Mynd: EPA

Hvað er að gerast í Kasakstan?

Fjölmennum mótmælum í Kasakstan hefur verið mætt með harkalegum aðgerðum frá einræðisstjórn landsins og hernaðaríhlutun frá Rússum. Hvað olli þessu ástandi?

Miklar vend­ingar urðu í Kasakstan í vik­unni sem leið. Mót­mæli sem voru upp­haf­lega ein­ungis gegn olíu­verð­hækk­unum hafa leitt til land­lægs neyð­ar­á­stands, hern­að­ar­í­hlut­unar frá Rúss­landi og fjölda dauðs­falla.

Erfitt hefur reynst að fá öruggar heim­ildir af ástand­inu þar sem slökkt hefur verið á netteng­ing­unni í land­inu, en þjóð­ar­leið­togar víða um heim kalla eftir því að fundin verði far­sæl lausn á ástand­inu. Kjarn­inn tók saman helstu orsakir ófrið­ar­ins og hvernig atburð­ar­rásin hefur undið upp á sig á síð­ustu dögum

Með ófrjáls­ustu ríkjum heims

Þrátt fyrir að Kasakstan sé lýð­veldi að nafn­inu til er lýð­ræð­is­þróun þar skammt á veg kom­in. Alveg frá því að landið öðl­að­ist sjálf­stæði frá Sov­ét­ríkj­unum árið 1991 hefur fyrsti for­seti þess, Nursultan Naz­ar­bayev, haldið um valdataumana og bælt niður hvers kyns stjórn­ar­and­stöðu með valdi.

Naz­ar­bayev, sem var einnig for­seti lands­ins á meðan það var hluti af Sov­ét­ríkj­un­um, er sagður hafa sigrað í öllum kosn­ingum sem haldnar voru frá 1991 til 2015 og fengið yfir 90 pró­sent atkvæða í hvert skipti, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá rík­is­stjórn Kasakst­an. Engin þess­ara kosn­inga hefur hins vegar stað­ist alþjóð­legar kröfur.

Eftir 28 ár á valda­stóli ákvað Naz­ar­bayev svo að láta af emb­ætti sem for­seti lands­ins árið 2019, en hann sat þó enn fast­ast sem for­maður stjórn­ar­flokks­ins Nur Otan og for­maður þjóðar­ör­ygg­is­ráðs lands­ins. Við tók nýr for­seti, Kassym-Jom­art Toka­yev, en hann fékk 71 pró­sent atkvæða í kosn­ing­unum sama ár. Þær kosn­ingar voru einnig gagn­rýndar af alþjóð­legum sam­tök­um, meðal ann­ars Örygg­is- og sam­vinnu­stofnun Evr­ópu (ÖSE).

Sam­kvæmt hug­veit­unni Freedom House flokk­ast Kasakstan með ófrjáls­ustu ríkjum heims, þar sem fjöl­miðlar eru annað hvort í eigu rík­is­ins eða við­skipta­manna sem eru hlið­hollir rík­is­stjórn­inni. Tján­ing­ar­frelsi og félaga­frelsi er einnig tak­mark­að, auk þess sem spill­ing er land­læg. Með til­komu heims­far­ald­urs­ins hefur rík­is­stjórnin svo notað tæki­færið til að þrengja enn frekar að borg­ara­legum rétt­indum Kasaka, fyrst með með sam­komu­bönnum og svo frek­ari tak­mörk­unum á mögu­leikum til að skipu­leggja mót­mæli.

Hækk­anir á olíu­verði vöktu reiði

Helsta fram­leiðslu­vara Kasakstans er olía, en olíu­fram­leiðslan þar er af svip­aðri stærð­argráðu og í Nor­egi. Alls eru þrír fjórðu af útflutn­ings­tekjum lands­ins eru vegna sölu á olíu og öðru jarð­efna­elds­neyti. Sjálfir nota íbúar lands­ins tölu­vert af fljót­andi jarð­ol­íugasi (LPG), sem er blanda af ýmsum jarð­efna­gös­um, til húsit­unar og sem elds­neyti fyrir bíla, ofna og grill.

Á síð­ustu mán­uðum þessi gas­blanda orðið mun dýr­ari, eftir því sem verð á hrá­vörum hefur hækkað hratt á alþjóða­vísu. Sam­hliða því hefur verð á öðrum neyslu­vörum einnig aukist, en rík­is­stjórnin til­kynnti í haust að verð­bólgan í land­inu hefði náð tæpum níu pró­sent­um.

Í byrjun árs­ins til­kynnti rík­is­stjórnin svo aflétt­ingu verð­þaks á LPG-gas­blönd­unni, en með því tvö­fald­að­ist verðið á henni á einni nóttu. Þessi ákvörðun leiddi til háværra mót­mæla í stærstu borg lands­ins, Almaty, á sunnu­dag­inn í síð­ustu viku. Mót­mælin breytt­ust svo fljótt úr því að snú­ast um verð á jarð­ol­íugasi í alls­herj­ar­mót­mæli gegn sitj­andi stjórn­völdum og tang­ar­haldi Naz­ar­bayev á kasök­sku þjóð­inni.

Mót­mæli breyt­ast í óeirðir

Stjórn­völdum gekk illa að halda mót­mæl­unum í skefj­um, en á síð­asta mið­viku­dag reyndi núver­andi for­set­inn, Toka­yev, að stöðva þau. Hann sagði „hryðju­verka­menn“ sem fjár­magn­aðir væru erlendis frá vera að baki mót­mæl­unum og lof­aði að bregð­ast við þeim „með fullri hörku.“ Þá lýsti hann yfir neyð­ar­á­standi í öllu land­inu og útgöngu­banni á kvöld­in.

Þessar aðgerðir reynd­ust ekki nægar til að koma á friði, en mót­mælin héldu áfram og stig­mögn­uð­ust í óeirðir Almaty. Sumar örygg­is­sveitir rík­is­ins mættu borg­urum með táragasi og leift­ur­sprengj­um, en aðrar lögðu niður vopn sín. Mót­mæl­end­urnir náðu svo að kveikja í rík­is­bygg­ingum í Almaty, þar á meðal aðsetur for­set­ans í borg­inni, og leggja hald á alþjóða­flug­völl borg­ar­inn­ar.

Hér má sjá myndband frá fréttastofu Guardian af óeirðunum í Almaty.

Seinna sama dag sagði rík­is­stjórn Kasakstan af sér og skip­aði Toka­yev þá annan for­sæt­is­ráð­herra tíma­bund­ið. Hann kom svo aftur á tíma­bundnu verð­þaki á LPG-gas­blönd­unni og ýmsum öðrum neyslu­vörum sem hann sagði að væru „fé­lags­lega mik­il­væg­ar,“ auk þess sem hann skip­aði nýrri rík­is­stjórn að koma umbótum í gegn sem myndi hjálpa fjár­hags­stöðu tekju­lágra heim­ila.

„Skjóta til að drepa“

Toka­yev lagði einnig fram form­lega beiðni um aðstoð til hern­að­ar­banda­lags gömlu Sov­ét­ríkj­anna, CSTO. Banda­lag­ið, sem er leitt áfram af Rúss­landi, ákvað að verða við þeirri beiðni og til­kynnti á mið­viku­dags­kvöldið að her­lið yrðu sent til lands­ins til að stöðva óeirð­irn­ar.

Alls hafa um 2.500 her­menn verið sendir til Kasakstan frá aðild­ar­ríkjum CSTO, en sam­kvæmt Reuters er rúss­neskum her­mönnum flogið inn í landið við­stöðu­laust. Utan­rík­is­ráðu­neyti Rúss­lands tók svo undir stað­hæf­ingum Toka­yevs um að mót­mælin væru drifin áfram af erlendum æsinga­mönnum og til­kynnti að frek­ari aðstoð til að vinna gegn hryðju­verka­starf­semi í land­inu væri mögu­leg.

Á föstu­dag­inn þakk­aði Toka­yev Vladímír Pútín, for­seta Rúss­lands, sér­stak­lega fyrir aðstoð­ina við að koma böndum á mót­mæl­in. Enn fremur bætti hann við að her­lið CSTO og örygg­is­sveitir rík­is­ins hefðu fengið heim­ild að „skjóta til að drepa“ mót­mæl­endur án við­vör­un­ar.

Mörg dauðs­föll og netteng­ing rofin

Sam­kvæmt stjórn­völdum í Kasakstan hafa yfir 164 manns lát­ist og yfir 2.200 manns sær­st, auk þess sem yfir sex þús­und manns hafa verið hand­teknir í óeirð­un­um. Þessar tölur hafa þó ekki verið sann­reyndar af óháðum aðila.

Erfitt er að fá nákvæma mynd á ástand­inu, þar sem stjórn­völd í Kasakstan slökktu á net­sam­band­inu í land­inu á mið­viku­dag­inn. Sam­kvæmt frétta­veit­unni Deutsche Welle eru einu virku fjar­skipta­leið­irnar á meðal almenn­ings nú í gegnum land­línu, en sam­skipta­for­rit liggja öll niðri sökum net­leys­is.

Röð fyrir utan hraðbanka í Nur-Sultan, höfuðborg Kasakstan, en heimamenn keppast nú við að taka út peninginn sinn eftir að neyðarástandi var komið á í landinu.
EPA

Heim­ild­ar­menn Deutsche Welle segja ástandið í Almaty nú hafa róast mikið frá því í síð­ustu viku, þó enn heyr­ist byssu­skot víðs vegar um borg­ina. Litlar búðir hafa opnað aftur til að selja mat­vör­ur, en versl­un­ar­kjarnar og stærri mat­vöru­versl­anir eru enn lok­að­ar.

Ástandið hefur valdið miklum vand­ræðum fyrir eig­endur raf­mynt­ar­innar Bitcoin víða um heim, en landið hýsti um 18 pró­sent af allri fram­leiðslu hennar á heims­vísu. Allt frá því að slökkt var á net­sam­band­inu hefur virði Bitcoin lækkað um níu pró­sent, úr 46 þús­und Banda­ríkja­dölum niður í 42 þús­und dali.

Heim­ur­inn fylgist með

Mót­mælin og við­brögð stjórn­valda í Kasakstan og Rúss­landi við þeim hafa vakið athygli víða um heim. Mann­rétt­inda­full­trúi Sam­ein­uðu þjóð­anna, Michelle Bachel­et, hvatti báðar liðar til að finna frið­sam­lega lausn á ástand­inu og kall­aði eftir því að fang­els­aðir mót­mæl­endur væru látnir laus­ir.

Ursula Von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórnar Evr­ópu­sam­bands­ins, og Emmanuel Macron, for­seti Frakk­lands, töl­uðu einnig á svip­uðum nótum á föstu­dag­inn og köll­uðu eftir því að ofbeld­inu linni. Þau sögðu að Evr­ópu­sam­bandið væri reiðu­búið að bjóða fram hjálp sína ef það gæti orðið að liði við að koma á friði í land­inu með auknu sam­tali á milli rík­is­stjórnar og mót­mæl­enda, en gagn­rýndu íhlutun Rússa.

Utan­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna, Ant­ony Blin­ken, gagn­rýndi Toka­yev fyrir að hafa gefið her­liði heim­ild til að skjóta á mót­mæl­endur án við­vör­unar fyrr í dag. Stjórn­völd þar í landi segj­ast fylgja náið með þró­un­inni og gagn­rýndi kasöksk stjórn­völd fyrir að hafa slökkt á netteng­ingu um allt land­ið. Upp­lýs­inga­full­trúi Hvíta húss­ins, Jen Psaki, þvertók einnig fyrir orðróm um að Banda­ríkin væru að baki mót­mæl­un­um, en sam­kvæmt henni er slíkur orðrómur aug­ljós leið rúss­neskra stjórn­valda til að koma á upp­lýs­inga­óreiðu.

Ekki voru þó öll ríki gagn­rýnin á við­brögð rík­is­stjórnar Kasakstans við ástand­inu. For­seti Kína, Xi Jin­p­ing, lof­aði Toka­yev fyrir „mjög við­eig­andi“ aðgerðir gegn mót­mæl­endum á föstu­dag­inn og sagði þær sýna ábyrgð hans gagn­vart land­inu sínu í verki. Sömu­leiðis sagði for­seti Tyrk­lands, Recep Tayyip Erdogan, að tyrk­nesk stjórn­völd stæðu þétt með Kasakstan og bauð fram hjálp sína til að binda enda á ófrið­inn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar