Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sigurður Ingi á flótta undan rasískum ummælum sex árum eftir að hann varð forsætisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson er í vandræðum. Hann lét rasísk ummæli falla í síðustu viku, hefur beðist afsökunar á þeim en vill ekki ræða þau við fjölmiðla né þingheim. Kallað er eftir afsögn hans og stjórnarandstaðan segir hann hafa brotið siðareglur, jafnvel lög.

Í dag, 6. apr­íl, eru nákvæm­lega sex ár síðan að greint var frá því að Sig­urður Ingi Jóhanns­son, þá vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, yrði næsti for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar. Fátt hafði bent til þeirrar atburða­rásar nokkrum dögum áður. 

Hinn 3. apríl 2016 var hins vegar sýndur sér­stakur Kast­­ljós­þáttur þar sem greint var frá eign­­ar­haldi Sig­­mundar Dav­­íðs Gunn­laugs­­son­­ar, þá for­­sæt­is­ráð­herra, á aflands­­fé­lag­inu Wintr­is. Í félag­inu voru geymdar millj­­arða­­eignir og opin­berað var að Wintris væri kröf­u­hafi í bú bank­anna. Síðar var greint frá því að Wintris hefði ekki greitt skatta í sam­ræmi við íslensk lög og reglur

Við­­tal við Sig­­mund Dav­­íð, sem hann gekk út úr, varð heims­frétt. Dag­inn eftir þátt­inn fóru fram fjöl­­menn­­ustu mót­­mæli Íslands­­­sög­unnar þar sem afsagna og nýrra kosn­­inga var kraf­ist. Sig­­mundur Davíð sagði af sér sem for­­sæt­is­ráð­herra 5. apríl 2016, ný rík­­is­­stjórn mynduð og kosn­ingum lofað þá um haust­ið. 

Sig­urður Ingi var ekki aug­ljós kandídat sem leið­togi í íslenskum stjórn­mál­um. Hann var fyrst kos­inn á þing árið 2009, varð vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins árið 2013 og fyrst ráð­herra þegar rík­is­stjórn þess flokks og Sjálf­stæð­is­flokks var mynduð eftir vor­kosn­ingar 2013, undir for­sæti Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar. Hann var, til að byrja með, bæði sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra og umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra, en sleppti síð­ara ráðu­neyt­inu til Sig­rúnar Magn­ús­dóttir í lok árs 2014. 

Skömmu eftir að Sig­urður Ingi tók við völdum lét hann frá sér stór­yrtar yfir­lýs­ing­ar. Á meðal þeirra var sú að það væri mik­il­vægt að umhverf­is­mál væru ekki and­stæða atvinnu­mála og að hann ætl­aði að skoða hvort umhverf­is­ráðu­neytið væri ekki ein­fald­lega óþarft. Hægt væri að færa mála­flokka þess inn í önnur ráðu­neyti. Katrín Jak­obs­dótt­ir, nú for­sæt­is­ráð­herra, sagði á þeim tíma að til­laga Sig­urðar Inga væri „tíma­skekkja“. Í nær­mynd af Sig­urði Inga sem birt­ist í DV í júní 2013, undir fyr­ir­sögn­inni „Hann er gam­al­dags þurs“, var haft eftir ónafn­greindum aðila úr heimi stjórn­mál­anna að hann væri að „byrja lang­verst allra ráð­herr­anna í rík­is­stjórn­inni. Hann er búinn að valda rík­is­stjórn­inni miklu tjóni og hefur orðið þess vald­andi að það er byrjuð að mynd­ast andúð á rík­is­stjórn­inni í gras­rót­ar­hreyf­ingum og alls ekki bara flokkspóli­tísk. Hann virð­ist ekki höndla þetta nýja hlut­verk vel og segir ítrekað ranga hlut­i.“

Klúð­urs­legt kvóta­frum­varp

Sam­kvæmt stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Sig­mundar Dav­íðs átti að gera breyt­ingar á stjórn fisk­veiða á kjör­tíma­bil­inu sem hófst árið 2013. Vinna átti með til­­lögu sátta­­nefnd­­ar­innar svoköll­uðu sem starf­aði kjör­­tíma­bilið á und­an, þar sem lagt var til að samn­ings­bundin rétt­indi um nýt­ingu afla­heim­ilda taki við af var­an­­legri úthlut­un.

Sig­urði Inga gekk hins vegar brös­ug­lega að koma frum­varpi um breyt­ingar á fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu vegna ágrein­ings milli stjórn­ar­flokk­anna tveggja um hver ætti að fara með for­ræði yfir fisk­veiði­kvót­an­um. 

Sigurður Ingi var ráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar en naut ekki mikilla vinsælda.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Árið 2014 sagð­ist hann ætla að leggja fram frum­varp sem fæli í sér að gerðir yrðu nýt­inga­samn­ingar til 23 ára við þáver­andi hand­hafa afla­heim­ilda. Það frum­varp komst ekki í gegnum Sjálf­stæð­is­flokk­inn sem vildi ekki að ríkið eign­að­ist veiði­heim­ild­irnar á end­an­um. Stjórn­ar­and­stöð­unni á þeim tíma fannst að sama skapi útgerð­unum vera gefin allt of langur tími.

Á end­anum var frum­varpið ekki lagt fram eftir að hafa verið í vinnslu í á annað ár.

„Tals­vert flókið að eiga pen­inga á Ísland­i“

Þegar komið var fram í mars 2016 var staða Sig­urðar Inga í íslenskri póli­tík nokkuð veik. Fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins, sem hafði verið sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna 2013, hafði rúm­lega helm­ing­ast og mæld­ist um tólf pró­sent. Rík­is­stjórnin var gríð­ar­lega óvin­sæl, ein­ungis 35,9 pró­sent lands­manna treystu henn­i. 

Í mjög óvin­sælli rík­is­stjórn var Sig­urður Ingi einn óvin­sæl­asti ráð­herr­ann. Í könnun sem gerð var fyrir Frétta­blað­ið, Stöð 2 og Vísi í mars 2016 sögð­ust ein­ungis þrjú pró­sent aðspurðra treysta hon­um.  

Á þessum tíma var komið fram að eitt­hvað stórt myndi opin­ber­ast varð­andi aflandseignir Íslend­inga í þætti Kast­ljóss sem sýndur var 3. apríl 2016 og byggði á Panama­skjöl­un­um. Nokkrum dögum áður en að hann var sýndur var tekið við­­tal við Sig­­urð Inga. Þar varði hann aflands­fé­laga­eign ríkra Íslend­inga og sagði að það væri „auð­vitað tals­vert flókið að eiga pen­inga á Ísland­i“. Þegar hann var spurður að því hvort í lagi væri að eiga pen­inga á Tortóla svar­aði hann því til að „ein­hvers staðar verða pen­ing­­arnir að ver­a.“

Hösk­uldur kynnir óvart nýja rík­is­stjórn

Opin­berun Panama­skjal­anna, stærstu mót­mæli Íslands­sög­unnar og afsögn Sig­mundar Dav­íðs sem for­sæt­is­ráð­herra settu fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins niður í 6,9 pró­sent. 

Það var því ekki við sér­stak­lega eft­ir­sókn­ar­verðar aðstæður sem Sig­urður Ingi tók við leið­toga­hlut­verk­inu í rík­is­stjórn. Það var við­eig­andi á end­anum að hann fékk ekki einu sinni að til­kynna það sjálf­ur. Hösk­uldur Þór­halls­son, þáver­andi sam­flokks­maður Sig­urðar Inga, gerði það óvart skömmu áður en Sig­urður Ingi og Bjarni Bene­dikts­son ætl­uðu að gera það, hald­andi að þeir væru þegar búnir að ræða við frétta­menn. Fyrir vikið varð til nýyrðið Hösk­uld­ar­við­vörun (ís­lenskum á enska hug­tak­inu spoiler alert) sem er notað til að vara fólk við að ljóstra eigi upp ein­hverju sem ger­ist t.d. í sjón­varps­þætti sem við­kom­andi hefur ekki séð.

Sú breyt­ing var einnig gerð á rík­is­stjórn­inni á sama tíma að Lilja Alfreðs­dóttir var gerð að utan­þings­ráð­herra, og hófst þá form­leg stjórn­mála­þátt­taka henn­ar.

Stjórn sem byrj­aði í líf­róðri

Eng­inn sem horfði á Sig­urð Inga og Bjarna koma niður tröpp­urnar í Alþing­is­hús­inu, og mæta her­skara inn­lendra og erlendra blaða­manna, hefur upp­lifað að Sig­urði Inga liði vel í nýja hlut­verk­inu. Hann var flótta­legur og gat illa svarað spurn­ingum á meðan að Bjarni brást með reiði og árás­ar­girni við þeim spurn­ingum sem hann fékk. Ljóst var öllum sem á horfðu að nýja rík­is­stjórnin myndi róa líf­róður næstu daga. 

Sigurður Ingi og Bjarni þegar ný ríkisstjórn var opinberuð í kjölfar þess að Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Allt stefndi í djúpa stjórn­málakreppu og hið djúpa sár sem var á þjóð­arsál­inni eftir banka­hrunið hafði rifnað upp á gátt á ný. En rík­is­stjórnin náði að tóra þessa fyrstu daga. Og í júní, byrj­aði Evr­ópu­meist­ara­mótið í knatt­spyrnu þar sem íslenska karla­lands­liðið tók þátt í loka­móti í fyrsta sinn. Og vann að margra mati mótið án þess að vinna það í eig­in­legri merk­ing­u. 

Frammi­staða lands­liðs­ins, og athyglin sem hún fékk, bjarg­aði rík­is­stjórn­inni. Þjóðin ein­fald­lega kaus að gleyma henni stund­ar­korn. Það sást ágæt­lega þegar Sig­urður Ingi flutti sína einu þjóð­há­tíð­ar­ræðu sem for­sæt­is­ráð­herra þann 17. júní þetta ár, víg­girtur frá fólk­inu sem hann átti að þjóna. 

Sam­herjar urðu and­stæð­ingar

Hug­myndin var alltaf sú að Sig­urður Ingi myndi halda stólnum heitum fyrir Sig­mund Davíð þangað til að hægj­ast færi um. Hann neit­aði því ítrekað að ætla að bjóða sig fram gegn hinum umdeilda for­manni á flokks­þingi sem til stóð að halda í aðdrag­anda kosn­inga haustið 2016. Það breytt­ist þó eftir mið­stjórn­ar­fund á Akur­eyri þann 10. sept­em­ber, þar sem Sig­mundur Davíð flutti rúm­­lega klukku­­tíma langa ræðu studdur glærum með sterku mynd­­máli þar sem hann fór yfir stöðu stjórn­­­mála, árangur sinn og það sem hann telur vera þaul­­­skipu­lagða aðför að sér. Þátt­tak­endur í þeirri meintu aðför eru stórir leik­endur í alþjóða­fjár­­­mála­­kerf­inu og fjöl­miðlar víða um heim.

Sig­­urður Ingi hélt líka þar ræðu þar sem hann greindi frá því að hann treysti sér ekki til að starfa áfram sem vara­­for­­maður flokks­ins eftir kom­andi flokks­­þing vegna sam­­skipta­örð­ug­­leika í for­ystu Fram­­sókn­­ar­­flokks­ins.

Átta dögum fyrir flokks­þingið til­kynnti Sig­urður Ingi að hann myndi bjóða sig fram til for­manns og vann á end­anum með 370 atkvæðum gegn 329 atkvæðum Sig­mundar Dav­íðs. Þessi atburður var upp­hafið að enda­lokum Sig­mundar Dav­íðs í Fram­sókn, en ári síðar klauf hann sig fá og stofn­aði Mið­flokk­inn.

Flokksþing Framsóknarflokksins 2016 var hádramatískt. Sigmundur Davíð gekk út úr salnum eftir að ljóst var að Sigurður hafði sigrað í formannskjöri.
Mynd: Samsett

Fram­sókn beið afhroð í kosn­ing­unum sem fylgdu á eftir og var póli­tískt geisla­virk­ur. Það vildi eng­inn flokkur ann­ars en Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mynda með honum rík­is­stjórn vegna þess sem á undan hafði geng­ið. 

Mýkri ásýnd og varð stjórn­tækur að nýju

Ári síðar var kosið aftur og nú var Sig­urður Ingi búinn að mýkja ímynd flokks­ins nægj­an­lega. Eftir kosn­ing­arnar 2017 var mynduð for­dæma­laus rík­is­stjórn íhalds­samra flokka þvert yfir hið póli­tíska lit­róf og Sig­urður Ingi varð sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra. 

Rík­is­stjórnin náði þeim árangri að vera sú fyrsta sem sat heilt kjör­tíma­bil sem meiri­hluta­stjórn frá árinu 2007 og eftir valda­setu sem ein­kennd­ist að stóru leyti af bar­áttu við kór­ónu­veiru­far­aldur á flestum víg­stöðvum þá héldu stjórn­ar­flokk­arnir velli, og bættu meira að segja sam­eig­in­lega við sig fylgi. Í könnun sem gerð var skömmu fyrir kosn­ingar var Sig­urður Ingi annar af tveimur leið­togum stjórn­mála­flokka sem fleiri lands­menn sögð­ust bera traust til en van­treysta. Hinn var Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð eftir kosningarnar haustið 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Afslöppuð og loðin kosn­inga­taktík Fram­sókn­ar­flokks­ins, sem var rekin með yfir­skrift­inni „Er ekki bara best að kjósa Fram­sókn?“, sem lagði áherslu á þá öfga- og áreynslu­lausu mála­miðlun að flokk­ur­inn væri milli­vegur milli and­stæðra fylk­inga í sam­fé­lag­inu, skot­gekk. Fram­sókn bætti við sig fimm þing­mönn­um, fékk næstum 18 pró­sent atkvæða og varð næst stærsti flokkur lands­ins að nýju. Á sama tíma töp­uðu hinir stjórn­ar­flokk­arnir báðir fylgi frá kosn­ing­unum á und­an.

Eftir að rík­is­stjórnin end­ur­nýj­aði sam­starfið sitt fékk Fram­sókn einn ráð­herra til og Sig­urður Ingi gat farið fram á að búið yrði til ofur­ráðu­neyti utan um sig, svo­kallað inn­við­a­ráðu­neyt­i. 

Sig­urður Ingi var kom­inn langan veg frá því þegar hann stóð, sveittur og óör­ugg­ur, í tröppum Alþing­is­húss­ins sem einn óvin­sæl­asti stjórn­mála­maður lands­ins að kynna rík­is­stjórn sem Hösk­uldur Þór­halls­son var þegar búinn að opin­ber­a. 

Besta mæl­ing í átta ár

Fyrstu sex mán­uðir þessa kjör­tíma­bils hafa liðið nokkuð smurt fyrir Fram­sókn­ar­flokk­inn. Í mars birti Gallup könnun sem sýndi fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins í 18,1 pró­senti, því mesta sem flokk­ur­inn hafði mælst með í átta ár.

Nýjasta könnun Gallup sýndi að fylgið hafði ekki hagg­ast sem neinu nem­ur. Og framundan voru sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar þar sem Fram­sókn ætl­aði að nýta með­byr­inn til að ná aftur sterkri stöðu í Reykja­vík undir for­ystu Ein­ars Þor­steins­son­ar, fyrr­ver­andi frétta­manns. Mikil bjart­sýni ríkti í her­búðum flokks­ins sem hef­ur, í gegnum tíð­ina, tek­ist betur en nokkrum öðrum að end­ur­upp­götva sig þegar til­veru hans hefur bein­línis verið ógnað eftir röð póli­tískra axar­skafta sem leitt hafa til ein stafa fylgis í könn­un­um. Fram­sókn kemur alltaf aft­ur, í ein­hverjum nýjum bún­ingi.

Svo hélt flokk­ur­inn sam­kvæmi í tengslum við Bún­að­ar­þing Íslands, og allt einu var hann búinn að grafa sér nýja holu. 

Afdrifa­rík mót­t­taka

Hefð er fyrir því að sumir stjórn­mála­flokkar haldi ein­hvers­konar sam­kvæmi í kringum Bún­að­ar­þing Bænda­sam­taka Íslands og bjóði for­ystu­mönnum þeirra, og öðr­um. Þingið var sett síð­ast­lið­inn fimmtu­dag og í mót­töku sem Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hélt fyrir fund­ar­menn um kvöldið urðu tvö atvik sem áttu eftir að draga dilk á eftir sér. 

Í fyrsta lagi spurði Lilja Alfreðs­dótt­ir, vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, Gunnar Þor­geirs­son, for­mann Bænda­sam­tak­anna: „Gunn­ar, hvað ert þú að gera hér­?“. Þegar Gunnar gerði til­raun til að faðma Lilju stöðv­aði hún þær aðfarir og í sam­tali við Vísi sagð­ist Gunnar hafa túlkað mót­tök­urnar þannig að Lilja hefði verið að vísa honum á dyr. Lilja sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið að hún hefði verið að grín­ast og sem kona í stjórn­málum hefði hún ekki mik­inn áhuga á faðm­lög­um. Gunnar og Lilja hafa deilt á und­an­förnum árum vegna mál­efna Garð­yrkju­skól­ans á Reykj­um, sem Lilja færði undir Land­bún­að­ar­há­skól­ann í tíð sinni sem mennta­mála­ráð­herra.

Atvikið þótti heilt yfir óheppi­legt, en ekki þess eðlis að það muni hafa, að minnsta kosti til skamms tíma, áhrif á stöðu Lilju sem ráð­herra í rík­is­stjórn. Og stjórn­ar­and­staðan hefur látið það ver­a. 

Hitt atvikið var verra, og verður ekki látið ótalið. Þegar Vig­dís Häsler, fram­­­kvæmda­­­stjóri Bænda­­­sam­­­taka Íslands, vildi fá for­ystu­fólk úr Fram­sókn­ar­flokknum til að taka mynd með sér þar sem hún „plank­aði“ á meðan að það hélt á henni á Sig­urður Ingi að vísað til Vig­dísar sem „hinnar svört­u“. 

Algjört bull reynd­ist satt

Umfjöllun um upp­á­kom­una birt­ist fyrst í Orð­inu á göt­unni á Eyj­unni, slúð­ur­vett­vangi sem heyrir undir DV þar sem skrifað er nafn­laust, á sunnu­dag klukkan 15:30. Klukku­tíma og þremur mín­útum síðar birt­ist frétt á vef DV þar sem Ing­veldur Sæmunds­dótt­ir, póli­tískur aðstoð­ar­maður Sig­urðar Inga til margra ára, þvertók fyrir að yfir­maður hennar hefði við­haft rasísk ummæli. „Þetta er algjört bull,“ sagði Ing­veld­ur. Hún hefði verið edrú og staðið við hlið Sig­urðar Inga þegar til stóð að taka umrædda mynd með Vig­dísi. Ing­veldur sagði að Sig­urði Inga hefði ekki lit­ist vel á hug­mynd­ina og sagt að hann vildi ekki halda á Sjálf­stæð­is­manni.

Þessi við­brögð reynd­ust ekki eld­ast vel þegar Vig­dís gaf sjálf út yfir­lýs­ingu á mánu­dag þar sem hún sagði að „afar sær­andi ummæli“ hefðu verið látin falla og að hún hefði heyrt þau, sem og fleira starfs­­­­fólk Bænda­­­­sam­tak­anna. Hún sagði að hún hefði aldrei talið að hún þyrfti að setj­­­­­ast niður og skrifa yfir­­­lýs­ingu af þessu tagi. „Að­­stoð­­ar­­maður ráð­herr­ans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þess­­ari mynda­­töku sýna það án alls vafa. Það er sær­andi þegar reynt er að gera lítið úr upp­­lifun minni og þegar bein­línis rangar skýr­ingar eru not­aðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráð­herr­ann við­hafði í minn garð. Duldir for­­dómar eru gríð­­ar­­legt sam­­fé­lags­mein og grass­era á öllum stigum sam­­fé­lags­ins. Þeir smætta verk ein­stak­l­inga og gjörðir niður í lit eða kyn.“

Aldrei hélt ég að ég þyrfti að setj­ast niður og skrifa svona yfir­lýs­ingu. Ég hef aldrei látið húð­lit, kyn­þátt, kyn­ferð­i...

Posted by Vig­dís Häsler on Monday, April 4, 2022

„Óvið­ur­kvæmi­leg orð“

Sig­urður Ingi og aðstoð­ar­menn hans höfðu ekki svarað fjöl­miðla­fólki allan sunnu­dag og mánu­dag. Eftir yfir­lýs­ingu Vig­dísar brást hann þó við og  birti stöðu­upp­færslu á Face­book, fjórum dögum eftir að ummælin voru látin falla og sóla­hring eftir að fjöl­miðlar fjöll­uðu fyrst um þau. Þar sagð­ist hann hafa tamið sér að koma jafnt fram við alla. „En mér verður á eins og öðr­­­um. Það þykir mér mið­­­ur. Í kvöld­verð­­­ar­­­boði  Fram­­­sóknar fyrir full­­­trúa á Bún­­­að­­­ar­­­þingi síð­­­ast­liðið fimmt­u­­­dags­­­kvöld, lét ég óvið­­­ur­­­kvæmi­­­leg orð falla í garð fram­­­kvæmda­­­stjóra Bænda­­­sam­tak­anna. Á þeim orðum biðst ég inn­­i­­­legrar afsök­un­­­ar. Í líf­inu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lær­­­dómur bitni á til­­­f­inn­ingum ann­­­arra.“ 

Ég er alinn upp við það og það er mín lífs­skoðun að allir séu jafn­ir. Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við...

Posted by Sig­urður Ingi Jóhanns­son on Monday, April 4, 2022

Ing­veld­ur, aðstoð­ar­kona hans sem hafði sagt að atvikið sem Sig­urður Ingi baðst afsök­unar á hefði aldrei átt sér stað, svar­aði fyr­ir­spurn RÚV á þann veg að hún hefði svarað DV að hún hefði verið að „segja frá því sem ég heyrði og varð vitni að og var það ekki borið undir ráð­herra.“

Hafi Sig­urður Ingi haldið að þessi afsök­un­ar­beiðni myndi lægja öld­urn­ar, líkt og Evr­ópu­mótið í knatt­spyrnu gerði fyrir sex árum síð­an, þá mis­reikn­aði hann stöð­una illi­lega. 

Stjórn­ar­and­staðan lét for­sæt­is­ráð­herra svara fyrir ummælin í þing­inu á mánu­dag, sem hún gerði en sýni­lega án mik­illar ánægju. Þar var Katrín meðal ann­ars spurð hvort hún myndi fara fram á afsögn Sig­urðar Inga, en svar­aði þeirri spurn­ingu ekki beint. Þá var á það bent að ummæli for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins væru í and­stöðu við siða­reglur þing­manna og ráð­herra og áreitni í skiln­ingi laga um jafna með­­­ferð óháð kyn­þætti og þjóð­ern­is­­upp­­runa. Því féllu þau undir bann við mis­­munun sam­­kvæmt lög­­­um.

Ung­liða­hreyf­ingar stjórn­ar­and­stöðu­flokka köll­uðu eftir afsögn Sig­urðar Inga. Ung­liða­hreyf­ing Fram­sókn­ar­flokks­ins, sem stundum hefur látið sig póli­tísk hneyksl­is­mál varða, líkt og hún gerði í des­em­ber 2020 þegar Bjarni Bene­dikts­son var grip­inn í sam­kvæmi í Ásmund­ar­sal á meðan að þjóðin sætti sam­komu­tak­mörk­un­um, hefur hins vegar ekki gert það. Að minnsta kosti enn. 

Það getur gerst að „við skítum stundum upp á bak“

Brynja Dan Gunn­ars­dótt­ir, vara­þing­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins sem er ætt­leidd frá Srí Lanka, mætti í Morg­un­út­varp Rásar 2 í gær­morgun til að ræða ummæli Sig­urðar Inga. Hún sagði hann hafa hringt í sig til að ræða málið þar sem hann sagð­ist „fullur iðr­unar og svekkt­astur út í sjálfan sig.“ Sjálft hefði hún ekki orðið fyrir for­dómum í starfi sínu fyrir Fram­sókn, allir væru mann­legir og það gæti gerst að „við skítum stundum upp á bak.“ Þá skipti máli hvernig fólk hreinsi upp eftir sig og bæti sitt ráð.

Rík­is­stjórn­ar­fundur fór fram í gær. Eftir hann sátu frétta­menn ýmissa miðla fyrir ráð­herr­unum og á dag­skrá var ein­ungis eitt mál: ummæli Sig­urðar Inga. 

Ásmundur Einar Daða­son, sam­flokks­maður hans, sagði við mbl.is Sig­urður Ingi hefði „svarað fyrir þetta með sinni yfir­lýs­ingu og því sem þar er og ég tek undir það sem í henni er. Hann sér eftir þessu og sýnir þarna ákveðna mann­lega hlið og við gerum öll mis­tök. Maður sem ekki gerir mis­tök hann hættir að vera mað­ur. Það er bara mann­legt og við höfum rætt þetta og ég ber fullt traust til hans.“ 

Erfitt mál í Sjálf­stæð­is­flokknum

Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra sagð­ist ekki hafa rætt málið við Sig­urð Inga en að hún hafi orðið döpur þegar hún las stöðu­upp­færslu Vig­dísar um mál­ið. Ekki hafi verið til umræðu innan Vinstri grænna að slíta stjórn­ar­sam­starf­inu ef Sig­urður Ingi myndi ekki segja af sér. Í Frétta­blað­inu í morgun sagði hún að þegar ráð­herrar fylgja ekki siða­reglum ráð­herra þurfi „hann að meta stöðu sína, enda ábyrgð á störfum og hátt­semi hjá honum sjálf­um.“

Málið er erfitt fyrir ráða­menn í Sjálf­stæð­is­flokkn­um, þar sem þeir þekkja Vig­dísi per­sónu­lega. Hún var meðal ann­ars aðstoð­ar­maður Jóns Gunn­ars­sonar þegar hann var ráð­herra á árinu 2017 og var starfs­maður þing­flokks Sjálf­stæð­is­flokks­ins um tíma á síð­asta kjör­tíma­bili. Brynjar Níels­son sagði ummælin hafa verið „klúð­urs­leg“, Þór­dís Kol­brún Reyk­dal Gylfa­dóttir utan­rík­is­ráð­herra sagði að Sig­urður Ingi þyrfti að gera upp við sig hvort afsök­un­ar­beiðni hans dygði til og Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, háskóla-, iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráð­herra sagði ummælin vera „al­var­leg“.

Samstarfsflokkar Framsóknar í ríkisstjórninni hafa ekki farið fram á afsögn Sigurðar Inga.
Bára Huld Beck

Bjarni Bene­dikts­son sagði ummælin „dæma sig sjálf og þetta er bara mjög óheppi­legt atvik“. Hann bætti við að það væri alfarið ákvörðun Sig­urðar Inga hvort hann myndi segja af sér. Ég ætla ekki að fara að leggja neitt á mig til að hjálpa til við það.“ Ummælin hafa vakið athygli, meðal ann­ars vegna þess að Sig­urður Ingi tók upp hansk­ann fyrir Bjarna þegar kröfur voru um afsögn hans fyrir að fara í sam­kvæmi í Ásmund­ar­sal í des­em­ber 2020 á sama tíma og harðar sam­komu­tak­mark­anir voru í gildi. Hann sagði við RÚV á annan í jólum það ár að málið hefði ekki áhrif á stjórn­ar­sam­starfið og kall­aði ekki á afsögn Bjarna.

Sam­an­dregið þá er uppi sú staða að eng­inn ráð­herra sam­starfs­flokka Fram­sóknar hafa tekið beint upp hansk­ann fyrir hann og sagt að hann þurfi ekki að segja af sér.

Vildi ekki svara spurn­ingum en fann ekki bíl­inn

Sig­urður Ingi sjálfur neit­aði að svara spurn­ingum frétta­manna fyrir utan ráð­herra­bú­stað­inn og vís­aði í yfir­lýs­ingu sína frá því á mánu­dag. Þess í stað fór hann undan í flæm­ingi, neit­aði að svara hvort hann myndi axla ábyrgð með ein­hverjum hætti en lenti í vand­ræð­um, fann ekki ráð­herra­bíl­inn sinn og fram­lengdi með því afar vand­ræða­legar aðstæð­ur­. Hann mætti svo í beina útsend­ingu í kvöld­fréttum RÚV, neit­aði að end­ur­taka hvað hann hefði sagt, sagð­ist upp­lifa traust innan þings og sæi ekki til­efni til að segja af sér.

Þing­menn stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna ósk­uðu eftir því á þingi í gær að fá að ræða rasísk ummæli Sig­urðar Inga og nokkuð skýrt að þeir munu krefja inn­við­a­ráð­herr­ann skýrra svara á þeim vett­vangi fyrr eða síð­ar. 

Á meðan að Sig­urður Ingi þegir þurfa aðrir ráð­herr­ar, þing­menn og flokks­menn Fram­sóknar að svara fyrir hvort flokk­ur­inn sé rasískur eða ekki. 

Næstu dagar munu ráða því hvort nýjasta end­ur­reisn Fram­sókn­ar, sem hófst fyrir nákvæm­lega sex árum þegar Sig­urður Ingi varð for­sæt­is­ráð­herra, og hefur skilað flokknum á fórnar slóðir í fylgi á meðal þjóð­ar­inn­ar, sé nú búin að ná hápunkti sín­um. Og framundan sé dýfa.

Fyrir ligg­ur, hið minnsta, að rasísk ummæli hans um lit­ar­haft fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­taka Íslands hefur laskað Sig­urð Inga Jóhanns­son og Fram­sókn, að minnsta kosti um stund­ar­sak­ir.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar