Fyrirtækin sem mynda fjórðu stoðina
Ný stoð hefur myndast í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins á síðustu árum sem er ekki byggð á nýtingu takmarkaðra auðlinda, heldur hugviti starfsmanna sinna. Kjarninn tók saman helstu fyrirtækin að baki þessari stoð og tekjuvöxt þeirra á síðustu árum.
Umskipti hafa orðið í samsetningu gjaldeyrisöflunar Íslands á síðustu misserum. Hlutdeild sjávarútvegs, stóriðju og ferðaþjónustu, sem hafa í nokkur ár staðið fyrir yfirgnæfandi meirihluta alls útflutnings, hefur minnkað stöðugt frá árinu 2019, á meðan fyrirtæki sem byggja ekki framleiðslu sína alfarið á nýtingu náttúruauðlinda hafa sótt í sig veðrið. Mörg þessara fyrirtækja starfa í heilbrigðisgeiranum, en einnig hefur rekstur tölvuleikjafyrirtækja verið í nokkurri sókn.
Hugverkaiðnaðurinn
Á árunum 2013-2018 komu rúmlega 80 prósent alls útflutnings hér á landi frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu, sjávarútvegi eða stóriðju. Á síðustu þremur árum hefur þetta hlutfall hins vegar minnkað og nemur það nú rúmum tveimur þriðju. Með öðrum orðum hefur vægi útflutnings sem ekki byggir á nýtingu náttúruauðlinda vaxið um meira en helming. Þróunina má sjá á mynd hér að neðan.
Innan þessa hóps hefur hugverkaiðnaðurinn, sem inniheldur fyrirtæki sem byggja virði sitt á hugviti starfsmanna sinna, vaxið hvað mest. Samkvæmt grein Sigríðar Mogensen sviðsstjóra hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins í vorhefti Vísbendingar er hugverkaiðnaður orðin fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, þar sem hún skapaði tæp 16 prósent af útflutningstekjum í fyrra og leiddi til þess að afgangur hafi orðið af þjónustuviðskiptum það ár, þrátt fyrir hrun ferðaþjónustunnar.
Í viðtali við Kjarnann í fyrra sagði Sigríður að vöxtur íslenska hagkerfisins til framtíðar væri frekar innan hugverkaiðnaðarins heldur en í hinum stóru útflutningsgreinunum, sem byggja allar framleiðslu sína frekar á nýtingu takmarkaðra auðlinda.
Controlant hyggst hundraðfalda tekjur
Á meðal fyrirtækja innan þessa geira er íslenska hátæknifyrirtækið Controlant, sem þróar tæknilausnir sem hjálpa til við að viðhalda gæðum viðkvæmra vara í geymslu og flutningi á milli staða.
Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2017 námu tekjur þess um 166 milljónum það ár og var það með 26 starfsmenn. Síðan þá hafa tekjurnar vaxið hratt með hverju árinu, en þær námu 219 milljónum króna árið 2018 og 410 milljónum króna árið 2019.
Samkvæmt umfjöllun Markaðarins á Fréttablaðinu fyrr í sumar tvöfölduðust svo tekjur félagsins aftur í fyrra og námu þá rúmum 800 milljónum króna, en búist er við að þær muni svo nífaldast aftur í ár og nema 7,6 milljörðum króna. Samhliða því hefur starfsfólki fyrirtækisins fjölgað, en samkvæmt áætlunum verða þeir orðnir um 300 talsins í árslok.
Á næsta ári gerir svo fyrirtækið ráð fyrir að ná 15 milljörðum króna í tekjum. Haldist þessar áætlanir gæti því verið að tekjur fyrirtækisins tæplega hundraðfaldist á fimm árum.
Þennan gríðarlega tekjuvöxt má að miklu leyti rekja til samninga Controlant við alþjóðleg lyfjafyrirtæki, líkt og Merck, Roach og GlaxoSmithKline, segir í Fréttablaðinu. Stærsti bitinn er þó líklega viðskipti félagsins við Pfizer, sem selur eitt af vinsælustu bóluefnunum gegn COVID-19.
200 milljarðar hjá Alvotech innan skamms
Annað hugverkafyrirtæki sem hefur náð viðlíka tekjuvexti er íslenska lyfjafyrirtækið Alvotech. Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins tvöfölduðust rekstrartekjur þess í fyrra, úr rúmum fjórum milljörðum króna árið 2019 í átta milljarða króna árið 2020.
Áform fyrirtækisins eru stórhuga, en Sesselja Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri lyfjagreiningardeildar þess sagði á Iðnþingi i í fyrra að áætlaðar tekjur Alvotech árið 2027 muni nema 20 prósentum af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Ef miðað er við útflutningstekjur síðasta árs er því áætlað að tekjur fyrirtækisins muni 25-faldast á næstu sex árum og nema um 200 milljörðum króna.
Róbert Wessman er skráður óbeinn eigandi nær 39 prósenta í Alvotech, en fyrirtækið er einnig í eigu lyfjafyrirtækisins Alvogen. Fyrirtækið, sem sérhæfir sig í þróun á hliðstæðum líftæknilyfja, hefur byggt lyfjaverksmiðju í Vatnsmýrinni og stefnir að því að setja á markað líftæknilyf innan tveggja ára.
Samkvæmt umfjöllun Markaðarins um fyrirtækið stefnir Alvotech einnig að tvíhliða skráningu á hlutabréfamarkað, bæði í Kauphöllina á Íslandi og í New York, á næstu mánuðum.
Einn af frumkvöðlum ársins í Bandaríkjunum
Tekjur líftæknifyrirtækisins Kerecis, sem er staðsett á Ísafirði og sérhæfir sig í framleiðslu á lækningarvörum úr þorskroði, hafa einnig vaxið töluvert á síðustu misserum, en sölutekjur þeirra námu tæpum milljarði króna árið 2019 samkvæmt samstæðureikningi félagsins.
Þessi vöxtur hélt svo áfram í fyrra, en samkvæmt tilkynningu frá Kerecis rúmlega tvöfölduðust sölutekjur félagsins í Bandaríkjunum á síðasta fjórðungi ársins 2020, miðað við sama tímabil árið á undan. Þessi vöxtur var hraðari en hjá nokkru öðru fyrirtæki á sama markaði í Bandaríkjunum.
Fyrr í mánuðinum útnefndi endurskoðunarfyrirtækið Ernst and Young svo Guðmund Fertram Sigurjónsson, stofnanda og forstjóra fyrirtækisins, sem einn af frumkvöðlum ársins á markaði Norð-Austurstrandar Bandaríkjanna.
CCP og fylgihnettir
Íslensk hugverkafyrirtæki eru þó ekki einungis tengd heilbrigðisgeiranum. Tölvuleikjafyrirtækið CCP, sem er staðsett í Vatnsmýrinni, hefur einnig haldið stöðugri siglingu með sölu á tölvuleikjunum sínum á síðustu árum, en á tímabilinu 2017-2020 námu sölutekjur fyrirtækisins á bilinu sex til átta milljörðum króna.
Fyrirtækið, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1997, hefur einnig alið af sér önnur íslensk leikjafyrirtæki sem sum eru í mikilli sókn þessa stundina.
Solid Clouds, sem var meðal annars stofnað af fyrsta forstjóra CCP, var skráð á markað fyrr í sumar, en forsvarsmenn fyrirtækisins sögðust stefna að því að ná 4,4 milljörðum í tekjum eftir tvö ár í viðtali við Viðskiptablaðið. Til þess að það gerist verður tekjuvöxturinn að verða nokkuð hraður, en tekjur fyrirtækisins námu 69 milljónum króna í fyrra.
Einn stofnandi CCP, Ívar Kristjánsson, stofnaði einnig annað leikjafyrirtæki sem ber heitið 1939 Games fyrir sex árum síðan. Fyrirtækið gaf út fyrsta leikinn sinn formlega í fyrra, en tekjurnar af honum það árið námu um 250 milljónum króna. Í nýlegu viðtali Ívars við Viðskiptablaðið segir hann að fyrirhuguð farsímaútgáfa leiksins á næsta ári bjóði upp á fimm- til tíföldun á sölu fyrirtækisins.