Sunna Ósk Logadóttir Íslensk verkefni í Úganda Mynd: Sunna Ósk Logadóttir
Börn í kennlustund í Bumeru-skóla sem var byggður í samvinnu við íslensk stjórnvöld.
Sunna Ósk Logadóttir

Undan mangótrjánum og inn í „íslenska“ skóla

„253“ stendur skrifað á töfluna. Það eru 253 börn í bekknum – samankomin í lítilli og dimmri skólastofu. Sitja flest á gólfinu með stílabækur í kjöltunni og reigja litlu hálsana upp til að fylgjast með kennaranum. Bukewa er dæmigerður grunnskóli í Namayingo-héraði í Úganda. En nú hefur hann, ásamt fimm öðrum, verið endurbyggður fyrir íslenskt skattfé. Blaðamaður Kjarnans slóst í för með íslenskum sendifulltrúum um fiskimannaþorpin við Viktoríuvatn og sá börnin flytja úr hrörlegum kofum inn í bjartar skólastofur.

Á hverjum degi gengur Dorcas að minnsta kosti tíu kíló­metra. Flesta daga eru þeir miklu fleiri. Það gerir hún sér ekki til heilsu­bótar heldur til að kom­ast í skól­ann. Til að læra ensku, eft­ir­læt­is­fagið sitt, og allt hitt sem fylgir skóla­göngu sautján ára nem­anda. „Mig langar að verða end­ur­skoð­and­i,“ segir hún og brosir feimn­is­lega þar sem hún stendur fyrir utan eina bygg­ing­una í Mutumba-­skóla í Nama­y­in­go-hér­aði í Úganda.

Þetta er lágreist múr­steins­hús með báru­járns­þaki og þótt ekk­ert gler sé í litlu glugg­unum er loftið inni þungt. Skóla­stof­urnar eru litlar og virð­ast enn minni því setið er þétt við hvert ein­asta borð. Og líka á gólf­inu. Setið með stíla­bæk­urnar í kjölt­unni og náms­bókum deilt með sessu­naut­un­um.

Fyrir utan leið­ina löngu í skól­ann þarf Dorcas, líkt og svo margar stúlkur og konur í land­inu, að fara nær dag­lega um langan veg að sækja vatn. Vatnið sem oft er mengað og af svo skornum skammti að biðin eftir að fylla brús­ana getur tekið óra­tíma. Einum brúsa er svo tyllt á höf­uð­ið. Um annan er gripið með hend­inni. Og svo er haldið heim á leið. Með jafn­vel fjöru­tíu lítra af vatni með­ferð­is.

„Þessi vatns­burð­ur, þessi enda­lausi vatns­burð­ur, er meðal þess sem heldur stúlkum frá skóla,“ segir Finn­bogi Rútur Arn­ar­son, full­trúi í sendi­ráði Íslands í Úganda. „Og hér veitir væg­ast sagt ekki af því að byggja nýjan skóla.“

Dorcas dreymir um að verða endurskoðandi.
Sunna Ósk Logadóttir

Rút­ur, eins og hann er ávallt kall­að­ur, er í reglu­legri eft­ir­lits­ferð um fiski­manna­þorpin í Nama­y­ingo norðan Vikt­or­íu­vatns. Íslenska ríkið hefur átt í þró­un­ar­sam­vinnu­verk­efnum í Úganda í yfir tvo ára­tugi, hefur byggt tugi skóla, brunna og vatns­bóla, fjölda almenn­ings­sal­erna, stutt við útgáfu skóla­bóka og kenn­ara til frek­ari mennt­un­ar. Allt verk­efni sem hafa það að mark­miði að bæta kjör barna og ung­menna eins og Dorcas. Byggja sterk­ari stoðir undir fram­tíð þeirra.

Namayingo-hérað er norðan Viktoríuvatns. Mynd: Google Maps

Í rúmt ár hafa Íslend­ingar átt sam­starfi við hér­aðs­stjórn Nama­y­ingo. Og í lok jan­ú­ar, þegar blaða­maður Kjarn­ans slóst í för með Rúti til þorp­anna, höfðu þrír nýir skólar þegar risið og bygg­ing þriggja til við­bótar var í þann mund að hefj­ast.

Rútur er mættur á bygg­ing­ar­stað­ina ásamt verk­tökum sem fengu sam­þykkt til­boð í verk­in. Blekið er enn blautt á samn­ing­unum sem skrifað var undir fyrr um morg­un­inn í ráð­húsi hér­aðs­ins. Nú á að afhenta verk­tök­unum bygg­ing­ar­svæðin form­lega og eitt af því er skól­inn hennar Dorcas.

Mutumba er nokkuð dæmi­gerður grunn­skóli á þessum slóð­um. Sumar bygg­ing­arnar minna meira á gripa­hús en nokkuð ann­að. Stækan fnyk leggur frá sal­ern­unum sem standa stök í jaðri skóla­lóð­ar­inn­ar.

Í Bukewa-­skóla, sem afhentur er öðrum verk­taka þennan dag, er aðstaðan jafn­vel enn verri. Eftir far­aldur COVID-19 og tæp­lega tveggja ára lokun skóla í Úganda hefur orðið spreng­ing í fjölda nem­enda í fyrsta bekk.

Í fyrsta bekk í Bukewa-skóla eru um 500 börn í tveimur litlum kennslustofum.
Sunna Ósk Logadóttir

Skóla­stjór­inn leiðir Rút inn í litlar og dimmar stof­urn­ar. „253“ stendur skrifað á töfl­una. Það eru 253 börn í stof­unni og fjöld­inn í þeirri næstu er svip­að­ur. Þrengslin eru gríð­ar­leg og meiri­hlut­inn verður að sitja á gólf­inu og reigja upp háls­inn til að fylgj­ast með kenn­ar­an­um. Á hverjum kenn­ara hvíla því fimm hund­ruð fróð­leiks­fús augu. En athyglin sem hægt er að gefa hverju og einu barni er lít­il. „Ég hef séð þrjú hund­ruð nem­endur í einni stofu,“ segir Rút­ur. „Og sumir stóðu fyrir utan og fylgd­ust með kennsl­unni í gegnum glugg­ana.“

Nama­y­ingo er eitt fátæk­asta hér­aðið á svæð­inu, benti hér­aðs­stjór­inn Edith Nama­yega á er skrifað var undir verk­taka­samn­ing­ana. Íbú­arnir eru um 250 þús­und og fisk­veiðar í Vikt­or­íu­vatni eru lifi­brauð flestra. „Það eru for­rétt­indi að fá stuðn­ing frá íslenskum stjórn­völd­um, stuðn­ing sem bætir mennt­un.“

Finnbogi Rútur Arnarson, alltaf kallaður Rútur, ávarpar hóp verktaka undir tré við Busiro-skólann. Sanya formaður héraðsstjórnarinnar fyrir miðri mynd.
Sunna Ósk Logadóttir

For­maður hér­aðs­stjórn­ar­inn­ar, Ron­ald Sanya, minnti verk­tak­ana á að þeir væru að fara með skattfé Íslend­inga. „Við tökum sam­vinnu ykkar ekki sem sjálf­sögðum hlut,“ sagði hann og beindi orðum sínum til Rúts handan fund­ar­borðs­ins í ráð­hús­inu.

Sanya bað verk­tak­ana vin­sam­leg­ast að ráða heima­menn í bygg­ing­ar­vinn­una. Margir ungir karl­menn á þessum slóðum þyrftu sár­lega á atvinnu að halda. „Og berið virð­ingu fyrir kon­un­um,“ bætti hann við.

Rútur greip þennan bolta fim­lega á lofti. Að sjálf­sögðu ætti að bera virð­ingu fyrir konum en „ráðið þær í vinn­u,“ sagði hann með þungri áherslu. „Ráðið líka kon­ur,“ end­ur­tók hann.

Ein­hverjir við­staddra lyftu brúnum í undrun og gutu augum hver á ann­an. Konur eru í minni­hluta starfs­fólks í bygg­ing­ar­vinnu um allan heim en sjást vart í því starfi í Úganda. Þar spila hefðir og siðir í verka­skipt­ingu stórt hlut­verk, ekki síst í fiski­manna­þorp­unum við Vikt­or­íu­vatn.

En Sanya for­maður tók eftir örstutt hik bros­andi undir orð Rúts og verk­tak­arnir kink­uðu kolli til sam­þykk­is.

Frímínútur í Mutumba-skólanum.
Hvatning til nemenda í Bukewa-skóla. Skólahúsið lágreist múrsteinsbygging með litlum gluggum.
Sunna Ósk Logadóttir

Rútur á eftir að ítreka þessi orð sín við verk­tak­ana við afhend­ingu á hverjum ein­asta bygg­ing­ar­stað. „Amma mín sagði alltaf að konur gætu gert allt það sem karlar geta og oft­ast bet­ur,“ segir hann fyrir utan Bus­iro-­skól­ann. Þar var hann að tala um Huldu Jak­obs­dótt­ur, fyrstu kon­una sem varð bæj­ar­stjóri á Íslandi og afa­systur Katrínar Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra.

„Konur sem geta borið 20 lítra af vatni á höfð­inu dag­ana út og inn geta borið múr­steina,“ segir hann þegar allir bygg­ing­ar­stað­irnir hafa verið afhentir verk­tök­unum og öku­ferðin um hol­óttu veg­ina í sveit­inni í átt til höf­uð­borg­ar­innar Kampala er haf­in.

Nemendafjöld í skólastofu í Bukewa áður en húsnæðið var endurnýjað.
Sunna Ósk Logadóttir

Rútur hefur ára­tuga reynslu af utan­rík­is­þjón­ust­unni og hefur sinnt störfum á hennar vegum í Asíu, Evr­ópu og nú Afr­íku. Það má segja að hann sé erind­reki fram í fing­ur­góma. Tein­réttur í baki, klæddur hvítum hörfatn­aði, með lit­ríka slaufu um háls­inn og fag­ur­lega ofinn hatt ætt­aðan frá Panama á höfði. Heilsar öllum sem hann hittir með breiðu brosi. Slær á létta strengi. Hann gengur hratt og ákveð­ið. Hlustar af ein­beitni, talar af festu og rögg­semd og lengir ekki mál sitt að óþörfu. Allt hans fas bendir til þess að hér fari maður sem er stað­fastur og krefst skil­virkni. Afkasta.

„Það eina sem við ætl­umst til af ykkur er að vera dug­leg að læra,“ sagði Rútur við Dorcas og hóp fleiri barna fyrir utan Mutumba-­skól­ann er hann hafði hamrað á því við verk­tak­ann að til mik­ils væri ætl­ast af hon­um; gæða, skil­vísi og síð­ast en ekki síst að konur verði mættar til vinnu í næstu eft­ir­lits­ferð.

Börnin sýna skólabækurnar í Bukewa-skólanum.
Sunna Ósk Logadóttir

Og það stenst. Um tveimur vikum síðar fer Rútur aftur út í þorpin við Vikt­or­íu­vatn­ið. Hann við­ur­kennir að það komi fyrir að hann taki „lítil brjál­æðisköst“ þegar fram­kvæmdir gangi ekki eftir áætlun en slíkt er óþarft í þetta skipti. Það er kom­inn miður febr­úar og verk­tak­arnir eru komnir á fullt. Allir hafa þeir ráðið kon­ur.

„Þetta lofar góð­u,“ segir hann að ferð lok­inni. Fagnar þó ekki fyrr en allt er í höfn og skól­arnir hafa verið afhent­ir, full­bún­ir.

Verk­tak­arnir eru valdir af kost­gæfni. Svo að til­boð þeirra séu tekin gild þurfa þau að stand­ast marg­vís­legar kröfur og skil­yrði. „Til­boðin eru tíu tommur á þykkt!“ segir Rút­ur. Þau eru yfir­farin af mörg­um, m.a. verk­fræð­ingi sendi­ráðs Íslands í Úganda og verk­fræð­ingi sam­starfs­hér­aðs­ins, sem eru þeir hinir sömu og taka verkin reglu­lega út.

Konur í byggingarvinnu við Busiro-skóla.
Kona ber vatn í hinum dæmigerða 20 lítra vatnsbrúsa framan við nýbyggingu í Busiro.
Sunna Ósk Logadóttir

Allir skil­málar eru skýrir og ekk­ert er greitt fyrr en ákveðnum áföngum er náð. „Það fer ekki króna í spill­ingu í þessum verk­efn­um,“ full­yrðir Rút­ur. Með þessu fyr­ir­komu­lagi hafa valist góðir verk­takar til sam­starfs og sem dæmi þá skil­aði einn þeirra af sér nýjum skóla í Nama­y­ingo í jan­úar tveimur mán­uðum á undan áætl­un.

Sá skóli var sér­stak­lega val­inn vegna þess að ástand hans var áber­andi slæmt. „Þegar ég kom þangað fyrst þá sátu börnin að læra undir mang­ótré,“ rifjar Rútur upp. Í rign­ingum var þeim safnað saman í skýli sem minntu á skreið­ar­hjalla. Aðgangur að vatni var lít­ill, hrein­læti því ábóta­vant og skóla­mál­tíðir skornar við nögl. „Skólaum­hverfið var óboð­leg­t,“ segir Edith hér­aðs­stjóri. Börn hafi hrein­lega ekki mætt í skól­ann. Þau yngri mörg hver aldrei hafið nám og þau eldri flosnað upp úr því.

Fyrir: Börn í kennslustund undir mangótré í Bumeru.
Finnbogi Rútur
Eftir: Mangótréð er enn í Bumeru en nýbyggingar umhverfis það hafa tekið við hlutverki kennslustofa.
Sunna Ósk Logadóttir

Hann heitir Bumeru. Skól­inn sem nú hefur fengið svo gjör­breytt yfir­bragð að ekki er annað hægt en að smit­ast af ákafa starfs­fólks­ins og nem­end­anna sem læra og leika sér fjör­lega. Þeir fá hádeg­is­verð á hverjum degi sem eld­aður er í splunku­nýju og velút­búnu eld­húsi. Langar biðraðir hlykkj­ast um skóla­lóð­ina í hádeg­inu. Yngri börnin fá graut í bolla og fara svo heim að mál­tíð lok­inni. Þau eldri fá græn­meti, baunir og kássu úr bön­unum og rót­ar­græn­meti.

„Þetta er miklu meira en nýjar bygg­ing­ar,“ segir Sanya, for­maður hér­aðs­stjórn­ar­inn­ar, er hann lítur með vel­þóknun yfir hlát­ur­mildan barna­skar­ann. „Þetta er nýtt upp­haf og áhrifin munu hrísl­ast um allt sam­fé­lag­ið.“

Drengur gengur fyrir framan nýju skólahúsin í Bumeru. Mangótréð til hægri.
Sunna Ósk Logadóttir

Það er á ábyrgð for­eldra að koma með hrá­efni í hádeg­is­mat­inn. Í síð­ustu viku, segir Sanya, komu þeir með um 500 kíló af maís­mjöli. Í þess­ari viku voru kílóin orðin 2.500. „Allir vilja leggja hönd á plóg til að sjá til þess að þörfum barn­anna sé mætt, hvort sem það varðar kennslu eða nær­ingu. For­eldrar hafa fyllst auknum kraft­i.“

Nem­end­urnir eru einnig með nýjar skóla­bækur og í Bumeru og öðrum nýjum skólum sem Ísland styður við, fær hver sína bók. Í björtum skóla­stof­unum þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja eru ný skrif­borð. Að þessum nýja skóla lað­ast líka góðir kenn­arar enda fram­halds­menntun og íbúðir fyrir þá í boði.

Hádegismatur í Bumeru er reiddur fram í nýja eldhúsinu.
Sunna Ósk Logadóttir
Skólaeldhúsið í Busiro er dæmigert fyrir Namayingo.
Finnbogi Rútur

Skól­inn hefur alveg frá því að hann var opn­aður í jan­úar verið eft­ir­sótt­ur. Börnin koma langt að til að sækja hann. „Það er mann­leg­t,“ segir Rút­ur, „for­eldrar vilja auð­vitað að börn þeirra fái bestu menntun sem völ er á.“

En þessu hafa vissu­lega fylgt áskor­an­ir. Áætl­anir gerðu ráð fyrir að nem­end­urnir yrðu um 1.200 en þeir eru nú yfir 1.800. Í einni eft­ir­lits­ferð Rúts sá hann að við borð sem ætluð eru þremur nem­endum sátu jafn­vel fimm. Og hann lét panta 400 í við­bót hið snarasta.

„Við höfum ráðið fleiri kenn­ara en við þurfum enn fleiri,“ segir Edith hér­aðs­stjóri. Hluti af sam­komu­lag­inu við íslensk stjórn­völd felst í því að veita meira fé til nýbyggðu skól­anna svo hægt sé að fjölga kenn­urum og við­halda bygg­ingum og inn­an­stokks­munum þegar á þarf að halda. Þannig er von­ast til að sam­starfs­verk­efnin verði sjálf­bær til fram­tíð­ar.

En álagið er mikið því börnin hafa misst tæp­lega tvö ár úr skóla. „Við þurfum að styðja kenn­ar­ana í þessu verk­efni svo að börnin fái þá menntun sem þau þurfa og nái árangri í nám­in­u,“ segir Edith.

Fyrir: Salernisaðstaða við Mutumba.
Eftir: Nýju salernin við Bumeru-skóla.
Sunna Ósk Logadóttir

Í Bumeru voru byggð ný sal­erni og á því sem stúlk­urnar nota er einnig hægt að baða sig. Þessi nýlunda, sem lögð er mikil áhersla á í íslensku verk­efn­un­um, breytir öllu fyrir skóla­sókn stúlkna sem forð­ast að mæta í skól­ann þegar þær eru á blæð­ingum ef engin er hrein­læt­is­að­stað­an.

Við skól­ann gefur einnig að líta vold­uga vatns­tanka, fulla af hreinu vatni, og einn þeirra er stað­settur utan skóla­lóð­ar­innar fyrir íbúa í nágrenn­inu. „Góður aðgangur að vatni er ekki aðeins heil­brigð­is­mál heldur skýrt jafn­rétt­is­mál,“ segir Rút­ur. „Stúlkur sækja vatn og tím­inn sem það tekur er tími sem þær eru ekki í skól­an­um.“

Rútur leit við í kennslustund í eldri bekkjum Bumeru-skóla. Stofurnar eru stórar og bjartar.
Sunna Ósk Logadóttir

Þetta blasir við með­fram öllum vegum vítt og breitt um Úganda. Hópar nem­enda á leið heim úr skóla mæta ungum stúlkum að bera stóra vatns­brúsa.

„Í þessu sam­fé­lagi höfum við glímt við margar hindr­anir í tengslum við vatns­öfl­un,“ segir Annet Nakesa. Hún gengur með stór­an, gulan brúsa að vatns­bóli rétt við þorpið sitt. Áður var þar for­ar­leðja og ausa varð brún­leitu vatn­inu upp í brús­ana til að fylla þá. Annet gengur nú niður stein­steyptar tröppur og kemur brús­anum fyrir undir kröft­ugri bunu af hreinu vatni.

Þetta er eitt af nýju vatns­bólunum í Nama­y­ingo sem reist hafa verið í sam­starfi við Íslend­inga. Það tekur enga stund að fylla brús­ann og Ann­et, sem er ólétt af sínu þriðja barni, segir vants­bólið dýr­mæta gjöf. Áður hafi ýmist þurft að ganga niður að Vikt­or­íu­vatni, um átta kíló­metra leið, eða í næsta þorp sem er enn lengra í burtu.

Fyrir: Vatnsbólið í Nahaiga var oft eitt drullusvað.
Finnbogi Rútur
Eftir: Annet að fylla á brúsa í nýútbúnu vatnsbólinu.
Sunna Ósk Logadóttir

„Vatns­bólin hafa þornað upp. Vatns­bólin hafa meng­ast. Dýrin hafa drukkið og farið um sömu upp­sprettur og við urðum að nota,“ segir Ann­et. „Þetta var hættu­legt börn­um. Það eru dæmi um að þau hafi drukkn­að. Við þetta þurftum við að búa.“

Árið 2020 segir hún þorps­búa hafa fengið nóg og beðið hér­aðs­stjórn­ina um aðstoð. Þeim var sagt að ef tæki­færi gæf­ist yrði bætt úr. „Og bænum okkar var svarað alla leið­ina frá Íslandi. Þess vegna höfum við núna aðgang að góðu vatni. Við, kon­urnar á þessu svæði, erum fullar þakk­læt­is.“

21. mars 2022.

Leiðin frá Kampala þar sem íslenska sendi­ráðið er til húsa og til Nama­y­in­go-hér­aðs tekur heilan dag. Það hefur ekki mikið með kíló­metra­fjöld­ann að gera heldur umferð­ar­tepp­urnar í nágrenni höf­uð­borg­ar­innar og svo veg­ina hol­óttu í dreifð­ari byggðum sem minna stundum á gamla línuslóða á hálendi Íslands.

Þess vegna gera íslensku sendi­ráðs­full­trú­arn­ir, Rútur og Þór­dís Sig­urð­ar­dótt­ir, for­stöðu­maður sendi­ráðs­ins í Kampala, sér næt­ur­stað í Jinja, litlu borg­inni við upp­tök Níl­ar­fljóts, og halda svo snemma morg­uns af stað til Nama­y­ingo. Til­gangur ferð­ar­innar er að skoða skól­ana þrjá sem nú eru komnir vel á veg.

Edith héraðsstjóri fer yfir árangur af samstarfsverkefnunum. Fundurinn er haldinn í ráðhúsinu í Namayingo.
Sunna Ósk Logadóttir

En fyrst form­leg­heit­in: Fundur með hér­aðs­stjór­anum og for­manni hér­aðs­stjórnar í litla fund­ar­her­berg­inu í ráð­hús­inu. Til við­bót­ar, rétt eins og við und­ir­ritun verk­taka­samn­ing­anna, eru ýmsir starfs­menn bæði sendi­ráðs­ins og hér­aðs­ins við­stadd­ir.

Edith hér­aðs­stjóri sest við enda stóra borðs­ins. Á veggnum gengt henni hangir mynd af for­seta Úganda, Museveni, sem setið hefur á valda­stóli í 35 ár. Stór dreka­fluga líður létti­lega um her­bergið og hani galar stöðugt fyrir utan.

Þetta er dæmi­gerður dagur í Úganda.

Biskup er kynntur til leiks. Hann mun leiða bæn, segir Edith, og fólk drúpir höfði á meðan hann blessar sam­kom­una og sam­starf­ið.

Fyrir: Börnum kennt í skýli í Namayingo.
Finnbogi Rútur
Eftir: Börn í splunkunýrri kennslustofu í Bumeru.
Sunna Ósk Logadóttir

Edith er brosmild og í dag hlær hún oft­sinn­is. „Við sjáum þegar jákvæð áhrif,“ segir hún við sendi­ráðs­full­trú­ana. Fleiri börn eru komin í skóla, áhug­inn á menntun og þátt­taka for­eldra hefur stór­auk­ist.

„Brosin eru farin að koma á and­lit fólks­ins,“ segir Sanya for­maður hér­aðs­stjórn­ar­inn­ar. „Við höfum glímt við erf­ið­leika en núna á þessum stutta tíma sjáum við breyt­ing­ar.“

Börn sem sátu áður undir trjám eða í hrör­legum skýlum eru komin inn í skóla­stof­ur. „Þetta er stór­kost­legur mun­ur,“ segir for­mað­ur­inn, „og það eru íslenskir skatt­greið­endur sem hafa stutt okk­ur“.

Fyrir: Skýli í Bumeru fyrir breytingar.
Pauline
Eftir: Pauline fjármálastjóri íslenska sendiráðsins heldur á myndinni af skýlinu framan við nýtt hús sem í stað þess er risið.
Sunna Ósk Logadóttir

Þrír skólar full­byggð­ir. Aðrir þrír við það að klár­ast og stefnt að fleir­um. Fimm­tíu bor­hol­ur, sex brunnar og fimmtán almenn­ings­kló­sett. Edith ljómar er hún telur upp það sem þegar hefur verið gert. „Rútur er orð­inn eins og einn af okk­ur, far­inn að tala tungu­mál­ið,“ segir hún hlæj­andi um tíðar eft­ir­lits­ferðir hans.

Hers­ing bíla ekur frá ráð­hús­inu. Smám saman fækkar bílum og mót­or­hjólum á veg­inum og reið­hjól og tveir jafn­fljótir taka við sem far­ar­skjót­ar. Við erum í kassa­va-hér­aði. Rótin liggur nið­ur­skorin á segl­dúkum í veg­könt­um. Sölu­básar sem klambrað hefur verið saman úr afgangstimbri standa í röðum í litlum þorp­um. Við bás­ana sitja konur með hrauka af tómötum og avókadó fyrir framan sig. Eng­inn kúnni er í aug­sýn en það verður að reyna að koma upp­sker­unni í verð.

Á milli kof­anna fara geitur um í gengj­um. Staldra við til að kroppa í gras­toppa sem hafa skotið sér upp úr rauðri mold­inni og krafsa í litlu rusla­haug­ana sem eru um allt. Þær deila haug­unum með hænum og mjóslegnum kúm.

Íslandsvegur liggur í átt til Bumeru og fleiri skóla í Namayingo-héraði.
Sunna Ósk Logadóttir

Kjöt­skrokkar hanga uppi í öðrum bás­um. Til að ekki fari á milli mála að um geit sé að ræða er rófan skilin eftir á skrokkn­um. Á þessum slóðum vill eng­inn óvart kaupa lamba­kjöt.

Er þorpum sleppir taka smáir akrar við. Á einum þeirra reiðir kona hlú­járn til höggs. Hlú­járn er helsta land­bún­að­ar­verk­fær­ið. Í Úganda draga dýr ekki plóga og vél­knúnar vinnu­vélar eru fágæt­ar. Meira að segja á stór­býlum er sveðjum sveiflað til að höggva syk­ur­reyr­inn.

Með nokk­urra metra milli­bili ganga konur með vatns­brúsa. Þær gætu átt langa leið fyrir hönd­um. Sumar eru með dætur sínar og er sú stutta þá með minni brúsa. Gerir eins og mamma. Sækir vatn.

Báru­járns­kof­ar. Hringlóttir leir­kofar með strá­þök­um. Alls staðar eru hús á milli ban­anatrjánna.

Börn í leið að nýuppgerðum vatnsbrunni í Namayingo til að fá sér sopa milli kennslustunda.
Börn í Busiro-skólanum í fótbolta.
Sunna Ósk Logadóttir

Bæng, bæng, bæng, bæng!

Skóla­bjalla glymur við Bus­iro-­skóla. Bjallan er felga sem slegið er í með tré­sleif. Börnin koma hlaup­andi inn í kennslu­stund frá því að spila fót­bolta úti á túni. Spörk­uðu ber­fætt á milli sín hálf­loft­lausri leð­ur­tuðru en með reglur leiks­ins á hreinu: Tóku inn­köst og markspyrn­ur.

Kannski er slegið aðeins fastar í bjöll­una þessa dag­ana til að yfir­gnæfa hávaða frá bygg­ing­ar­svæð­inu. Á aðeins örfáum vikum hafa risið fjögur ný hús. Þaksperr­urnar eru meira að segja komnar á sinn stað.

Það er ekki hægt að flytja börnin annað á meðan fram­kvæmdum stend­ur. Vinnu­svæðið er afgirt og skóla­stjór­inn segir alla leggj­ast á eitt við að gæta að öryggi barn­anna.

„Ég kann­ast ekki við mig hérna,“ segir blaða­maður Kjarn­ans og lítur í kringum sig. Rútur stað­festir að jú, við höfum komið hingað í jan­ú­ar, fyrir um tveimur mán­uðum síð­an. „Manstu, við fórum á fund undir þessu tré?“

Tréð er þarna vissu­lega enn. Hátt og virðu­legt og breiðir úr sér eins og sól­hlíf. Þetta er tréð þar sem Rútur brýndi fyrir verk­tak­an­um, enn einu sinni, að ráða kon­ur.

Fjöldmargar konur voru ráðnar í vinnu við Busiro-skólann.
Sunna Ósk Logadóttir
Rútur framan við eitt nýja skólahúsið í Busiro.

Og þarna eru þær. Ekki ein og ekki tvær. Heldur fjöl­marg­ar. Um 20 pró­sent allra verka­mann­anna. Þær hand­langa efni til smiða og múr­ara, saga, bera múr­steina, aka steypu í hjól­bör­um. Allar með örygg­is­hjálma á höfði og flestar í pilsum og stíg­vél­um.

Verk­tak­inn röltir á milli nýbygg­ing­anna. Segir að þær verði teknar í gagnið innan fárra vikna. Þá fá börnin nákvæm­lega sömu aðstöðu og nem­end­urnir í Bumeru. Nýjar bæk­ur, ný borð. Von­andi end­ur­mennt­aða kenn­ara. Og svo hljóð­færi og mögu­lega nýjan fót­bolta.

Rútur vill fá stað­fest að kon­urnar séu með sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Verk­tak­inn segir svo vera.

„Það var Rútur sem hvatti verk­tak­ana til að ráða konur og það var gert,“ segir Sanya, for­maður hér­aðs­stjórn­ar­inn­ar, þegar hann hefur kallað allar verka­kon­urnar saman til mynda­töku. Hann er stolt­ur. Finnst þetta góð saga til næsta bæj­ar.

Rútur ásamt nokkrum þeirra kvenna sem ráðnar hafa verið til framkvæmdanna í Busiro.

„Það er ánægju­legt að sjá ykkur hér all­ar,“ segir Rútur við kon­urn­ar, „en næst þegar ég kem vil ég að þið verðið orðnar fleiri.“

Kon­urnar hlæja og kinka kolli. Þær eru frum­kvöðl­ar, komnar í bygg­inga­geir­ann.

„Okkur finnst fram­tíð fiski­manna­sam­fé­lags­ins í Nama­yngo nú vera bjart­ari en áður,“ segir Edith hér­aðs­stjóri. „Við höfum bætt aðstöðu til mennt­unar og fært hana nær fólk­in­u.“

Margir í Nama­yngo hafa alist upp við að fram­tíðin felist ein­göngu í því að róa til fiskjar á Vikt­or­íu­vatni, segir Sanya. „En nú sjáum við að með þess­ari útsjón­ar­sömu íhlut­un, að bæta skól­ana og fá fleiri börn til náms, munu fylgja breyt­ing­ar. Og við sjáum þær nú þeg­ar.“

Kjarn­inn mun halda áfram umfjöllun sinni um íslensk sam­vinnu­verk­efni í Úganda á næst­unni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar