Fyrri einkavæðing bankanna: Kapphlaupið um kennitölurnar
Síðari einkavæðing ríkisbanka hófst í fyrra, þegar byrjað var að selja hluti í Íslandsbanka. Því ferli var svo haldið áfram í mars þegar umdeilt lokað útboð fór fram. Síðasta einkavæðing fjármálafyrirtækja í ríkiseigu hófst skömmu fyrir aldarmót, lauk snemma árs 2003 og leiddi til þess að rúmum fimm árum síðar var allt íslenska bankakerfið hrunið. Kjarninn mun rekja sögu fyrri einkavæðingarinnar í þremur hlutum um páskana. Þetta er fyrsti hluti.
Í byrjun árs 1997 var íslenska fjármálakerfið meira og minna í eigu íslenska ríkisins. Þá um vorið voru sett lög um stofnun hlutafélaga um ríkisbankana Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Í kjölfarið hófst breytingaskeið á fjármálakerfinu.
Í lögunum var mælt fyrir um að við stofnun hlutafélaganna skyldi allt hlutafé vera í eigu ríkissjóðs og sala á hlutafé ríkissjóðs var óheimil án samþykkis Alþingis. Ráðherra fékk þó vald til að heimila útboð á nýju hlutafé til að styrkja eiginfjárstöðu bankanna, ef þörf var talin á. Samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs mátti ekki verða hærri en 35 prósent af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig.
FBA varð til og svo seldur
Á svipuðum tíma, á vormánuðum 1997, voru sett lög um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (FBA). Bankinn var mikilvægur lánveitandi í íslensku atvinnulífi strax frá stofnun þar sem hann tók við hlutverki sjóða sem stutt höfðu við atvinnulífið.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, sem kom út í apríl 2010, segir: „Hinn 1. janúar 1998 tók bankinn við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, öðrum en þeim sem ráðstafað var með öðrum hætti samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Ríkissjóður var eigandi alls hlutafjár í bankanum við stofnun hans en heimilt var samkvæmt 6. gr. að selja allt að 49 prósent hlutafjárins og skyldu iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra þegar eftir gildistöku laganna hefja undirbúning að sölu hlutafjár.“ Þetta var mikil breyting á íslensku fjármálakerfi frá því sem áður var.
Bjarni Ármannsson, þá kornungur stjórnandi Kaupþings, var ráðinn í bankastjórastólinn.
Um níu mánuðum síðar var kominn skriður á söluferli ríkisbankanna. Þann 28. ágúst 1998 samþykkti ríkisstjórnin stefnumótun um sölu hlutafjár í bönkunum þremur. Skömmu síðar sama ár var heimildin í lögum til útboðs á nýju hlutafé í Landsbankanum og Búnaðarbankanum nýtt. Þá var boðið út nýtt hlutafé sem nam 15 prósentum af heildarhlutafé hvors banka.
Fjöldi áskrifenda í útboðinu hjá Landsbankanum var ríflega tólf þúsund, söluandvirðið 1,7 milljarðar króna og gengið í útboði til almennings 1,90. Fjöldi áskrifenda í útboðinu hjá Búnaðarbankanum var rúmlega 93 þúsund, söluandvirðið um einn milljarður og gengið í útboðinu 2,15.
Í byrjun nóvember 1998 var heimildin til sölu á 49 prósent hlutafjár ríkissjóðs í FBA jafnframt nýtt. Alls skráðu tæplega ellefu þúsund einstaklingar sig í útboðinu fyrir um 18,9 milljarða króna en útboðsgengið var 1,4. Til sölu voru hins vegar aðeins 4,6 milljarðar króna og því kom til skerðingar á hlut hvers og eins. Í tilviki FBA var starfsmönnum gefinn kostur á kaupum á umsömdu gengi og í kjölfar sölunnar voru bréf bankanna skráð á Verðbréfaþingi Íslands.
Kennitölusafnanirnar
Innan ýmissa fjármálafyrirtækja, meðal annars Kaupþings, var sett af stað kennitölusöfnun þar sem viðskiptaaðilar sem ætluðu sér ekki að taka þátt í útboðinu „lánuðu“ fyrirtækjunum kennitölur sínar gegn þóknun. Með þessum hætti náði Kaupþing, og sparisjóðirnir sem áttu fyrirtækið, að tryggja sér 22,1 prósent hlut í FBA. Sá hlutur var vistaður inni í nýju félagi sem fékk nafnið Scandinavian Holdings.
Þessir aðilar ætluðu sér þó alltaf að selja eignarhlutinn með hagnaði og fóru að leita að hentugum fjárfestum. Þeir fundust þegar hópur kaupenda, í gegnum Lúxembúrgíska félagið Orca S.A. keypti hlutinn í byrjun ágúst 1999. Á frægum blaðamannafundi sem haldinn var 13. ágúst 1999 var síðan opinberað hverjir stóðu að Orca hópnum: þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Jón Ólafsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Eyjólfur Sveinsson.
55 þúsund manns skráðu sig fyrir hlut
Á þessum tímapunkti voru rætur að nýju íslensku bankakerfi að verða til og ná festu. Sölu á öllum hlutum ríkisins í FBA lauk í nóvember 1999, þegar hópur 26 lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga keypti afgang hlutafjárins sem eftir stóð. Gengið var frá kaupunum á lágmarksgengi útboðsins, 2,8, sem þýddi að söluandvirðið var 9,7 milljarðar króna. Fjórir þeirra sem keyptu tengdust Orca hópnum. Hver þeirra fékk að kaupa þrjú prósent og því var sameiginlegur hlutur Orca kominn upp í 40 prósent að lokinni einkavæðingu FBA. Sá hlutur óx í 45 prósent skömmu síðar.
Kaupin voru að hluta til fjármögnuð, og í raun búin til, af Kaupþingi. Upphaflega hugmyndin á bakvið þau var enda sú að tryggja hópnum yfirráð yfir FBA og sameina bankann síðan Kaupþingi. Þegar á reyndi reyndist sá verðmiði sem Kaupþing hengdi á sjálfan sig, um átta milljarðar króna, mun hærri en aðrir aðilar máls voru tilbúnir að samþykkja. Því varð ekkert út sameiningunni. Kaupþing sameinaðist þess í stað Búnaðarbankanum nokkrum árum síðar eftir einkavæðingu hans.
Eftir að sameiningarhugmyndir við Kaupþing runnu út í sandinn fór FBA að kanna mögulega sameiningu við Íslandsbanka, enda var vilji á meðal ráðandi afla innan Orca-hópsins að eignast í viðskiptabanka líka. Sameiningarviðræðurnar gengu ótrúlega fljótt fyrir sig og tilkynning var send inn á verðbréfaþing, undanfara Kauphallarinnar, um hana þann 30. mars árið 2000. Samkvæmt samkomulagi myndu hluthafar Íslandsbanka eignast 51 prósent í sameinuðum banka en hluthafar FBA 49 prósent. Við þetta eignaðist Orca-hópurinn, í gegnum félag sem kallaðist FBA Holding S.A., 14,64 prósent hlut í sameinuðum banka. Önnur félög hans áttu auk þess um fimm prósent eignarhlut.
Orca-hópurinn hélt áfram að kaupa bréf í bankanum fram að hluthafafundi sem haldinn var um miðjan maí árið 2000. Þegar kom að fundinum réð hópurinn yfir rúmum fjórðungi alls hlutafjárs. Hinn sameinaði banki tók svo til starfa 2. júní.
Rúmum mánuði eftir að hlutafé ríkisins í FBA hafði verið selt að fullu var haldið áfram með sölu hlutafjár ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Fimmtán prósenta hlutir í Landsbankanum og Búnaðarbankanum voru seldir í desember 1999. Um 55 þúsund manns skráðu sig fyrir hlut í bönkunum og söluandvirðið nam 5,5 milljörðum króna. Eignarhlutir ríkisins í bönkunum tveimur numu 72 prósentum á þessum tíma og dreifðist afgangur hlutafjárins á milli tugþúsunda hluthafa.
Stóru skrefin eftir
Á árunum 2002 og 2003 lauk svo þessum hluta einkavæðingarferlisins með sölu á kjölfestueignarhlutum í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Samson ehf., félag Björgólfsfeðga, Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, og Magnús Þorsteinssonar, keypti 45,8 prósenta hlut í Landsbankanum skömmu fyrir áramótin 2002-2003. Kaupverðið var 12,3 milljarðar króna. Landsbankinn var þá nánast að fullu kominn í eigu einkaaðila.
Sömu sögu var að segja um Búnaðarbankann. S-hópurinn svonefndi keypti 45,8 prósenta hlut í honum og greiddi fyrir það 11,9 milljarða króna. Hópurinn samanstóð af Eglu ehf., Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og Vátryggingafélagi Íslands (VÍS). Um þá einkavæðingu verður fjallað í næstu hlutum umfjöllunar Kjarnans um fyrri einkavæðingu íslensks bankakerfis.
Upp úr þessum þremur stoðum í íslenska fjármálageiranum – FBA, Landsbankanum og Búnaðarbankanum – urðu til turnarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, sem hrundu til grunna um áratug eftir að einkavæðingarferli fjármálakerfisins hófst fyrir alvöru, þótt stærstu skrefin hafi verið stigin á síðari hluta ársins 2002. Sameinaður banki Íslandsbanka og FBA varð að Glitni og sameinaður banki Búnaðarbankans og Kaupþings hóf að starfa undir merkjum Kaupþings.