„Það skiptir máli að ala á fjölbreytni, því það er mikilvægt að heyra mismunandi raddir og viðhorf og kannski er árið í ár þar sem við komum því enn betur á framfæri,“ sagði forseti Akademíunnar, eða “The Academy of Motion Picture Arts and Science” eins og það heitir á ensku, en samtökin standa fyrir Óskarnum á hverju ári. Cheryl Boone Isaacs varð árið 2013 fyrsti blökkumaðurinn(!) og þriðja konan til að þjóna þessu embætti hjá Akademíunni, og hefur hún þurft að svara mikilli gagnrýni í ár vegna tilnefninganna.
En hvað veldur óánægjunni? Það er aðallega tvennt.
Fyrst er hægt er að slá upp hashtagginu #OscarSoWhite á Twitter til að komast að því hvers vegna fólk er ósátt:
Racism in Academy behind snubbing ‘Selma’ #OscarSoWhite all 20 nominations included no people of color #ReclaimMLK http://t.co/ZrZ5zlLBtw
— Terri Kay (@TKSFIAC) January 21, 2015
Academy Award Nominations spark Twitter backlash. #OscarSoWhite http://t.co/GYmRMUCL7C pic.twitter.com/0uoaDzMrL5
— Melissa Carr (@meliss604) January 15, 2015
Allir tilnefndir leikarar eru hvítir. Það er að segja, öll þau 20 sem eru tilnefnd í ár sem leikarar eða leikkonur í aðal- eða aukahlutverki, eru hvít. „Hvað er svo sem merkilegt við það?“ gætu einhverjir spurt. Kannski voru bara engir rómansk-amerískir eða svartir sem sköruðu fram úr í ár? Það var nú blökkukona sem fékk verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki í fyrra og þá var myndin “12 years a slave” valin sem besta myndin (sem fjallaði um frelsisbaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum í gegnum sögu einstaklingsins Solomon Northup). Eða eins og Ellen sem kynnti athöfnina í fyrra sagði:
„Möguleiki númer eitt, “12 years a slave” vinnur sem besta myndin.
Möguleiki númer tvö, þið eruð öll rasistar!“
Til þess að skilja valið er áhugavert að skoða hverjir veita verðlaunin.
Vinningshafarnir eru valdir af meðlimum Akademíunnar sem er kvikmynda„fólk“ sem er tilnefnt sérstaklega af Akademíunni og verður meðlimir ævilangt. Ekki hefur fengist staðfest hverjir nákvæmlega eru í hópnum en árið 2012 birtist grein í Los Angeles Times sem upplýsti að 94% af meðlimum Akademíunnar væru hvítir, 77% væru karlkyns og aðeins um 14% væru undir 50 ára.
Önnur stór kvikmyndahátíð vestanhafs er Golden Globe hátíðin og er hún alltaf haldin nokkuð fyrir Óskarshátíðina. Hún er líka talin vera góður mælikvarði á hvað er verðlaunahæft og eru sömu myndirnar, leikstjórarnir, og leikarar oft tilnefnd á báðum hátíðum. Þeir sem standa á bakvið Golden Globe hátíðina eru erlendir Hollywood-fréttaritarar eða “The Hollywood Foreign Press Association” og ólíkt því sem gerist á Óskarnum er sjónvarpsefni líka verðlaunað á Golden Globe verðlaunahátíðinni.
Hvítasti Óskar frá 1998
Valið hjá Óskarnum hefur ekki verið svona hvítt síðan 1998 og endurspeglar það ákveðna tilhneigingu til að koma aðeins ákveðnum staðalímyndum á framfæri. Þetta val verður líka að skoða í stærra samhengi en í gegnum linsu kvikmyndaiðnaðarins. Töluverður órói hefur verið í samskiptum kynþátta í Bandaríkjunum og annars staðar undanfarið, svo hvers vegna ætti þá ekki að vera rasismi í Hollywood? Í ár hefði einmitt verið kjörið tækifæri til að veita myndum á borð við Selmu athygli, sem þrátt fyrir að segja frá sögulegum atburði á sjöunda áratugnum, á mjög vel við í þeim raunveruleika sem við búum við í dag. Selma er leikstýrt af leikstýrunni Ava DuVerney og fjallar um baráttu blökkumanna fyrir kosningarétti, og sögulegri göngu jafnréttissinna á sjöunda áratugnum með Martin Luther King í fararbroddi. Myndin fær einungis eina Óskarstilnefningu (besta myndin) á meðan hún vakti mikla athygli á Golden Globe. Algjörlega er horft framhjá leikurum og leikkonum sem þykja sýna afburða góða frammistöðu (undirrituð hefur enn ekki séð myndina en hlakkar til) og hefur sniðganga Akademíunnar gagnvart leikstýru myndarinnar, DuVerney, verið harðlega gagngrýnt. Margir benda á að erfitt sé að skilja hvernig mynd geti verið í hópi bestu mynda ársins þegar leikstjórar eru ekki tilnefnir samhliða, en skýringuna gæti verið að finna í að 8 myndir eru tilnefndar í bestu mynd flokknum þegar aðrir flokkar hafa aðeins 5 tilnefningar.
Einnig hefur verið talað um hvernig litað fólk er oft vitlaust nafngreint á Instagram síðu Akademíunnar sem er vægast sagt vandræðalegt. Það er ákveðið form af rasisma að setja allt litað fólk í einn bás, og virðist þetta gerast oftar en fólk kærir sig um.
Hver er ástæðan fyrir því að DuVerney er ekki tilnefnd? Hún er jú kona. Og þá komum við að öðru máli sem varpar skugga á Óskarsverðlaunahátíðina. Og hér er samanburðurinn við Golden Globe í ár mjög áhugaverður. Glöggir muna kannski eftir skýrskotun Kate Blanchett í ójafnvægi kvikmyndabransans þegar hún tók við Óskarsverðlaunum fyrir leik í aðalhlutverki í fyrra:
Konur (og konur í Hollywood) fá ekki þá viðurkenningu sem þær eiga skilið. Og nú fyrst er farið að ræða þetta á opinberum vettvangi. Var þetta eitt af aðalskilaboðum Golden Globe hátíðarinnar í ár og er hún talin hafa verið sú allra feminíska til þessa.
Það er eflaust kynnunum Amy Poehler og Tina Fey að hluta að þakka en augnablikin voru mörg þar sem minnst var á bitastæð hlutverk kvenna í sjónvarpi eða fjölbreytileika sjónvarpsþátta, og að það væri gott að sjá iðnaðinn breytast, það hafi verið kominn tími til. Einhvern veginn virðist sjónvarp vera að aðlagast betur kröfum áhorfenda en kvikmyndaiðnaðurinn. Og ef maður vill líta á áhorfendur sem neytendur er nóg af dæmum frá síðasta ári þar sem konur hafa verið í aðalhlutverki (og það sem meiru skiptir, sem segja sögur frá sjónarhóli kvenna líka) og hafa þær myndir grætt á tá og fingri. Því hefur verið slegið fram að kvikmyndir af þessu tagi (t.d. Hunger Games, Frozen, Gravity, The Heat, Philomena) jafnvel þéni meira en hefðbundnar myndir sagðar einungis út frá sjónarhóli karla. Eða eins og Maggie Gyllenhaal sagði:
Það er nefnilega byltingarkennt og merki um þróun að það séu svo margir sjónvarpsþættir sem tala um raunveruleika kvenna og um konur sem eitthvað annað og meira en bara mömmur, systur, kærustur, dætur eða konur aðalpersónanna. Að konur séu til í sínum eigin rétti og séu flóknar og fjölbreyttar persónur er merki um framfarir. Og loksins þorir fólk að tala um að þetta hefur vantað í Hollywood, í sjónvarpi, og í fjölmiðlum fram til þessa. Og ekki bara konur. En það þýðir líka að það þurfi að skrifa þessi hlutverk, framleiða þessa þætti og leikstýra líka sögum sem eru sagðar frá sjónarhóli kvenna. Geena Davis hefur undanfarin ár barist fyrir því að breyta hugarfarinu í Hollywood í gegnum samtökin sín “Geena Davis Institute on Gender in Media” með því að hvetja til fleiri kvenhlutverka í kvikmyndum og að ekki eigi að ganga að því vísu að karlmenn hafi ekki áhuga á sögum kvenna (því sé nefnilega ekki öfugt farið):
Það þarf að tala um þetta og breyta þessu hugarfari. Sjónvarpsþættir hafa tekið af skarið, nú þarf kvikmyndaiðnaðurinn að fylgja eftir. En allt þarf líka að skoða út frá markaðslegu samhengi. Eins og áður segir þéna myndir sem segja frá sögum kvenna (eða sögum kvenna og karla saman) jafn mikið ef ekki meira en hefðbundnar Hollywood myndir með karlmenn í öllum aðalhlutverkum. Konur eru um helmingur bíógesta, af hverju ætti ekki að vera meira val fyrir alla? Það mætti færa rök fyrir því að ekki veitir af að gera fleiri myndir sem sagðar eru frá mismunandi sjónarhornum, til að hjálpa okkur að skilja betur hvert annað í staðinn fyrir að vera hrædd við það óþekkta og það sem er öðruvísi en við sjálf (það hafa konur gert að einhverju marki með því að setja sig í hugarheim karlmanna lengi með góðum árangri og sama má segja um blökkufólk).
„Jaðarhópum“ boðið á nokkurra ára fresti
Hvað ef verðlaun fyrir leik í aðalhlutverki væru kynlaus? Hversu margar konur yrðu þá tilnefndar? Hvernig eiga konur að stefna að því að vinna sem leikstjórar eða handritshöfundar ef þær eru frá upphafi skildar eftir úti í kuldanum? Óskarinn virðist nota hópa eins og konur og blökkufólk sem undirhópa sem hægt er að taka með inn á milli og „tikka við“ eins og t.d. Kathryn Bigalow sem fékk Óskarinn fyrir bestu leikstjórn – fyrst kvenna í 87 ára sögu Óskarsins, og gat því ómögulega verið tilnefnd aftur. Aðrar reglur virðast gilda fyrir karlkyns leikstjóra (Steven Spielberg hefur verið tilnefndur sjö sinnum og unnið tvisvar) og eins er hægt að bera saman hvíta leikara í samanburði við svarta/litaða leikara og leikkonur.
Herra Óskar er til í að bjóða „jaðarhópunum“ með í partí á nokkurra ára fresti en vill helst bara leika við þá sem líkjast honum mest (hvítir karlar yfir sextugt). Við eigum á hættu að sjá bara viðhorf ákveðins hóps og heyra raddir sem lýsa alltaf sama reynsluheiminum: reynsluheimi hvítra karlmanna. Sem aftur elur á fáfræði og ótta við það óþekkta.
Sá reynsluheimur getur verið mjög áhugaverður, hann er bara ekki áhugaverðari en reynsluheimur rómansk-amerískra kvenna (Jane the Virgin), transfólks (Transparent) eða barátta Martin Luther Kings fyrir jöfnum réttindum (Selma). Miðlar eins og kvikmyndir og sjónvarp eru fullkomnir til þess að miðla öllum þessum ólíku sögum. Svo má spyrja sig af hverju kvikmyndaiðnaðurinn (og heimurinn allur) hefur svona mikinn áhuga á að vita hvaða kvikmyndir einslitur og þröngsýnn hópur eins og Akademían verðlaunar á hverju ári? Verðlaun af þessu tagi eru mikill hluti af markaðssetningu kvikmynda og skipta því verulega miklu máli. Þetta snýst ekki bara um viðurkenninguna heldur líka um að að opna dyr fyrir sem flesta svo að mismunandi sögur komist að og að kvikmyndastúdióin séu með í þróuninni svo að sögumenn nútímans séu sem fjölbreytastir.
Tíminn er núna til að opna huga og hjörtu fyrir fjölbreytileika plánetunnar. Og kvikmyndir hafa þar mikilvægu hlutverki að gegna.