Hvað er að gerast í Kasakstan?
Fjölmennum mótmælum í Kasakstan hefur verið mætt með harkalegum aðgerðum frá einræðisstjórn landsins og hernaðaríhlutun frá Rússum. Hvað olli þessu ástandi?
Miklar vendingar urðu í Kasakstan í vikunni sem leið. Mótmæli sem voru upphaflega einungis gegn olíuverðhækkunum hafa leitt til landlægs neyðarástands, hernaðaríhlutunar frá Rússlandi og fjölda dauðsfalla.
Erfitt hefur reynst að fá öruggar heimildir af ástandinu þar sem slökkt hefur verið á nettengingunni í landinu, en þjóðarleiðtogar víða um heim kalla eftir því að fundin verði farsæl lausn á ástandinu. Kjarninn tók saman helstu orsakir ófriðarins og hvernig atburðarrásin hefur undið upp á sig á síðustu dögum
Með ófrjálsustu ríkjum heims
Þrátt fyrir að Kasakstan sé lýðveldi að nafninu til er lýðræðisþróun þar skammt á veg komin. Alveg frá því að landið öðlaðist sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 hefur fyrsti forseti þess, Nursultan Nazarbayev, haldið um valdataumana og bælt niður hvers kyns stjórnarandstöðu með valdi.
Nazarbayev, sem var einnig forseti landsins á meðan það var hluti af Sovétríkjunum, er sagður hafa sigrað í öllum kosningum sem haldnar voru frá 1991 til 2015 og fengið yfir 90 prósent atkvæða í hvert skipti, samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórn Kasakstan. Engin þessara kosninga hefur hins vegar staðist alþjóðlegar kröfur.
Eftir 28 ár á valdastóli ákvað Nazarbayev svo að láta af embætti sem forseti landsins árið 2019, en hann sat þó enn fastast sem formaður stjórnarflokksins Nur Otan og formaður þjóðaröryggisráðs landsins. Við tók nýr forseti, Kassym-Jomart Tokayev, en hann fékk 71 prósent atkvæða í kosningunum sama ár. Þær kosningar voru einnig gagnrýndar af alþjóðlegum samtökum, meðal annars Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE).
Samkvæmt hugveitunni Freedom House flokkast Kasakstan með ófrjálsustu ríkjum heims, þar sem fjölmiðlar eru annað hvort í eigu ríkisins eða viðskiptamanna sem eru hliðhollir ríkisstjórninni. Tjáningarfrelsi og félagafrelsi er einnig takmarkað, auk þess sem spilling er landlæg. Með tilkomu heimsfaraldursins hefur ríkisstjórnin svo notað tækifærið til að þrengja enn frekar að borgaralegum réttindum Kasaka, fyrst með með samkomubönnum og svo frekari takmörkunum á möguleikum til að skipuleggja mótmæli.
Hækkanir á olíuverði vöktu reiði
Helsta framleiðsluvara Kasakstans er olía, en olíuframleiðslan þar er af svipaðri stærðargráðu og í Noregi. Alls eru þrír fjórðu af útflutningstekjum landsins eru vegna sölu á olíu og öðru jarðefnaeldsneyti. Sjálfir nota íbúar landsins töluvert af fljótandi jarðolíugasi (LPG), sem er blanda af ýmsum jarðefnagösum, til húsitunar og sem eldsneyti fyrir bíla, ofna og grill.
Á síðustu mánuðum þessi gasblanda orðið mun dýrari, eftir því sem verð á hrávörum hefur hækkað hratt á alþjóðavísu. Samhliða því hefur verð á öðrum neysluvörum einnig aukist, en ríkisstjórnin tilkynnti í haust að verðbólgan í landinu hefði náð tæpum níu prósentum.
Í byrjun ársins tilkynnti ríkisstjórnin svo afléttingu verðþaks á LPG-gasblöndunni, en með því tvöfaldaðist verðið á henni á einni nóttu. Þessi ákvörðun leiddi til háværra mótmæla í stærstu borg landsins, Almaty, á sunnudaginn í síðustu viku. Mótmælin breyttust svo fljótt úr því að snúast um verð á jarðolíugasi í allsherjarmótmæli gegn sitjandi stjórnvöldum og tangarhaldi Nazarbayev á kasöksku þjóðinni.
Mótmæli breytast í óeirðir
Stjórnvöldum gekk illa að halda mótmælunum í skefjum, en á síðasta miðvikudag reyndi núverandi forsetinn, Tokayev, að stöðva þau. Hann sagði „hryðjuverkamenn“ sem fjármagnaðir væru erlendis frá vera að baki mótmælunum og lofaði að bregðast við þeim „með fullri hörku.“ Þá lýsti hann yfir neyðarástandi í öllu landinu og útgöngubanni á kvöldin.
Þessar aðgerðir reyndust ekki nægar til að koma á friði, en mótmælin héldu áfram og stigmögnuðust í óeirðir Almaty. Sumar öryggissveitir ríkisins mættu borgurum með táragasi og leiftursprengjum, en aðrar lögðu niður vopn sín. Mótmælendurnir náðu svo að kveikja í ríkisbyggingum í Almaty, þar á meðal aðsetur forsetans í borginni, og leggja hald á alþjóðaflugvöll borgarinnar.
Seinna sama dag sagði ríkisstjórn Kasakstan af sér og skipaði Tokayev þá annan forsætisráðherra tímabundið. Hann kom svo aftur á tímabundnu verðþaki á LPG-gasblöndunni og ýmsum öðrum neysluvörum sem hann sagði að væru „félagslega mikilvægar,“ auk þess sem hann skipaði nýrri ríkisstjórn að koma umbótum í gegn sem myndi hjálpa fjárhagsstöðu tekjulágra heimila.
„Skjóta til að drepa“
Tokayev lagði einnig fram formlega beiðni um aðstoð til hernaðarbandalags gömlu Sovétríkjanna, CSTO. Bandalagið, sem er leitt áfram af Rússlandi, ákvað að verða við þeirri beiðni og tilkynnti á miðvikudagskvöldið að herlið yrðu sent til landsins til að stöðva óeirðirnar.
Alls hafa um 2.500 hermenn verið sendir til Kasakstan frá aðildarríkjum CSTO, en samkvæmt Reuters er rússneskum hermönnum flogið inn í landið viðstöðulaust. Utanríkisráðuneyti Rússlands tók svo undir staðhæfingum Tokayevs um að mótmælin væru drifin áfram af erlendum æsingamönnum og tilkynnti að frekari aðstoð til að vinna gegn hryðjuverkastarfsemi í landinu væri möguleg.
Á föstudaginn þakkaði Tokayev Vladímír Pútín, forseta Rússlands, sérstaklega fyrir aðstoðina við að koma böndum á mótmælin. Enn fremur bætti hann við að herlið CSTO og öryggissveitir ríkisins hefðu fengið heimild að „skjóta til að drepa“ mótmælendur án viðvörunar.
Mörg dauðsföll og nettenging rofin
Samkvæmt stjórnvöldum í Kasakstan hafa yfir 164 manns látist og yfir 2.200 manns særst, auk þess sem yfir sex þúsund manns hafa verið handteknir í óeirðunum. Þessar tölur hafa þó ekki verið sannreyndar af óháðum aðila.
Erfitt er að fá nákvæma mynd á ástandinu, þar sem stjórnvöld í Kasakstan slökktu á netsambandinu í landinu á miðvikudaginn. Samkvæmt fréttaveitunni Deutsche Welle eru einu virku fjarskiptaleiðirnar á meðal almennings nú í gegnum landlínu, en samskiptaforrit liggja öll niðri sökum netleysis.
Heimildarmenn Deutsche Welle segja ástandið í Almaty nú hafa róast mikið frá því í síðustu viku, þó enn heyrist byssuskot víðs vegar um borgina. Litlar búðir hafa opnað aftur til að selja matvörur, en verslunarkjarnar og stærri matvöruverslanir eru enn lokaðar.
Ástandið hefur valdið miklum vandræðum fyrir eigendur rafmyntarinnar Bitcoin víða um heim, en landið hýsti um 18 prósent af allri framleiðslu hennar á heimsvísu. Allt frá því að slökkt var á netsambandinu hefur virði Bitcoin lækkað um níu prósent, úr 46 þúsund Bandaríkjadölum niður í 42 þúsund dali.
Heimurinn fylgist með
Mótmælin og viðbrögð stjórnvalda í Kasakstan og Rússlandi við þeim hafa vakið athygli víða um heim. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Michelle Bachelet, hvatti báðar liðar til að finna friðsamlega lausn á ástandinu og kallaði eftir því að fangelsaðir mótmælendur væru látnir lausir.
Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, töluðu einnig á svipuðum nótum á föstudaginn og kölluðu eftir því að ofbeldinu linni. Þau sögðu að Evrópusambandið væri reiðubúið að bjóða fram hjálp sína ef það gæti orðið að liði við að koma á friði í landinu með auknu samtali á milli ríkisstjórnar og mótmælenda, en gagnrýndu íhlutun Rússa.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, gagnrýndi Tokayev fyrir að hafa gefið herliði heimild til að skjóta á mótmælendur án viðvörunar fyrr í dag. Stjórnvöld þar í landi segjast fylgja náið með þróuninni og gagnrýndi kasöksk stjórnvöld fyrir að hafa slökkt á nettengingu um allt landið. Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Jen Psaki, þvertók einnig fyrir orðróm um að Bandaríkin væru að baki mótmælunum, en samkvæmt henni er slíkur orðrómur augljós leið rússneskra stjórnvalda til að koma á upplýsingaóreiðu.
Ekki voru þó öll ríki gagnrýnin á viðbrögð ríkisstjórnar Kasakstans við ástandinu. Forseti Kína, Xi Jinping, lofaði Tokayev fyrir „mjög viðeigandi“ aðgerðir gegn mótmælendum á föstudaginn og sagði þær sýna ábyrgð hans gagnvart landinu sínu í verki. Sömuleiðis sagði forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, að tyrknesk stjórnvöld stæðu þétt með Kasakstan og bauð fram hjálp sína til að binda enda á ófriðinn.