Mynd: Golli

Ríkissjóður verður rekinn í meira en 1.100 milljarða króna halla á sjö ára tímabili

Viðspyrnan í íslensku efnahagslífi veltur áfram sem áður á því hversu fljótt það tekst að taka á móti ferðamönnum til landsins, samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2026. Reynist efnahagsþróunin í samræmi við svartsýnni sviðsmynd, þar sem ferðaþjónustan er lengur að jafna sig og áhrifa sóttvarna gætir lengur, má búast við umtalsverðum neikvæðum áhrifum á landsframleiðslu og á atvinnuleysi.

Áætlað er að rík­is­sjóður verði rek­inn í 222,9 millj­arða króna halla á næsta ári sam­kvæmt fjár­mála­á­ætlun áranna 2022-2026 sem kynnt var í dag.

Hall­inn á svo að fara lækk­andi ár frá ári og verða 59,3 millj­arðar króna árið 2026. Sam­an­lagður halli rík­is­sjóðs á árunum 2022 til 2026 er áætl­aður 589,7 millj­arðar króna. Við þá upp­hæð má bæta að hall­inn í fyrra er áætl­aður 195,5 millj­arðar króna og sá halli sem verður á rekstri rík­is­sjóðs í ár, 319,9 millj­arðar króna. 

Því er gert ráð fyrir að tekjur rík­is­sjóðs verði 1.105 millj­örðum krónum lægri en útgjöld hans á sjö ára tíma­bili, frá byrjun síð­asta árs og út árið 2026. 

Við­spyrnan veltur á ferða­þjón­ust­unni

Fjár­mála­ætl­unin gerir ráð fyrir að aðstæður verði til þess að draga hratt úr sér­tækum stuðn­ingi hins opin­bera árið 2022. Þar er gengið út frá því að með vax­andi styrk efna­hags­lífs­ins verðu fjár­hags­staða rík­is­sjóðs efld að nýju með stöðvun skulda­söfn­unar fyrir lok árs­ins 2025. 

Auglýsing

Þessi von rík­is­stjórn­ar­innar byggir meðal ann­ars á því að meg­in­þorri lands­manna og íbúa helstu við­skipta­landa verði bólu­settur um mið­bik þessa árs. Á þeim grunni gerir þjóð­hags­spá Hag­stof­unnar ráð fyrir fjölgun ferða­manna sem drífi áfram efna­hags­batann, en gert er ráð fyrir að ferða­menn sem heim­sæki Ísland verði 720 þús­und í ár og fjölgi um 80 pró­sent á næsta ári, 2022, og verði þá 1,3 millj­ónir alls. Á metár­inu 2018 voru ferða­menn sem heim­sóttu Ísland 2,3 millj­ónir og árið 2019 voru þeir rétt tæp­lega tvær millj­ón­ir. 

Fjár­mála­á­ætlun gerir ráð fyrir því að þróun í ferða­lögum Íslend­inga til útlanda fylgi svip­uðum ferli og komur erlendra ferða­manna til Íslands. 

Sviðsmyndir sem settar eru fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026
Mynd: Fjármálaáætlun 2022-2026

Reyn­ist efna­hags­þró­unin hins vegar lak­ari og í sam­ræmi við svart­sýnu sviðs­mynd­ina sem sett er fram í áætl­un­inni, þar sem ferða­þjón­ustan er lengur að jafna sig og áhrifa sótt­varna gætir lengur með til­heyr­andi áhrifum á atvinnu­leysi, gefa áætl­anir til kynna að und­ir­liggj­andi afkoma hins opin­bera verði um 1,9 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu lak­ari að jafn­aði árin 2022–2026. „Við slíka afkomu­þróun yrði nauð­syn­legt að auka afkomu­bæt­andi ráð­staf­anir um helm­ing þannig að þær yrðu um 50 ma.kr. á ári árin 2023–2025 í stað 34 ma.kr. Rýrn­unin í und­ir­liggj­andi afkomu hins opin­bera stafar að mestu af tekju­lækkun sem nemur um 50 ma.kr. á ári að jafn­aði miðað við þessa sviðs­mynd. Þá aukast útgjöld hins opin­bera um 16 ma.kr. á ári að jafn­aði en kostn­aður vegna atvinnu­leysis vegur þar um helm­ing. Aukin vaxta­gjöld vegna hærri skuld­setn­ingar eru um 5 ma.kr. á ári að jafn­aði. Að teknu til­liti til auk­ins umfangs afkomubæt­andi ráð­staf­ana stöðvast skulda­söfnun hins opin­bera árið 2025 við um 59% af VLF. Um 0,6 pró­sentu­stig af skulda­hækk­un­inni í lok tíma­bils­ins má rekja til lægri áætl­unar um VLF í svart­sýnu sviðs­mynd­inn­i.“

Til útskýr­ingar þá þýðir hug­takið „af­komu­bæt­andi ráð­staf­an­ir“ annað hvort skatta­hækk­anir eða nið­ur­skurður á gjöldum rík­is­sjóðs.

Hag­vöxtur 4,8 pró­sent á næsta ári

Sam­kvæmt nýrri þjóð­hags­spá Hag­stofu Íslands verður hag­vöxtur 2,6 pró­sent í ár. Stofn­unin gerir ráð fyrir að hag­vöxtur verði 4,8 pró­sent á næsta ári og 3,8 pró­sent 2023. Gangi þessi spá eftir verður lands­fram­leiðsla þó enn 130 millj­örðum krónum lægri árið 2024 en ef ekki hefði komið til far­ald­urs­ins ef miðað er við spár frá því í árs­byrjun 2020.

Auglýsing

Í fjár­mála­á­ætl­un­inni segir að á næstu árum verði áfram lögð rík áhersla á umbætur hjá hinu opin­bera, ekki síst með nýt­ingu staf­rænnar þjón­ustu og upp­lýs­inga­tækni. „Í fjár­fest­inga­átaki rík­is­stjórn­ar­innar hafa verið lagðir um 12 ma.kr. í slík verk­efni á árunum 2020–2025. Þessi fjár­fest­ing mun ekki aðeins skila sér í bættum sam­skiptum rík­is­ins við borg­ar­ana, heldur sömu­leiðis í fjár­hags­legum ávinn­ingi fyrir heim­ili, fyr­ir­tæki og ekki síst rík­is­sjóð. Mun það hversu vel tekst til við að nýta þessa nýju tækni og hvernig gengur að vinna upp fram­leiðslutap vegna far­ald­urs­ins, m.a. með aðgerðum stjórn­valda, ráða því hversu umfangs­miklar afkomu­bæt­andi ráð­staf­anir þarf til að stöðva skulda­söfnun hins opin­bera á tíma­bili fjár­mála­á­ætl­un­ar­inn­ar.“

Atvinnu­leysi stærsta áskor­unin

Atvinnu­leysi á Íslandi mælist nú um 12,5 pró­sent. Hér­lendis eru 25.683 án atvinnu að öllu leyti eða hluta. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Lang­flest­ir, 21.352, eru atvinn­u­­lausir að öllu leyti. Af þeim hafa 12.761 verið atvinn­u­­lausir í meira en hálft ár, en í þeim hópi hefur fjölgað um 8.941 á einu ári. 

Fjár­mála­á­ætl­unin gerir ráð fyrir að atvinnu­leysi við lok áætl­un­ar­tíma­bils­ins verði á bil­inu fjögur til fimm pró­sent, sem er hærra en með­al­at­vinnu­leysi síð­ast­lið­inna ára­tuga og merki um við­var­andi hærra atvinnu­leysi en verið hefur hér­lendis verði ekk­ert að gert. „Þessi þróun skýrist að hluta af því að áhrif far­ald­urs­ins eru lang­vinn­ari en vonir stóðu til í upp­hafi og því ljóst að fleiri verða utan vinnu­mark­aðar í lengri tíma.“

Stjórn­völd kynntu nýverið aðgerðir til að skapa störf með greiðslu ráðn­ing­ar­styrkja. Átak­ið, sem á að kosta 4,5-5 millj­arða króna, á að skapa um sjö þús­und störf.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar