Áætlað er að ríkissjóður verði rekinn í 222,9 milljarða króna halla á næsta ári samkvæmt fjármálaáætlun áranna 2022-2026 sem kynnt var í dag.
Hallinn á svo að fara lækkandi ár frá ári og verða 59,3 milljarðar króna árið 2026. Samanlagður halli ríkissjóðs á árunum 2022 til 2026 er áætlaður 589,7 milljarðar króna. Við þá upphæð má bæta að hallinn í fyrra er áætlaður 195,5 milljarðar króna og sá halli sem verður á rekstri ríkissjóðs í ár, 319,9 milljarðar króna.
Því er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 1.105 milljörðum krónum lægri en útgjöld hans á sjö ára tímabili, frá byrjun síðasta árs og út árið 2026.
Viðspyrnan veltur á ferðaþjónustunni
Fjármálaætlunin gerir ráð fyrir að aðstæður verði til þess að draga hratt úr sértækum stuðningi hins opinbera árið 2022. Þar er gengið út frá því að með vaxandi styrk efnahagslífsins verðu fjárhagsstaða ríkissjóðs efld að nýju með stöðvun skuldasöfnunar fyrir lok ársins 2025.
Þessi von ríkisstjórnarinnar byggir meðal annars á því að meginþorri landsmanna og íbúa helstu viðskiptalanda verði bólusettur um miðbik þessa árs. Á þeim grunni gerir þjóðhagsspá Hagstofunnar ráð fyrir fjölgun ferðamanna sem drífi áfram efnahagsbatann, en gert er ráð fyrir að ferðamenn sem heimsæki Ísland verði 720 þúsund í ár og fjölgi um 80 prósent á næsta ári, 2022, og verði þá 1,3 milljónir alls. Á metárinu 2018 voru ferðamenn sem heimsóttu Ísland 2,3 milljónir og árið 2019 voru þeir rétt tæplega tvær milljónir.
Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að þróun í ferðalögum Íslendinga til útlanda fylgi svipuðum ferli og komur erlendra ferðamanna til Íslands.

Reynist efnahagsþróunin hins vegar lakari og í samræmi við svartsýnu sviðsmyndina sem sett er fram í áætluninni, þar sem ferðaþjónustan er lengur að jafna sig og áhrifa sóttvarna gætir lengur með tilheyrandi áhrifum á atvinnuleysi, gefa áætlanir til kynna að undirliggjandi afkoma hins opinbera verði um 1,9 prósent af vergri landsframleiðslu lakari að jafnaði árin 2022–2026. „Við slíka afkomuþróun yrði nauðsynlegt að auka afkomubætandi ráðstafanir um helming þannig að þær yrðu um 50 ma.kr. á ári árin 2023–2025 í stað 34 ma.kr. Rýrnunin í undirliggjandi afkomu hins opinbera stafar að mestu af tekjulækkun sem nemur um 50 ma.kr. á ári að jafnaði miðað við þessa sviðsmynd. Þá aukast útgjöld hins opinbera um 16 ma.kr. á ári að jafnaði en kostnaður vegna atvinnuleysis vegur þar um helming. Aukin vaxtagjöld vegna hærri skuldsetningar eru um 5 ma.kr. á ári að jafnaði. Að teknu tilliti til aukins umfangs afkomubætandi ráðstafana stöðvast skuldasöfnun hins opinbera árið 2025 við um 59% af VLF. Um 0,6 prósentustig af skuldahækkuninni í lok tímabilsins má rekja til lægri áætlunar um VLF í svartsýnu sviðsmyndinni.“
Til útskýringar þá þýðir hugtakið „afkomubætandi ráðstafanir“ annað hvort skattahækkanir eða niðurskurður á gjöldum ríkissjóðs.
Hagvöxtur 4,8 prósent á næsta ári
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands verður hagvöxtur 2,6 prósent í ár. Stofnunin gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,8 prósent á næsta ári og 3,8 prósent 2023. Gangi þessi spá eftir verður landsframleiðsla þó enn 130 milljörðum krónum lægri árið 2024 en ef ekki hefði komið til faraldursins ef miðað er við spár frá því í ársbyrjun 2020.
Í fjármálaáætluninni segir að á næstu árum verði áfram lögð rík áhersla á umbætur hjá hinu opinbera, ekki síst með nýtingu stafrænnar þjónustu og upplýsingatækni. „Í fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar hafa verið lagðir um 12 ma.kr. í slík verkefni á árunum 2020–2025. Þessi fjárfesting mun ekki aðeins skila sér í bættum samskiptum ríkisins við borgarana, heldur sömuleiðis í fjárhagslegum ávinningi fyrir heimili, fyrirtæki og ekki síst ríkissjóð. Mun það hversu vel tekst til við að nýta þessa nýju tækni og hvernig gengur að vinna upp framleiðslutap vegna faraldursins, m.a. með aðgerðum stjórnvalda, ráða því hversu umfangsmiklar afkomubætandi ráðstafanir þarf til að stöðva skuldasöfnun hins opinbera á tímabili fjármálaáætlunarinnar.“
Atvinnuleysi stærsta áskorunin
Atvinnuleysi á Íslandi mælist nú um 12,5 prósent. Hérlendis eru 25.683 án atvinnu að öllu leyti eða hluta. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Langflestir, 21.352, eru atvinnulausir að öllu leyti. Af þeim hafa 12.761 verið atvinnulausir í meira en hálft ár, en í þeim hópi hefur fjölgað um 8.941 á einu ári.
Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi við lok áætlunartímabilsins verði á bilinu fjögur til fimm prósent, sem er hærra en meðalatvinnuleysi síðastliðinna áratuga og merki um viðvarandi hærra atvinnuleysi en verið hefur hérlendis verði ekkert að gert. „Þessi þróun skýrist að hluta af því að áhrif faraldursins eru langvinnari en vonir stóðu til í upphafi og því ljóst að fleiri verða utan vinnumarkaðar í lengri tíma.“
Stjórnvöld kynntu nýverið aðgerðir til að skapa störf með greiðslu ráðningarstyrkja. Átakið, sem á að kosta 4,5-5 milljarða króna, á að skapa um sjö þúsund störf.
Lestu meira:
-
27. júní 2022Hagstofan býst við að hagvöxtur verði enn kröftugri en spáð var í lok vetrar
-
27. júní 2022Fjármálaráðuneytið segist ekki hafa yfirlit yfir fjársópseignirnar sem seldar voru leynilega
-
25. júní 2022Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
-
24. júní 2022Samkeppniseftirlitið ekki haft aðkomu að rannsókn á dótturfélagi Eimskips í Danmörku
-
24. júní 2022Eru íslensku bankarnir að okra á heimilum landsins?
-
24. júní 2022Seðlabankinn tekur beiðni Kjarnans um „ruslaskistu Seðlabankans“ til efnislegrar meðferðar
-
23. júní 2022Líkir aðgerðum Seðlabankans við það að „fara á skriðdreka til rjúpnaveiða“
-
23. júní 2022Ekki á hreinu hvernig setning um fjármagn til rannsóknar á Samherja rataði inn í tilkynningu ríkisstjórnar
-
22. júní 2022„Lífskjör fólks á Íslandi ráðast nú mjög á stöðu þess á fasteignamarkaði“
-
22. júní 2022Bankarnir hafa ekki lánað meira í einum mánuði frá því fyrir hrun