Einfætti maðurinn og gæsluvarðhaldið

Það er ekki daglegt brauð að maður grunaður um að undirbúa sjórán sé leiddur fyrir dómara í Kaupmannahöfn. Slíkt gerðist þó sl. föstudag. Maðurinn var handtekinn eftir skotbardaga á Gíneuflóa en situr nú í gæsluvarðhaldi.

Danska freigátan Esbern Snare.
Danska freigátan Esbern Snare.
Auglýsing

Saga þessa máls hófst 24. nóv­em­ber sl. Þann dag var danska frei­gátan Esbern Snare á sigl­ingu á Gíneuflóa. Frei­gátan hafði verið send þangað til að ann­ast gæslu á þess­ari fjöl­förnu sigl­inga­leið sem hund­ruð skipa fara dag­lega, þar á meðal 30 – 40 sem sigla undir dönskum fána.

Þegar komið var undir kvöld áður­nefndan dag fékk áhöfnin á Esbern Snare veður af því að grun­sam­legur bátur væri á ferð ekki langt und­an. Þyrla frei­gát­unnar var send á loft og kom fljót­lega auga á bát­inn. Um borð sáust átta eða níu menn og ýmis konar bún­aður sem áhöfn þyrl­unnar lýsti sem „verk­færa­kassa“ sjó­ræn­ingja, vopn, stiga, kaðla og fleira slíkt. Gegnum tal­stöð sendi áhöfn þyrl­unnar skipun til báts­verja að stansa þegar í stað. Báts­verjar sinntu því engu (síðar kom í ljós að þeir höfðu enga tal­stöð) og þá skaut þyrlu­á­höfnin á einn utan­borðs­mótor báts­ins og eyði­lagði hann.

Hrað­skreiður gúmmí­bátur með sér­þjálf­aða frosk­menn inn­an­borðs var þá lagður af stað í átt­ina að ókunna bátn­um. Þegar bát­ur­inn frá frei­gát­unni nálg­að­ist ókunna bát­inn kall­aði yfir­maður frosk­mann­anna gegnum gjall­ar­horn. Þegar ekki barst svar var skotið við­vör­un­ar­skot­um, sem svarað var með skot­hríð frá ókunna bátn­um. Eftir stuttan skot­bar­daga gáfust menn­irnir á ókunna bátnum upp. Þá voru þrír lif­andi um borð ásamt fjórum sem fallið höfðu í bar­dag­an­um, einn til við­bótar var á sundi í sjón­um.

Auglýsing
Sá hafði særst illa á fæti eftir að hann kastaði sér fyrir borð, lík­lega lent með fót­inn ískrúf­una. Þegar mað­ur­inn var kom­inn um borð í bát frei­gát­unnar sást strax að hann hafði slasast alvar­lega á öðrum fæt­in­um. Menn­irnir fjórir af ókunna bátnum ásamt lík­unum fjórum voru svo fluttir um borð í Esbern Snare. Lík­unum var komið í kæli-eða frysti­geymslu, þrír voru settir í sér­staka fanga­klefa um borð en sá slas­aði fluttur í sjúkra­stofu frei­gát­unn­ar, þar sem læknar urðu að fjar­lægja annan fót hans. Í einu og öllu var reynt að fylgja alþjóða­lög­um, sem Dan­mörk hefur skuld­bundið sig til að hlíta, um með­ferð fanga. Dag­inn eftir hand­tök­una voru fjór­menn­ing­arn­ir, í Bæj­ar­rétti Kaup­manna­hafn­ar, úrskurð­aðir í gæslu­varð­hald, in absentia eins og það heit­ir. 

Babb í bát­inn

Margar þjóðir hafa gert sér­stakt sam­komu­lag við lönd sem liggja að Gíneuflóa um að taka við sínum rík­is­borg­urum hafi þeir verið hand­teknir utan lög­sögu við­kom­andi ríkis á fló­an­um. Ein­hverra hluta vegna höfðu dönsk stjórn­völd ekki gert neinn slíkan samn­ing áður en Esben Snare var send­ur.

Gíneuflói

Eftir nokk­urra daga japl, jaml og fuð­ur, var ákveðið að Esbern Snare héldi til hafnar í Gana, þar sem slas­aði mað­ur­inn færi á sjúkra­hús. Yfir­völd í Gana tóku hins vegar skýrt fram í samn­ingum að mað­ur­inn yrði ekki þar í landi til fram­búð­ar, og hinir fang­arnir þrír og líkin fjögur yrðu áfram um borð í frei­gát­unni.

Klúð­ur 

Danskir þing­menn gagn­rýndu varn­ar­mála­ráðu­neytið fyrir að hafa ekki gengið frá samn­ingum við lönd í nágrenni Gíneuflóa um að taka við mönnum sem hugs­an­lega yrðu hand­teknir á hafi úti. Varn­ar­mála­ráðu­neytið svar­aði því til að þetta til­tekna atvik á Gíneuflóa væri óvenju­legt og aldrei hefði staðið til að áhöfnin á Esbern Snare hand­tæki sjó­ræn­ingja, eða, eins og í þessu til­viki, menn sem und­ir­byggju sjó­rán. 

Snúið mál

Í upp­hafi var ekki vitað af hvaða þjóð­erni átt­menn­ing­arnir væru. Danskir blaða­menn töldu sig fljót­lega vita að þeir væru frá Níger­íu. Sem síðar kom í ljós að var rétt. Sökum þess að milli Nígeríu og Dan­merkur var eng­inn samn­ingur um afhend­ingu fanga var málið snú­ið. Danir vildu í lengstu lög forð­ast að rétta yfir mönn­unum í Dan­mörku og í umfjöllun um málið í fjöl­miðlum kom fram að sjó­ræn­ingjar sem Hol­lend­ingar höfðu hand­tekið og réttað yfir í Hollandi höfðu sótt um hæli þar í landi, og feng­ið. Hol­lend­ingar sitja uppi með þessa menn eins og danskur lög­fræð­ingur komst að orði. Danir kæra sig ekki um að slíkt ger­ist í Dan­mörku. 

En væri þá ekki ein­fald­ast að senda menn­ina í land í Níger­íu? Málið er hins­vegar ekki svona ein­falt. Dönsk stjórn­völd yrðu, í sam­ræmi við mann­rétt­inda­sátt­mála, fyrst að fá full­vissu fyrir því að fang­arnir fengju rétt­láta máls­með­ferð, myndu ekki sæta pynt­ingum eða yrðu jafn­vel teknir af lífi. Danski varn­ar­mála­ráð­herr­ann og emb­ætt­is­menn ráðu­neyt­is­ins klór­uðu sér í koll­inum dögum og vikum saman en á meðan biðu fang­arnir þrír, og líkin fjög­ur, um borð í Esbern Snare á Gíneuflóa. Fang­inn sem misst hafði fót­inn dvaldi enn um sinn á sjúkra­húsi í Gana.

Þrír settir um borð í bát

Í lið­inni viku dró til tíð­inda í mál­efnum fang­anna. Þre­menn­ing­arnir sem höfðu verið um borð í Esbern Snare voru settir um borð í lít­inn bát, sem til­heyrði frei­gát­unni, skammt frá landi, utan lög­sögu Níger­íu. Bát­ur­inn var búinn litlum utan­borðs­mótor og nægi­legu elds­neyti til að sigla til lands og enn­fremur var matur og vatn um borð. Áhöfnin á Esbern Snare fylgd­ist með bátnum þangað til hann var kom­inn upp undir land, við ósa Níger­fljóts. Danski dóms­mála­ráð­herr­ann lagði áherslu á að fallið hefði verið frá ákæru en menn­irnir hefðu ekki verið náð­að­ir. Til­gang­ur­inn með að falla frá ákærunni væri að menn­irnir kæmu ekki til Dan­merk­ur. 

Ein­fætti mað­ur­inn til Kaup­manna­hafnar

Sama dag og Níger­íu­menn­irnir þrír voru settir um borð í bát úti fyrir strönd Nígeríu var félagi þeirra, sá sem missti fót­inn, fluttur með flugi til Kaup­manna­hafn­ar. Ástæða þess að mað­ur­inn er þangað kom­inn er sú að hann er illa hald­inn eftir fóta­missinn, verður að vera á sjúkra­húsi og yfir­völd í Gana neit­uðu honum um dvöl þar, meðal ann­ars vegna þess að hann er fangi Dana. 

Gæslu­varð­halds­krafa

Dag­inn eftir kom­una til Dan­merkur var Níger­íu­mað­ur­inn leiddur fyrir dóm­ara í Bæj­ar­rétti Kaup­manna­hafn­ar. Ákæru­valdið krafð­ist þess að mað­ur­inn yrði úrskurð­aður í gæslu­varð­hald meðan réttað verður í máli hans. Verði hann sekur fund­inn getur dóm­ur­inn hljóðað upp á fimm ára fang­elsi hið minnsta en mest allt að lífs­tíð.

Mað­ur­inn hefur ekki verið nafn­greindur en hann er 39 ára og frá Níger­íu. Hann neit­aði sök en skýrði í dóm­salnum frá atburða­rásinni.

Auglýsing
Maðurinn sagði að vinur sinn hefði hringt í sig og sagt að sig vant­aði mann en sá sem hringdi og nokkrir aðrir hefðu verið beðnir um að lóðsa tank­skip að ströndum Níger­íu. Borgað yrði fyrir vinn­una og þess vegna sagð­ist mað­ur­inn hafa tekið þetta að sér. Hann sagð­ist hafa þekkt nokkra þeirra sem fóru í ferð­ina, en sér hefði komið á óvart að sjá þrjár byssur og stiga um borð í bátnum sem not­aður var í ferð­ina.

Hann sagði jafn­framt frá því að níu menn hefðu verið um borð þegar lagt var af stað en níundi mað­ur­inn hefði fall­ið, eða stokk­ið, fyrir borð þegar áhöfn þyrl­unnar skaut við­vör­un­ar­skot­um. Við vorum ekki með neina tal­stöð og heyrðum þess vegna ekk­ert í áhöfn þyrl­unnar en þegar byrjað var að skjóta á bát­inn hróp­aði einn „þeir ætla að drepa okk­ur“ og þá svör­uðu félagar mínir með skot­hríð. „Ég kann ekk­ert með byssu að að fara. Allt gerð­ist mjög hratt og skömmu síðar var hrað­bát­ur­inn frá frei­gát­unni kom­inn á stað­inn og þá var skipst á skotum og bát­ur­inn okkar byrj­aði að sökkva. Ég stökk fyrir borð en lenti með fót­inn í skrúf­unni. Ég hróp­aði á hjálp og menn­irnir frá frei­gát­unni björg­uðu mér. Svo man ég ekk­ert fyrr en ég vakn­aði um borð í frei­gát­unni og átt­aði mig á því að búið var að taka af mér annan fót­inn.“ 

Þegar dóm­ari spurði hvers vegna hann hefði tekið þátt í þess­ari ferð svar­aði mað­ur­inn að hann væri fyr­ir­vinna tveggja barna sinna, 12 og 16 ára, hann hefði enga fasta vinnu og maður yrði að taka því sem byð­ist eins og hann komst að orði. Börnin tvö dvelja nú hjá móður manns­ins í Níger­íu. Þess má geta að hann tal­aði ensku í dóm­saln­um.

Verj­and­inn ósáttur en gæslu­varð­hald úrskurðað til 1. febr­ú­ar 

Birgitte Skjødt, verj­andi manns­ins, krafð­ist þess að skjól­stæð­ingur sinn yrði lát­inn laus. Hann hefði ekki hleypt af skotum og stokkið fyrir borð þegar skot­hríðin byrj­aði. „Fé­lögum hans þremur sem verið hafa fangar um borð í Esbern Snare hefur nú verið sleppt, þetta er klár­lega mis­mun­un“ sagði Birgitte Skjød­t. 

Dóm­ar­inn féllst á að málið væri í alla staði mjög óvenju­legt „en okkur hér ber að fylgja dönskum lög­um“. Nefndi svo að sú stað­reynd að fallið hefur verið frá ákæru á hendur þremur félögum manns­ins gæti hugs­an­lega haft áhrif á fram­hald máls­ins. Stað­festi síðan gæslu­varð­halds­úr­skurð­inn, sem gildir til 1. febr­úar næst­kom­andi.

Loks má nefna að lík þeirra fjög­urra manna sem féllu í átök­unum við áhöfn Esbern Snare eru enn um borð í frei­gát­unni. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá danska flot­anum hafa ekki verið teknar nán­ari ákvarð­anir um hvað gert verður við lík­in.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
Verðbólga veldur því að vaxtalækkanir faraldursins eru ganga til baka, víðar en hér á Íslandi. Kjarninn tók saman nokkra fróðleiksmola um þróun mála í ríkjum bæði nær og fjær.
Kjarninn 25. júní 2022
Flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar andar ofan í hálsmál flokks Bjarna Benediktssonar samkvæmt síðustu könnunum.
Framsókn mælist næstum jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn
Stjórnarflokkarnir hafa tapað umtalsverðu fylgi á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn nær mun verr til fólks undir fertugu en annarra á meðan að Framsókn nýtur mikilla vinsælda þar. Vinstri græn mælast með þriðjungi minna fylgi en í síðustu kosningum.
Kjarninn 24. júní 2022
Samkeppniseftirlitið ekki haft aðkomu að rannsókn á dótturfélagi Eimskips í Danmörku
Dönsk samkeppnisyfirvöld staðfesta að húsleit hafi farið fram hjá dótturfélagi Eimskips í Danmörku en vilja að öðru leyti ekki tjá sig um rannsókn málsins. Ekki hefur verið óskað eftir aðstoð Samkeppniseftirlitsins hér á landi við rannsóknina.
Kjarninn 24. júní 2022
Þórir Haraldsson er forstjóri Líflands. Félagið flytur inn korn sem það malar í hveiti annars vegar og fóður hins vegar.
Verð á hveiti hækkað um 40 prósent á hálfu ári
Litlar líkur eru á því að hveiti muni skorta hér á landi að sögn forstjóra Líflands en félagið framleiðir hveiti undir merkjum Kornax í einu hveitimyllu landsins. Verð gæti lækkað á næsta ári ef átökin í Úkraínu stöðvast fljótlega.
Kjarninn 24. júní 2022
Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, lagði fram tillögu um skipun starfshópsins sem var samþykkt.
Eru íslensku bankarnir að okra á heimilum landsins?
Starfshópur hefur verið skipaður til að greina hvernig íslenskir bankar haga gjaldtöku sinni, hvernig þeir græða peninga og hvort það sé vísvitandi gert með ógagnsæjum hætti í skjóli fákeppni. Hópurinn á að bera það saman við stöðuna á Norðurlöndum.
Kjarninn 24. júní 2022
Valgerður Jóhannsdóttir og Finnborg Salome Steinþórsdóttir eru höfundar greinarinnar Kynjaslagsíða í fréttum: Um fjölbreytni og lýðræðishlutverk fjölmiðla.
Konur aðeins þriðjungur viðmælanda íslenskra fjölmiðla
Hlutur kvenna í fréttum hér á landi er rýrari en annars staðar á Norðurlöndum. Ekki er afgerandi kynjaskipting eftir málefnasviðum í íslenskum fréttum, ólíkt því sem tíðkast víðast hvar annars staðar.
Kjarninn 24. júní 2022
Seðlabankinn tekur beiðni Kjarnans um „ruslaskistu Seðlabankans“ til efnislegrar meðferðar
Nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál skikkar Seðlabanka Íslands til að kanna hvort hann hafi gögn um Eignasafn Seðlabanka Íslands undir höndum og leggja í kjölfarið mat á hvort þau gögn séu háð þagnarskyldu.
Kjarninn 24. júní 2022
Tanja Ísfjörð Magnúsdóttir
Af hverju eru svona mörg kynferðisbrotamál felld niður?
Kjarninn 24. júní 2022
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar