Arion banki ætlar að losa allt að 88 milljarða króna til hluthafa
Á markaðsdegi Arion banka kom fram að bankinn ætlar sér að greiða um og yfir 60 milljarða króna til hluthafa í arð og með endurkaup á bréfum á næstunni. Sú upphæð bætist við 25,5 milljarða króna sem þeir hafa fengið á fyrstu níu mánuðum ársins.
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 greiddi Arion banki 25,5 milljarða króna til hluthafa sinna í formi arðs upp á 2,9 milljarða króna með endurkaupum á eigin bréfum þeirra upp á 22,7 milljarða króna.
Bankinn hefur þegar tilkynnt að hann ætli að kaupa eigin bréf af hluthöfum fyrir tíu milljarða króna á síðustu þremur mánuðum ársins og greiða þeim 11,3 milljarða króna í arð. Það þýðir að frá byrjun árs og með þeim arð- og endurkaupagreiðslum sem hann hefur þegar ákveðið mun Arion banki skila 46,8 milljörðum króna til hluthafa sinna.
Í kynningu á markaðsdegi Arion banka, sem fór fram í gær, kemur fram að von sé á meiru. Miðað við markmið Arion banka um hvert eiginfjárhlutfall hans ætti að vera telja stjórnendur bankans hægt að losa um 30,1 milljarð króna til viðbótar til hluthafa án þess að fara niður fyrir þau mörk. Ef salan á greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor til ísraelska fyrirtækisins Rapyd, sem ákveðin var í sumar, verður samþykkt af Samkeppniseftirlitinu eiga að losna á bilinu átta til ellefu milljarðar króna til viðbótar sem hægt yrði að greiða út til hluthafa.
Því er ljóst að ef áform Arion banka um arðgreiðslur og endurkaup frá byrjun síðasta árs og þangað til að hlutfall eiginfjársþáttar 1 hjá bankanum er komið niður í 17 prósent ganga eftir, og Samkeppniseftirlitið heimilar söluna á Valitor, munu hluthafar hans fá um 84,9 til 87,9 milljarða króna út úr honum frá byrjun árs 2020 og þar til þessu útgreiðsluferli er lokið.
Til samanburðar má nefna að heildarhagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var 60,1 milljarðar króna. Það var meiri hagnaður en þessir þrír kerfislega mikilvægu bankar hafa hagnast um innan árs síðan 2015.
Áætlun sem lengi hefur legið fyrir
Ekkert í þessari áætlun stjórnar Arion banka ætti að koma neinum á óvart. Þegar Arion banki var skráður á markað á fyrri hluta ársins 2018 lá fyrir að markmið ráðandi hluthafa væri að greiða sér út eins mikið af eigin fé hans og hægt væri, á sem skemmstum tíma.
Í fjárfestakynningu sem Kvika vann fyrir Kaupþing, þá stærsta eiganda Arion banka, í aðdraganda skráningar kom fram að svigrúm væri til að greiða út allt að 80 milljarða króna, eða þriðjung alls eigin fjár Arion banka, á tiltölulega skömmum tíma með ýmsum hætti.
Það væri hægt að gera í gegnum breytingu á fjármögnun bankans, með því að draga úr útlánum hans til fyrirtækja, með því að minnka kostnað í gegnum uppsagnir á starfsfólki, með því að hrinda í gang umfangsmikilli endurkaupaáætlun á hlutabréfum í bankanum og svo auðvitað í gegnum arðgreiðslur.
Þá á átti að selja undirliggjandi eignir sem væru ekki hluti af kjarnastarfsemi Arion banka.
Til að framfylgja áætluninni voru ráðnir nýir stjórnendur. Fyrst Benedikt Gíslason í stól bankastjóra sumarið 2019, en hann hafði verið í stjórn Kaupþings á árunum 2016 til 2018 og svo áðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka og setið í stjórn bankans frá árinu 2018. Hann réð svo Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason skömmu síðar sem aðstoðarbankastjóra.
Tímabundið stopp vegna COVID-19
Í byrjun árs 2020 hafði flest í leikáætluninni gengið eftir. Eigið fé Arion banka hafði lækkað úr 225,7 milljörðum króna í 190 milljarða króna frá lokum árs 2017 og fram til loka árs 2019, eða um tæpa 36 milljarða króna.
Til viðbótar töldu greiningaraðilar að bankinn geti búið þannig um hnútanna að það myndi losna um tugi milljarða króna til útgreiðslu þegar árið 2020 væri á enda, aðallega með því að minnka útlán sín.
Til stóð að minnka þau um 20 prósent á síðasta ári. Í afkomuspá sem Hagfræðideild Landsbankans vann um uppgjör Arion banka í aðdraganda birtingu ársreiknings hans fyrir árið 2019 var því spáð að arðgreiðslur bankans gæti orðið 50 milljarðar króna á tólf mánuðum.
Svo skall kórónuveirufaraldurinn á og kom í veg fyrir að þau áform gengu eftir samkvæmt þeirri tímalínu sem lagt var upp með. Samhliða því að Seðlabanki Íslands réðst í að veita bönkunum miklar tilslakanir til að þeir gætu aðstoðað í baráttunni við efnahagslægðina sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, að það væri algjörlega ótækt af Arion banka að íhuga arðgreiðslur eða endurkaup á bréfum við ríkjandi aðstæður.
Horfur bötnuðu hratt
Þessi staða breyttist skyndilega í byrjun árs 2021. Þá var nokkuð ljóst að svörtustu spár um áhrif kórónuveirukreppunnar á bankakerfið myndu alls ekki ganga eftir. Þvert á móti voru þeir farnir að græða gríðarlegt magn af peningum á ástandinu. Arion hagnaðist til að mynda um 12,5 milljarða króna í fyrra og náði því markmiði sínu á síðasta ársfjórðungi að vera með arðsemi á eigin fé sitt yfir tíu prósentum, en hún var alls 11,8 prósent á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.
Það leiddi til þess að Arion banki fékk heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að ráðast endurkaup á hlutabréfum. Auk þess mat bankinn sem svo að arðgreiðslumarkmið hans væru í takti við það sem heimilt er að gera.
Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur Arion banki hagnast um 22 milljarða króna, en hagnaður bankans nam rúmlega átta milljörðum króna á síðustu þremur mánuðum.
Arðsemi eigin fjár hjá Arion banka það sem af er ári er heil 15,2 prósent. Þegar horft er á síðast ársfjórðung, sem hófst í byrjun júlí og lauk í lok september, er arðsemin enn hærri, eða 17 prósent.
Í fréttatilkynningu sem fylgdi birtingu uppgjörs þriðja ársfjórðungar sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri bankans, að bæði eigin- og lausafjárhlutföll bankans væru „með því hæsta sem gerist í Evrópu.“ Bankinn gæti þess vegna verið í „mjög góðri stöðu mjög góðri stöðu til að lækka eigið fé með útgreiðslum.“
Það ætlar hann sannarlega að gera, um marga tugi milljarða króna.
Minni banki með meira fé til að losa
Það er ýmislegt sem hefur undirbyggt þennan árangur í rekstrinum. Arion hefur náð árangri í rekstri sínum, aukið vaxtamun, losað sig undan miklu magni fyrirtækjalána, fækkað starfsmönnum og náð að gera stóran hluta af þjónustu sinni stafræna.
En bankinn hefur líka fengið fjölmörg tól frá stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands til að stórauka það fé sem hann getur greitt til hluthafa. Þar ber að nefna ákvörðun um að lækka bankaskatt í einu skrefi í fyrra í stað þess að framkvæma þá lækkun á fjórum árum milli 2021 og 2024 líkt og áður stóð til. Þetta skilaði 6,1 milljarði króna til þeirra sem greiða bankaskattinn úr ríkissjóði.
Seðlabankinn ákvað líka að afnema tímabundið sveiflujöfnunarauka á eigið fé banka og stýrivextir lækkaðir niður í 0,75 prósent, sem hratt af stað mikilli aukningu á virði eigna sem bankar sýsla með og fjármagna, sérstaklega hlutabréfa og íbúða. Breytinguna má glöggt sjá í uppgjörum bankanna síðan að þetta var ákveðið og í gríðarlegum hækkunum á virði hlutabréfa, þar á meðal í Arion banka.
Markaðsvirðið aukist um 200 milljarða frá því í mars 2020
Virði Arion banka hefur aldrei verið meira þrátt fyrir að verið sé að dæla peningum út úr honum. Á einu ári hefur hlutabréfverðið hækkað um 124 prósent og frá áramótum hefur það hækkað um 106 prósent. Markaðsvirði bankans er nú um 300 milljarðar króna. Í mars í fyrra fór markaðsvirðið um tíma undir 100 milljarða króna. Því hefur virði hlutabréfanna aukist um 200 milljarða króna og á rúmu einu og hálfu ári.
Stærstu eigendur bankans í dag eru íslenskir lífeyrissjóðir. Samtals eiga þrír stærstu sjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi 27,02 prósent hlut. Aðrir lífeyrissjóðir sem eiga meira en eitt prósent hlut eiga samtals 15,74 prósent með beinum hætti. Því eiga lífeyrissjóðir landsins saman beint næstum 43 prósent í bankanum. Í ljósi þess að ýmsir fjárfestingarsjóðir, sem lífeyrissjóðir eru hlutdeildarskírteinishafar í, eru fyrirferðamiklir í eigendahópnum má ætla að endanlegur sameiginlegur eignarhlutur þeirra sé hærri.
Arion banki á sem stendur 7,26 prósent í sjálfum sér eftir endurkaup bréfa, sem verður væntanlega eytt þegar hlutafé verður lækkað í nánustu framtíð. Þá eykst hlutfallslegur eignarhlutur eftirstandandi eigenda.
Stærsti einkafjárfestirinn, og sá sem sagður er hafa mikil áhrif á þá sókndjörfu útgreiðslustefnu sem Arion banki stundar, eru fjárfestingafélagið Stoðir sem eiga sem stendur 4,73 prósent hlut í bankanum. Sá hlutur er nú metinn á 14,1 milljarð króna og hlutdeild Stoða í þeim útgreiðslum sem átt hafa sér stað á árinu, eða eru fyrirhugaðar í nánustu framtíð, er á bilinu 4 til 4,2 milljarðar króna. Næst stærsti einkaaðilinn í hópnum er fjárfestingafélagið Hvalur, sem stýrt er af Kristjáni Loftssyni, með 2,22 prósent eignarhlut. Virði hans er um 6,6 milljarðar króna sem stendur og hlutur Hvals í útgreiðslunum í kringum 1,9 milljarða króna.