Mynd: Hard to Port Male fin whale with three visible harpoon shots.jpg
Þessi langreyðartarfur var með alls fjóra sprengiskutla í sér, samkvæmt samtökunum Hard to Port. Á myndinni sjást þrír þeirra standa út úr dýrinu.
Mynd: Hard to Port

Fjórir sprengiskutlar notaðir til að granda einum langreyðartarfi

Hvalur 8, hvalveiðibátur Hvals hf., landaði í gær tveimur langreyðum í Hvalfirði. Annað dýrið var með hvorki fleiri né færri en fjóra sprengiskutla í sér við komuna til hafnar og hefur því líklega háð ansi langt dauðastríð.

Hvalur 8, hval­veiði­bátur Hvals hf., kom að landi í Hval­firði í gær með tvær lang­reyð­ar. Annar hval­ur­inn, tarf­ur, var með fjóra sprengiskutla í sér, sem þýðir að fjögur skot hefur þurft til að deyða dýr­ið.

Þetta segir Arne Feu­er­hahn hjá sam­tök­unum Hard To Port, sem mynd­aði löndun hval­anna, gefa til kynna að hval­ur­inn hafi háð lang­dregið dauða­stríð, en að jafn­aði tók um 8 mín­útur fyrir hval­veiði­menn að end­ur­hlaða skut­ul­byss­una og skjóta að nýju ef fyrsta skotið geigar og dýrið deyr ekki sam­stund­is, sam­kvæmt rann­sókn sem fram­kvæmd var fyrir Fiski­stofu á hval­veiði­ver­tíð­inni árið 2014.

Sam­kvæmt myndum sem Arne tók af löndun hvals­ins í Hval­firði í gær stóðu þrír skutlar út úr hvalnum er hann var dreg­inn á land. Sá fjórði segir Arne að hafi fyrst komið í ljós er gert var að hræ­inu í hval­stöð­inni.

Lýsir hann því í til­kynn­ingu að hval­skurð­ar­menn Hvals hf. hafi virst vera pirraðir yfir fjölda skota sem þurfti til að deyða hval­inn, áður en hval­skurð­ur­inn hófst. Er gert var að hvalnum kom í ljós að sprengjur á skutl­unum höfðu ekki sprungið í tveimur til­fell­um. Voru ósprungnar sprengj­urnar færðar á brott af starfs­mönn­um.

Í áður­nefndri rann­­sókn sem Fiski­­stofa lét gera árið 2014 kom í ljós að af 50 lang­reyðum sem fylgst var með veiðum á dóu 42 þeirra sam­­stund­­is. Í sumar hafa nokkur til­vik komið upp þar sem skot hval­veiði­manna hafa geigað og fleiri en einn sprengiskutul hafi þurft til að granda dýr­un­um.

Ráð­herra stefnir á reglu­gerð­ar­breyt­ingu

Svan­dís Svav­ars­dóttir mat­væla­ráð­herra sagði í sam­tali við Kjarn­ann nýlega að það væri alveg skýrt í hennar huga að ef atvinnu­greinar sem byggðu á dýra­haldi eða veiðum gætu ekki tryggt mann­úð­lega aflífun dýra, ættu þær sér „enga fram­tíð í nútíma­sam­fé­lag­i“.

Á myndinni sjást starfsmenn Hvals hf. vinna að því að fjarlægja fjórða skutulinn úr innyflum hvalsins í gær.
Mynd: Hard to Port

Svan­dís hefur lagt fram til kynn­ingar í sam­ráðs­gátt stjórn­valda drög að breyt­ingum á reglu­gerð um hval­veið­ar, en breyt­ing­arnar sem ráð­herra leggur til myndi hafa þau áhrif að skip­stjórum yrði skylt að til­nefna einn áhafn­ar­með­lim sem dýra­vel­ferð­ar­full­trúa. Sá ein­stak­lingur þyrfti að sækja nám­skeið hjá Mat­væla­stofn­un, auk þess sem honum væri ætlað að taka upp myndefni um borð og láta eft­ir­lits­dýra­lækni stofn­un­ar­innar í té.

Hvalur hf. hefur sent inn umsögn í sam­ráðs­gátt stjórn­valda um fyr­ir­hug­aðar reglu­gerð­ar­breyt­ingar ráð­herra, og seg­ist fyr­ir­tækið þar meðal ann­ars telja það „vand­séð, vægt til orða tek­ið, að umþrætta reglu­gerð­ar­breyt­ingar rúmist innan með­al­hófs­regl­unn­ar“ eins og hún hefði verið skýrð og túlkuð og kom fyr­ir­tækið því á fram­færi að það teldi ráð­herra skorta laga­stoð til þess að setja á umræddar kvaðir um dýra­eft­ir­lits­menn.

Hvalur 8 með tvær langreyðar við síðuna í Hvalfirði í gær.
Hard to Port

Hags­muna­sam­tök útgerð­ar­fyr­ir­tækja, Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, komust einnig að þeirri nið­ur­stöðu í umsögn sinni um fyr­ir­hug­aðar reglu­gerð­ar­breyt­ingar að við­un­andi laga­stoð væri ekki til stað­ar, auk þess sem hægt væri að ná sömu mark­miðum og reglu­gerð­inni væri ætlað að ná með „öðrum og væg­ari aðferð­u­m.“

Aðfarir sem séu í skýrri mót­sögn við dýra­vel­ferð­ar­lög

Í síð­ustu viku var fundað um þau atvik sem komið hafa upp í hval­veiðum sum­ars­ins hjá Mat­væla­stofnun og sagði Sig­ur­borg Daða­dóttir yfir­dýra­læknir í svari til Kjarn­ans í kjöl­farið að Mat­væla­stofnun væri með það til skoð­unar hvort, og þá hvern­ig, opin­berir aðilar gætu „enn fastar“ fram­­fylgt ákvæðum laga um vel­­ferð dýra hvað hval­veiðar varð­­ar, að óbreyttri lög­­­gjöf.

Sam­­kvæmt lögum er Mat­væla­­stofnun ekki ætlað að hafa reglu­bundið eft­ir­lit með veiðum villtra dýra, en stofn­un­inni er þó almennt ætlað að fram­­fylgja lögum um vel­­ferð dýra, þar á meðal því sem fram kemur í 27. grein lag­anna.

Þar segir meðal ann­­ars að ávallt skuli „staðið að veiðum þannig að það valdi dýr­unum sem minnstum sár­s­auka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma“ og að veið­i­­­mönnum sé skylt „að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverk­­um.“ Þá segir einnig í laga­­grein­inni að við veiðar sé „óheim­ilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa lim­­lest­ingum eða kvöl­u­m“.

Í til­kynn­ingu frá sam­tök­unum Hard to Port er haft eftir Arne Feu­er­hahn að veið­arnar á hval­veiði­skip­inu Hval 8, sem end­uðu með því að skutla þurfti sama dýrið fjórum sinnum áður en það drap­st, sé í skýrri and­stöðu við þessar laga­grein­ar.

„Þessir nýju og óhuggu­legu atburðir sýna hve mik­il­vægt það er að fylgj­ast með þessum veiðum á afi úti, þar sem þær eiga sér stað. Ef að Hvalur hf. getur ekki upp­fyllt grunn­við­mið dýra­vel­ferðar við veið­arn­ar, sem þeir aug­ljós­lega geta ekki, ættu þeir ekki að vera með hval­veiði­leyf­i,“ segir Arne Feu­er­hahn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent