Mynd: EPA

Arion banki ætlar að losa allt að 88 milljarða króna til hluthafa

Á markaðsdegi Arion banka kom fram að bankinn ætlar sér að greiða um og yfir 60 milljarða króna til hluthafa í arð og með endurkaup á bréfum á næstunni. Sú upphæð bætist við 25,5 milljarða króna sem þeir hafa fengið á fyrstu níu mánuðum ársins.

Á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 2021 greiddi Arion banki 25,5 millj­arða króna til hlut­hafa sinna í formi arðs upp á 2,9 millj­arða króna með end­ur­kaupum á eigin bréfum þeirra upp á 22,7 millj­arða króna. 

Bank­inn hefur þegar til­kynnt að hann ætli að kaupa eigin bréf af hlut­höfum fyrir tíu millj­arða króna á síð­ustu þremur mán­uðum árs­ins og greiða þeim 11,3 millj­arða króna í arð. Það þýðir að frá byrjun árs og með þeim arð- og end­ur­kaupa­greiðslum sem hann hefur þegar ákveðið mun Arion banki skila 46,8 millj­örðum króna til hlut­hafa sinna. 

Í kynn­ingu á mark­aðs­degi Arion banka, sem fór fram í gær, kemur fram að von sé á meiru. Miðað við mark­mið Arion banka um hvert eig­in­fjár­hlut­fall hans ætti að vera telja stjórn­endur bank­ans hægt að losa um 30,1 millj­arð króna til við­bótar til hlut­hafa án þess að fara niður fyrir þau mörk. Ef salan á greiðslu­miðl­un­ar­fyr­ir­tæk­inu Valitor til ísra­elska fyr­ir­tæk­is­ins Rapyd, sem ákveðin var í sum­ar, verður sam­þykkt af Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu eiga að losna á bil­inu átta til ell­efu millj­arðar króna til við­bótar sem hægt yrði að greiða út til hlut­hafa. 

Því er ljóst að ef áform Arion banka um arð­greiðslur og end­ur­kaup frá byrjun síð­asta árs og þangað til að hlut­fall eig­in­fjárs­þáttar 1 hjá bank­anum er komið niður í 17 pró­sent ganga eft­ir, og Sam­keppn­is­eft­ir­litið heim­ilar söl­una á Valitor, munu hlut­hafar hans fá um 84,9 til 87,9 millj­arða króna út úr honum frá byrjun árs 2020 og þar til þessu útgreiðslu­ferli er lok­ið. 

Til sam­an­burðar má nefna að heild­ar­hagn­aður Arion banka, Íslands­banka og Lands­bank­ans á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 2021 var 60,1 millj­arðar króna. Það var meiri hagn­aður en þessir þrír kerf­is­lega mik­il­vægu bankar hafa hagn­ast um innan árs síðan 2015.

Áætlun sem lengi hefur legið fyrir

Ekk­ert í þess­­ari áætlun stjórnar Arion banka ætti að koma neinum á óvart. Þegar Arion banki var skráður á markað á fyrri hluta árs­ins 2018 lá fyrir að mark­mið ráð­andi hlut­hafa væri að greiða sér út eins mikið af eigin fé hans og hægt væri, á sem skemmstum tíma. 

Úr kynningu Arion banka á markaðsdeginum sem fram fór í gær. Á myndinni er sýnt hvað sé búið að losa til hluthafa og hvað sé stefnt að því að losa í nánustu framtíð.
Mynd: Arion banki

Í fjár­­­festa­kynn­ingu sem Kvika vann fyrir Kaup­­þing, þá stærsta eig­anda Arion banka, í aðdrag­anda skrán­ingar kom fram að svig­­rúm væri til að greiða út allt að 80 millj­­arða króna, eða þriðj­ung alls eigin fjár Arion banka, á til­­­tölu­­lega skömmum tíma með ýmsum hætt­i. 

Það væri hægt að gera í gegnum breyt­ingu á fjár­­­mögnun bank­ans, með því að draga úr útlánum hans til fyr­ir­tækja, með því að minnka kostnað í gegnum upp­­sagnir á starfs­­fólki, með því að hrinda í gang umfangs­­mik­illi end­­ur­­kaupa­á­ætlun á hluta­bréfum í bank­­anum og svo auð­vitað í gegnum arð­greiðsl­­ur. 

Þá á átti að selja und­ir­liggj­andi eignir sem væru ekki hluti af kjarna­­starf­­semi Arion banka.

Til að fram­fylgja áætl­un­inni voru ráðnir nýir stjórn­end­ur. Fyrst Bene­dikt Gísla­son í stól banka­stjóra sum­arið 2019, en hann hafði verið í stjórn Kaup­þings á árunum 2016 til 2018 og svo áðgjafi Kaup­­þings í mál­efnum Arion banka og setið í stjórn bank­ans frá árinu 2018. Hann réð svo Ásgeir Helga Reyk­fjörð Gylfa­son skömmu síðar sem aðstoð­ar­banka­stjóra. 

Tíma­bundið stopp vegna COVID-19

Í byrjun árs 2020 hafði flest í leik­á­ætl­un­inni gengið eft­­ir. Eigið fé Arion banka hafði lækkað úr 225,7 millj­­örðum króna í 190 millj­­arða króna frá lokum árs 2017 og fram til loka árs 2019, eða um tæpa 36 millj­­arða króna. 

Til við­­bótar töldu grein­ing­­ar­að­ilar að bank­inn geti búið þannig um hnút­­anna að það myndi losna um tugi millj­­arða króna til útgreiðslu þegar árið 2020 væri á enda, aðal­­­lega með því að minnka útlán sín. 

Til stóð að minnka þau um 20 pró­­sent á síð­­asta ári. Í afkomu­­spá sem Hag­fræði­deild Lands­­bank­ans vann um upp­­­gjör Arion banka í aðdrag­anda birt­ingu árs­­reikn­ings hans fyrir árið 2019 var því spáð að arð­greiðslur bank­ans gæti orðið 50 millj­­arðar króna á tólf mán­uð­­um. 

Svo skall kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn á og kom í veg fyrir að þau áform gengu eftir sam­­kvæmt þeirri tíma­línu sem lagt var upp með. Sam­hliða því að Seðla­­banki Íslands réðst í að veita bönk­­unum miklar til­slak­anir til að þeir gætu aðstoðað í bar­átt­unni við efna­hagslægð­ina sagði Ásgeir Jóns­­son, seðla­­banka­­stjóri, að það væri algjör­­lega ótækt af Arion banka að íhuga arð­greiðslur eða end­­ur­­kaup á bréfum við ríkj­andi aðstæð­­ur.

Horfur bötn­uðu hratt

Þessi staða breytt­ist skyndi­lega í byrjun árs 2021. Þá var nokkuð ljóst að svört­ustu spár um áhrif kór­ónu­veiru­krepp­unnar á banka­kerfið myndu alls ekki ganga eft­ir. Þvert á móti voru þeir farnir að græða gríð­ar­legt magn af pen­ingum á ástand­inu. Arion hagn­að­ist til að mynda um 12,5 millj­arða króna í fyrra og náði því mark­miði sínu á síð­­asta árs­fjórð­ungi að vera með arð­­semi á eigin fé sitt yfir tíu pró­­sent­um, en hún var alls 11,8 pró­­sent á síð­­­ustu þremur mán­uðum síð­­asta árs.

Það leiddi til þess að Arion banki fékk heim­ild Fjár­­­mála­eft­ir­lits Seðla­­banka Íslands til að ráð­­ast end­­ur­­kaup á hluta­bréf­um. Auk þess mat bank­inn sem svo að arð­greiðslu­­mark­mið hans væru í takti við það sem heim­ilt er að ger­a. 

Á fyrstu níu mán­uðum árs­ins hefur Arion banki hagn­­ast um 22 millj­­arða króna, en hagn­aður bank­ans nam rúm­­lega átta millj­­örðum króna á síð­­­ustu þremur mán­uð­­um. 

Arð­semi eigin fjár hjá Arion banka það sem af er ári er heil 15,2 pró­­sent. Þegar horft er á síð­­­ast árs­fjórð­ung, sem hófst í byrjun júlí og lauk í lok sept­­em­ber, er arð­­semin enn hærri, eða 17 pró­­sent.

Í frétta­til­kynn­ingu sem fylgdi birt­ingu upp­­­gjörs­ þriðja árs­fjórð­ungar sagði Bene­dikt Gísla­­son, banka­­stjóri bank­ans, að bæði eig­in- og lausa­­fjár­­hlut­­föll bank­ans væru „með því hæsta sem ger­ist í Evr­­ópu.“ Bank­inn gæti þess vegna verið í „mjög góðri stöðu mjög góðri stöðu til að lækka eigið fé með útgreiðsl­­um.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Mynd: Arion banki

Það ætlar hann sann­ar­lega að gera, um marga tugi millj­arða króna.

Minni banki með meira fé til að losa

Það er ýmis­legt sem hefur und­ir­byggt þennan árangur í rekstr­in­um. Arion hefur náð árangri í rekstri sín­um, aukið vaxta­mun, losað sig undan miklu magni fyr­ir­tækja­lána, fækkað starfs­mönnum og náð að gera stóran hluta af þjón­ustu sinni staf­ræna. 

En bank­inn hefur líka fengið fjöl­mörg tól frá stjórn­völdum og Seðla­banka Íslands til að stór­auka það fé sem hann getur greitt til hlut­hafa. Þar ber að nefna ákvörðun um að lækka banka­skatt í einu skrefi í fyrra í stað þess að fram­kvæma þá lækkun á fjórum árum milli 2021 og 2024 líkt og áður stóð til. Þetta skil­aði 6,1 millj­arði króna til þeirra sem greiða banka­skatt­inn úr rík­is­sjóð­i. 

Seðla­bank­inn ákvað líka að afnema tíma­bundið sveiflu­­jöfn­un­­ar­auka á eigið fé banka og stýri­vextir lækk­­aðir niður í 0,75 pró­­sent, sem hratt af stað mik­illi aukn­ingu á virði eigna sem bankar sýsla með og fjár­­­magna, sér­­stak­­lega hluta­bréfa og íbúða. Breyt­ing­una má glöggt sjá í upp­gjörum bank­anna síðan að þetta var ákveð­ið og í gríð­ar­legum hækk­unum á virði hluta­bréfa, þar á meðal í Arion banka. 

Mark­aðsvirðið auk­ist um 200 millj­arða frá því í mars 2020

Virði Arion banka hefur aldrei verið meira þrátt fyrir að verið sé að dæla pen­ingum út úr hon­um. Á einu ári hefur hluta­bréf­verðið hækkað um 124 pró­sent  og frá ára­mótum hefur það hækkað um 106 pró­sent. Mark­aðsvirði bank­ans er nú um 300 millj­arðar króna. Í mars í fyrra fór mark­aðsvirðið um tíma undir 100 millj­arða króna. Því hefur virði hluta­bréf­anna auk­ist um 200 millj­arða króna og á rúmu einu og hálfu ári. 

Stærstu eig­endur bank­ans í dag eru íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir. Sam­tals eiga þrír stærstu sjóðir lands­ins: Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins, Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna og Gildi 27,02 pró­sent hlut. Aðrir líf­eyr­is­sjóðir sem eiga meira en eitt pró­sent hlut eiga sam­tals 15,74 pró­sent með beinum hætti. Því eiga líf­eyr­is­sjóðir lands­ins saman beint næstum 43 pró­sent í bank­an­um. Í ljósi þess að ýmsir fjár­fest­ing­ar­sjóð­ir, sem líf­eyr­is­sjóðir eru hlut­deild­ar­skír­tein­is­hafar í, eru fyr­ir­ferða­miklir í eig­enda­hópnum má ætla að end­an­legur sam­eig­in­legur eign­ar­hlutur þeirra sé hærri. 

Arion banki á sem stendur 7,26 pró­sent í sjálfum sér eftir end­ur­kaup bréfa, sem verður vænt­an­lega eytt þegar hlutafé verður lækkað í nán­ustu fram­tíð. Þá eykst hlut­falls­legur eign­ar­hlutur eft­ir­stand­andi eig­enda. 

Stærsti einka­fjár­festir­inn, og sá sem sagður er hafa mikil áhrif á þá sókndjörfu útgreiðslu­stefnu sem Arion banki stund­ar, eru fjár­fest­inga­fé­lagið Stoðir sem eiga sem stendur 4,73 pró­sent hlut í bank­an­um. Sá hlutur er nú met­inn á 14,1 millj­arð króna og hlut­deild Stoða í þeim útgreiðslum sem átt hafa sér stað á árinu, eða eru fyr­ir­hug­aðar í nán­ustu fram­tíð, er á bil­inu 4 til 4,2 millj­arðar króna. Næst stærsti einka­að­il­inn í hópnum er fjár­fest­inga­fé­lagið Hval­ur, sem stýrt er af Krist­jáni Lofts­syni, með 2,22 pró­sent eign­ar­hlut. Virði hans er um 6,6 millj­arðar króna sem stendur og hlutur Hvals í útgreiðsl­unum í kringum 1,9 millj­arða króna. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar