Reglulegur kostnaður Reykjavíkurborgar við laun borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa og borgarstjóra verður að lágmarki 451,5 milljónir króna á ári á kjörtímabilinu sem er nýhafið, samkvæmt upplýsingum um laun kjörinna fulltrúa sem finna má á vef borgarinnar.
Við þennan kostnað bætist svo aukakostnaður ef kalla þarf þá varaborgarfulltrúa sem ekki eru fyrstu varaborgarfulltrúar sinna flokka á fundi vegna fjarvista annarra fulltrúa. Fastur mánaðarlegur launakostnaður borgarstjórnarinnar nemur 37,6 milljónum króna.
Grunnlaun borgarfulltrúa eru 892 þúsund krónur og grunnlaun fyrsta varaborgarfulltrúa hvers þeirra átta flokka sem eiga fulltrúa í borgarstjórn eru 624 þúsund krónur. Laun Dags B. Eggertssonar borgarstjóra samkvæmt ráðningarbréfi eru 2,3 milljónir króna. Hann þiggur ekki laun sem borgarfulltrúi, þrátt fyrir að hafa verið kjörinn sem slíkur.
Borgarfulltrúarnir í Reykjavíkur eru 23 talsins og hafa verið það frá því í upphafi síðasta kjörtímabils. Samkvæmt lögum mega þeir ekki vera færri, en í sveitarstjórnarlögum frá 2011 er kveðið á um að aðalmenn í sveitarstjórnum þar sem íbúar eru 100 þúsund eða fleiri skuli vera á bilinu 23-31 talsins.
Enginn aðalmaður með undir 1.179 þúsund krónur á mánuði
Til viðbótar við grunnlaun borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa þeir allir einhverskonar álagsgreiðslur ofan á laun sín, af mismunandi tilefnum þó. Sumir fá álag fyrir að gegna formennsku í ráðum, auk þess sem oddvitar, þau sem sitja í borgarráði og þau sem sitja í þremur nefndum fá einnig álagsgreiðslur.
Allir borgarfulltrúarnir fá að minnsta kosti 287.464 kr., sem samsvarar einni álagsgreiðslu upp á 223.034 krónur og svo föst greiðsla starfskostnaðar, sem nemur 64.430 krónum.
Enginn borgarfulltrúi er þannig með regluleg heildarlaun frá Reykjavíkurborg sem eru lægri en 1.179.598 krónur, en alls eru 9 af 22 borgarfulltrúum með þessa launaútkomu, samkvæmt upplýsingum á vef borgarinnar.
Aðrir fá fleiri aukagreiðslur fyrir störf sín. Hjá sex borgarfulltrúum bætast 53.528 krónur við sökum þess að þau eru varamenn í borgarráði og hífast laun þessara fulltrúa upp í 1.233.126 krónur.
Fimm borgarfulltrúar fá svo tvær heilar álagsgreiðslur ofan á laun sín, en það eru þær Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Hildur Björnsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir. Launaútkoma þeirra nemur 1.456.160 krónum.
Sérstakt aukaálag fyrir forseta borgarstjórnar og formann borgarráðs
Þau tvö sem eftir standa fá enn frekari álagsgreiðslur fyrir sín störf. Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar er formaður borgarráðs og fær fyrir það 356.854 króna álagsgreiðslu ofan á oddvitaálagið. Heildarlaun Einars frá borginni nema því 1.589.980 krónum.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Viðreisnar, fær svo hæstu álagsgreiðslurnar fyrir störf sín, en forseti borgarstjórnar fær tvöfalt álag fyrir það hlutverk, 446.067 krónur og auk þess situr Þórdís Lóa í borgarráði. Heildarlaun Þórdísar Lóu frá borginni nema því 1.679.193 krónum.
Vert er að taka fram að inni í þessum tölum eru ekki þær greiðslur sem sumir borgarfulltrúar fá fyrir að taka sæti í stjórnum fyrirtækja borgarinnar eða byggðasamlögum á borð við Sorpu eða Strætó.
Sjö af átta fyrstu varaborgarfulltrúum fá álagsgreiðslur
Sem áður segir eru regluleg grunnlaun fyrstu varaborgarfulltrúa, eins frá hverjum flokki, rúmar 624 þúsund krónum. Ofan á það bætast svo 64.430 króna greiðsla vegna starfskostnaðar. Hjá öllum nema Helgu Þórðarsdóttur varaborgarfulltrúa Flokks fólksins fylgir einnig ein heil álagsgreiðsla laununum, í flestum tilfellum vegna þess að varaborgarfulltrúarnir sitja í þremur nefndum.
Hjá sjö af átta fyrstu varaborgarfulltrúum eru regluleg laun frá Reykjavíkurborg því 911.958 krónur, eða meira – en raunar á það bara við Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúa Viðreisnar. Hann fær 53.528 krónur ofan á þessa upphæð fyrir setu sína sem varamaður flokksins í borgarráði.
Launin gætu verið enn hærri
Laun borgarfulltrúa voru lengst af beintengd við þingfararkaup alþingismanna, en strípað þingfararkaup þeirra er í dag 1.285.411 krónur.
Við ákvörðun kjararáðs, sem hækkaði laun þingmanna og ráðherra allhressilega árið 2016, var ákveðið í borgarstjórn að afnema tengingu launa borgarfulltrúa frá þingfararkaupinu.
Í framhaldinu var svo skipt um aðferð við að ákvarða laun kjörinna fulltrúa í Reykjavík og tekin upp tenging við launavísitölu, en miðað er við þróun vísitölunnar frá marsmánuði 2013.
Launin uppfærast í janúar og júlí ár hvert og mega kjörnir fulltrúar í Reykjavík því eiga von á hærri launum í lok þessa mánaðar en hér hefur verið fjallað um.