Árásin á skrifstofur skopmyndablaðsins Charlie Hebdo er nú skilgreind sem hryðjuverk; árás sem af ásetningi er beint gegn almennum borgurum til ógnunar - sem framin er í þeim tilgangi að ná fram stjórnmálalegum eða öðrum hugmyndafræðilegum markmiðum.
Hryðjuverkaárásin í París er skilgreind sem árás á málfrelsið; árás á blaðamenn og tjáningafrelsið. Skilaboð hryðjuverkamannanna virðast vera að ekki sé hægt að segja hvað sem er – það megi ekki gera grín að öllu! Grunngildi franska lýðveldisins eru hins vegar: Frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það er löng hefð fyrir beittu ádeilugríni og skopmyndum í Frakklandi sem má rekja aftur til Voltaire, François Rabelais og Moliére.
Þekktustu skopmyndateiknarar Frakklands: Cabu, Charb, Tignous, og Wolinski létu líf sitt fyrir verk sín og störf; ádeilugrín og flugbeitta blaðamennsku.
Mun árásin marka frönsk stjórnmál?
Þetta er mannskæðasta hryðjuverkaáras í tvo áratugi og margir óttast að hún muni jafnvel breyta frönsku samfélagi. Frakkar hafa tekið þátt í hernaðaraðgerðum í Írak, Afganistan, Líbíu, Malí, Sýrlandi og víðar og lengi hefur hryðjuverkaárás legið í loftinu og margar hótanir borist. Francois Hollande sagði þegar hann mætti á vettvang í dag að franska leyniþjónustan hefði ítrekað komið í veg fyrir tilraunir til hryðjuverka undanfarið. Nýlega tilkynnti franska lögreglan frá viðamiklum handtökum á grunuðum hryðjuverkamönnum.
Strax í dag verður maður áþreifanlega var við aukna löggæslu og búist er við því að öll öryggisgæsla verða aukin til muna á næstu dögum, vikum og jafnvel árum.
Nú er spurt: Mun árásin breyta frönsku samfélagi? Það styttist í þingkosningar. Mun Þjóðfylkingin, formaðurinn Marine Le Pen og hægri öfgamenn nýta sér þennan hrylling? Þjóðfylkingin hefur löngum haft horn í síðu múslima og beint spjótum sínum að þeim og innflytjendum. Margir óttast að árásin eigi eftir að efla Þjóðfylkinguna og jafnvel fleyta Marine Le Pen í forsetaembættið. Auðvitað er of snemmt að spá fyrir um allt slíkt – en þetta er engu að síður umræðan þessa klukkutíma eftir árásina.
Mun árásin draga kjark úr blaðamönnum?
Mun árásin á einhvern hátt hræða blaðamenn? Draga úr beittu gríni? Það er hefð fyrir skörpum rökræðum í Frakklandi, háði og hvers konar gagnrýni. Fyrstu viðbrögð í dag eru þau að fylla verði skarð tímaritsins Charlie Hebdo; halda áfram skörpu ádeilugríni og skopmyndum. Nú sé brýnt að frelsi blaðamanna og listamanna sé virt sem aldrei fyrr.
Árásin er túlkuð af Francois Hollande sem árás á Frakkland og árás á frönsk gildi. Strax í dag verður maður áþreifanlega var við aukna löggæslu og búist er við því að öll öryggisgæsla verða aukin til muna á næstu dögum, vikum og jafnvel árum. Afleiðingar gætu sömuleiðis verið aukið eftirlit, fleiri öryggismyndavélar, njósnir, hlerarnir og fleira í þeim dúr.
Þessa stundina eru frönsk yfirvöld á nálum – ALLT verður gert til þess að finna og handsama ódæðismennina.