Pexels - Open source myndasöfn

„Ekkert furðulegt“ við að bólusettir smitist

Hún er mætt aftur. En hvernig má það vera? Þrennt skýrir helst fjölgun smita á Íslandi, því landi heims sem er hvað lengst komið í bólusetningum: Bólusetning minnkar líkur á smiti en kemur ekki í veg fyrir það, aflétting aðgerða og þar af leiðandi breytt hegðun fólks og í þriðja lagi landnám hæfasta afbrigðis veirunnar til þessa. „Landslagið breyttist mikið með deltunni,“ segir Arnar Pálsson erfðafræðingur sem fer í viðtali við Kjarnann yfir stöðuna með vísindin að vopni.

Eins og þruma úr heiðskíru lofti? Margir eru steinhissa á því að síðustu daga hafi fullbólusettir einstaklingar verið að greinast með kórónuveiruna, bæði innanlands og á landamærunum. Að þetta sama fólk geti svo – og hafi – smitað aðra. „Greinilega er maður ekki alveg hólpinn með bólusetningunni,“ sagði ungur Íslendingur í samtali við Vísi nýverið en hann sýktist af COVID-19 í fríi erlendis og smitaði eftir heimkomuna móður sína og systur. Hann var bólusettur. Fór áhyggjulaus í frí en engu að síður varlega.

Fleiri hafa rekið upp stór augu. Furðað sig á fjölgun smita innanlands síðustu daga.

Arnar Pálsson erfðafræðingur. Mynd: HÍ/Kristinn Ingvarsson

Arnar Pálsson erfðafræðingur er ekki einn þeirra. Hann segir „ekkert furðulegt“ við það að fullbólusett fólk smitist af veirunni og smiti jafnvel aðra. „Það var fyrirséð, sérstaklega í ljósi þess hvernig hegðun fólks úti í samfélaginu hefur verið upp á síðkastið,“ segir hann við Kjarnann. Engar takmarkanir eru lengur innanlands og margir virðast hafa tekið því þannig að það þýddi, þrátt fyrir varnaðarorð yfirvalda, að öll hætta væri liðin hjá. Fólk standandi í hnapp við kælinn í kjörbúðinni er ein birtingarmyndin. Fólk í kös á börum bæjarins er önnur. Tómir sprittbrúsar í verslunum sú þriðja. Og svo mætti áfram telja.

„Bólusetning kemur ekki í veg fyrir smit,“ ítrekar Arnar, enda hafi því aldrei verið haldið fram, „heldur minnkar hún líkurnar á því umtalsvert og minnkar auk þess líkurnar á að smit leiði til alvarlegri sjúkdóms.“ Ávinningi af bólusetningu sé hins vegar hægt að tapa með því að sleppa öllum smitvörnum, vera sífellt í margmenni og „knúsa alla sem koma með flugvélum til landsins“.

Talandi um knús.

Auglýsing

„Það er loksins komið að þessum áfanga í þessari baráttu sem við höfum öll beðið eftir. Og við erum öll svo spennt að geta lifað okkar eðlilega lífi aftur. Að mega heilsast og knúsa og faðma.“

Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi stjórnvalda í Safnahúsinu 25. júní er tilkynnt var að öllum takmörkunum innanlands yrði aflétt á miðnætti þann sama dag.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á fundinum í Safnahúsinu. Mynd: Skjáskot RÚV

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði okkar góðu stöðu í bólusetningum og þá staðreynd að nánast engin smit væru að greinast gera það að verkum „að við erum hingað komin í dag“.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist hafa undirritað tugi reglugerða vegna COVID-ráðstafana en nú, rúmum fimmtán mánuðum eftir þá fyrstu, „hef ég undirritað reglugerð um það að fella brott allar takmarkanir á samkomum vegna farsóttar.“ Þar með talið fjöldatakmarkanir, grímuskyldu, nálægðarregluna, skerta opnunartíma veitingahúsa og svo framvegis. „Allar þessar takmarkanir eru felldar niður.“

Samtímis var tilkynnt að skimun bólusettra, barna og fólks með vottorð um fyrri sýkingu yrði hætt á landamærunum frá og með 1. júlí. Dómsmálaráðherra sagðist vona að öllum aðgerðum á landamærunum yrði aflétt sem fyrst. „Takk fyrir fórnirnar sem þið færðuð á þessum skrítnu mánuðum sem er að ljúka.“

Katrín Jakobsdóttir í viðtali við RÚV eftir fundinn í Safnahúsinu. Skjáskot: RÚV

Á fundinum var ekki einu orði minnst á að mögulega þyrfti síðar að taka skref til baka. Herða aftur. Sú er þó orðin raunin því eftir nokkra daga verða bólusettir krafðir um neikvætt COVID-próf við komuna til landsins. Aðgerðir innanlands hafa heldur ekki verið útilokaðar.

Aflétting aðgerða innanlands sem og breyttar aðgerðir á landamærunum, voru í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann ítrekaði þó oftsinnis varúðarorð. „Mikilvægt er þó að almenningur sé hvattur áfram til að viðhafa einstaklingsbundnar sýkingavarnir,“ skrifaði hann í minnisblað sitt sem lá afléttingunum til grundvallar. Í samtali við fréttamann RÚV rétt fyrir fund ráðherranna í Safnahúsinu sagði hann: „Ég held að það sé rétt að muna það að þetta er ekki búið. Þetta eru ekki einhver lok bókarinnar.“

Bæði Svandís og Katrín sögðu einnig á fundinum að fólk yrði áfram að fara varlega og hafa sprittið við hendina.

Grímuskylda var afnumin eftir að hafa verið í gildi á Íslandi frá síðasta hausti.
EPA

Á undanförnum níu sólarhringum hafa 96 smit greinst innanlands. Stökk varð í fjöldanum milli daga í fyrradag er 38 greindust. Svo margir hafa ekki greinst frá því í lok október. Þrennt getur helst skýrt það breytta landslag sem blasir nú við – 25 dögum eftir fundinn í Safnahúsinu.

Eitt er aflétting aðgerða innanlands og tilslakanir á landamærunum. Það hefur almennt í för með sér annars vegar aukna hættu á því að smit berist inn í landið og hins vegar aukna smithættu almennt.

Í öðru lagi veita bóluefni ekki fullkomna vörn. Og í þriðja lagi hefur nýtt og meira smitandi afbrigði breiðst hratt út, afbrigði sem bóluefnin veita minni vörn gegn en öðrum sem höfðu áður komið fram á sjónarsviðið.

Fólk heyrir bara „aflétting“

Bólusetning gegn COVID-19 felur í sér minnkaða áhættu – ekki 100 prósent vörn, minnir Arnar á. „Prósentur eru hins vegar svo ógagnsæjar,“ heldur hann áfram. Og almennt á fólk erfitt með að skilja áhættu sem sett er fram með þeim hætti. Sérstaklega þegar um áhættu yfir lengra tímabil er að ræða. Þannig er því til dæmis farið með loftslagsbreytingar. „Ef vernd bóluefna er 90 prósent. Hvað þýðir það? En ef hún er 70 prósent?“ Um leið og talan er ekki 100 prósent þá vitum við að það eru einhverjar líkur. En það hefði að mati Arnars mátt miðla því betur, minna á að það sé raunveruleg hætta á að smitast fyrir hendi – þrátt fyrir bólusetningu. „Yfirvöld hafa vissulega sagt að það sé full ástæða til að fara varlega en fólk virðist ekki meðtaka það sem viðvörun. Það heyrir bara „aflétting“. Það heyrir góðu fréttirnar en ekki varnaglana.“

Þetta er teningakast. Þeim mun fleiri teningum sem er kastað, þeim mun líklegra er að stökkbreytingar verði á veirunni henni í hag. Hvert einasta smit, hérlendis sem erlendis, er tækifæri fyrir veiruna til að stökkbreytast.
Auglýsing

Í drögum að svari Arnars, sem birt verður á Vísindavefnum, varpar hann ljósi á hvað er á bak við prósentutölurnar.

Mat á því hversu mikla vernd bóluefni veita gegn smiti eða alvarlegum einkennum byggir á rannsóknum á fjölda einstaklinga, í svokölluðum tvíblindum rannsóknum, skrifar hann. Í þeim eru bornir saman tveir hópar, jafngildir að öllu leyti nema einstaklingar í öðrum fá tiltekna meðhöndlun en hinir gervimeðferð sem er viðmiðunarhópur. Hann vitnar svo til rannsóknar á Jansen-bóluefninu. Til að meta alvarleika einkenna voru í þeirri rannsókn bornir saman tveir hópar, hvor með tæplega 9.000 einstaklinga. Til að gera tölurnar sambærilegar eru þær umreiknaðar og rúnnaðar miðað við 10.000 einstaklinga.

Af 10.000 bólusettum einstaklingum smituðust 36. En af sambærilegum fjölda í viðmiðunarhópnum smituðust 127 einstaklingar. Það bendir til að bóluefni Jansen veiti 71 prósent vernd gegn smiti.

Hægt er að beita sambærilegum reikningi til að meta líkurnar á alvarlegum einkennum, skrifar Arnar. Í lyfjaprófinu fyrir Jansen voru bornir saman um 20.000 manna hópar, bólusettir og ekki. Af þeim sem voru bólusettir fengu fimm alvarleg einkenni en af sambærilegum fjölda í viðmiðunarhópnum smituðust 35 einstaklingar. Það bendir til að bóluefni Jansen veiti 86 prósent vernd gegn alvarlegum einkennum.

Arnar segir að setja verði ákveðna fyrirvara við þessar rannsóknir. Lyfjaprófanir séu ekki alveg sambærilegar með tilliti til aldurs, kyns, þjóðernis og fleiri breyta. Mikilvægust af þeim er líklega hegðunarmynstur fólks á meðan prófin fóru fram. Hegðuðu allir sér eðlilega eða voru samkomutakmarkanir í gangi? Að auki eru veirur ekki endilega þær sömu á öllum svæðum. Niðurstöðurnar gætu því litið öðruvísi út að teknu tilliti til ólíkra afbrigða.

Og þá komum við að delta í gríska stafrófinu.

Afbrigði kórónuveirunnar, sem hvað mest hafa breiðst út, eru nú kennd við stafi úr gríska stafrófinu.

Í fyrstu voru veiruafbrigði kennd við þau lönd sem þau uppgötvuðust fyrst í. Það breska. Það suðurafríska. Það brasilíska. Öll þessi afbrigði eru með aðra eiginleika en upprunalega veiran sem notuð var í fyrstu rannsóknunum við þróun bóluefnanna. Nýverið var farið að kalla afbrigðin nöfnum gríska stafrófsins og það sem nú hefur breiðst mest og hraðast út, og var áður kennt við Indland, hefur fengið nafnið delta.

„Landslagið breyttist mikið með deltunni,“ segir Arnar við Kjarnann spurður um hvaða þýðingu afbrigðið hafi á smithættu. Deltan, eins og Arnar kallar hana, er „miklu hæfari“ en hin afbrigðin – hún er mun meira smitandi og samfara minni takmörkunum í flestum ríkjum heims síðustu vikur, hefur hún náð að dreifa sér víða „og verður allsráðandi þar sem hún nemur land“.

Þrátt fyrir að bólusetningar séu langt á veg komnar á vesturlöndum, sem einnig breyti landslaginu, „þá snýst borðið aftur“ með delta-afbrigðinu og enn hraðar með minni takmörkunum nú en fyrir nokkrum vikum. „Þá opnast möguleikar fyrir veiruna á ný.“

Að bólusetja alla og á sem stystum tíma er markmið sem gagnast allri heimsbyggðinni
EPA

Arnar grípur til myndmáls og segir: „Þetta er teningakast. Þeim mun fleiri teningum sem er kastað, þeim mun líklegra er að stökkbreytingar verði á veirunni henni í hag. Hvert einasta smit, hérlendis sem erlendis, er tækifæri fyrir veiruna til að stökkbreytast. Líkurnar á að delta stökkbreytist í enn meira smitandi afbrigði eru ennþá umtalsverðar.“

Delta, rétt eins og hin fyrri afbrigði sem hafa sérstaklega verið undir smásjá heilbrigðisyfirvalda, kom fram við ákveðnar aðstæður. Þar sem smit var útbreitt og litlar takmarkanir við lýði. Flest hófu þau að breiðast út áður en bólusetningar komu til.

Óverndaðir hópar eru leikvöllur fyrir veiruna

Og þar liggur enn einn hundurinn grafinn. Þótt bólusetningar á Íslandi, í Evrópu og á Vesturlöndum almennt séu orðnar nokkuð almennar, eru mörg af fjölmennustu svæðum heims á byrjunarreit. Þar, til dæmis í Afríku þar sem aðeins um 2 prósent íbúa hafa fengið bólusetningu, er teningakastið enn stöðugt. Teningarnir nær óteljandi. Veiran hefur milljónir líkama á milljónir ofan til að flakka óheft á milli – án þeirra varna sem bólusetningar þó veita.

„Mannkynið mun ekki ná taumhaldi á faraldrinum fyrr en öll heimsbyggðin verður bólusett,“ segir Arnar, „og mögulega þarf fleira til að hægt verði að útrýma veirunni alveg.“ Ákaflega mikilvægt sé að að bólusetja alla, ekki aðeins ákveðnar þjóðir eða þá elstu í hverju samfélagi. „Allir óverndaðir hópar eru leikvöllur fyrir veiruna. Þannig að það er öllum heiminum í hag að við náum að bólusetja sem flesta á sem stystum tíma.“

Hvernig atburðirnir þróuðust á Indlandi ætti að vera öllum víti til varnaðar. Þar voru nær engar takmarkanir í gildi og fáir bólusettir. Og þá varð deltan til. „Það er fyrirséð að þetta muni fara úr böndunum á fleiri stöðum,“ segir Arnar af hreinskilni. Afbrigðið sé þegar búið að stökkbreytast og nú séu menn farnir að tala um „delta plús“.

Yfirvöld hafa vissulega sagt að það sé full ástæða til að fara varlega en fólk virðist ekki meðtaka það sem viðvörun. Það heyrir bara „aflétting“. Það heyrir góðu fréttirnar en ekki varnaglana.
EPA

Við vitum öll hvernig veiran smitast. Með dropasmiti, úðasmiti og með lofti. Hegðun fólks er því enn stærsta breytan þegar kemur að því að verjast sýkingu. Nándarreglan var ekki kennd við nánd fyrir ekki neitt.

„Ég sé sterk rök fyrir því að hafa hemil á ferðalögum og verja landamæri og reyna að koma í veg fyrir að veiran breiðist út eins og sinubruni,“ segir Arnar. Því er að hans mati skynsamlegt skref að krefja alla ferðamenn um að framvísa neikvæðu PCR-prófi, hvort sem þeir eru bólusettir eður ei.

En hvernig mun þetta enda?

„Maður er farinn að efast um að það verði nokkurn tímann hægt að útrýma veirunni miðað við hversu útbreidd hún er orðin og hvernig eiginleikar hennar eru,“ svarar Arnar. „Fólk getur verið smitað en einkennalaust og sömuleiðis verður fólk minna veikt með bólusetningum. Þannig að hún gæti náð að krauma í samfélaginu eða á vissum landsvæðum án þess að við áttum okkur á því. Af því að hún er þannig gerð verður alltaf erfitt að útrýma henni.“

Þrátt fyrir að engar fjöldatakmarkanir séu í gildi, engin grímuskylda eða 2-metra regla, allt þetta sem við kvöddum með viðhöfn í Safnahúsinu 25. júní, þá er enn mjög mikilvægt að fólk gæti sín. Engar reglur þurfi ekki að þýða að skynsamlegt sé að vera í miklum mannfjölda. Snerta mann og annan. Viljandi eða óviljandi. „Ég held að því ættu allir að stíga varlega til jarðar í því sambandi,“ segir hann spurður hvort fólk ætti að forðast fjölmennar hátíðir. „Ég persónulega forðast enn fjölmenna viðburði.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal