Neðanjarðarlestakerfi Moskvuborgar fagnaði nýverið áttatíu ára „starfsafmæli” sínu en kerfið var formlega opnað fyrir almenningi 15. maí árið 1935. Þá var um að ræða eina 11 kílómetra langa lestarlínu sem fór á milli þrettán lestarstöðva - í dag spanna tólf lestarlínur um það bil 330 kílómetra og lestarstöðvarnar eru orðnar tæplega tvö hundruð.
Stolt Sovétríkjanna
Byggingarframkvæmdir neðanjarðarlestakerfisins á upphafsárunum voru hluti af gríðarlegri endurbyggingu og umsvifamiklu endurskipulagi Moskvuborgar. Framkvæmdirnar voru þó ekki eingöngu með þeim tilgangi fyrirskipaðar að bjóða Moskvubúum uppá öruggari og skilvirkari leið til ferðalaga heldur hafði Jósef Stalín, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, aðrar og stærri hugmyndir í huga. Stalín lagði því megináherslu á að engu yrði til sparað við að gera lestarstöðvar kerfisins sem glæsilegastar í hönnun og arkitektúr. Neðanjarðarlestakerfið átti í senn að verða stolt Sovétríkjanna, ásamt því að endurspegla framtíðarsýn kommúnismans og undirstrika leiðtogahæfni Stalíns sjálfs.
Margir af helstu arkitektúrum Sovétríkjanna voru því kallaðir til verksins og sáu þeir til þess að gólf og veggir lestarstöðvanna voru þaktir úrvals flísum og marmara, salirnir lýstir með gullhúðuðum og ríkulegum ljósakrónum - auk listaverkanna sem nafntogaðir listamenn máluðu á veggi og loft stöðvanna. Fjölmargar af lestarstöðvum Moskvu eru því annálaðar, enn þann dag í dag, fyrir óviðjafnanlegan arkitektúr og stórbrotin listaverk. Má þar sem dæmi nefna Mayakovskaya -og Ploshchad Revolutsii lestarstöðvarnar en þær opnuðu báðar árið 1938.
Ploshchad Revolytsii-lestarstöðin.
Blóð, sviti og tár
Þrátt fyrir að niðurstaða framkvæmdanna hafi verið með jafn glæsilegum hætti og raun ber vitni þá er óhætt að fullyrða að byggingarvinnan sjálf hafi einnig tekið sinn toll. Aðbúnaður hins almenna verkamanns við framkvæmdirnar var vægast sagt hræðilegur. Verkamennirnir, sem sumir hverjir voru reyndar fangar í afplánun, þurftu að sætta sig við lífshættulegt vinnuumhverfi og minni -og meiriháttar vinnuslys voru því daglegt brauð.
Ströng tímaáætlun byggingarframkvæmdanna og almenn fákunnátta á sviði neðanjarðarlestasamgangna var heldur ekki til þess að hjálpa til. Líkt og Níkíta Krúsjov, sem fór um tíma með yfirumsjón framkvæmdanna og varð síðar leiðtogi Sovétríkjanna, viðurkenndi í fyrsta bindi af endurminningum sínum. „Við vorum mjög fáfróðir um verkefnið í fyrstu. Við hefðum eflaust átt auðveldara með að senda mann út í geiminn á þeim tíma heldur en að byggja þetta lestakerfi,” er haft eftir Krúsjov.
Mayakovskaya-lestarstöðin en stöðin var ma. notuð sem sprengjuskýli í seinni heimsstyrjöldinni. Stalín hélt fræga ræðu í lestarstöðinni í nóvember árið 1941 á meðan nasistarnir létu sprengjur falla á borgina.
Kaffibolli Stalíns og hin dularfulla “Metro-2” áætlun
Í gegnum tíðina hafa fjölmargar sögusagnir og samsæriskenningar spunnist í tengslum við neðanjarðarlestakerfið í Moskvu. Ein þeirra tengist hönnun Koltsevaya lestarlínunnar eða „hringlínunnar” svokölluðu sem gengur hringinn í kringum miðborg Moskvu. Ekki var nefnilega gert ráð fyrir hringlínunni í upphaflegum teikningum verkfræðinganna sem fóru nötrandi hræddir á fund Stalíns til að kynna tillögur sínar í aðdranda framkvæmdanna. En eftir kynninguna á lítt hrifinn Stalín að hafa lagt kaffibolla sinn á mitt kortið með teikningunum og yfirgefið fundinn, þegjandi og hljóðarlaust. Þegar verkfræðingarnir fjarlægðu hins vegar kaffibollann varð eftir brúnn hringur um miðborgina og þar með kveikjan að hugmyndinni um hringlínuna. Það er því vel við hæfi að hringlínan sé einmitt brún að lit á öllum lestarkortum nú til dags.
Önnur óstaðfest sögusögn er að Stalín hafi, samhliða byggingarframkvæmdum neðanjarðarlestakerfisins, fyrirskipað að grafin yrðu dýpri “leynigöng” sem nýtast myndu helstu ráðamönnum í Moskvu á flótta, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Lestargöngin áttu að liggja frá Kreml til höfuðstöðva KGB leyniþjónustunnar og þaðan út fyrir borgina. Þessi leynilega áætlun gengur jafnan undir heitinu „Metro-2” í heimildum.
Vettvangur hryðjuverkaárása
Þrátt fyrir að kjarnorkuárásir hafi nú ekki orðið raunin í Mosvku þá hefur neðanjarðarlestakerfi borgarinnar verið vettvangur nokkuð tíðra hryðjuverkaárása í seinni tíð. Í byrjun janúar árið 1977 dóu sjö manns í þremur sprengjuárásum í Moskvu en ein sprengingin átti sér stað í neðanjarðarlestarkerfinu, á milli Izmailovskaya -og Pervomaiskaya lestarstöðvanna. Meðlimir samtaka þjóðernissinnaðra Armena voru teknir af lífi fyrir verknaðinn en sjálf KGB leyniþjónustan var seinna bendluð við sprengingarnar.
Í febrúar og ágúst árið 2004 áttu sér stað tvær mannskæðar sjálfsmorðsárásir í neðanjarðarlestakerfinu þar sem yfir fimmtíu manns létu lífið og á annað hundrað manns slösuðust. Gazoton Murdash hryðjuverkasamtökin frá Téténíu lýstu yfir ábyrgð á árásunum.
Síðustu skipulögðu hryðjuverkaárásirnar í neðanjarðarlestakerfi Moskvuborgar voru svo að morgni hins 29. mars árið 2010 þegar „svörtu ekkjurnar” svokölluðu, úr röðum aðskilnaðarsinna í Téténíu, sprengdu tvær sprengjur. Sjálfsmorðsárásirnar voru framkvæmdar á háannatíma og kostuðu fjörtíu manns lífið, á Lubyanka -og Park Kultury lestarstöðvunum.
Lestarlínurnar í Moskvu, þar á meðal hringlínan svokallaða. Myndin er af vef Moskvu-metrosins.
Stækkunarframkvæmdir í fullum gangi
Samkvæmt opinberri heimasíðu neðanjarðarlestakerfisins í Moskvu ferðast um það bil 9 milljónir farþega með því að meðaltali á dag. Borgarstjórinn Sergei Sobyanín tilkynnti hins vegar nýverið, í tilefni af áttatíu ára afmælinu, að vonir stæðu til að gera neðanjarðarlestakerfið mun stærra og betra. „Við höfum sett okkur það markmið að stækka neðanjarðarlestakerfið um helming á næstu árum. Auk þess sem við höfum undirritað samning við forráðamenn neðanjarðarlestakerfisins í Peking um samstarf á sviði rannsókna og þróunar á tækninýjungum sem nýtast munu til þess að gera neðanjarðarlestakerfi borganna notendavænna og skilvirkara,” sagði í fréttatilkynningunni.
Það er því óhætt að segja að neðanjarðarlestakerfið í Moskvu haldi áfram að stækka og dafna þó svo að það þjóni ekki lengur upprunalegum tilgangi sínum - að upphefja Stalín og greiða veg kommúnismans.