EPA

Gulldrengurinn með tárið

Hann er sannkallaður áhrifavaldur sem vill láta gott af sínu fyrsta ólympíugulli leiða. „Ég er ótrúlega stoltur af því að segja að ég er samkynhneigður karlmaður og einnig ólympíumeistari,“ segir Tom Daley sem hefur reynt við gull á leikunum í 13 ár.

Ég vona að allt ungt LGBT-fólk þarna úti sjái að hversu einmana sem því finnst það vera núna þá er það ekki eitt. Það er hægt að afreka hvað sem er.“

Þetta sagði hinn 27 ára Tom Daley eftir að hann hafði tryggt sér ásamt félaga sínum Matty Lee gullverðlaunin í samhæfðum dýfingum á Ólympíuleikunum í Tókýó. Leikarnir eru þeir fjórðu sem Daley keppir á og þrátt fyrir að hann hafi unnið til margvíslegra verðlauna á ferli sínum og tekið bronsið á leikunum í London var það alltaf ólympíugull sem hann stefndi að. Því markmiði hefur hann nú náð.

Og hann var óhræddur við að láta tilfinningar sínar í ljós og er hann stóð á verðlaunapallinum í gær og fékk gullpeninginn um hálsinn felldi hann tár. „Tókýó-gullið hreinsaði allar vonir, vonbrigði, örvæntingu og gleði sem hinn breski dýfingarmaður hefur gengið í gegnum undanfarin þrettán ár,“ skrifaði Donald McRae, blaðamaður Guardian í gær en hann hefur tekið mörg viðtöl við Daley á síðustu árum.

Daley sagði frá því opinberlega árið 2013, ári eftir Ólympíuleikana í London, að hann væri samkynhneigður. Hann er í dag giftur bandaríska handritshöfundinum Dustin Lance Black sem er einnig verðlaunaður í sínu fagi en hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir handrit sitt að kvikmyndinni Milk árið 2008. Saman eiga hjónin soninn Robbie.

Daley vill að gullverðlaunin hafi einhverja þýðingu fyrir fleiri en sig einan. Hann fagnaði því að á leikunum í Tókýó væru að taka þátt fleiri opinberlega samkynhneigðir íþróttamenn en á nokkrum öðrum leikum. „Þegar ég var yngri fannst mér ég alltaf einn og öðruvísi. Að ég passaði hvergi í hópinn. Að það væri eitthvað við mig sem gerði það að verkum að ég myndi aldrei verða jafn góður og samfélagið vildi,“ sagði Daley í samtali við Sky-fréttastofuna. Nú liti hann allt öðrum augum á tilveruna. „Ég er ótrúlega stoltur af því að segja að ég sé samkynhneigður karlmaður og einnig ólympíumeistari.“

Auglýsing

Fyrir aðeins nokkrum vikum var ekki fullvíst að Daley gæti tekið þátt á leikunum. Hann hafði meitt sig alvarlega í hnénu og undirgekkst aðgerð í júní. Frá þessum erfiðleikum greindi hann ekki í fjölmiðlum fyrr en hann hafði innsiglað ólympíugullið sitt. Læknar hefðu sagt að það myndi taka hann 4-6 vikur að ná sér. Sex vikum eftir aðgerð var hann mættur til Tókýó. Og vonaði það besta.

„Þetta er eiginlega ótrúlegt,“ sagði Daley eftir sigurinn í gær. „Og mig hefur dreymt um þetta allt frá því að ég hóf dýfingar fyrir tuttugu árum.“

Fyrstu ólympíuleikarnir sem Daley keppti á voru í Peking árið 2008. Þá var hann aðeins fjórtán ára gamall en þegar búinn að geta sér gott orð í greininni í heimalandi sínu. Hann komst ekki á pall í dýfingarkeppninni en bætti úr því á leikunum í London fjórum árum síðar. Á leikunum í Ríó árið 2016 hafði hann vonast eftir að ná gullinu. En allt kom fyrir ekki og varð hann að láta sér bronsið nægja enn og aftur. „Eiginmaður minn sagði við mig að minni sögu væri ekki lokið og að sonur minn yrði að vera á staðnum til að sjá mig vinna ólympíugull,“ rifjar Daley upp. Hvorki eiginmaðurinn né sonurinn gátu þó verið með Daley í Tókýó vegna heimsfaraldursins en þeir fylgdust vissulega báðir spenntir með keppninni í sjónvarpinu. „Það er stórkostleg tilfinning,“ segir hann nú en hafði fyrir nokkrum árum lýst því að á unglingsárunum varð hann fyrir grófu einelti og það hætti ekki þótt að hann yrði stórstjarna í íþróttaheiminum.

Matty Lee og Tom Daley (t.v.) voru gríðarlega samstilltir í dýfingarkeppninni í gær.
EPA

Þeir eru ekki margir, íþróttakarlarnir, sem sagt hafa frá samkynhneigð sinni í fjölmiðlum til þessa. Fyrir utan Daley er aðeins einn jafn þekktur sem það hefur gert; Gareth Thomas, fyrrverandi fyrirliði velska karlalandsliðsins í ruðningi (rugby). Thomas sagði í nýlegu viðtali að miklir fordómar væru enn í garð samkynhneigðra og hann teldi að enn væri langt þangað til samkynhneigðir fótboltamenn myndu standa stoltir við hlið hans og Daley.

Fyrirfram hafði kínverska parinu verið spáð sigri í samhæfðum dýfingum karla í Tókýó. Daley og Lee bættu sig hins vegar í hverri dýfingunni á eftir annarri í gær og náðu loks í þeim síðustu að ná forskoti sem þeir héldu til enda keppninnar. Það er óhætt að lýsa andrúmsloftinu í dýfingarhöllinni sem rafmögnuðu og þrungnu af spennu. Og þegar úrslitin voru ljós ætlaði allt um koll að keyra.

Tom Daley (t.v.) og Matty Lee með gullverðlaunin sín.
EPA

Þegar Daley og Lee stigu saman á verðlaunapall skömmu síðar mátti sjá tvö tár á hvarmi þess fyrrnefnda. „Fyrst féll eitt tár úr vinstra auga Daley,“ skrifar McRae, blaðamaður Guardian um þetta dramatíska augnablik. „Það stöðvaðist rétt ofan við svörtu landsliðsgrímuna sem hann var með fyrir vitum. Aðeins ofar, hvíldi annað tár rétt neðan við hægra augað. Það var engu líkara en að tárin hans hefðu stöðvast til að minnast alls þess sem Daley hefur gengið í gegnum til að ná þessum gríðarmikla árangri.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiErlent