Aðsendar myndir

Fatasóun dregst saman en fatnaður orðinn stærsti flokkurinn í netverslun

Dregið hefur úr fatasóun Íslendinga síðustu fimm ár eftir öran vöxt fimm árin þar á undan. Í fyrra henti hver íbúi að meðaltali 11,5 kílóum af textíl og skóm yfir árið, sem er 3,5 kílóum minna en árið 2016 þegar fatasóun náði hápunkti. Enn er töluvert í að markmið stjórnvalda náist, að hver íbúi hendi að meðaltali tíu kílóum á ári. Á sama tíma eru föt, skór og fylgihlutur vinsælasti vöruflokkur í netverslun Íslendinga.

Umhverf­is­spor hverrar flíkur er gíf­ur­legt, allt frá fram­leiðslu til förg­unar en óhætt er að full­yrða að vit­und­ar­vakn­ing hafi orðið um umhverf­is­mál hér á landi á und­an­förnum árum. Sam­kvæmt umhverfiskönnun Gallup, sem fram­kvæmd var fimmta árið í röð á þessu ári, hafa fjórir af hverjum fimm Íslend­ingum breytt hegðun sinni til þess að lág­marka áhrif á umhverfi og lofts­lags­breyt­ing­ar. Þeim hefur fjölgað til muna en fyrir þremur árum sögð­ust tveir af hverjum þremur Íslend­ingum hafa breytt hegðun sinni.

Dregið hefur úr fata­sóun hér á landi síð­ustu fimm ár en á sama tíma sækir net­verslun á fatn­aði í sig veðrið og eru föt, skór og fylgi­hlutir stærsti vöru­flokk­ur­inn sam­kvæmt net­versl­anapúlsi Pró­sents, auk þess sem 11 pró­sent lands­manna gera ráð fyrir að versla meira á net­inu næstu 12 mán­uði.

Síð­ustu ár hafa stjórn­völd aukið aðgerðir í umhverf­is­mál­um. Í sept­em­ber 2018 var gefin út aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­málum til árs­ins 2030 sem sam­anstendur af 50 aðgerðum til að stuðla að sam­drætti í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda.

Nægju­semi, nýtni og minni sóun

Árið 2016 inn­leiddi umhverf­is­ráðu­neyt­ið, nú umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyt­ið, almenna stefnu um úrgangs­for­varn­ir. Yfir­skrift stefn­unnar er Saman gegn sóun og í henni er lögð áhersla á nægju­semi, betri nýtni og minni sóun ásamt því að auka fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.

Mark­mið stefn­unnar er að magn textíls og skófatn­aðar á hvern íbúa fari ekki yfir 10 kíló á íbúa á ári. Það náð­ist síð­ast árið 2013. Fata­sóun náði hápunkti árið 2016 þegar hver íbúi henti að með­al­tali 15 kílóum af textíl og skóm yfir árið, eða alls 5.700 tonn­umm.

Stefnan gildir til árs­ins 2027 og er umsjón hennar í höndum Umhverf­is­stofn­un­ar. Ákveðnir úrgangs­flokkar eru í brennid­epli á hverju ári og á meðan hver flokkur er í for­gangi er hægt að sækja um verk­efna­styrki til umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyt­is­ins.

Textíll var í brennid­epli 2020-2021 undir yfir­skrift­inni Vist­vænni textíll. Meðal mark­miða var að minnka dreif­ingu á efnum í vörum sem standa almenn­ingi hvað næst, sem og að bæta nýt­ingu auð­linda.

Mark­mið stjórn­valda að kom­ast niður fyrir 10 kg á ári á hver íbúa

Árið 2016 henti hver Íslend­ingur að með­al­tali 15 kílóum af textíl og skóm yfir árið sem er nærri því tvö­falt meira magn en hver Íslend­ingur henti árið 2012 þegar með­al­talið var átta kíló á ári.

Frá 2016, sama ár og stefnan Saman gegn sóun tók gildi, hefur dregið smám saman úr fata­só­un. Mark­mið stjórn­valda er að kom­ast niður fyrir 10 kíló á ári á hvern íbúa. Enn er tölu­vert í að það náist. Frá 2016 hefur með­al­talið lækkað um um það bil kíló á ári. Í fyrra henti hver Íslend­ingur að með­al­tali 11,5 kílóum af textíl og skóm á ári.

Inni­falið í þessum kílóum er bæði magnið sem fer til end­ur­nýt­ingar og magnið sem ratar í bland­aðan úrgang og endar í flestum til­fellum í urð­un. Umhverf­is­stofnun áætlar að um 60 pró­sent af vefn­að­ar­vöru á Íslandi fari í ruslið og endar annað hvort í urðun eða brennslu. Aðeins 40 pró­sent fer í end­ur­notkun og end­ur­nýt­ingu.

Flíkur enda fyrr í rusl­inu

Fram­leiðsla á fötum hefur nær tvö­fald­ast frá alda­mótum og líf­tími þeirra styst. Með­al­fjöldi skipta sem hver flík er notuð hefur dreg­ist saman um fjórð­ung frá árinu 2000, hver flík er nú notuð 150 sinnum í stað 200 sinn­um, áður en hún endar í rusl­inu.

Mynd: Erla María Markúsdóttir

Ástæð­una má að stórum hluta rekja til hrað­tísku (e. fast fas­hion), það er þegar að tísku­­fyr­ir­tæki fram­­leiða mikið magn af flíkum og selja á mjög lágu verði. Flík­­­urnar eru yfir­­­leitt úr gæða­litlum efnum og fram­­leiddar í löndum þar sem vinn­u­skil­yrði eru slæm, fólkið sem býr flík­­­urnar til fær ekki mann­­sæm­andi laun og jafn­­vel eru börn að störf­­um.

Úr hrað­tísku í háhraðat­ísku

Hug­takið hrað­­tíska var fyrst notað yfir við­­skipta­­módel spænska tísku­vöru­­merk­is­ins Zara. „Á sínum tíma fór Zara úr því að hanna árs­­tíða­bundnar tísku­línur yfir í að bjóða neyt­endum upp á stöðugan straum af nýjum fatn­aði allan árs­ins hring. Hrað­inn átti þó eftir að aukast til muna og nú væri nær að tala um háhraða­t­ísku (e. ultra fast fas­hion),“ segir í Neyt­enda­blað­inu þar sem til­efni umfjöll­un­ar­innar var kín­verski hrað­tískuris­inn Shein.

Shein er kín­verskt fata­fyr­ir­tæki sem hefur vaxið gríð­ar­lega á und­an­förnum árum og er í dag eitt stærsta tísku­vöru­fyr­ir­tæki í heimi. Með til­komu Shein er hrað­inn í tísku­straumum orð­inn svo mik­ill að hefð­bundnu hrað­tísku­fyr­ir­tækin eins og H&M og Zara blikna í sam­an­burði. Hrað­inn gerir það að verkum að gæðin eru lítil sem eng­in. Dæmi eru um að fötin séu aðeins notuð í eitt skipti, mögu­lega til að ná góðri mynd á Instagram, áður en þau enda í rusl­inu.

Íslend­ingar kaupa mest af föt­um, skóm og fylgi­hlutum á net­inu

Íslenskir neyt­endur hafa tekið Shein opnum örmum og reglu­lega birt­ast færslur í Face­book-hópum eins og „Beauty Tips!“ og „Góða syst­ir“ þar sem stelp­ur, sem eru margar hverjar að stíga sín fyrstu skref í kaupum á net­inu, leita ráða um hvað sé best að kaupa á Shein og hversu lengi þurfi að bíða eftir að hrað­tísku­vör­un­um.

Þegar kemur að net­verslun Íslend­inga verða föt, skór og fylgi­hlutir fyrir val­inu í 14 pró­sent til­vika, oft­ast allra vöru­flokka. Síð­ast­liðin tvö ár hefur Pró­sent, í sam­starfi við Sam­tök versl­unar og þjón­ustu og Rann­sókn­ar­setur versl­un­ar­inn­ar, tekið saman ýmsar upp­lýs­ingar um kaup­hegðun Íslend­inga á net­inu. Gögnin upp­fær­ast í raun­tíma og byggja á 200 svörum Íslend­inga, 18 ára og eldri, sem valdir eru af handa­hófi. Gögnum er safnað í hverjum mán­uði og ná aftur til mars 2021.

Net­versl­un­ar­púls­inn sýnir meðal ann­ars að konur versla meira af föt­um, skóm og fylgi­hlutum en karl­ar. Af kaupum á net­inu sam­an­standa 19 pró­sent kaup kvenna af föt­um, skóm og fylgi­hlutum en átta pró­sent kaup karla.

Skand­in­av­ía, Bret­land og Kína

39 pró­sent af kaupum Íslend­inga á föt­um, skóm og fylgi­hlutum fara fram á inn­lendum net­versl­unum en 61 pró­sent á erlendum net­versl­un­um. Þar trónir skand­in­av­íska net­versl­unin Boozt á toppnum með 37 pró­sent hlut­deild. Þar á eftir kemur breska tísku­fyr­ir­tækið Asos og loks Shein með átta pró­sent hlut­deild.

Mark­hópur Shein er Z-kyn­­slóð­in, ein­stak­l­ingar ​​fæddir milli áranna 1997 og 2012, einna helst ung­l­ings­stúlkur og fer hin árang­­ur­s­­ríka mark­aðs­­setn­ing fyrst og fremst fram á sam­­fé­lags­miðlum eins og TikT­ok, Instagram og Yout­u­be.

Sam­kvæmt kyn­slóða­mæl­ingu Pró­sents gerir Z-kyn­slóðin minnst, sam­an­borið við aðrar kyn­slóð­ir, til að huga að umhverf­inu og draga úr meng­un. Mæl­ing Pró­sents á Z-kyn­slóð­inni nær til ein­stkal­inga sem eru fæddir á milli áranna 1997-2007. 76 pró­sent þeirra fara með gömul föt í end­ur­vinnslu, selja eða gefa, sam­an­borið við 91 pró­sent eldri kyn­slóða. Z-kyn­slóðin kaupir hins vegar meira magn af not­uðum fötum en hinar kyn­slóð­irn­ar, eða 32 pró­sent.

Heimild: Prósent

Hvað er til ráða?

Almenn­ingur er kom­inn mis­langt á veg­ferð­inni að breyttri hegðun í umhverf­is- og lofts­lags­mál­um. Þrátt fyrir vit­und­ar­vakn­ingu í umhverf­is­mál á und­an­förnum árum er mark­mið stjórn­valda að draga úr fata­sóun að því marki að hún verði jafn mikil og fyrir níu árum.

Stjórn­völd vilja þannig ná því mark­miði að hver Íslend­ingur hendi að með­al­tali tíu kílóum af textíl og skóm, rétt eins og árið 2013, í stað 15 kílóa á ári líkt og raunin var árið 2016.

Í marg­nefndri stefnu, Saman gegn sóun, er verk­efnið ein­faldað og lögð til nokkur ráð til að auka líf­tíma fatn­aðar og textíls sem sam­ræm­ast hug­mynda­fræði hringrás­ar­hag­kerf­is­ins. Með því að kaupa minna, nota leng­ur, kaupa not­að, koma fatn­aði og skóm í áfram­hald­andi notkun eða skila á réttan stað má minnka fata­sóun til muna. Þá leggur Umhverf­is­stofnun mikla áherslu á að fólk fari með allan textíl, líka það sem er ónýtt, blettótt eða með göt­um, í end­ur­vinnslu.

„Það er margt sem við getum gert til að vera partur af lausn­inni. Það mik­il­væg­asta er að draga úr neyslu þar sem inn­kaupin ráð­ast í dag að miklu leyti af löngun en ekki þörf­um,“ segir í stefnu stjórn­valda um úrgangs­for­varn­ir.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnErla María Markúsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar