Lestur Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, Fréttatímans og DV hefur aldrei mælst minni en hann mældist í ágústmánuði. Eini prentmiðillinn sem mælist ekki með lestur í sögulegum lægðum er Viðskiptablaðið, sem tapar þó umtalsverðum lestri á milli mánaða.
Þetta kemur fram í nýrri lestrarkönnun Gallups sem birt var fyrir skemmstu.
Fréttablaðið við það að rjúfa 50 prósent múrinn
Fréttablaðið, sem fór í gegnum mestu útlitsbreytingar sem blaðið hefur ráðist í í sögu sinni í ágústmánuði, heldur áfram að tapa lestri og er nú komið mjög nálægt 50 prósent lestri hjá öllum aldurshópum. Á meðal þeirra breytinga sem framkvæmdar voru á Fréttablaðinu voru þær að leiðaraopnu blaðsins var gjörbreytt, hinn svokallaði fréttakross, sem hafði verið við lýði frá stofnun blaðsins og lagði áherslur á smærri fréttir í bland við stærri, hefur verið aflagður og ríkari áhersla er nú lögð á birtingu ljósmynda en áður. Þrátt fyrir breytingarnar hefur lestur blaðsins aldrei mælst lægri en hann mældist í ágústmánuði.
Blaðið er þó enn langmest lesna dagblað landsins, enda dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar inn á heimili fólksins í landinu.
Lestur Fréttablaðsins hefur fallið hratt undanfarin ár og blaðið hefur alls tapað rúmlega 20 prósent lesenda sinna á síðustu fimm árum.
Fréttatíminn í frjálsu falli
Fréttatíminn kom fyrst út fyrir tæpum fimm árum síðan. Blaðið er fríblað sem er prentað í 82 þúsund eintökum einu sinni í viku og dreift í hús. Blaðið var fyrst með í mælingum Gallup í mars 2011 og mældist þá með tæplega 42 prósent lestur. Síðan þá hefur lesturinn rokkað töluvert en Fréttatíminn virtist á mikilli siglingu í upphafi árs, á sama tíma og aðrir miðlar með stórt upplag voru í frjálsu falli. Í mars síðastliðnum mældist lestur hans 40,57 prósent.
Síðan þá hefur hann verið á hraðri niðurleið og í ágúst, einungis fimm mánuðum síðar, mælist hann 36,34 prósent. Það er minnsti lestur sem Fréttatíminn hefur nokkru sinni mælst með og tíu prósentum minni en hann var í mars síðastliðnum.
35 prósent lesenda farinn á sex árum
Morgunblaðið, stærsta áskriftarblað landsins sem stofnað var fyrir 102 árum síðan, hefur heldur aldrei mælst með minni lestur, en 28,09 prósent Íslendinga yfir 18 ára aldri segjast lesa blaðið nú. Lesendum Morgunblaðsins hefur fækkað mikið undanfarin ár.
Árið 2009, þegar nýir eigendur tóku við blaðinu og núverandi ritstjórnar þess voru ráðnir, lásu 43 prósent landsmanna blaðið. Um 35 prósent lesenda hafa því yfirgefið Morgunblaðið á sex árum. Lesturinn fór í fyrsta sinn í áratugi undir 30 prósent snemma árs í fyrra og hjá fólki undir fimmtugu mælist lesturinn einungis um 20 prósent.
DV nær sögulegum botni
DV er hins vegar það dagblað sem kemur verst allra út úr könnuninni. Blaðið missir yfir tvö prósentustig í lestri, eða um 23 prósent af þeim fjölda sem las blaðið í júlí. Nú lesa 7,13 prósent þjóðarinnar yfir 18 ára aldri DV og lestur blaðsins hefur aldrei nokkru sinni í 40 ára sögu þess verið jafn lítill og hann var í síðasta mánuði. Þegar horft er á yngri lesendur, þá sem eru undir fimmtugu, er lesturinn enn minni, eða um sex prósent.
Lestur DV hefur dregist hratt saman undanfarna mánuði í kjölfar mikilla átaka um eignarhald miðilsins og mikilla breytinga á starfsmannahaldi. Reynir Traustason, fyrrum aðaleigandi DV og ritstjóri blaðsins, var ýtt út af miðlinum í sumarlok 2014 eftir að aðilar undir forystu Þorsteins Guðnasonar, sem lánað höfðu DV töluvert fé, tóku yfir fjölmiðilinn. Með Reyni hurfu á brott allir helstu stjórnendur DV og nokkrir blaðamenn. Flestir í þeim hópi stofnuðu síðar fjölmiðilinn Stundina.
Í dag er stærsti eigandi og útgefandi DV Björn Ingi Hrafnsson. Útgáfufélag hans heldur líka úti vefmiðlunum DV.is, Eyjan.is, Pressan.is og Bleikt.is. Nýir ritstjórar, Eggert Skúlason og Kolbrún Bergþórsdóttir, voru ráðin til að stýra DV í lok síðasta árs. Síðan þá hefur lestur blaðsins dregist saman um tæp 30 prósent.
Minnkar þriðja mánuðinn í röð
Viðskiptablaðið, sem er selt í áskrift, hafði verið á töluverðu skriði undanfarna mánuði og náði sinni bestu mælingu frá því að blaðið kom aftur inn í mælingar Gallup sumarið 2011 í maí síðastliðnum. Þá sögðust 12,4 prósent landsmanna lesa Viðskiptablaðið. Vert er að taka fram að Viðskiptablaðið sker sig frá hinum dagblöðunum þar sem um er að ræða syllublað með afmörkuð efnistök, selt í áskrift og kemur út einu sinni í viku.
Lestur blaðsins hefur hins vegar minnkað þrjá mánuði í röð og mælist nú 10,94 prósent. Viðskiptablaðið, líkt og Fréttablaðið, fékk mikla andlitslyftingu á árinu, þá fyrstu frá því í janúar 2010.