Fjórir sprengiskutlar notaðir til að granda einum langreyðartarfi
Hvalur 8, hvalveiðibátur Hvals hf., landaði í gær tveimur langreyðum í Hvalfirði. Annað dýrið var með hvorki fleiri né færri en fjóra sprengiskutla í sér við komuna til hafnar og hefur því líklega háð ansi langt dauðastríð.
Hvalur 8, hvalveiðibátur Hvals hf., kom að landi í Hvalfirði í gær með tvær langreyðar. Annar hvalurinn, tarfur, var með fjóra sprengiskutla í sér, sem þýðir að fjögur skot hefur þurft til að deyða dýrið.
Þetta segir Arne Feuerhahn hjá samtökunum Hard To Port, sem myndaði löndun hvalanna, gefa til kynna að hvalurinn hafi háð langdregið dauðastríð, en að jafnaði tók um 8 mínútur fyrir hvalveiðimenn að endurhlaða skutulbyssuna og skjóta að nýju ef fyrsta skotið geigar og dýrið deyr ekki samstundis, samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var fyrir Fiskistofu á hvalveiðivertíðinni árið 2014.
Samkvæmt myndum sem Arne tók af löndun hvalsins í Hvalfirði í gær stóðu þrír skutlar út úr hvalnum er hann var dreginn á land. Sá fjórði segir Arne að hafi fyrst komið í ljós er gert var að hræinu í hvalstöðinni.
Lýsir hann því í tilkynningu að hvalskurðarmenn Hvals hf. hafi virst vera pirraðir yfir fjölda skota sem þurfti til að deyða hvalinn, áður en hvalskurðurinn hófst. Er gert var að hvalnum kom í ljós að sprengjur á skutlunum höfðu ekki sprungið í tveimur tilfellum. Voru ósprungnar sprengjurnar færðar á brott af starfsmönnum.
Í áðurnefndri rannsókn sem Fiskistofa lét gera árið 2014 kom í ljós að af 50 langreyðum sem fylgst var með veiðum á dóu 42 þeirra samstundis. Í sumar hafa nokkur tilvik komið upp þar sem skot hvalveiðimanna hafa geigað og fleiri en einn sprengiskutul hafi þurft til að granda dýrunum.
Ráðherra stefnir á reglugerðarbreytingu
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði í samtali við Kjarnann nýlega að það væri alveg skýrt í hennar huga að ef atvinnugreinar sem byggðu á dýrahaldi eða veiðum gætu ekki tryggt mannúðlega aflífun dýra, ættu þær sér „enga framtíð í nútímasamfélagi“.
Svandís hefur lagt fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á reglugerð um hvalveiðar, en breytingarnar sem ráðherra leggur til myndi hafa þau áhrif að skipstjórum yrði skylt að tilnefna einn áhafnarmeðlim sem dýravelferðarfulltrúa. Sá einstaklingur þyrfti að sækja námskeið hjá Matvælastofnun, auk þess sem honum væri ætlað að taka upp myndefni um borð og láta eftirlitsdýralækni stofnunarinnar í té.
Hvalur hf. hefur sent inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar ráðherra, og segist fyrirtækið þar meðal annars telja það „vandséð, vægt til orða tekið, að umþrætta reglugerðarbreytingar rúmist innan meðalhófsreglunnar“ eins og hún hefði verið skýrð og túlkuð og kom fyrirtækið því á framfæri að það teldi ráðherra skorta lagastoð til þess að setja á umræddar kvaðir um dýraeftirlitsmenn.
Hagsmunasamtök útgerðarfyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, komust einnig að þeirri niðurstöðu í umsögn sinni um fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar að viðunandi lagastoð væri ekki til staðar, auk þess sem hægt væri að ná sömu markmiðum og reglugerðinni væri ætlað að ná með „öðrum og vægari aðferðum.“
Aðfarir sem séu í skýrri mótsögn við dýravelferðarlög
Í síðustu viku var fundað um þau atvik sem komið hafa upp í hvalveiðum sumarsins hjá Matvælastofnun og sagði Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir í svari til Kjarnans í kjölfarið að Matvælastofnun væri með það til skoðunar hvort, og þá hvernig, opinberir aðilar gætu „enn fastar“ framfylgt ákvæðum laga um velferð dýra hvað hvalveiðar varðar, að óbreyttri löggjöf.
Samkvæmt lögum er Matvælastofnun ekki ætlað að hafa reglubundið eftirlit með veiðum villtra dýra, en stofnuninni er þó almennt ætlað að framfylgja lögum um velferð dýra, þar á meðal því sem fram kemur í 27. grein laganna.
Þar segir meðal annars að ávallt skuli „staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma“ og að veiðimönnum sé skylt „að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.“ Þá segir einnig í lagagreininni að við veiðar sé „óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum“.
Í tilkynningu frá samtökunum Hard to Port er haft eftir Arne Feuerhahn að veiðarnar á hvalveiðiskipinu Hval 8, sem enduðu með því að skutla þurfti sama dýrið fjórum sinnum áður en það drapst, sé í skýrri andstöðu við þessar lagagreinar.
„Þessir nýju og óhuggulegu atburðir sýna hve mikilvægt það er að fylgjast með þessum veiðum á afi úti, þar sem þær eiga sér stað. Ef að Hvalur hf. getur ekki uppfyllt grunnviðmið dýravelferðar við veiðarnar, sem þeir augljóslega geta ekki, ættu þeir ekki að vera með hvalveiðileyfi,“ segir Arne Feuerhahn.
Lestu meira
-
17. ágúst 2022Hvals-menn skiluðu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglu
-
12. ágúst 2022Lögregla væntir þess að Hvalur hf. skili dróna svissneska ríkisútvarpsins í dag
-
5. ágúst 2022Tvö fyrstu skotin hæfðu tarfinn í höfuðið – MAST með frekari rannsókn í gangi
-
2. ágúst 2022Fjórir sprengiskutlar notaðir til að granda einum langreyðartarfi
-
28. júlí 2022Skoða hvernig framfylgja megi dýravelferðarlögum „enn fastar“