Mynd: Bára Huld Beck

Skekkja í kosningakerfi getur ráðið úrslitum um hvaða ríkisstjórn verður mynduð

Mikill stöðugleiki hefur verið í fylgi flestra þeirra flokka sem eiga nú þegar fulltrúa á Alþingi síðustu mánuði. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafa dalað en Sósíalistaflokkurinn er að bæta við sig fylgi og mælist nú með yfir sex prósent stuðning. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspárinnar fyrir komandi þingkosningar.

Fylgi flokka hreyfist lítið á milli kosningaspáa Baldurs Héðinssonar og Kjarnans fyrir komandi þingkosningar. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír – Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur – bæta við sig 0,4 prósentustigum á milli spáa og eru nú með 48,4 prósent fylgi. 

Ríkisstjórn byggð á Reykjavíkurmódelinu – samstarfi þeirra fjögurra flokka sem starfa saman í meirihluta í höfuðborg landsins og næst stærsta stjórnvaldi þess – nýtur nánast sama stuðnings. Samanlagt fylgi Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar mælist 47,5 prósent. 

Ef Viðreisn yrði skipt út fyrir Framsóknarflokk í slíku samstarfi, en reynt var að mynda slíka ríkisstjórn í fyrstu stjórnarmyndunarviðræðunum sem fram fóru eftir síðustu kosningar, hefði sú ríkisstjórn 48,9 prósent stuðning. Af þeim ríkisstjórnum sem eru líklegar að geta verið myndaðar eins og sakir standa, bæði út frá fylgi og mögulegum samstarfsvilja, þá nýtur sú ríkisstjórn mest fylgis samkvæmt kosningaspánni, þó munurinn sé vel innan allra eðlilegra skekkjumarka. 

Niðurstöður kosningaspárinnar 26. ágúst 2021

Misvægi í gildandi kosningakerfi hefur þó skilað því í undanförnum kosningum að núverandi stjórnarflokkar hafa fengið fleiri þingsæti en atkvæðaskipting sagði til um. Til að laga þessa skekkju þarf að fjölga jöfnunarsætum. Reynt var að gera það með framlagningu Pírata um að sex kjördæmakjörnir þingmenn yrðu í öllum kjördæmum en að jöfnunarmennirnir yrðu 27. Það frumvarp náði ekki í gegn og því eru líkur á að einhverjir flokkar fái fleiri þingmenn en þeir eigi að fá í kosningunum eftir rúmar fimm vikur, og aðrir færri en atkvæðamagn þeirra segir til um.

Miðað við núverandi stöðu mála er ekki ólíklegt að skekkjan geti ráðið úrslitum um hvaða ríkisstjórn verði mynduð eftir kosningar. 

Stöðugleiki í fylgi gæti leitt til óstöðugleika í stjórnmálum

Gengi annarra flokka en þeirra sem hafa verið nefndir hér að ofan getur ráðið miklu um hvernig leikar fara, jafnvel þó þeir séu ólíklegir til að vera kandídatar í ríkisstjórn. Sósíalistaflokkur Íslands er sá flokkur sem hefur tekið til sín mest fylgi á kjörtímabilinu og mælist nú með 6,1 prósent stuðning, og mælist þar með í fyrsta sinn yfir sex prósent múrnum í kosningspánni. Hann er að upplifa fylgisaukningu í kjölfar þess að flokkurinn kynnti framboðslista sína og hefur verið allra flokka duglegastur að reka fjölbreytta kosningabaráttu í netheimum fram til þessa, þrátt fyrir að vera sá seini sem er að mælast með eitthvað fylgi sem nýtur ekki hárra ríkisstyrkja.

Auglýsing

Það er aðeins minna en Miðflokkurinn, sem mælist með 6,6 prósent en töluvert meira en Flokkur fólksins, sem mælist með 4,4 prósent, þrátt fyrir að vera sá flokkur sem auglýsir mest allra flokka um þessar mundir. Báðir þessir flokkar hafa verið að tapa fylgi undanfarnar vikur og mánuði.

Nái Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins manni inn á þing, sem er alls ekki ósennilegt, mun það líklega hafa umtalsverð áhrif á það hvernig þingmannafjöldinn skiptist. 

Athyglisvert er að skoða þróun á fylgi annarra flokkanna frá því í apríl og fram til dagsins í dag. Þar sést að litlar breytingar hafa orðið á fylgi flestra þeirra. Mikill stöðugleiki virðist vera í fylgi flokka, sem gæti leitt af sér óstöðugleika í stjórnmálunum í heild, í ljósi þess að erfitt gæti orðið að mynda starfhæfa ríkisstjórn. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á þessu tímabili farið úr því að mælast með 25,8 prósent fylgi í að vera nú með 24 prósent. Vinstri græn hafa bætt við sig svipuðu og Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað á því tímabili, eða 1,4 prósentustigi, og mælast með 13,5 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn stendur hins vegar í stað með 10,9 prósent fylgi, sem er nánast nákvæmlega það sama og flokkurinn fékk í kosningunum 2017. 

Píratar og Samfylking hafa skipt um stöðu sem stærsti flokkurinn á því sem stundum er kallað frjálslynda miðja íslenskra stjórnmála. Í apríl voru Píratar að mælast með ellefu prósent fylgi en Samfylkingin með 12,6 prósent.

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, mun leiða lista hans í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Mynd: Bára Huld Beck

Nú eru Píratar með sama fylgi og Samfylkingin hafði þá en hún hefur dalað um 0,7 prósentustig. Þriðja aflið á þessari frjálslyndu miðju, Viðreisn, stendur nánast í stað á tímabilinu og mælist með 9,5 prósent fylgi. 

Breytingar á lokasprettinum höfðu ráðandi áhrif

Niðurstaða kosninga er sannarlega ekki alltaf í takt við kannanir. Daginn fyrir þingkosningarnar 2017 stefndi allt í fjögurra flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri á Íslandi, samkvæmt niðurstöðum kosningaspárinnar. Samanlagt fylgi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar mældist samanlagt um 35 prósent samkvæmt síðustu kosningaspá Kjarnans, sem byggði á gerðum skoðanakönnunum daganna á undan, og flokkarnir tveir virtust geta valið úr tvo af þremur öðrum flokkum: Pírötum, Framsóknarflokki eða Viðreisn, til að mynda ríkisstjórn sem væri með 34 til 35 þingmenn. 

Kappræður milli forsvarsmanna allra framboða sem mældust inni fóru fram daginn fyrir kosningarnar 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar talið var upp úr kössunum daginn eftir hafði staðan breyst umtalsvert. Vinstri græn og Samfylking náðu ekki samanlögðu fylgi yfir 30 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn fékk aðeins meira en hann hafði mælst með (síðasta kosningaspáin sagði hann vera með 23,7 prósent fylgi en það reyndist vera 25,3 prósent) en sú aukning var nánast innan skekkjumarka. Mestu skipti að Framsóknarflokkurinn fékk mun fleiri atkvæði en kannanir höfðu sýnt (mældist með 7,5 prósent en fékk 10,7 prósent) og Flokkur fólksins, sem hafði varla mælst inni í kosningabaráttunni náði að bæta vel við sig á lokasprettinum, aðallega vegna frammistöðu flokksformannsins Ingu Sæland í sjónvarpskappræðum, og náði inn fjórum þingmönnum.

Auglýsing

Mjög skyndilega blasti við allt önnur staða en kannanir höfðu sýnt nær alla kosningabaráttuna. En var hægt að mynda fjögurra flokka félagshyggjustjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata en hún myndi hafa minnsta mögulega meirihluta, 32 þingmenn.

Forvígismenn þessara flokka hittust á heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar í kjölfar kosninganna en þeim var slitið 6. nóvember af Framsóknarflokknum, sem gaf þá skýringu að meirihlutinn væri of naumur. Í kjölfarið mynduðu Vinstri græn og Framsókn ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Það er almenn skoðun innan þeirra flokka sem tóku þátt í viðræðunum heima hjá Sigurði Inga, en rötuðu ekki í ríkisstjórn, að eftir á að hyggja hafi hugur ekki fylgt máli hjá Vinstri grænum og Framsóknarflokki í þeim. Einn kallaði þær „leikrit“ sem sett var upp til að búa til réttlætingu fyrir stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum.

Auglýsing

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:

  • Þjóðarpúls Gallup 29. júlí-15. ágúst (43,2 prósent)
  • Þjóðarpúls Gallup 30. júní-28. júlí (vægi 22,5 prósent)
  • Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 13 – 26. júlí (11,3 prósent)
  • Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 15-23. júlí (vægi 13,3 prósent)
  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 24. júní - 6. júlí (vægi 9,7 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar