Bára Huld Beck Lenya Rún Taha Karim X
Bára Huld Beck

Íhugaði að skila inn kjörbréfinu vegna persónuárása

Lenya Rún Taha Karim er fimmti yngsti varaþingmaðurinn í Íslandssögunni. Stjórnmálaáhuginn kviknaði af alvöru þegar hún var búsett í Kúrdistan um tíma. Lenya var full sjálfstrausts þegar hún tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður í fyrsta sinn í desember en íhugaði alvarlega að skila inn kjörbréfinu vegna rætinna persónuárása, rasisma og hatursorðræðu vegna uppruna síns. Hún ákvað að halda áfram og vill vera fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir og vonast til að Alþingi muni í náinni framtíð endurspegla fjölbreytileika þjóðarinnar.

Lenya Rún Taha Karim var 22 ára og 9 daga göm­ul þegar hún tók fyrst sæti á Alþingi undir lok síð­asta árs. Hún er fimmta yngsta mann­eskjan sem tekur sæti á Alþingi sem vara­­mað­­ur.

Lenya er fædd og upp­alin á Íslandi en bjó um tíma í Kúr­distan þar sem stjórn­mála­á­hug­inn kvikn­aði. „Ég átti heima í Kúr­distan frá 2013 til 2016. Það var rosa­lega skrýtið póli­tískt umhverfi þarna, þar ríkir rosa­lega mikil spill­ing. Í kjöl­far þess að ISIS reynir að ráð­ast inn í Kúr­distan fellur efna­hag­ur­inn, efna­hags­lífið og efna­hags­kerfið bara hryn­ur. Ég byrj­aði að pæla í póli­tíska umhverf­inu þarna en svo þurftum við að flytja aftur Íslands þegar ISIS reynir að ráð­ast inn í land­ið,“ segir Lenya í sam­tali við Kjarn­ann.

Kosn­inga­bar­átta fyrir alþing­is­kosn­ingar var í fullum gangi þegar Lenya kom aftur til Íslands haustið 2016, þá 15 ára göm­ul. Boðað var til kosn­inga í kjöl­far Pana­ma-skjal­anna og Lenya segir að það hafi verið áhuga­vert að koma aftur inn í íslenskt sam­fé­lag á þessum tíma. „Hvað gerð­ist? Ég var ekk­ert búin að vera að fylgj­ast með íslenskum stjórn­mál­um. Svo var mynduð rík­is­stjórn. Og hún fell­ur. Aftur kosn­ingar 2017.“

„Einn dag­inn verður þú for­sæt­is­ráð­herra“

Lenya hóf nám í Mennta­skól­anum við Sund þar sem hún var virk í póli­tískri umræðu og tók sögu­kenn­ar­inn hennar eftir því. „Hann labbar upp að mér og seg­ir: „Einn dag­inn verður þú for­sæt­is­ráð­herra“. Og þá kvikn­aði áhugi minn virki­lega mik­ið,“ segir Lenya, sem var á þessum tíma­punkti á öðru ári í MS og var virk í mál­funda­fé­lagi skól­ans þar sem hún varð síðar for­mað­ur. Hún bauð sig einnig fram í alls konar stjórnir og skipu­lagði pall­borðsum­ræður um ýmis sam­fé­lags­mál.

„Fólk tók vel í áhug­ann minn og vildi vita meira og kom til mín þegar það vildi vita meira um póli­tík. Það var svo­lítið gaman og ágætis hvatn­ing.“ Lenya seg­ist hafa fundið fyrir auknum áhuga ungs fólks á stjórn­málum í aðdrag­anda Alþing­is­kosn­ing­anna síð­asta haust. „Ungt fólk er byrjað að fylgj­ast með póli­tík en þegar ég var í mennta­skóla voru allir að kjósa það sem mamma og pabbi voru að kjósa. Ég var kannski með þeim fyrstu að brjót­ast út úr þeim hring.“

Skrif­aði fyrstu þings­á­lykt­un­ar­til­lög­una eftir Twitt­er-­færslu

Að loknu stúd­ents­prófi lá leið Lenyu í lög­fræði í Háskóla Íslands. Þar tók hún þátt í í stúd­entapóli­tík­inni sem leiddi hana inn í starf Pírata. Lenya var odd­viti í Stúd­enta­ráði þegar heild­ar­end­ur­skoðun á Lána­sjóði íslenskra náms­manna fór fram. „Sem odd­viti er maður að leiða sína fylk­ingu í gegnum stúd­enta­ráð og þar vakn­aði alvöru áhugi minn. Ég hugs­aði:

Ég get gert þetta. Ef ég er að stunda stúdentapólitíkina svona ótrúlega vel þá get ég kannski líka meikað það í stjórnmálum.

Segja má að stjórn­mála­fer­ill­inn hafi einnig haf­ist á Twitter en sum­arið 2020 birti Lenya ákall til þing­manna í utan­rík­is­mála­nefnd vegna inn­rásar Tyrk­lands í Kúr­dist­an. Smári McCart­hy, þing­maður Pírata, svar­aði kall­inu. „Hann bauð mér á fund með sér þar sem við ræddum hvað er hægt að gera og hann gaf mér verk­efni: Að skrifa þings­á­lykt­un­ar­til­lög­u.“ Sem Lenya og gerði og Smári flutti á þing­inu. Lenya ákvað í kjöl­farið að bjóða sig fram í próf­kjöri Pírata fyrir alþing­is­kosn­ing­arnar haustið 2021. „Ég sagði bara „fokk it“, hvað er það versta sem getur ger­st? Ég verð alla­vega ein­hvers staðar á list­anum og get tekið þátt í gras­rót­ar­starf­inu og haft ein­hver áhrif og hvatt fleira ungt fólk til að taka þátt.“

Úrslit próf­kjörs­ins komu Lenyu á óvart en nið­ur­staðan varð sú að Lenya skip­aði 3. sæti á lista flokks­ins í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norð­ur. „Ég var glæný í Píröt­um, ég hélt að ég ætti eng­ann séns. Ég ákvað að vera ein­læg á kynn­ing­ar­kvöld­inu. Ég er ung og veit hvað ungt fólk vill. Svo tal­aði ég mikið um fjöl­breyti­leik­ann á þingi, akkúrat núna end­ur­speglar Alþingi ekki fjöl­breyti­leika þjóð­ar­inn­ar.“

Sárt að detta út af þingi en óvissan verst

Lenya lýsir kosn­inga­bar­átt­unni sem skraut­legri en lær­dóms­ríkri. Kjör­dagur rann upp, 25. sept­em­ber, og kosn­inga­nóttin var æsispenn­andi. Um tíma var útlit fyrir að Lenya yrði upp­­­bót­­ar­­þing­­maður Pírata í Reykja­vík og þá um leið sú yngsta til að ná kjöri til Alþingis frá upp­­hafi, en eftir að atkvæði voru talin á ný í Norð­vest­­ur­­kjör­­dæmi varð það ekki raun­in. Hún bjóst aldrei við að kom­ast inn á þing og lýsir kosn­inga­nótt­inni og vik­unum þar á eftir sem ein­hvers konar hringekju.

Þegar Lenya fór að sofa um kosn­inga­nótt­ina var hún ekki þing­maður en ansi nálægt því. Snemma um morg­un­inn var hún orðin þing­mað­ur. „Þegar ég vakn­aði fóru skila­boðin að hrúg­ast inn og „mis­sed calls“ frá alls konar fjöl­miðlum og fólki sem vildi óska mér til ham­ingju. Það tók mig svona 20 mín­útur að með­taka að ég hafi kom­ist inn og slegið met. Og að ég hafi velt Brynj­ari Níels­syni úr sessi, því­lík skipti. Ég var í rosa­lega miklu spennu­fall­i.“

Lenya Rún Taha Karim bauð sig fram í prófkjöri Pírata fyrir alþingiskosningarnar haustið 2021. „Ég sagði bara „fokk it“, hvað er það versta sem getur gerst? Ég verð allavega einhvers staðar á listanum og get tekið þátt í grasrótarstarfinu og haft einhver áhrif og hvatt fleira ungt fólk til að taka þátt.“
Mynd: Bára Huld Beck

Fréttir um að í fyrsta skipti skip­uðu konur meiri­hluta á Alþingi voru birt­ar, bæði í inn­lendum og erlendum miðl­um. Erlendir fjöl­miðlar höfðu sam­band við Lenyu og for­seti Írak hafði einnig áhuga á að ræða við hana um kosn­inga­úr­slit­in. „Ég var skjálf­andi allan dag­inn.“ Á fyrsta þing­flokks­fundi síðar um dag­inn bár­ust svo þær fregnir að end­ur­taln­ing yrði í Norð­vest­ur­kjör­dæmi. Frétt­irnar breyttu öllu.

„Ég kláraði þennan fund og fór og var eig­in­lega bara að bíða eftir alvöru úrslit­un­um. Ég náði ekki einu sinni að með­taka að kom­ast inn á þing. Svo dett ég út. Auð­vitað var það sárt, en svona er þetta. Kjör­bréfa­nefnd komst að þeirri nið­ur­stöðu sem hún komst að, en það þýðir ekki að hún hafi verið lýð­ræð­is­leg­ust eða rétt­ust. Þetta var eig­in­lega bara versta nið­ur­stað­an. Svo var alltaf smá von í mér. Ég var í þess­ari hringekju í tvo mán­uð­i,“ segir Lenya.

Í stað þess að taka sæti á þingi reyndi Lenya að ein­beita sér aftur að lög­fræð­inni. Alþingi stað­festi nið­ur­stöðu kjör­bréfa­nefnd­ar, að láta end­ur­taln­ingu í Norð­vest­ur­kjör­dæmi gilda, viku fyrir fyrsta loka­próf­ið. „Þannig mér gekk ekki vel í jóla­próf­un­um. Ekki bara af því að ég datt út af þingi. Þessi óvissa, hún fór gjör­sam­lega með mig. Hún var hræði­leg. Það var ekki bara ég sem var að halda í von­ina. Það var fólk að hvetja mig áfram og segja mér að gera hitt og þetta, kæra þetta svona eða hinsegin og fara með til mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu. Svo end­aði þetta eins og þetta end­aði. En þarna kvikn­aði áhugi minn á kosn­ingum almennt.“

Varð vör við hat­urs­orð­ræðu dag­inn sem hún tók sæti á þingi

Þingið var hins vegar ekki búið að vera lengi starf­andi þegar Lenya var fyrst kölluð inn sem vara­þing­maður milli jóla- og nýárs. Sama dag tók Gunn­hildur Fríða Hall­gríms­dóttir einnig sæti á Alþingi fyrir Pírata og er hún fyrsta mann­eskjan sem fædd er eftir alda­mót til að taka sæti á þingi. Lenya birta mynd af þeim á Twitter og í annarri færslu minnt­ist hún á „gellu takeover á Alþing­i“. Við­brögðin létu ekki á sér standa, flest jákvæð, en sum á nei­kvæð. En þetta var ein­ungis for­smekk­ur­inn. Lenya fór að taka eftir hat­urs­fullum ummælum um hana í kommenta­kerf­um, sem flest sner­ust að upp­runa hennar en einnig um aldur henn­ar, klæða­burð og kyn.

„Þegar við vorum inni á þingi tók ég þetta ekki það mikið til mín. Okkar hugsun var að við erum hluti af nýrri kyn­slóð og við erum að fara að vera inni á þingi, hvort sem að fólk tekur því vel eða ekki. Það er komið að okkur að taka við kefl­inu. En eftir á þá hefur þetta fylgt manni. Fólk í kommenta­kerf­inu vísar í okkur sem krakka og mig sem ísla­mista. Þetta vakti tölu­verð við­brögð en ein­hvers staðar þarf maður að hætta að taka mark á þessu fólki. Ég tók líka eftir stuðn­ingnum sem við vorum að fá, hann var svo miklu, miklu meiri en hat­r­ið. Það er það sem heldur manni gang­andi í póli­tík, í svona erf­iðu starfs­um­hverfi og sviðs­ljós­inu. Því meira áber­andi sem þú verð­ur, því fleiri stuðn­ings­menn færðu. En aftur á móti færðu líka fleiri gagn­rýnend­ur. Þú þarft að vega og meta hvenær þú tekur mark á þeim og hvenær ekki.“

Lenyu fóru að ber­ast mörg skila­boð, mörg hver mjög gróf. Hún ákvað bregð­ast við með því að birta hluta þeirra á Twitt­er. Við­brögðin létu ekki á sér standa og dreifð­ust víða, meðal ann­ars á TikT­ok. „Fólk var byrjað að fylgj­ast með, þetta er fólk í grunn­skóla að fylgj­ast með Alþingi. Það er ekki sjálf­sagt og gaf mér von um það að kannski í næstu kosn­ingum er ein­hver sem slær þetta ald­urs­met. Ekki að það skipti öllu máli en eina leiðin til þess að breyta umhverf­inu hér á Íslandi er að leyfa unga fólk­inu að taka þátt og þetta kannski veitti þeim ein­hverja hvatn­ing­u.“

Lenya hefur fjórum sinnum tekið sæti á þingi sem vara­maður á yfir­stand­andi þingi og í hvert sinn sem hún tekur sæti ber­ast henni hat­urs­full skila­boð þar sem hún verður fyrir aðkasti vegna upp­runa síns.

„Þetta hrúg­ast inn alltaf þegar ég er í frétt­um. Fyrst um sinn þá leiddi ég þetta hjá mér. Ég opn­aði umræð­una og allt það en þetta skar mig ekki of djúpt. En svo varð þetta svo ótrú­lega mik­ið. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa til­finn­ing­unni, ég fann sjálfa mig vera að leka nið­ur, ég gat ekki meir.“

Íhug­aði alvar­lega að skila inn kjör­bréf­inu

Lenya óskaði eftir fundi með þing­flokki Pírata eftir fyrstu reynslu sína sem vara­þing­maður í des­em­ber. „Ég bað þau um hjálp. Ég var aldrei að segja neinum frá þessu, hvar ég var að finna þessi komment og hvað þetta var í miklum mæli. Ég sagði þeim frá þessu og sagði að ég væri alvar­lega að íhuga að skila inn kjör­bréf­inu mínu og segja af mér sem vara­þing­mað­ur. Þetta var orðið það mik­ið. Það eru ennþá færslur sem ég vil ekki sýna fólk­inu í kringum mig af því að ég skamm­ast mín.“

Ég veit alveg að skömmin er ekki mín en þegar einhver smánar þig á opinberum vettvangi þá auðvitað finnur maður fyrir skömm.

Færslan sem gerði úts­lagið og varð til þess að Lenya íhug­aði alvar­lega að segja skilið við þingið fyrir fullt og allt birt­ist á Face­book-hópnum „Stjórn­mála­spjall­ið“. Færslan er ein af þeim sem Lenya hefur ekki birt opin­ber­lega en segir hún tíma­bært að skila skömminni. Færslan er löng og í henni spyr höf­undur færsl­unnar hvort Lenya sé „jafn­mik­ill Íslend­ingur og allir aðr­ir?“ Færsl­una í heild sinni má sjá hér að neð­an.

Færslan sem varð til þess að Lenya gat ekki meir og íhugaði alvarlega að segja af sér varaþingmennsku.
Skjáskot/Facebook

Í kjöl­far fund­ar­ins í jan­úar sendi þing­flokkur Pírata frá sér yfir­lýs­ingu þar sem hatur og ras­ismi sem Lenya hefur orðið fyrir frá því hún hóf feril sinn í stjórn­málum er for­dæmt.

„Ég kunni auð­vitað að meta stuðn­ing­inn, en þetta hætti ekk­ert. Í hvert ein­asta sinn sem ég er í fréttum þá koma inn þessi komment. Ég vildi svo inni­lega að þau væru að gagn­rýna áherslur mínar eða hvernig ég tala á þingi. En þetta er alltaf húð­lit­ur­inn minn, upp­runi minn, kyn­þátt­ur­inn minn, múslim­isti eða ísla­misti eða hvað sem er, sem ég er ekki einu sinni, ég er ekki múslimi, ég ólst vissu­lega upp við það en ég iðka ekki íslam í dag,“ segir Lenya, sem seg­ist fyrst núna vera að átta sig á að það skiptir ekki máli hvað hún segi eða geri.

Það mun alltaf vera fólk þarna úti sem að hatar mig út af uppruna mínum.

„Þau hafa ekk­ert annað til að setja út á því ég hef ekk­ert gert af mér. Ég held að ég tali alltaf með mál­efna­legum og yfir­veg­uðum hætti, það er ekki mikið til að setja út á. Ég held að fólk sé ekki vant því að sjá brúna mann­eskju vera áber­andi í íslensku sam­fé­lagi og auð­vitað kemur það fólki á óvart, sér­stak­lega þar sem við búum á svona litlu landi eins og Íslandi, en þau þurfa bara að venj­ast þessu því ég get lofað þér því að ég er ekki að fara að vera eina mann­eskjan af erlendum upp­runa í næstu kosn­ing­um.“

En er hægt að upp­ræta ras­isma á Íslandi?

„Ég held að það þurfi mikið sam­starf milli alls konar hópa. Þetta þarf að byrja á Alþingi með laga­breyt­ingu á hat­urs­orð­ræðu, eitt­hvað sem hefur verið að hrjá, ekki bara mig, heldur alls konar bar­áttu­hópa og fólk á net­in­u,“ segir Lenya. Auk þess þurfa fjöl­miðl­ar, að hennar mati, að end­ur­skoða athuga­semda­kerfi og taka aukna ábyrgð á þeim. „Þar kemur mesti við­bjóð­ur­inn fram, þetta eru ekki bara skila­boð sem ég fæ, þetta er aðal­lega í kommenta­kerfum þar sem fólk leyfir sér að tjá sig með þessum hætt­i.“

Og þar er þetta sýni­legt öll­um. „Það er nefni­lega mál­ið. Þess vegna skamm­ast ég mín svona mik­ið. Ef ég sé þetta, hverjir fleiri sjá þetta? Mig langar stundum að svara, en það er kannski illa séð. Venjan er ekki að þing­menn fari í kommenta­kerfin og svari fyrir sig. Ég opin­ber­aði sumt og ég vel vand­lega, ég opin­bera aldrei mesta við­bjóð­inn því ég skamm­ast mín alltaf mest fyrir hann. En þetta er eitt­hvað skref.“

„En ég ætti ekki að þurfa að gera þetta. Ef kommenta­kerf­unum verður lokað eða þeim rit­stýrt þá yrði þetta kannski ekki svona mikið mál, ef að fólk gæti kært fyrir hat­urs­orð­ræðu og raun­veru­lega trúað því að málið gæti farið í gegn og sett for­dæmi, þá myndi ég trúa því meira að ég gæti leitt þetta hjá mér.“

Lenya kallar eftir heild­ar­skoðun á lög­gjöf um hat­urs­orð­ræðu og að fjöl­miðlar taki það virki­lega til skoð­unar að end­ur­skoða athuga­semda­kerfi sín. „Ég hef alveg sagt að mig langi að halda áfram inni á þingi. En ef hat­rið er svona ótrú­lega mikið þegar ég er bara vara­þing­mað­ur, hvernig verður þetta þegar ég verð þing­mað­ur?“

Hræð­ist for­dæmið sem Sig­urður Ingi setur með afsök­un­ar­beiðn­inni

Ras­ismi hefur verið til umfjöll­unar í sam­fé­lag­inu upp á síðkastið eftir að Sig­urður Ingi Jóhanns­son, inn­við­a­ráð­herra og for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, lét rasísk ummæli falla um Vig­­dísi Häsler, fram­­­­kvæmda­­­­stjóra Bænda­­­­sam­­­­taka Íslands, á mót­töku sem Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hélt í til­efni af Bún­að­ar­þingi bænda­sam­tak­anna. Vig­dís vildi fá for­yst­u­­fólk úr Fram­­sókn­­ar­­flokknum til að taka mynd með sér þar sem hún „plank­aði“ á meðan að það hélt á henni á Sig­­urður Ingi að vísað til Vig­­dísar sem „hinnar svört­u“.

Sig­urður Ingi baðst afsök­unar og fund­aði nokkrum dögum síðar með Vig­­dísi sem birti í kjöl­farið færslu á Face­­book í fram­hald­inu þar sem hún sagði að þau hefðu átt „hrein­skil­ið, heið­­ar­­legt og opið sam­tal“. Sagð­ist Vig­­­dís hafa með­­­tekið af­­­sök­un­­­ar­beiðni Sig­­­urðar Inga og að hún hefði upp­­­lifað hana sem ein­læga. Mál­inu væri lokið af henn­ar hálfu. Því er þó ekki alveg lokið þar sem Sig­urður Ingi hefur verið kærður fyrir brot á siða­reglum Alþingis.

Lenya fylgd­ist með mál­inu frá upp­hafi. „Þegar þetta var stað­fest hellt­ist yfir mig sorg og reiði. Ég hef fengið svona komment og jafn­vel verri. Það að heyra ráð­herra tala með þessum hætti, ég var rosa­leg hrædd um for­dæmið sem hann var að setja. Ég hef fengið afsök­un­ar­beiðni í skila­boðum frá fólki sem hefur tjáð sig á hátt þar sem það er að ger­ast brot­leg við lög. Afsök­un­ar­beiðni bætir ekki alltaf allt, ekki þegar þú lætur svona orð falla.“

Nokkrum klukku­stundum eftir að Sig­urður Ingi baðst afsök­unar á rasískum ummælum sínum fékk Lenya skila­boð frá ein­stak­lingi sem hafði sent henni rasísk skila­boð fyrir ein­hverju síð­an. Lenya er ekki búin að svara afsök­un­ar­beiðn­inni og hyggst ekki gera það.

Lenya segir til­hugs­un­ina um að sitja í þing­sal með Sig­urði Inga í raun ógn­vekj­andi. „Þetta sló mig rosa­lega mik­ið, ég sit í þing­sal og hann er þarna stund­um. Þetta er mann­eskja sem ég hef sagt hæ við og hef átt í ein­hvers konar sam­skiptum við. Ég varð eig­in­lega bara svo­lítið hrædd því ráð­herrar hafa mikil áhrif í íslensku sam­fé­lagi, fólk lítur upp til þeirra, auð­vit­að.“

Rík­is­stjórnin ber ábyrgð að mati Lenyu og hún kallar eftir frek­ari við­brögðum frá henni. „Mér finnst að við ættum að færa ábyrgð­ina þar sem hún á heima, til Katrínar Jak­obs­dótt­ur, Sig­urðar Inga og Fram­sókn­ar­flokks­ins. Þau eiga virki­lega að taka þetta mál til athug­unar og umræðu á sínum vett­vangi. Þau þurfa að spyrja sig: Hvers konar skila­boð erum við að senda út til sam­fé­lags­ins og kjós­enda ef við leyfum þessu að við­gang­ast án nokk­urra afleið­inga? Þetta er líka umræða sem hefur verið í gangi lengi. Ég hef verið virk í þeirri umræðu og fólkið sem ég reyni að ná til er einmitt ráð­herra, ég hef talað um hat­urs­orð­ræðu í þing­sal og ég trúi ekki að þetta hafi ekki náð til eyrna ráð­herra.“

Fimmtán pró­sent þjóð­ar­innar eru inn­flytj­endur og Lenya spyr hvort inn­við­a­ráð­herra njóti trausts þeirra? „Ég bara veit það ekki. Ef ráð­herra finnur fyrir því að hann nýtur ekki trausts kjós­enda sinna lengur þá ber honum skylda til að segja af sér, við bara búum ekki í þannig umhverfi núna. Ég hef reynt að opna á þetta sam­tal inni á þingi en mér líður samt eins og eng­inn sé að hlusta, það er það versta.“

Vill ryðja braut­ina fyrir fólk af erlendum upp­runa eða öðrum kyn­þætti

Lenya er ekki viss um að hún muni þola áreit­ið, per­són­u­árás­irn­ar, ras­is­mann og hat­urs­orð­ræð­una. „En mér finnst ég líka bera ábyrgð, mig langar að setja gott for­dæmi og ryðja veg­inn fyrir kom­andi kyn­slóðir sem eru einmitt af erlendum upp­runa eða öðrum kyn­þætti, til þess að geta tekið þátt í póli­tík. Við erum í alvör­unni mjög fjöl­breytt sam­fé­lag. Alþingi end­ur­speglar það ekki. Von­andi er ég að hvetja fleira fólk til að bjóða sig fram og ef að ég þarf að þola þennan skít þannig að annað fólk þurfi ekki að þola það jafn mikið og ég skal ég glað­lega gera það.“

En einhvern tímann fær maður nóg og ég veit ekki hvenær það verður.
„Vonandi er ég að hvetja fleira fólk til að bjóða sig fram og ef að ég þarf að þola þennan skít þannig að annað fólk þurfi ekki að þola það jafn mikið og ég skal ég glaðlega gera það.“
Mynd: Bára Huld Beck

Þegar stjórn­mála­á­hugi Lenyu kvikn­aði af alvöru á ung­lings­ár­unum sá hún samt ekki fram á feril sem stjórn­mála­mað­ur. Hún ákvað að fara í lög­fræði en stjórn­mála­á­hug­inn var enn til staðar og rík­ari en áður. „Þetta er svo góður grunnur og í lög­mennsk­unni er hægt að láta gott af sér leiða. En það var ekki pláss fyrir mann­eskju eins og mig. Ég var ekki með neina fyr­ir­mynd,“ segir Lenya.

Í dag er óhætt að full­yrða að Lenya sé orðin fyr­ir­mynd fyrir kom­andi kyn­slóð­ir. „Ég vona það, ég hef alla­vega fengið að heyra það. Ef að það sem ég er að gera akkúrat núna hvetur fleira fólk til að bjóða sig fram, sér­stak­lega unga fólk­ið. Hefur maður það í sér að hætta? Ég veit það ekki, ég held ekki.“

Þing­vet­ur­inn hingað til hefur verið við­burða­ríkur og þrátt fyrir hatur og mót­læti sem Lenya hefur fundið fyrir langar hana að halda áfram.

„En ég veit ekki hvað getur gerst á þremur árum, ef rík­is­stjórnin end­ist það lengi. Ég er líka á svo full­komnum aldri til að prófa mig áfram, bæði í þing­mennsku og lög­mennsku. Akkúrat núna er svo mikið búið að vera í gangi að mig langar ennþá meira að breyta hlut­um. Og ég held að á næsta kjör­tíma­bili verði fólk raun­veru­lega til í breyt­ingar og vilji kannski nýja rík­is­stjórn. Þá auð­vitað vill maður vera hluti af því og hjálpa til við að bæta Ísland.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnErla María Markúsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal