Það veit enginn með vissu hversu mikið gas var inni í leiðslunum Nord Stream 1 og 2 sem liggja um Eystrasaltið milli Rússlands og Þýskalands og eru nú orðnar götóttar. Ekkert flæði gass var um þær er sprengingar urðu og fjögur göt mynduðust fyrr í vikunni. Búið var að skrúfa fyrir nr. 1 og nr. 2 hafði aldrei verið tekin í notkun. En í þeim var þó gas, metangas, sem nú streymir upp af hafsbotni í gegnum götin og myndar umfangsmiklar og ólgandi gasbólur á yfirborði.
Þetta er hættusvæði enda metangas mjög eldfimt. Þess vegna hefur umferð sjófara verið bönnuð í 5 sjómílna radíus umhverfis gasbólurnar miklu. Enginn gasgleypir er umhverfis leiðslurnar heldur mun, á endanum, allt gasið sem í þeim var streyma óhindrað út í sjóinn og andrúmsloftið.
En þótt engin stofnun í Evrópu viti upp á hár hversu mikið gas var í leiðslunum tveimur er talið líklegt að það hafi numið á bilinu 150-500 milljónum rúmmetra. Það aftur þýðir, ef farið er milliveginn sem er varlega áætlað, að um 200 þúsund tonn af metani muni samanlagt fara út í andrúmsloftið. Það jafnast á við losun 15 milljóna tonna af koltvísýringi sem er um 32 prósent af árlegri losun Danmerkur, að mati umhverfisstofnunarinnar þar í landi. „Í samhengi við losun okkar Dana er þetta mikið en á heimsvísu er þetta lítill atburður,“ segir Gorm Bruun Andersen, sérfræðingur við Árósaháskóla.
Mat þýsku umhverfisstofnunarinnar er varkárari. Þar á bæ er reiknað með að um 7,5 milljónir tonna af koltvísýringi losni sem nemur um 1 prósenti af árlegri losun Þýskalands.
Ef losunin mun að endingu nema 250 þúsund tonnum af metan, líkt og ekki er fjarstæðukennt en þó ógerlegt að slá föstu, hvorki nú eða síðar, mun hún jafnast á akstur 1,3 milljóna brunabíla í heilt ár, að því er fram kemur í fréttaskýringu The Guardian. (Hér er orðið brunabíll notað yfir bíl sem knúinn er jarðefnaeldsneyti).
Þetta eru stórar tölur, vissulega. Í stóra samhenginu hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá mannanna verkum er umfangið hins vegar ekkert svo svakalegt. Því það er heildarlosunin sem er svakaleg. En þar sem við sjáum gasbólurnar risastóru í Eystrasalti verður okkur um og ó. Bróðurpartur allrar losunar er okkur einfaldlega ekki sýnilegur.
Metan er öflug gróðurhúsalofttegund, þ.e. hún hitar andrúmsloftið meira en koltvísýringur í sama magni, segir í fréttaskýringu danska ríkistúvarpsins. En hins vegar brotnar hún hraðar niður.
Lekinn er mjög alvarlegur, segir Jeffrey Kargel, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Arizona. Og hafi verið unnið skemmdarverk á leiðslunum með þessum afleiðingum er um umhverfisglæp að ræða. „Magn gass sem lekur úr lögnunum er augljóslega mikið,“ segir hann við Politico, „en þetta er ekki jafn stórt umhverfisslys og kannski einhverjir halda.“
Ígildi 32 milljarða tonna af koltvísýringi var losaður út í andrúmsloftið á heimsvísu í fyrra og því er gaslekinn í Eystrasaltinu, að sögn Kargel, ekki umfangsmikill í því samhengi. „Þetta er lítil gasbóla í hafinu“ miðað við metanlosun frá margvíslegri vinnslu á hverju ári, s.s. olíu- og kolavinnslu, hefur Politico eftir öðrum sérfræðingi, Dave Reay, sem fer fyrir loftslagsstofnun Edinborgarháskóla. Metanmagnið er á pari við það sem losað er frá olíu- og gasvinnslu Rússa á einni viku, bendir enn einn sérfræðingurinn svo á.
Þótt gasmagnið sé lítið í hinu stóra samhengi eins og á undan er rakið og ekki líklegt til að hafa mikil áhrif á loftslag jarðar minnir þessi atburður okkur á hversu hættulegt er að nota jarðgas, bendir Bruun Anderson við Árósarháskóla á. Þegar gas er brennt þá hefur það minni áhrif á loftslags en t.d. kol. Þess vegna hefur jarðgas stundum verið flokkað með „hreinum orkugjöfum“. En, segir Bruun Anderson, gas getur verið alveg jafn mengandi og kol. „Þegar gas sleppur þá hefur það áhrif á loftslag. Þannig að þegar svona lekar verða þá sýnir það okkur hættuna sem við tökum með því að nota það.“
Best væri að kveikja í því
Metan er samsett úr kolefni og vetni. Þegar það er brennt verður til koltvísýringur sem hefur um 30-80 sinnum minni áhrif til hlýnunar loftslags á hvert tonn en metan. Og þess vegna má stundum sjá eldstróka við gasvinnslur. Ef gas sleppur er það brennt til að draga úr mengandi áhrifum þess, sem þó eru, eðli málsins samkvæmt, mikil.
Því hafa vaknað spurningar um hvort ekki ætti að bera eld að gasinu sem nú gýs upp úr Eystrasalti?
Loftslagslega séð er svarið já. En, segir Piers Forster, sérfræðingur í loftslagsmálum við Háskólann í Leeds, slík aðgerð myndi ógna öryggi og jafnvel hafa annars konar umhverfisáhrif. Í ljósi þess hversu skammt frá landi, nánar tiltekið dönsku eyjunni Borgundarhólmi, gaslekinn er sé íkveikja nær örugglega ekki raunverulegur valmöguleiki.
Danir og Svíar þurfa að bíða rólegir þar til Nord Stream 1 og 2 hafa tæmst af gasi áður en hægt verður að nálgast svæðið þar sem lekinn er að eiga sér stað. Stórhættulegt væri að kafa niður að götunum fyrr en þá. Hvenær leiðslurnar verða orðnar tómar, að minnsta kosti að mestu, er ómögulegt að segja með vissu, en vonast er til að það gerist jafnvel um helgina. Þá verður gerð rannsókn á því hvað eiginlega átti sér stað og reynt að skera úr um hvort sprenging varð í leiðslunum, vegna þrýstings eða slíks, eða hvort um skemmdarverk hafi verið að ræða.
Fer í bókhaldið hjá Dönum og Svíum
Og það er eitt til sem er mjög áhugavert. Af því að gas lekur út á að minnsta kosti einum stað leiðslunnar þar sem hún liggur um danska efnahagslögsögu færist losunin sem þar á sér stað í losunarbókhald Dana, að sögn umhverfisstofnunarinnar þar í landi. Það sama á því við um gatið sem er á lögninni innan sænskrar lögsögu. Hin götin tvö eru að því er virðist á alþjóðlegu hafsvæði.
Örverur í hafinu geta bundið gróðurhúsalofttegundir svo ekki er víst að allt gasið losni beint út í andrúmsloftið þótt talið sé að meirihluti þess geri það.