Fatasóun dregst saman en fatnaður orðinn stærsti flokkurinn í netverslun
Dregið hefur úr fatasóun Íslendinga síðustu fimm ár eftir öran vöxt fimm árin þar á undan. Í fyrra henti hver íbúi að meðaltali 11,5 kílóum af textíl og skóm yfir árið, sem er 3,5 kílóum minna en árið 2016 þegar fatasóun náði hápunkti. Enn er töluvert í að markmið stjórnvalda náist, að hver íbúi hendi að meðaltali tíu kílóum á ári. Á sama tíma eru föt, skór og fylgihlutur vinsælasti vöruflokkur í netverslun Íslendinga.
Umhverfisspor hverrar flíkur er gífurlegt, allt frá framleiðslu til förgunar en óhætt er að fullyrða að vitundarvakning hafi orðið um umhverfismál hér á landi á undanförnum árum. Samkvæmt umhverfiskönnun Gallup, sem framkvæmd var fimmta árið í röð á þessu ári, hafa fjórir af hverjum fimm Íslendingum breytt hegðun sinni til þess að lágmarka áhrif á umhverfi og loftslagsbreytingar. Þeim hefur fjölgað til muna en fyrir þremur árum sögðust tveir af hverjum þremur Íslendingum hafa breytt hegðun sinni.
Dregið hefur úr fatasóun hér á landi síðustu fimm ár en á sama tíma sækir netverslun á fatnaði í sig veðrið og eru föt, skór og fylgihlutir stærsti vöruflokkurinn samkvæmt netverslanapúlsi Prósents, auk þess sem 11 prósent landsmanna gera ráð fyrir að versla meira á netinu næstu 12 mánuði.
Síðustu ár hafa stjórnvöld aukið aðgerðir í umhverfismálum. Í september 2018 var gefin út aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 sem samanstendur af 50 aðgerðum til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Nægjusemi, nýtni og minni sóun
Árið 2016 innleiddi umhverfisráðuneytið, nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, almenna stefnu um úrgangsforvarnir. Yfirskrift stefnunnar er Saman gegn sóun og í henni er lögð áhersla á nægjusemi, betri nýtni og minni sóun ásamt því að auka fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.
Markmið stefnunnar er að magn textíls og skófatnaðar á hvern íbúa fari ekki yfir 10 kíló á íbúa á ári. Það náðist síðast árið 2013. Fatasóun náði hápunkti árið 2016 þegar hver íbúi henti að meðaltali 15 kílóum af textíl og skóm yfir árið, eða alls 5.700 tonnumm.
Stefnan gildir til ársins 2027 og er umsjón hennar í höndum Umhverfisstofnunar. Ákveðnir úrgangsflokkar eru í brennidepli á hverju ári og á meðan hver flokkur er í forgangi er hægt að sækja um verkefnastyrki til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Textíll var í brennidepli 2020-2021 undir yfirskriftinni Vistvænni textíll. Meðal markmiða var að minnka dreifingu á efnum í vörum sem standa almenningi hvað næst, sem og að bæta nýtingu auðlinda.
Markmið stjórnvalda að komast niður fyrir 10 kg á ári á hver íbúa
Árið 2016 henti hver Íslendingur að meðaltali 15 kílóum af textíl og skóm yfir árið sem er nærri því tvöfalt meira magn en hver Íslendingur henti árið 2012 þegar meðaltalið var átta kíló á ári.
Frá 2016, sama ár og stefnan Saman gegn sóun tók gildi, hefur dregið smám saman úr fatasóun. Markmið stjórnvalda er að komast niður fyrir 10 kíló á ári á hvern íbúa. Enn er töluvert í að það náist. Frá 2016 hefur meðaltalið lækkað um um það bil kíló á ári. Í fyrra henti hver Íslendingur að meðaltali 11,5 kílóum af textíl og skóm á ári.
Innifalið í þessum kílóum er bæði magnið sem fer til endurnýtingar og magnið sem ratar í blandaðan úrgang og endar í flestum tilfellum í urðun. Umhverfisstofnun áætlar að um 60 prósent af vefnaðarvöru á Íslandi fari í ruslið og endar annað hvort í urðun eða brennslu. Aðeins 40 prósent fer í endurnotkun og endurnýtingu.
Flíkur enda fyrr í ruslinu
Framleiðsla á fötum hefur nær tvöfaldast frá aldamótum og líftími þeirra styst. Meðalfjöldi skipta sem hver flík er notuð hefur dregist saman um fjórðung frá árinu 2000, hver flík er nú notuð 150 sinnum í stað 200 sinnum, áður en hún endar í ruslinu.
Ástæðuna má að stórum hluta rekja til hraðtísku (e. fast fashion), það er þegar að tískufyrirtæki framleiða mikið magn af flíkum og selja á mjög lágu verði. Flíkurnar eru yfirleitt úr gæðalitlum efnum og framleiddar í löndum þar sem vinnuskilyrði eru slæm, fólkið sem býr flíkurnar til fær ekki mannsæmandi laun og jafnvel eru börn að störfum.
Úr hraðtísku í háhraðatísku
Hugtakið hraðtíska var fyrst notað yfir viðskiptamódel spænska tískuvörumerkisins Zara. „Á sínum tíma fór Zara úr því að hanna árstíðabundnar tískulínur yfir í að bjóða neytendum upp á stöðugan straum af nýjum fatnaði allan ársins hring. Hraðinn átti þó eftir að aukast til muna og nú væri nær að tala um háhraðatísku (e. ultra fast fashion),“ segir í Neytendablaðinu þar sem tilefni umfjöllunarinnar var kínverski hraðtískurisinn Shein.
Shein er kínverskt fatafyrirtæki sem hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er í dag eitt stærsta tískuvörufyrirtæki í heimi. Með tilkomu Shein er hraðinn í tískustraumum orðinn svo mikill að hefðbundnu hraðtískufyrirtækin eins og H&M og Zara blikna í samanburði. Hraðinn gerir það að verkum að gæðin eru lítil sem engin. Dæmi eru um að fötin séu aðeins notuð í eitt skipti, mögulega til að ná góðri mynd á Instagram, áður en þau enda í ruslinu.
Íslendingar kaupa mest af fötum, skóm og fylgihlutum á netinu
Íslenskir neytendur hafa tekið Shein opnum örmum og reglulega birtast færslur í Facebook-hópum eins og „Beauty Tips!“ og „Góða systir“ þar sem stelpur, sem eru margar hverjar að stíga sín fyrstu skref í kaupum á netinu, leita ráða um hvað sé best að kaupa á Shein og hversu lengi þurfi að bíða eftir að hraðtískuvörunum.
Þegar kemur að netverslun Íslendinga verða föt, skór og fylgihlutir fyrir valinu í 14 prósent tilvika, oftast allra vöruflokka. Síðastliðin tvö ár hefur Prósent, í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu og Rannsóknarsetur verslunarinnar, tekið saman ýmsar upplýsingar um kauphegðun Íslendinga á netinu. Gögnin uppfærast í rauntíma og byggja á 200 svörum Íslendinga, 18 ára og eldri, sem valdir eru af handahófi. Gögnum er safnað í hverjum mánuði og ná aftur til mars 2021.
Netverslunarpúlsinn sýnir meðal annars að konur versla meira af fötum, skóm og fylgihlutum en karlar. Af kaupum á netinu samanstanda 19 prósent kaup kvenna af fötum, skóm og fylgihlutum en átta prósent kaup karla.
Skandinavía, Bretland og Kína
39 prósent af kaupum Íslendinga á fötum, skóm og fylgihlutum fara fram á innlendum netverslunum en 61 prósent á erlendum netverslunum. Þar trónir skandinavíska netverslunin Boozt á toppnum með 37 prósent hlutdeild. Þar á eftir kemur breska tískufyrirtækið Asos og loks Shein með átta prósent hlutdeild.
Markhópur Shein er Z-kynslóðin, einstaklingar fæddir milli áranna 1997 og 2012, einna helst unglingsstúlkur og fer hin árangursríka markaðssetning fyrst og fremst fram á samfélagsmiðlum eins og TikTok, Instagram og Youtube.
Samkvæmt kynslóðamælingu Prósents gerir Z-kynslóðin minnst, samanborið við aðrar kynslóðir, til að huga að umhverfinu og draga úr mengun. Mæling Prósents á Z-kynslóðinni nær til einstkalinga sem eru fæddir á milli áranna 1997-2007. 76 prósent þeirra fara með gömul föt í endurvinnslu, selja eða gefa, samanborið við 91 prósent eldri kynslóða. Z-kynslóðin kaupir hins vegar meira magn af notuðum fötum en hinar kynslóðirnar, eða 32 prósent.
Hvað er til ráða?
Almenningur er kominn mislangt á vegferðinni að breyttri hegðun í umhverfis- og loftslagsmálum. Þrátt fyrir vitundarvakningu í umhverfismál á undanförnum árum er markmið stjórnvalda að draga úr fatasóun að því marki að hún verði jafn mikil og fyrir níu árum.
Stjórnvöld vilja þannig ná því markmiði að hver Íslendingur hendi að meðaltali tíu kílóum af textíl og skóm, rétt eins og árið 2013, í stað 15 kílóa á ári líkt og raunin var árið 2016.
Í margnefndri stefnu, Saman gegn sóun, er verkefnið einfaldað og lögð til nokkur ráð til að auka líftíma fatnaðar og textíls sem samræmast hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Með því að kaupa minna, nota lengur, kaupa notað, koma fatnaði og skóm í áframhaldandi notkun eða skila á réttan stað má minnka fatasóun til muna. Þá leggur Umhverfisstofnun mikla áherslu á að fólk fari með allan textíl, líka það sem er ónýtt, blettótt eða með götum, í endurvinnslu.
„Það er margt sem við getum gert til að vera partur af lausninni. Það mikilvægasta er að draga úr neyslu þar sem innkaupin ráðast í dag að miklu leyti af löngun en ekki þörfum,“ segir í stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir.