Harmsaga fílsins Happy
Hún er ekki persóna sem á rétt á frelsi segja dómstólar þrátt fyrir að henni hafi verið rænt frá fjölskyldu sinni, hún fönguð, bundin og barin. Misst einu vini sína í prísundinni og aldrei eignast afkvæmi.
Fyrir meira um hálfri öld kom lítið kríli í heiminn í Taílandi. Kríli þetta naut ekki aðeins þegar frá fæðingu ástar móður sinnar heldur líka ömmu, ömmusystra og móðursystra. Mögulega eldri systkina sinna einnig. Umvafið styrk og visku. Verndað og vel nært. Í samfélagi þar sem mæður fara með völdin.
En svo var litla krílið, með úfið hár og sakleysi í augunum, hrifsað frá fjölskyldu sinni. Frá ylvolgri móðurmjólkinni. Líklega var öll fjölskyldan drepin í þeim tilgangi að fanga litla angann svo flytja mætti hann innilokaðan í búri þvert yfir hnöttinn, bandarískum börnum og fjölskyldum þeirra til dægrastyttingar.
Þannig hófst þyrnum stráð ævi fílsins sem menn gáfu nafnið Happy. Fíls sem er ekki persóna, samkvæmt nýföllnum dómi vestanhafs, en alveg örugglega merkur einstaklingur í þeim hluta sögu okkar sem ötuð er blóði og þjáningum dýra af mannanna völdum.
Nafnið sem kornungi kvenfíllinn fékk við komuna til Bandaríkjanna er eins kaldhæðnislegt og hugsast getur. Hún var ekki eini fílsunginn sem bandarísku fangararnir tóku með valdi frá mæðrum sínum í veiðiferðinni árið 1971. Þeir voru sjö litlu fílarnir sem fluttir voru með flugi frá heimalendum sínum. Og það þótti mjög sniðugt að nefna þá eftir dvergunum sjö í ævintýrinu um Mjallhvíti. Happy. Grumpy. Sleepy. Sneezy. Og svo framvegis.
Happy var fyrst höfð í dýragarði í Flórída. Þaðan var hún flutt til Texas og loks árið 1977, er hún var 5 eða sex ára, til Bronx-dýragarðsins í New York.
Þar dvelur hún enn. Síðustu fimmtán árin ein í hluta rýmis sem kallað er „villta Asía“, því henni semur ekki við aðra fíla, að sögn dýragarðsyfirvalda. Í stað þess að vera umvafin fjölskyldu sinni í víðernum Taílands fara einu samskipti hennar við annan fíl fram í gegnum rimlagirðingu. Handan girðingarinnar er Patty. Og það er ekki tilviljun að Happy semur ekki vel við hana.
„Þessi indæla fröken sem við sjáum hér heitir Happy,“ segir leiðsögumaðurinn sem fer með gesti í lítilli lest um Bronx-dýragarðinn. Blaðamaður Atlantic er meðal gesta og lýsir því sem fyrir augu ber með þessum hætti: „Í nokkra metra fjarlægð, bak við járngirðingu og víra er lítil tjörn, grasflöt og niðurtraðkað moldarflag. Þar stendur Happy kyrr, starir fram fyrir sig, og vaggar örlítið til er hún lyftir og setur niður einn fótinn á víxl.“
Leiðsögumaðurinn segir að „föken Happy“ hafi tekist „að halda línunum“ – rétt eins og hún sé að lýsa hégómlegri miðaldra konu. Hún heldur áfram og segir „mjög, mjög vel“ hugsað um Happy. Hún fái vikulega fótsnyrtingu en nefnir ekki að það sé vegna þess að það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir lífshættuleg fótamein sem hrjá alla fíla sem eru í haldi manna. Fíla sem ekki geta gengið með fjölskyldum sínum fleiri kílómetra á dag á náttúrulegu undirlagi skóga og slétta.
En hefur fröken Happy rétt samkvæmt lögum að vera ekki á þeim stað sem henni er nú haldið á? Er hún persóna, aðili að eigin velferðarmáli?
Út á þetta gekk sögulegt dómsmál sem dýraverndunarsamtök höfðuðu og tekið var fyrir hjá áfrýjunardómstól í New York á dögunum. Nonhuman Rights Project (NhRP), samtök sem berjast fyrir réttindum dýra, vildu láta á það reyna hvort að Happy væri persóna í augum laganna – einstaklingur sem ætti rétt á frelsi, ætti rétt á að vera frjáls undan valdi manna. Að henni væri ólöglega haldið í dýragarðinum í Bronx. Líkt og Afríkubúum í þrældómi í þessu sama landi fyrir nokkrum áratugum. Eða föngum sem látnir eru dúsa í gæsluvarðhaldi án ríks tilefnis.
Fíllinn í herberginu
En kannski snerist dómsmálið ekki aðeins um einn fíl. Heldur um fílinn í herberginu, eins og stundum er sagt; um hvaða stað náttúrunni hefur verið tryggður í lögum og reglum þeim sem menn hafa samið og sett. Þess vegna var niðurstöðu dómstólsins beðið með óþreyju. Því ef Happy er persóna með réttindi þá eru önnur dýr í haldi í Bandaríkjunum það væntanlega líka.
NhRP-samtökin vildu að Happy yrði flutt í athvarf þar sem hún hefði mun meira pláss til að athafna sig. Þar sem hún myndi jafnvel hitta aðra fíla. Vera í kringum önnur dýr. Það vilja dýragarðsyfirvöldin í Bronx ekki gera og til að fá hana flutta þrátt fyrir það þurftu samtökin að sannfæra sjö manna dóm, þann æðsta í New York-ríki, um að Happy væri persóna fyrir lögum.
Niðurstaðan varð 5-2. Ekki Happy í vil. Hún er ekki persóna í augum laganna og ef hún væri það myndi það „raska gríðarlega stöðugleika í nútíma samfélagi,“ sagði dómsformaðurinn, Janet DiFiore. Stöðugleika sem byggir á því að menn haldi dýr sér til matar eða yndisauka.
Samtök sem kenna sig við vernd villidýra (The Wildlife Conservation Society) reka Bronx-dýragarðinn og segja að dýraverndunarsamtökin hafi aldrei viljað „frelsa“ Happy heldur „rífa hana upp með rótum frá heimili hennar og flytja þangað sem þau vilja. Þetta er hugmyndafræði sem tekur ekki tillit til hegðunar hennar, sögu, persónuleika, aldurs og sérþarfa“.
Með einstaka félagsgreind
En hver er sagan hennar Happy, fílsins sem hefur dvalið í Bronx-dýragarðinum í 45 ár?
Fílar eru stærstu landspendýr jarðar og meðal þeirra greindustu, langlífustu og skynsömustu. Fílar eru ekki jafn snjallir og menn á þá mælikvarða sem við oftast notum en þeir hafa yfirburða félagsgreind.
Fjölskyldur halda saman, vernda ungviði fram í rauðan dauðan, finna til með veikum og slösuðum, syrgja þá sem falla og éta ekki önnur dýr. Fílar lifa með öðrum orðum sannarlega í sátt og samlyndi við menn og önnur dýr. Fái þeir yfirhöfuð tækifæri til þess. Í hjörðunum er mæðraveldi; elstu kvendýrin ráða ferðinni. Þær ala saman upp ungana en karldýrin yfirgefa hópinn þegar þeir verða kynþroska. Fara á flæking. Stundum nokkrir saman.
Þessar staðreyndir hafa mögulega alltaf verið fólkinu sem bjó í nábýli við fíla ljósar. En Vesturlandabúar fengu staðfestingu á þeim með margvíslegum rannsóknum sem gerðar hafa verið á atferli fíla síðustu ár og áratugi.
Sá sem pantaði fílsungana sjö í upphafi áttunda áratugarins hét Harry Shuster. Hann hafði opnað „safarí-garð“ í Flórída sem átti að vera allt öðru vísi en „búragarðar“ fortíðar. Fólk átti að geta ekið um og séð dýrin í „náttúrulegu“ umhverfi þótt slíkt væri auðvitað tóm þvæla.
Hann safnaði dýrum. Vildi hafa þau sem flest og sem mest framandi. Hafði keypt gamlan sirkusfíl en langaði í krúttlega fílsunga. Og hann fékk krúttlega fílsunga. Móðurlausa, krúttlega fílsunga sem áttu eftir að þurfa að skemmta fólki og vera fluttir fram og til baka í vöruflutningabílum og flugvélum eftir geðþótta mannanna sem þá sögðust eiga.
Árið 1974 voru fílsungarnir sjö sem dvalið höfðu saman í dýragarðinum í Flórída sendir sitt í hvora áttina. Einn þeirra, Sneezy, endaði í dýragarði í Tulsa og er þar enn. Tveir voru seldir í sirkus. Að minnsta kosti annar þeirra er enn hluti af slíkri sýningu. Sá fjórði endaði í dýragarði í Kanada en lést árið 2008. Hver örlög þess fimmta, Sleepy, voru eru á huldu, segir í grein Atlantic um sögu fílanna sjö.
En Happy og Grumphy fengu að vera áfram saman. Þær voru fyrst fluttar í nýjan dýragarð í Texas og svo nokkrum árum síðar í Bronx-dýragarðinn. Er þangað kom var þeim ekki komið fyrir í „villtu Asíu“. Þær voru settar í „Fílahúsið“ ásamt öldungnum Tus. Þær þrjár voru svo látnar leika listir fyrir gesti og bera börn á bakinu. Í upphafi níunda áratug síðustu aldar hreykti dýragarðurinn sér af „villtu Asíu“ þar sem dýrin hefðu „nóg pláss“. En á sama tíma létu stjórnendur hans klæða þrjá fíla í búninga og skemmta börnum. Þjálfari sem kom úr sirkusheiminum hafði umsjón með Happy, Grumpy og Tus. Hann barði þær til hlýðni.
Ráðist á fóstursysturina
Þegar fílarnir í „villtu Asíu“ fóru að týna tölunni skapaðist þar pláss fyrir Happy, Grumphy og Tus. En Tus gamla átti ekki langt eftir og dó árið 2002. Hún hafði verið það sem næst komst móður fyrir ungu fílana tvo í mörg ár. Í „villtu Asíu“ voru nokkrir aðrir fílar, m.a. Patty sem hafði misst afkvæmi sitt nokkrum árum fyrr. Og þegar Tus var farin yfir móðuna miklu raskaðist valdajafnvægið. Patty réðst ásamt öðrum fíl á Grumpy. Áverkar hennar voru það alvarlegir að yfirvöld í dýragarðinum ákváðu að aflífa hana. Ekki þótti óhætt að hafa Happy í sama rými og Patty sem hafði valdið dauða fóstursystur hennar. Ungi fíllinn Sammy var fluttur í garðinn til að Happy yrði ekki ein. En Sammy lifði ekki lengi. Og aftur var Happy ein.
Patty er enn á lífi. Það er hún sem er handan járnrimlanna. Sem þefast á við Happy annað slagið.
Samtökin NhRP segja að enginn fíll ætti að vera einn. Að henni líði illa við þær aðstæður sem hún er látin búa við. Og þau blása á þau rök að Happy „semji illa við aðra fíla“. Því getur ekki verið að henni semji einfaldlega ekki við Patty? Eða að tortryggni hennar í garð annarra eigi sér skýringar í sögu hennar, ævi, sem einkennst hefur af missi og ofbeldi?
En úr því sem komið er, er það raunverulega Happy fyrir bestu að vera flutt enn einu sinni þvert yfir Bandaríkin í dýraathvarf – þrátt fyrir að þar hefði hún miklu meira pláss? Fyrir nokkrum áratugum hefði svarið alveg örugglega verið já. En svo mikil áföll hafa dunið á Happy að sérfræðingar Bronx-dýragarðsins, telja það útilokað. Hún hefur verið í haldi manna í hálfa öld. Þekkir ekkert annað.
En hún á enn jafnvel tuttugu ár eftir ólifuð.
„Enginn efast um að það hafi slæm áhrif á fíla að vera í haldi manna,“ skrifaði dómsformaðurinn Jante DiFiore í meirihlutaálitinu. En engin fordæmi væru hins vegar fyrir því að önnur dýr en menn væru persónur í augum laganna og hefðu réttindi samkvæmt því. DiFiore minnti einnig á að kærendur væru ekki að fara fram á að Happy yrði alfarið frjáls. Heldur að hún yrði sett í hendur annarra manna við „eitthvað betri“ aðstæður. Því væri ekki hægt að gefa Happy þau réttindi sem fylgja því að vera persóna fyrir lögum enda myndi það hafa gríðarleg áhrif á stöðugleika í nútíma samfélagi. Væri Happy persóna mætti yfirfara það á öll önnur dýr, gæludýr jafnt sem húsdýr.
Hugmyndin um að réttindi til frelsis eigi aðeins við um menn – og eingöngu af því að þeir eru menn – tengjast kenningum um yfirburði manna í dýraríkinu og hvernig manneskjur hafi rétt til að drottna yfir öðrum dýrum af þeim sökum.
Einn dómarinn, Rowan Wilson, hvatti meðdómendur sína til að ögra þessum kenningum og sagði að rökin „af því að þetta hefur aldrei verið gert áður“ haldi ekki. Hugmyndir fólks um náttúruna og mikilvægi allra hennar þátta, allra hennar lífvera, séu að breytast. Og túlkun laga um persónufrelsi (habeas corpus) þurfi að gera það einnig.
Lagahugtakið habeas corpus (persónufrelsi) hefur í gegnum tíðina verið nýtt til að frelsa fólk undan því að vera í haldi annarra. Wilson segir að það hvort að fíll eða önnur dýr séu „persónur“ skipti ekki höfuðmáli. Hugtakið megi nota til að komast að því hvort hvaða einstaklingur sem er skuli vera áfram í haldi. „Við getum öll verið sammála um að fíll er ekki af tegundinni homo sapiens,“ skrifaði hann í minnihluta áliti sínu. „En fíll er ekki heldur skrifborðsstóll eða ánamaðkur.“
Á bilinu 15-20 þúsund fílar eru í haldi manna víðs vegar um heiminn. Þrátt fyrir að gerðar hafi verið tilraunir til að banna föngun fíla í heimkynnum þeirra í Asíu og Afríku síðustu ár er það enn gert.
Bíða þess aldrei bætur
Fílar eiga alls ekki heima í dýragörðum, sagði í skýrslu um aðbúnað dýra í dýragörðum í Evrópu og Norður-Ameríku sem kom út í vor. Að vera í dýragörðum veldur fílum andlegu og líkamlegu tjóni til æviloka. Skýrslan var gefin út af Born Free-samtökunum og byggði á rannsóknum margra sérfræðinga.
Í fyrra voru 580 fílar í evrópskum dýragörðum. Dýraverndunarsamtökin Born Free krefjast þess að fleiri fílar verði ekki settir í slíka garða. Að komið sé að endapunkti í þeim efnum. Bæta eigi aðstæður þeirra sem þar eru en setja ekki aðra í staðinn þegar þeir svo deyja.
Samtökin benda á að um 40 prósent allra fílsunga sem fæðast í breskum dýragörðum deyi áður en þeir nái fimm ára aldri. „Dýragarðar geta aldrei líkt eftir náttúrulegum heimkynnum fíla,“ segja þau. Hinu flókna félagsmynstri þeirra er líka ógerlegt að viðhalda í görðunum.
Happy er sannarlega gott dæmi um þetta. Hún er ein og í litlu rými. Að fylgjast með henni úr lestinni sem gestir Bronx-dýragarðsins setjast í í skoðunarferð sinni „er eins og að horfa á fanga,“ segir Steven Wise, forseti NhRP-samtakanna. „Líf hennar er innantómt.“
Manneskjur eru ekki einu dýrin sem eiga rétt á viðurkenningu og vernd sinna réttinda, segir á heimasíðu samtakanna. Þótt mál þeirra hafi tapast fyrir áfrýjunardómstólnum í New York er baráttunni ekki lokið, segja samtökin. „Við erum rétt að byrja,“ segja þau.
Og Nonhuman Right Project standa ekki ein í baráttunni fyrir réttindum dýra. Það gera nú hundruð samtaka manna um allan heim.