Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra Danmerkur segir voðaatburðina í Kaupmannahöfn í gær og síðastliðna nótt ekki breyta dönsku samfélagi. Tjáningar- og trúfrelsi verði áfram einn af hornsteinum samfélagsins.
Forsætisráðherrann og Mette Frederiksen dómsmálaráðherra héldu fréttamannafund í morgun. Eftir að hafa vottað aðstandendum hinna látnu hluttekningu sína lögðu ráðherrarnir áherslu á að á stundum sem þessum stæði danska þjóðin saman. Voðaverk, eins þau sem hér voru framin, verði ekki til að hindra tjáningafrelsi borgaranna hvorki varðandi trúfrelsi né stjórnmálaskoðanir. „Við látum ekki kúga okkur” sagði Helle Thorning-Schmidt. Ráðherrarnir hrósuðu lögreglunni og störfum hennar.
Myrti einn og særði þrjá
Síðdegis í gær réðst vopnaður maður inn í samkomu- og kaffihúsið Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn. Maðurinn lét skotum úr hríðskotariffli rigna yfir fólk í salnum en þar stóð yfir fundur um málfrelsi. Meðal ræðumanna var sænski teiknarinn Lars Vilks, hann hefur meðal annars teiknað skopmyndir af Múhameð spámanni í hundslíki. Í eða við anddyri samkomuhússins skaut tilræðismaðurinn einn fundargesta til bana, hann hét Finn N ørgaard og var 55 ára. Árásarmaðurinn særði tvo lífverði og einn lögregluþjón áður en hann lagði á flótta.
Mikil og fjölmenn leit hófst strax, en manninum tókst að komast undan á bíl sem hann neyddi eigandann til að afhenda sér. Bílinn skildi hann eftir skammt frá Svanemøllen lestarstöðinni, gekk nokkurn spöl og hringdi síðan á leigubíl.
Leigubílstjórinn kom lögreglunni á sporið
Leigubílstjórinn ók manninum að íbúðarhúsi, rétt hjá Nørrebro lestarstöðinni. Lögreglan fékk nokkru síðar upplýsingar um þessa ökuferð og á eftirlitsmyndavél sást að maðurinn hafi stoppað í húsinu í um tuttugu mínútur og farið þaðan á fimmta tímanum síðdegis og komið við í öðru húsi í nágrenninu. Lögreglan vaktaði eftir það bæði húsin.
Ekki er síðan vitað um ferðir mannsins fyrr en um klukkan eitt síðastliðna nótt þegar hann skaut til bana Dan Uzan, 37 ára gamlan en hann stóð vörð við bænahús gyðinga við Krystalgade, skammt frá Frúarkirkju. Tveir lögreglumenn særðust en hefðu þeir ekki verið á staðnum hefði tilræðismaðurinn átt greiða leið inn í veislusal við bænahúsið en þar voru áttatíu manns í fermingarveislu. Maðurinn hljóp svo í átt að Nørreport lestastöðinni, skammt frá bænahúsinu.
Um klukkan fimm í morgun kom maðurinn, sem lögregla taldi víst að hefði verið að verki, bæði í Krudttønden og í Krystalgade, aftur að öðru íbúðarhúsanna á Nørrebro, sem lögregla vaktaði. Þegar kallað var til hans svaraði hann með skothríð. Lögreglan skaut á móti og maðurinn lést.
Vopnaður maður réðst inn í samkomu- og kaffihúsið Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn í gær. Maðurinn lét skotum úr hríðskotariffli rigna yfir fólk í salnum en þar stóð yfir fundur um málfrelsi. Meðal ræðumanna var sænski teiknarinn Lars Vilks, hann hefur meðal annars teiknað skopmyndir af Múhameð spámanni í hundslíki.
Lögreglan þekkti til mannsins
Á fréttamannafundi um hádegisbil í dag kom fram að lögreglan hefði þekkt til árásarmannsins en vildi á þeirri stundu ekki veita frekari upplýsingar um hann. Ítarleg rannsókn er í fullum gangi, hún beinist að fjölmörgum þáttum: var maðurinn einn að verki, hver er bakgrunnur hans, hver var tilgangur hans o.s.frv. Rannsókn lögreglunnar beinist ekki hvað síst að því hvort maðurinn hafi með einhverjum hætti tengst alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum. Á áðurnefndum fréttamannafundi kom fram að lögregla vissi ekki til að maðurinn hefði starfað með erlendum samtökum eða fengið þar þjálfun.
Hefði getað farið mun verr
Danskir fjölmiðlar hafa í dag fjallað fjallað ítarlega um atburði gærdagsins og næturinnar. Meðal annars um frammistöðu lögreglunnar. Allir sem rætt hefur verið við eru á einu máli um að lögreglan hafi staðið sig mjög vel og komið í veg fyrir að að verr færi.
Fyrrverandi yfirmaður dönsku rannsóknarlögreglunnar hrósaði lögreglunni, sem hann sagði hafa sýnt og sannað að hún kynni til verka. Hann lagði líka sérstaka áherslu á að aldrei yrði hægt að koma í veg fyrir hryðjuverk en það væri lögreglu að þakka að ekki fleiri skyldu týna lífi.
Danski dómsmálaráðherrann, Mette Frederiksen (til hægri) og franski innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve leggja blóm fyrir utan Krudttønden í morgun.
Hryðjuverkaógnin vofir áfram yfir
Danska lögreglan hefur lengi talið sig vita að fyrr eða síðar myndu hryðjuverkamenn láta til skarar skríða í Danmörku. Sú umræða varð meira áberandi eftir voðaverkin í París fyrir rúmum mánuði. Spurningunni hvort þau óhæfuverk hafa á einhvern hátt verið kveikja að því sem gerðist hér í Kaupmannahöfn verður kannski svarað síðar. Helle Thorning Schmidt sagði í dag að hættan á hryðjuverkum væri áfram til staðar en danska þjóðin stæði saman og „við búum í góðu landi og það tekur enginn frá okkur"