við það hversu erfitt er að standa í áratugalangri baráttu í svo litlu sveitarfélagi sem Mýrdalshreppur er. Stjórn NSS vill benda á að þess háttar togstreita framkvæmda- og verndarafla sé allt of algeng á Íslandi, togstreita og barátta sem oft nær yfir fleiri kynslóðir og áratugi.“

NSS segir að saga áformanna sé „stráð hættumerkjum“ og rifjar upp að margar stofnanir, þ.m.t. Umhverfisstofnun, Siglingastofnun og Skipulagsstofnun, hafi lagst gegn þessari veglínu á sínum tíma.

Horft yfir Vík og að Reynisdröngum. Fyrir um það bil miðri mynd, ofan Víkurfjöru, er munni jarðganga um Reynisfjallið fyrirhugaður.

Stórum hluta votlendis í Mýrdal hefur verið raskað, segir í umsögn Landgræðslunnar, og að þær tillögur að veglínu sem settar eru fram í drögum Vegagerðarinnar „liggja helst í gegnum og við óraskað votlendi í mynni Dyrhólaóss.“ Í því sambandi telur stofnunin rétt að árétta að óraskað votlendi njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum. „Þá má endurheimta raskað votlendi í samræmi við áætlanir íslenskra stjórnvalda sem mótvægisaðgerð við loftslagsvá sem hins vegar er flóknari aðgerð verði vegurinn að veruleika.“ 

Landgræðslan bendir einnig á að þar sem strandlínan sé á mikilli hreyfingu séu aðstæður þar einhverjar þær erfiðustu til landgræðslu á Íslandi. Landgræðsla á sér langa sögu í Víkurfjöru með það að meginmarkmiði að draga úr sandfoki og vernda byggðina. Mikilli vinnu og fjármagni hafi verið ráðstafað til að hefta landbrot og styrkja gróður. „Á allra síðustu árum gætir loks árangurs aðgerðanna.“ Ráði þar mestu sjóvarnargarðar og starf heimafólks með stuðningi Landgræðslunnar. „Því er mikilvægt að gerð verði áætlun um uppgræðslu, frágang, og lagfæringar eftir rask á umhverfi vegstæðisins í fjörunni svo öll sú vinna fari ekki í súginn.“

Gæti valdið verulegri röskun á náttúruminjum

Náttúrufræðistofnun Íslands segir að þeir valkostir veglínunnar sem liggi um Dyrhólaós og næsta nágrenni og í grennd við friðlandið í Dyrhólaey, fari um fágætt leirusvæði og leifar af ríkulegu votlendi í Mýrdal. Einnig séu alþjóðlega mikilvægar fuglabyggðir í grenndinni. „Það er því ljóst að um viðkvæmt svæði er að ræða og gætu sumir kostirnir sem kynntir eru valdið verulegu raski á náttúruminjum.“

Í drögum að matsáætlun segir að athugunarsvæðið verði „vel rúmt“ svo hægt sé að hnika veglínu. Náttúrufræðistofnun bendir á að engu að síður sé tilgreint athugunarsvæði einungis látið ná yfir nyrðri hluta Dyrhólaóss og aðeins um einn kílómetra á báðar hendur frá veglínum þar sem best er og sums staðar sé þetta belti „örmjótt“. Að sögn stofnunarinnar þyrfti athugunarsvæðið að ná yfir allan ósinn. „Þess má geta að rannsóknir – sem m.a. hafa verið styrktar af Vegagerðinni – hafa sýnt fram á áhrif vega (umferðar) á fuglalíf í mörg hundruð metra fjarlægð frá fjölförnum vegum.“

Athugunarsvæði vegna framkvæmdarinnar er sagt vel rúmt en Náttúrufræðistofnun tekur ekki undir það orðalag.  Mynd: Úr drögum að matsáætlun

Þá gagnrýnir stofnunin að svo virðist sem ekki eigi að skoða í umhverfismatinu lífríki Dyrhólaóss, hugsanlega að undanskildum fuglum. Einnig bendir hún á að í drögunum sé ekki fjallað um svæði, 2,9 ferkílómetra að stærð, sem stofnunin lagði árið 2018 til að fari á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.

Um sé að ræða „mýrlendissvæði upp af vesturhluta Dyrhólaóss, vesturmörk við brekkurætur Geitafjalls, frá Loftsalahelli að framræsluskurði sunnan Skarphóls, þaðan austur um eftir skurðum milli ræktarlands og úthaga, yfir Brandslæk og frá mótum hans og Deildará upp með Deildará til Rauðalækjar og síðan niður með honum til óssins“.

Að mati Náttúrufræðistofnunar er hér um votlendissvæði með hátt verndargildi að ræða; „síðustu heillegu leifar af votlendi Mýrdals.“

Rannsóknum settar þröngar skorður

Í drögunum komi fram að rannsókn á stöðugleika strandarinnar við Vík gæti tekið næstu þrjú árin. Öðrum rannsóknum virðist hins vegar ætlaður mun knappari tími, því gert sé ráð fyrir kynningu á matsskýrslu haustið 2021, að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir í mars 2022 og að framkvæmdir hefjist síðla árs 2022. „Þetta setur öllum rannsóknum mjög þröngar skorður, sérstaklega þá fuglarannsóknum sem þurfa að ná yfir allar árstíðir.“

Samtök íbúa og hagsmunaaðila um ábyrgar skipulags- og samgöngubætur í Mýrdal segja vinnubrögð við aðalskipulag Mýrdalshrepps árið 2013 hafa verið gagnrýnisverð. „Allar helstu stofnanir sem gáfu umsögn um aðalskipulagið höfðu uppi stór varnarorð gegn þeirri veglínu sem sett var inn.“

Ferðaþjónusta á öðrum hverjum bæ

Skipulagsstofnun hafi synja skipulaginu hvað varðaði nýja veglínu, m.a. vegna „ítrekaðrar og rökstuddrar afstöðu Umhverfisstofnunar“. Þáverandi umhverfisráðherra skrifaði hins vegar undir aðalskipulagið, „þvert á öll rök sinna helstu fagstofnana,“ segja íbúasamtökin.

Þá er bent á að ferðaþjónusta sé „á nánast öðrum hverjum bæ“ í Mýrdal. Einnig hafi mörg sprotafyrirtæki risið upp kringum ferðaþjónustuna í þorpinu í Vík. Því sé vert að skoða hvaða veglínukostir stuðla að því að ferðamenn stoppi á svæðinu og hvaða kostir séu líklegri til að ferðamenn keyri fram hjá.

Katla UNESCO Global Geopark (Katla jarðvangur) er fyrsti jarðvangur Íslands, stofnaður í nóvember árið 2010. Hann er innan þriggja sveitarfélaga: Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps.

Í umsögn Kötlu jarðvangs er bent á að ákveðnar kröfur um verndun og stjórnun UNESCO jarðvanga séu skilyrði til að halda slíkri vottun. Ferðamannastaðir sem eru viðurkenndir af UNESCO séu eftirsóttir m.a. vegna verndunar, sjálfbærni, fræðslu og menningar. „Katla jarðvangur er á einu virkasta eldfjallasvæði heims. Þar finnast stórkostlegar landslagsheildir, fjölbreytt lífríki, búsvæði alþjóðlegra mikilvægra fugla, votlendissvæði og rík menning.“

Reynisfjara er eitt þeirra jarðvætta sem er innan Kötlu jarðvangs.

Margar rannsóknir hafi sýnt fram á að þeir ferðamenn sem heimsækja Ísland og þar með Kötlu jarðvang, komi sérstaklega til að upplifa landslagið, fjölbreytni þess og ósnortna náttúru. Það sé því „afar mikilvægt“ að tryggja að náttúran sé í forgrunni við alla ákvarðanatöku um skipulag og uppbyggingu „að öðrum kosti munu verulegar og jafnvel óafturkræfar afleiðingar verða, ekki aðeins á náttúrunni heldur einnig á stærstu atvinnugrein svæðisins; ferðaþjónustu.“

Þá segir: „Breyting á hringveginum sem hér er lögð til mun hafa mikil áhrif á mörg jarðvætti sem og landslagsheildir svo ekki sé minnst á vistkerfin og menningarminjar. Þetta mun án efa hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu líka og þar með samfélagið og aðra innviði.“

Margir af mikilvægustu stöðum jarðvangsins, svokölluð jarðvætti, er að finna við hugsanlegt framkvæmdasvæði nýrrar veglínu. Má þar nefna Dyrhólaey, Dyrhólaós, Loftsalahelli, Reynisfjall, Reynisdranga, Reynisfjöru, Víkurfjöru og gamla bæinn í Vík. „Það er því mjög mikilvægt fyrir Kötlu jarðvang, og allt samfélagið í Mýrdalshreppi, að vel verði staðið að málum.“

Í umsögn Kötlu jarðvangs kemur auk þess fram að áhættan á skemmdum á bæði umhverfinu sem og ásýnd svæðisins vegna þessara framkvæmda og staðsetningu nýrrar veglínu sé mikil, ekki ásættanleg „og alveg á skjön við stefnu Kötlu UNESCO Global Geopark“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent