Ellefu skilyrði Skipulagsstofnunar vegna Geitdalsárvirkjunar
Þar sem Geitdalsárvirkjun yrði umfangsmikil framkvæmd á ósnortnu svæði og að hluta innan miðhálendislínu þarf Arctic Hydro að gera grein fyrir skerðingu víðerna í umhverfismati, skilgreina lágmarksrennsli í ánum sem eru undir og að auki – sem er nýlunda – að meta hve mikið lífrænt efni fer undir lón og áætla losun gróðurhúsalofttegunda vegna þessa.
Skipulagsstofnun hefur fallist á matsáætlun Arctic Hydro vegna fyrirhugaðrar Geitdalsárvirkjunar í Múlaþingi með ellefu ítarlegum skilyrðum. Auk krafna um vel skilgreindar rannsóknir á ýmsum þáttum sem yrðu fyrir áhrifum vill stofnunin að fjallað verði um í næsta skrefi umhverfismatsins hvernig fyrirtækið komst að því að virkjunin yrði 9,9 MW að afli, rétt undir viðmiðinu sem krefst umfangsmikillar og faglegrar umfjöllunar verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Geitdalsárvirkjun er ein af fjölmörgum virkjunum sem kallaðar hafa verið smávirkjanir, eru rétt undir 10 MW, en geta þó vissulega haft mikil umhverfisáhrif – jafnvel á pari við þau sem aflmeiri virkjun á sama stað hefði.
Orkustofnun velti því m.a. upp í umsögn sinni um matsáætlunina hvort Arctic Hydro hefði reiknað kosti og galla aukinnar framleiðslugetu. Skipulagsstofnun vill því fá að vita hvort að 9,9 MW sé endanleg stærð eða hvort mögulegt verði að auka orkuframleiðslu síðar og þá hvort það sé fyrirhugað.
Persónur og leikendur
Geitdalsárvirkjun ehf. er alfarið í eigu Arctic Hydro hf. Það félag er skráð í eigu sex aðila og á Qair Iceland, sem áformar fjölmörg vindorkuver vítt og breitt um landið, stærstan hlut eða 38 prósent. Stjórnarformaður þess er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra í tíð Geirs H. Haarde.
Adira Hydro á 23 prósent í Arctic Hydro og Snæból, fjárfestingafélag Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, á 18 prósent. Tíu prósenta hlutur Arctic Hydro er svo í eigu Hængs ehf. Það félag er að fullu í eigu Benedikts Einarssonar, frænda Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Náttúran og framkvæmdin
Geitdalsá á upptök sín í lækjum og tjörnum á hálendinu upp af Hamarsdal og Fossárdal vestan Ódáðavatna, í jaðri svæðis sem nefnist Hraun. Hún rennur til norðurs, á köflum í gegnum gljúfur og í fossaröðum, og á þessari leið falla í hana margar þverár og lækir.
Mest af vatni Geitdalsár kemur úr Leirudalsá, á sem rennur í gegnum nokkur stöðuvötn á leið sinni úr vestri. Tvö þessara vatna munu fara undir miðlunarlón verði áform Arctic Hydro að veruleika.
Tvær stíflur yrðu reistar, önnur við miðlunarlón í Leirudal sem yrði í rúmlega 700 metra hæð yfir sjávarmáli og um þrír ferkílómetrar að stærð. Stíflan sú yrði 1 kílómetri að lengd og mesta hæð hennar 18 metrar. Einnig yrði þverá Leirudalsár veitt í lónið. Önnur stífla vegna inntakslóns yrði gerð í farvegi Geitdalsár. Hún er áætluð um 300 metrar að lengd og mesta hæð hennar yrði 32 metrar. Úr inntakinu yrði vatninu veitt um 6,6 kílómetra leið að stöðvarhúsi.
Virkjunin hefði í för með sér allt að 80 prósent skerðingu á náttúrulegu rennsli Geitdalsár á kafla, en alls er gert ráð fyrir að um 16 kílómetrar árfarvega verði fyrir breyttu rennsli.
Umfangsmikið rask
Að sögn Skipulagsstofnunar kæmi Geitdalsárvirkjun til með að hafa í för með sér umfangsmikið rask á landi. Framkvæmdasvæðið teygi sig upp í rúmlega 700 metra hæð, liggi að hluta innan marka miðhálendisins og sé hluti af að mestu óraskaðri landslagsheild. Bendir stofnunin í þessu sambandi á að meðal markmiða náttúruverndarlaga sé að standa vörð um óbyggð víðerni landsins. Ennfremur sé rík áhersla á verndun víðerna miðhálendisins í Landsskipulagsstefnu.
Náttúrufræðistofnun Íslands sagði m.a. í umsögn sinni um matsáætlunina að óbyggð víðerni væru nær horfin í Evrópu og fágæt á Íslandi. Alþjóðleg ábyrgð Íslands um að vernda þau væri því mikil. „Af þessum sökum telur Skipulagsstofnun sérstaklega mikilvægt að vandað sé til verka við mat á áhrifum framkvæmdarinnar á óbyggð víðerni og niðurstöður settar fram með skýrum hætti.“
Stofnunin bendir svo á að útreikningar á skerðingu óbyggðra víðerna sé eingöngu einn þáttur í mati á áhrifum á víðerni. „Ekki er síður mikilvægt að leggja mat á áhrif framkvæmda á víðernaupplifun,“ segir í álitinu.
Í umsögnum um matsáætlunina kom fram að miklum óbyggðum víðáttum Austurlands hafi þegar verið raskað í þágu orkuvinnslu og m.a. vísað til Kárahnjúkavirkjunar í því sambandi. Landvernd benti á að virkjanir á borð við Geitdalsárvirkjun væru þekktar fyrir að tvístra upp minni samfélögum og því mikilvægt að gott samráð sé haft við íbúa í nærsamfélaginu.
Geitdalsárvirkjun kæmi að sögn Skipulagsstofnunar óhjákvæmilega til með að breyta ásýnd svæðis sem ber í dag lítil merki mannlegra athafna. Sýnileikinn kunni að hafa áhrif á upplifun heimamanna og annarra sem stunda útivist og ferðamennsku á svæðinu.
Því skal Arctic Hydro láta meta gildi og aðdráttarafl svæðisins með tilliti til samfélags, ferðamennsku og útivistar, t.a.m. með viðhorfskönnunum eða viðtölum við ferðamenn, ferðaþjónustuaðila og íbúa á svæðinu. Jafnframt þarf, að sögn stofnunarinnar, að kanna viðhorf þessara aðila til virkjunaráformanna.
Skerðing í fleiri ám
Í matsáætlun Arctic Hydro kom fram að virkjunin gæti haft í för með sér 50-80 prósent skerðingu á náttúrulegu rennsli Geitdalsár á um sjö kílómetra kafla. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar var hins vegar bent á að vatnsmiðlunin myndi hafa áhrif á rennsli í öllum farvegum Leirudalsár, Geitdalsár og Grímsár, en ekki aðeins á milli miðlunarlóns og stöðvarhúss líkt og haldið var fram í matsáætluninni.
Skipulagsstofnun tekur undir athugasemd Hafrannsóknastofnunar um mikilvægi þess að árfarvegir fari ekki á þurrt. Í umhverfismatsskýrslu þurfi að skilgreina lágmarksrennsli þeirra vatnsfalla sem yrðu fyrir skerðingu vegna virkjunarinnar og gera grein fyrir mótvægisaðgerðum í þurrkatíð.
Geitdalsgriðlandið
Í svonefndri náttúrumæraskrá Helga Hallgrímssonar er skrá um Geitdalsgriðlandið og náttúrufar þess. Þar er fjallað um birki- og víðikjarr í hlíðum dalsins, en sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra njóta sérstakrar verndar náttúruverndarlaga.
Skipulagsstofnun vill því að Arctic Hydro láti meta hvort virkjunin hefði áhrif á verndargildi griðlandsins, á fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð og jarðmyndanir og vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar laga um náttúruvernd. Ef framkvæmdin mun hafa áhrif á svæði sem njóta slíkrar verndar þurfi að rökstyðja brýna nauðsyn þess að raska þeim.
Losun gróðurhúsalofttegunda
Í ellefta og síðasta lagi setur Skipulagsstofnun það skilyrði að Arctic Hydro meti hve mikið lífrænt efni færi undir lón virkjunarinnar og áætla losun gróðurhúsalofttegunda vegna þessa.
Á mikilvægi þessa hafði Hafrannsóknarstofnun bent í umsögn sinni en Arctic Hydro svaraði því til að slíkar mælingar hefðu lítið sem ekkert verið gerðar fram að þessu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Að mati fyrirtækisins bættu þær litlu við. Skipulagsstofnun bendir hins vegar á að losun frá virkjunarlónum sé afar breytileg. „Fyrirhugað lónstæði er stórt og samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunar Íslands er töluvert um votlendi á því og jarðvegur vistgerða innan svæðisins almennt lífrænn en með mismunandi kolefnisinnihald,“ segir í áliti hennar. „Að mati Skipulagsstofnunar er fullt tilefni til kortleggja lónstæði með tilliti til jarðvegs og áætla losun gróðurhúsalofttegunda.“