EPA

Harmsaga fílsins Happy

Hún er ekki persóna sem á rétt á frelsi segja dómstólar þrátt fyrir að henni hafi verið rænt frá fjölskyldu sinni, hún fönguð, bundin og barin. Misst einu vini sína í prísundinni og aldrei eignast afkvæmi.

Fyrir meira um hálfri öld kom lítið kríli í heim­inn í Taílandi. Kríli þetta naut ekki aðeins þegar frá fæð­ingu ástar móður sinnar heldur líka ömmu, ömmu­systra og móð­ur­systra. Mögu­lega eldri systk­ina sinna einnig. Umvafið styrk og visku. Verndað og vel nært. Í sam­fé­lagi þar sem mæður fara með völd­in.

En svo var litla krílið, með úfið hár og sak­leysi í aug­un­um, hrifsað frá fjöl­skyldu sinni. Frá ylvolgri móð­ur­mjólk­inni. Lík­lega var öll fjöl­skyldan drepin í þeim til­gangi að fanga litla ang­ann svo flytja mætti hann inni­lok­aðan í búri þvert yfir hnött­inn, banda­rískum börnum og fjöl­skyldum þeirra til dægra­stytt­ing­ar.

Þannig hófst þyrnum stráð ævi fíls­ins sem menn gáfu nafnið Happy. Fíls sem er ekki per­sóna, sam­kvæmt nýföllnum dómi vest­an­hafs, en alveg örugg­lega merkur ein­stak­lingur í þeim hluta sögu okkar sem ötuð er blóði og þján­ingum dýra af mann­anna völd­um.

Nafnið sem korn­ungi kven­fíll­inn fékk við kom­una til Banda­ríkj­anna er eins kald­hæðn­is­legt og hugs­ast get­ur. Hún var ekki eini fíls­ung­inn sem banda­rísku fang­ar­arnir tóku með valdi frá mæðrum sínum í veiði­ferð­inni árið 1971. Þeir voru sjö litlu fíl­arnir sem fluttir voru með flugi frá heima­lendum sín­um. Og það þótti mjög snið­ugt að nefna þá eftir dverg­unum sjö í ævin­týr­inu um Mjall­hvíti. Happy. Grumpy. Sleepy. Sneezy. Og svo fram­veg­is.

Happy var fyrst höfð í dýra­garði í Flór­ída. Þaðan var hún flutt til Texas og loks árið 1977, er hún var 5 eða sex ára, til Bronx-­dýra­garðs­ins í New York.

Þar dvelur hún enn. Síð­ustu fimmtán árin ein í hluta rýmis sem kallað er „villta Así­a“, því henni semur ekki við aðra fíla, að sögn dýra­garðs­yf­ir­valda. Í stað þess að vera umvafin fjöl­skyldu sinni í víð­ernum Taílands fara einu sam­skipti hennar við annan fíl fram í gegnum rimla­girð­ingu. Handan girð­ing­ar­innar er Patty. Og það er ekki til­viljun að Happy semur ekki vel við hana.

Happy í dýragarðinum í Bronx.

„Þessi indæla fröken sem við sjáum hér heitir Happy,“ segir leið­sögu­mað­ur­inn sem fer með gesti í lít­illi lest um Bronx-­dýra­garð­inn. Blaða­maður Atl­antic er meðal gesta og lýsir því sem fyrir augu ber með þessum hætti: „Í nokkra metra fjar­lægð, bak við járn­girð­ingu og víra er lítil tjörn, gras­flöt og nið­urtraðkað mold­ar­flag. Þar stendur Happy kyrr, starir fram fyrir sig, og vaggar örlítið til er hún lyftir og setur niður einn fót­inn á víxl.“

Leið­sögu­mað­ur­inn segir að „föken Happy“ hafi tek­ist „að halda lín­un­um“ – rétt eins og hún sé að lýsa hégóm­legri mið­aldra konu. Hún heldur áfram og segir „mjög, mjög vel“ hugsað um Happy. Hún fái viku­lega fót­snyrt­ingu en nefnir ekki að það sé vegna þess að það er nauð­syn­legt til að koma í veg fyrir lífs­hættu­leg fóta­mein sem hrjá alla fíla sem eru í haldi manna. Fíla sem ekki geta gengið með fjöl­skyldum sínum fleiri kíló­metra á dag á nátt­úru­legu und­ir­lagi skóga og slétta.

Fílar hafa í áratugi verið látnir leika alls konar listir í sirkusum og dýragörðum víða um heim.

En hefur fröken Happy rétt sam­kvæmt lögum að vera ekki á þeim stað sem henni er nú haldið á? Er hún per­sóna, aðili að eigin vel­ferð­ar­máli?

Út á þetta gekk sögu­legt dóms­mál sem dýra­vernd­un­ar­sam­tök höfð­uðu og tekið var fyrir hjá áfrýj­un­ar­dóm­stól í New York á dög­un­um. Non­human Rights Project (NhRP), sam­tök sem berj­ast fyrir rétt­indum dýra, vildu láta á það reyna hvort að Happy væri per­sóna í augum lag­anna – ein­stak­lingur sem ætti rétt á frelsi, ætti rétt á að vera frjáls undan valdi manna. Að henni væri ólög­lega haldið í dýra­garð­inum í Bronx. Líkt og Afr­íku­búum í þræl­dómi í þessu sama landi fyrir nokkrum ára­tug­um. Eða föngum sem látnir eru dúsa í gæslu­varð­haldi án ríks til­efn­is.

Fíll­inn í her­berg­inu

En kannski sner­ist dóms­málið ekki aðeins um einn fíl. Heldur um fíl­inn í her­berg­inu, eins og stundum er sagt; um hvaða stað nátt­úr­unni hefur verið tryggður í lögum og reglum þeim sem menn hafa samið og sett. Þess vegna var nið­ur­stöðu dóm­stóls­ins beðið með óþreyju. Því ef Happy er per­sóna með rétt­indi þá eru önnur dýr í haldi í Banda­ríkj­unum það vænt­an­lega líka.

NhRP-­sam­tökin vildu að Happy yrði flutt í athvarf þar sem hún hefði mun meira pláss til að athafna sig. Þar sem hún myndi jafn­vel hitta aðra fíla. Vera í kringum önnur dýr. Það vilja dýra­garðs­yf­ir­völdin í Bronx ekki gera og til að fá hana flutta þrátt fyrir það þurftu sam­tökin að sann­færa sjö manna dóm, þann æðsta í New York-­ríki, um að Happy væri per­sóna fyrir lög­um.

Ítalskir leikarar á baki fíla við tökur á kvikmynd í Róm í vor.
EPA

Nið­ur­staðan varð 5-2. Ekki Happy í vil. Hún er ekki per­sóna í augum lag­anna og ef hún væri það myndi það „raska gríð­ar­lega stöð­ug­leika í nútíma sam­fé­lag­i,“ sagði dóms­for­mað­ur­inn, Janet DiFi­ore. Stöð­ug­leika sem byggir á því að menn haldi dýr sér til matar eða ynd­is­auka.

Sam­tök sem kenna sig við vernd villi­dýra (The Wild­life Conservation Soci­ety) reka Bronx-­dýra­garð­inn og segja að dýra­vernd­un­ar­sam­tökin hafi aldrei viljað „frelsa“ Happy heldur „rífa hana upp með rótum frá heim­ili hennar og flytja þangað sem þau vilja. Þetta er hug­mynda­fræði sem tekur ekki til­lit til hegð­unar henn­ar, sögu, per­sónu­leika, ald­urs og sér­þarfa“.

Með ein­staka félags­greind

En hver er sagan hennar Happy, fíls­ins sem hefur dvalið í Bronx-­dýra­garð­inum í 45 ár?

Fílar eru stærstu land­spen­dýr jarðar og meðal þeirra greindustu, lang­líf­ustu og skyn­söm­ustu. Fílar eru ekki jafn snjallir og menn á þá mæli­kvarða sem við oft­ast notum en þeir hafa yfir­burða félags­greind.

Fjöl­skyldur halda sam­an, vernda ung­viði fram í rauðan dauð­an, finna til með veikum og slös­uð­um, syrgja þá sem falla og éta ekki önnur dýr. Fílar lifa með öðrum orðum sann­ar­lega í sátt og sam­lyndi við menn og önnur dýr. Fái þeir yfir­höfuð tæki­færi til þess. Í hjörð­unum er mæðra­veldi; elstu kven­dýrin ráða ferð­inni. Þær ala saman upp ung­ana en karl­dýrin yfir­gefa hóp­inn þegar þeir verða kyn­þroska. Fara á flæk­ing. Stundum nokkrir sam­an.

Þessar stað­reyndir hafa mögu­lega alltaf verið fólk­inu sem bjó í nábýli við fíla ljós­ar. En Vest­ur­landa­búar fengu stað­fest­ingu á þeim með marg­vís­legum rann­sóknum sem gerðar hafa verið á atferli fíla síð­ustu ár og ára­tugi.

Nokkra vikna gamall fíll í dýragarði í Evrópu.
EPA

Sá sem pant­aði fíls­ung­ana sjö í upp­hafi átt­unda ára­tug­ar­ins hét Harry Shust­er. Hann hafði opnað „safa­rí-­garð“ í Flór­ída sem átti að vera allt öðru vísi en „búra­garð­ar“ for­tíð­ar. Fólk átti að geta ekið um og séð dýrin í „nátt­úru­legu“ umhverfi þótt slíkt væri auð­vitað tóm þvæla.

Hann safn­aði dýr­um. Vildi hafa þau sem flest og sem mest fram­andi. Hafði keypt gamlan sirkus­fíl en lang­aði í krútt­lega fíls­unga. Og hann fékk krútt­lega fíls­unga. Móð­ur­lausa, krútt­lega fíls­unga sem áttu eftir að þurfa að skemmta fólki og vera fluttir fram og til baka í vöru­flutn­inga­bílum og flug­vélum eftir geð­þótta mann­anna sem þá sögð­ust eiga.

Árið 1974 voru fíls­ung­arnir sjö sem dvalið höfðu saman í dýra­garð­inum í Flór­ída sendir sitt í hvora átt­ina. Einn þeirra, Sneezy, end­aði í dýra­garði í Tulsa og er þar enn. Tveir voru seldir í sirkus. Að minnsta kosti annar þeirra er enn hluti af slíkri sýn­ingu. Sá fjórði end­aði í dýra­garði í Kanada en lést árið 2008. Hver örlög þess fimmta, Sleepy, voru eru á huldu, segir í grein Atl­antic um sögu fíl­anna sjö.

En Happy og Grumphy fengu að vera áfram sam­an. Þær voru fyrst fluttar í nýjan dýra­garð í Texas og svo nokkrum árum síðar í Bronx-­dýra­garð­inn. Er þangað kom var þeim ekki komið fyrir í „villtu Asíu“. Þær voru settar í „Fíla­hús­ið“ ásamt öldungnum Tus. Þær þrjár voru svo látnar leika listir fyrir gesti og bera börn á bak­inu. Í upp­hafi níunda ára­tug síð­ustu aldar hreykti dýra­garð­ur­inn sér af „villtu Asíu“ þar sem dýrin hefðu „nóg plás­s“. En á sama tíma létu stjórn­endur hans klæða þrjá fíla í bún­inga og skemmta börn­um. Þjálf­ari sem kom úr sirkus­heim­inum hafði umsjón með Happy, Grumpy og Tus. Hann barði þær til hlýðni.

Ráð­ist á fóst­ur­syst­ur­ina

Þegar fíl­arnir í „villtu Asíu“ fóru að týna töl­unni skap­að­ist þar pláss fyrir Happy, Grumphy og Tus. En Tus gamla átti ekki langt eftir og dó árið 2002. Hún hafði verið það sem næst komst móður fyrir ungu fíl­ana tvo í mörg ár. Í „villtu Asíu“ voru nokkrir aðrir fíl­ar, m.a. Patty sem hafði misst afkvæmi sitt nokkrum árum fyrr. Og þegar Tus var farin yfir móð­una miklu raskað­ist valda­jafn­væg­ið. Patty réðst ásamt öðrum fíl á Grumpy. Áverkar hennar voru það alvar­legir að yfir­völd í dýra­garð­inum ákváðu að aflífa hana. Ekki þótti óhætt að hafa Happy í sama rými og Patty sem hafði valdið dauða fóst­ur­systur henn­ar. Ungi fíll­inn Sammy var fluttur í garð­inn til að Happy yrði ekki ein. En Sammy lifði ekki lengi. Og aftur var Happy ein.

Patty er enn á lífi. Það er hún sem er handan járnriml­anna. Sem þef­ast á við Happy annað slag­ið.

Fíll í dýragarði í Póllandi.
EPA

Sam­tökin NhRP segja að eng­inn fíll ætti að vera einn. Að henni líði illa við þær aðstæður sem hún er látin búa við. Og þau blása á þau rök að Happy „semji illa við aðra fíla“. Því getur ekki verið að henni semji ein­fald­lega ekki við Patty? Eða að tor­tryggni hennar í garð ann­arra eigi sér skýr­ingar í sögu henn­ar, ævi, sem ein­kennst hefur af missi og ofbeldi?

En úr því sem komið er, er það raun­veru­lega Happy fyrir bestu að vera flutt enn einu sinni þvert yfir Banda­ríkin í dýra­at­hvarf – þrátt fyrir að þar hefði hún miklu meira pláss? Fyrir nokkrum ára­tugum hefði svarið alveg örugg­lega verið já. En svo mikil áföll hafa dunið á Happy að sér­fræð­ingar Bronx-­dýra­garðs­ins, telja það úti­lok­að. Hún hefur verið í haldi manna í hálfa öld. Þekkir ekk­ert ann­að.

En hún á enn jafn­vel tutt­ugu ár eftir ólif­uð.

Fílahjörð fær sér að drekka í stöðuvatni í Úganda. Þar eru þeir í sínu náttúrulega umhverfi og hafa stór svæði til að fara um líkt og þeir helst kjósa.
Sunna Ósk Logadóttir

„Eng­inn efast um að það hafi slæm áhrif á fíla að vera í haldi manna,“ skrif­aði dóms­for­mað­ur­inn Jante DiFi­ore í meiri­hluta­á­lit­inu. En engin for­dæmi væru hins vegar fyrir því að önnur dýr en menn væru per­sónur í augum lag­anna og hefðu rétt­indi sam­kvæmt því. DiFi­ore minnti einnig á að kærendur væru ekki að fara fram á að Happy yrði alfarið frjáls. Heldur að hún yrði sett í hendur ann­arra manna við „eitt­hvað betri“ aðstæð­ur. Því væri ekki hægt að gefa Happy þau rétt­indi sem fylgja því að vera per­sóna fyrir lögum enda myndi það hafa gríð­ar­leg áhrif á stöð­ug­leika í nútíma sam­fé­lagi. Væri Happy per­sóna mætti yfir­fara það á öll önnur dýr, gælu­dýr jafnt sem hús­dýr.

Hug­myndin um að rétt­indi til frelsis eigi aðeins við um menn – og ein­göngu af því að þeir eru menn – tengj­ast kenn­ingum um yfir­burði manna í dýra­rík­inu og hvernig mann­eskjur hafi rétt til að drottna yfir öðrum dýrum af þeim sök­um.

Einn dóm­ar­inn, Rowan Wil­son, hvatti með­dóm­endur sína til að ögra þessum kenn­ingum og sagði að rökin „af því að þetta hefur aldrei verið gert áður“ haldi ekki. Hug­myndir fólks um nátt­úr­una og mik­il­vægi allra hennar þátta, allra hennar líf­vera, séu að breyt­ast. Og túlkun laga um per­sónu­frelsi (habeas corpus) þurfi að gera það einnig.

Karldýr á leið að vatnsbóli í Úganda.
Sunna Ósk Logadóttir


Laga­hug­takið habeas corpus (per­sónu­frelsi) hefur í gegnum tíð­ina verið nýtt til að frelsa fólk undan því að vera í haldi ann­arra. Wil­son segir að það hvort að fíll eða önnur dýr séu „per­són­ur“ skipti ekki höf­uð­máli. Hug­takið megi nota til að kom­ast að því hvort hvaða ein­stak­lingur sem er skuli vera áfram í haldi. „Við getum öll verið sam­mála um að fíll er ekki af teg­und­inni homo sapi­ens,“ skrif­aði hann í minni­hluta áliti sínu. „En fíll er ekki heldur skrif­borðs­stóll eða ána­maðk­ur.“

Á bil­inu 15-20 þús­und fílar eru í haldi manna víðs vegar um heim­inn. Þrátt fyrir að gerðar hafi verið til­raunir til að banna föngun fíla í heim­kynnum þeirra í Asíu og Afr­íku síð­ustu ár er það enn gert.

Bíða þess aldrei bætur

Fílar eiga alls ekki heima í dýra­görð­um, sagði í skýrslu um aðbúnað dýra í dýra­görðum í Evr­ópu og Norð­ur­-Am­er­íku sem kom út í vor. Að vera í dýra­görðum veldur fílum and­legu og lík­am­legu tjóni til ævi­loka. Skýrslan var gefin út af Born Free-­sam­tök­unum og byggði á rann­sóknum margra sér­fræð­inga.

Í fyrra voru 580 fílar í evr­ópskum dýra­görð­um. Dýra­vernd­un­ar­sam­tökin Born Free krefj­ast þess að fleiri fílar verði ekki settir í slíka garða. Að komið sé að enda­punkti í þeim efn­um. Bæta eigi aðstæður þeirra sem þar eru en setja ekki aðra í stað­inn þegar þeir svo deyja.

Sam­tökin benda á að um 40 pró­sent allra fíls­unga sem fæð­ast í breskum dýra­görðum deyi áður en þeir nái fimm ára aldri. „Dýra­garðar geta aldrei líkt eftir nátt­úru­legum heim­kynnum fíla,“ segja þau. Hinu flókna félags­mynstri þeirra er líka óger­legt að við­halda í görð­un­um.

Happy er sann­ar­lega gott dæmi um þetta. Hún er ein og í litlu rými. Að fylgj­ast með henni úr lest­inni sem gestir Bronx-­dýra­garðs­ins setj­ast í í skoð­un­ar­ferð sinni „er eins og að horfa á fanga,“ segir Steven Wise, for­seti NhRP-­sam­tak­anna. „Líf hennar er inn­an­tómt.“

Mann­eskjur eru ekki einu dýrin sem eiga rétt á við­ur­kenn­ingu og vernd sinna rétt­inda, segir á heima­síðu sam­tak­anna. Þótt mál þeirra hafi tap­ast fyrir áfrýj­un­ar­dóm­stólnum í New York er bar­átt­unni ekki lok­ið, segja sam­tök­in. „Við erum rétt að byrj­a,“ segja þau.

Og Non­human Right Project standa ekki ein í bar­átt­unni fyrir rétt­indum dýra. Það gera nú hund­ruð sam­taka manna um allan heim.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar