„Auðvitað er ég ánægður“ sagði Nicolas Sarkozy eftir að hafa endurheimt formannsstól UMP, stærsta hægri flokks Frakklands, um helgina. Samt virtist hann ekkert sérstaklega ánægður með þessa kosningu; hafði vonast eftir yfirburða sigri. Með því hefði hann vafalaust orðið forsetaframbjóðandi flokksins fyrir næstu forsetakosningar 2017. Eins og staðan er núna er það allsendis óvíst.
Sarkozy fékk 64,6 prósent atkvæða í prófkjörinu þar sem einungis helmingur flokksfélaga nennti að kjósa. Hann helt enga þakkarræðu, tjáði sig eitthvað á facebook, virtist vera svona skítsáttur – ekkert meira en það. Nú tekur við slagur innan flokksins um hver verði forsetaframbjóðandi, það er ekkert sjálfgefið að það sé formaðurinn. Alain Juppé, borgarstjóri Bordeaux og fyrrum forsætisráðherra í ríkisstjórn Sarkozy, er til að mynda mun vinsælli og líklegri kandídat eins og sakir standa.
Nicolas Sarkozy var forseti Frakklands frá 2007 til 2012. Hann dró sig úr stjórnmálum eftir að hafa tapað gegn François Hollande og sagði við það tilefni: „Ég er hættur; nú eruð þið laus við mig til frambúðar.“
Öfgafyllri skoðanir
Endurkoma Sarkozy hefur samt legið í loftinu í tvö ár. Eiginkona hans, fyrirsætan og tónlistarkonan Carla Bruni, hefur stöðugt ýjað að því að þjóðin þurfi mann eins og Sarkozy til þess stýra landinu á erfiðum tímum. Frelsa landið undan sósíalistum og óvinsælasta forseta sögunnar, François Hollande. Endurkoman átti sjálfsagt að vera eins og þegar Napóleon sneri aftur frá útlegð sinni á Elbu og þjóðin fagnaði. Það hefur ekki orðið raunin með Sarkozy. Hann hefur ekki endurheimt fyrri vinsældir sínar, hann hefur hins vegar gerst öfgafullri til þess að reyna stela atkvæðum frá hægri-öfgaflokknum Front National, lofað að afturkalla lögin um réttindi samkynhneigðra sem samþykkt voru á síðasta ári og minnka völd og umfang Evrópusambandsins, en áður var hann einn helsti talsmaður aukinnar Evrópusamvinnu. Hann er því sakaður um popúlisma og örvæntingarfullar tilraunir til að veiða atkvæði. Þetta hefur farið illa í marga, sér í lagi hans eigin flokkssystkini.
François Hollande, forseti Frakklands.
Forsetakosningar 2017
Það er langur vegur framundan en Sarkozy er samt einu skrefi nær að komast í forsetaslaginn 2017. Á sama tíma var Marine Le Pen endurkjörinn formaður Þjóðfylkingarinnar, Front National, og hlaut 100 prósent atkvæða. Sá flokkur er gjarnan skilgreindur sem hægri-öfgaflokkur, sem vill hrekja í burtu innflytjendur og múslima og draga úr Evrópusamvinnu.
Þjóðfylkingin vann mikla kosningasigra á þessu ári í Evrópu- og sveitarstjórnarkosingunum í Frakklandi. Flokkurinn er enn að bæta við sig fylgi. Það gæti orðið niðurstaðan að þau tvö, Sarkozy og Marine Le Pen, muni takast á í annari umferð frönsku fosetakosninganna eftir rúm tvö ár.
Mörgum hrýs hugur við þeirri framtíðarspá. Ef þau myndu berjast um forsetastólinn væru stjórnmálin að þróast í furðulega og jafnvel ógnvænalega átt. Stjórnmálin í Frakklandi og víða annars staðar hafa gerst öfgafullri á síðastliðnum árum þar sem fylgi hægri-öfgaflokka hefur styrkst mikið og hratt. UMP flokkurinn er hófsamur og borgaralegur hægri flokkur en með Sarkozy í brúnni virðist hann ætla að taka nýja stefnu.
Endurkomur stjórnmálamanna
„Ég átti í raun engra kosta völ en að koma aftur.“ Svo mælti Sarkozy þegar hann tilkynnti endurkomu sína. Eins og það væri brýnt þjóðþrifamál að fá hann aftur í stjórnmálin. Það hefur aldei vantað sjálfstraustið í þennan mann. Hann er flestum öðrum tunguliprari og afburða ræðumaður. En endurkoman hefur verið erfið fyrir þennan umdeilda stjórnmálamann. Hann er enn með fjölda fjársvikamála á bakinu eftir ákærur og rannsóknir sem gætu leitt til réttarhalda. Hann hefur verið sakaður um að hafa þegið fé frá vafasömum mönnum, eins og sjálfum Gaddafi og reyna að múta dómurum. Listinn er langur og því er allsendis óvíst hvort Sarkozy verði kjörgengur í forsetaframboð ef hann hlýtur dóm.
Andstæðingar hafa gert lítið úr endurkomu Sarkozy og sagt hana engu máli skipta og að niðurstaða prófkjörsins sé klúður og tap fyrir Sarkozy. Hann er enn töluvert óvinsæll meðal kjósenda og í eigin flokki. Hann hefur raunar alltaf verið umdeildur en að sama skapi litríkur stjórnmálamaður. Hann þótti oft snar í snúningum í utanríkismálum og vildi ráðast í miklar endurbætur á frönskum efnahag en var á sama tíma kallaður „president bling bling“ fyrir hégómagirni sína.
Það er erfitt að snúa aftur í stjórnmál eftir að hafa sagt skilið við þau. Það er gömul saga og ný. Þegar Napóleon sneri aftur frá Elbu eftir útlegð sína reyndist það feigðarför. Endurkoma Churchill var síður en svo glæsileg og svona mætti lengi telja. Leiðtogakrísa, fjármálahneyksli og jafnvel tilvistarkreppa hefur einkennt UMP flokkinn síðastliðin ár sem hefur ekki tekist að nýta sér óvinsældir núverandi ríkisstjórnar til þess að auka sitt eigið fylgi. Þess vegna er kannski gagnslaust að stilla upp gömlum, föllnum foringja.
Flokkur sem þarf að byggja sig upp að nýju, endurheimta fylgi sitt og jafnvel endurskilgreina sig þyrfti kannski frekar nýjan leiðtoga, með nýjar og ferskar hugmyndir. Það er hæpið að Sarkozy sé endilega sá maður, en hver veit.