Hvað varð um bolluvöndinn?
Alsiða var í eina tíð að börn vektu foreldra sína með flengingum á bolludag en bolluvöndurinn hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Vöndurinn er ekki útdauður enn að sögn þjóðfræðings, þó minna fari fyrir flengingum en áður.
Sá siður að gæða sér á rjómabollum á mánudegi í sjöundu viku fyrir páska er orðin rótgróin hefð og fullyrða má að fjöldi þeirra bolla sem landsmenn gæða sér á á bolludegi aukist með hverju árinu. Minna hefur hins vegar farið fyrir bolluvendinum sem börn flengdu foreldra sína með stóran hluta síðustu aldar og var fastur liður á bolludegi.
Lesendur sem slitu barnsskónum hér á landi á síðustu öld kannast eflaust við það að hafa í æsku vakið foreldra sína að morgni bolludags með hrópum og flengingum. „Bolla! Bolla! Bolla!“ görguðu börnin á sama tíma og þau flengdu foreldra sína með þartilgerðum bolluvendi og þannig unnu þau sér inn rjómabollur.
En hvaðan kemur þessi siður, að hefja bolludag með flengingum? Eins og margir aðrir misrótgrónir siðir kemur þessi til Íslands frá frændþjóðum okkar í Skandínavíu, líkt og Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur við Háskóla Íslands, útskýrir í samtali við Kjarnann.
Tengist kaþólskum sið
„Hann virðist koma frá Danmörku og hinum Norðurlöndunum hingað. Árni Björnsson hefur tengt þetta við hirtingar í kaþólskum sið, þar sem að þeir voru í upphafi föstunnar að hýða sig. Svo hefur verið vísað í að bolluvöndurinn sjálfur sé svolítið í laginu eins og stökkull sem var notaður til að dreifa vígðu vatni við upphaf föstunnar,“ segir Dagrún.
Þrátt fyrir þessa tengingu við hýðingar segir Dagrún að siðurinn hafi aldrei haft á sér þetta alvarlega yfirbragð hér á landi. „Hvaða rætur sem þessi siður hefur, eins og þessar kaþólsku hirtingar, þá var það alveg klárlega þannig að þegar dagurinn kemur til Íslands þá var þetta bara orðinn einhver gamanleikur fyrir börn. Þegar hann berst hingað þá er þetta bara skemmtun og ærslagangur fyrir krakka, að hrekkja foreldra sína og reyna að græða bollur.“
Í upphafi voru bolluvendir iðulega notaðir á morgnanna. „Þá átti að „bolla“ fólk, að slá það með bolluvendinum. Þá þurfti sá sem var með bolluvöndinn að vera fullklæddur og sá sem var bollaður að vera óklæddur. Þannig að börnin reyndu svolítið að grípa foreldra sína í rúminu áður en þau voru farin á fætur,“ segir Dagrún en þegar leið á öldina breyttust reglurnar. Hún segir að í sinni barnæsku hafi til dæmis mátt „bolla“ óháð tíma dags auk þess sem fólk mátti vera eins mikið klætt og það vildi.
Að sögn Dagrúnar barst sú hefð að halda upp á bolludag hingað til lands á seinni hluta 19. aldar og festi sig í sessi í upphafi 20. aldar. Hún bendir einnig á að upphaf þessarar hefðar megi rekja til komu danskra bakara til landsins, að baka bollur á þessum degi í föstuinngangi.
Elsta auglýsing um bolluvendi frá 1912
Siðurinn virðist hafa breiðst nokkuð hratt út um landið. Dagrún segir að um og upp úr aldamótunum 1900 hafi heitið bolludagur verið ráðandi í Reykjavík og í kaupstöðum en á landsbyggðinni hafi dagurinn hins vegar ýmist verið kallaður flengingadagur eða flengidagur. „Þannig að þar virðist samt hafa verið þessi hefð til staðar að vera með bolluvönd og að flengja til að fá bollu.“
Bolluvendirnir festu sig í sessi skömmu eftir landnám bollunnar. „Elsta auglýsingin um bolluvönd er frá 1912. Þá var hægt að fara og kaupa þá, þá voru bolluvendir til sölu. Svo er í Æskunni að mig minnir auglýsing frá 1925 þar sem verið er að selja bolluvendi og þar er aðeins útskýrt hvað þeir eru. Þá er nefnt að þetta séu tréhríslur með skauti á endanum, þannig að það er eins og það hafi þurft aðeins útskýringar við. Þetta virðist því vera komið snemma á 20. öldinni,“ segir Dagrún og bendir á að bolluvendir hafi verið til sölu langt fram eftir 20. öld, til að mynda í bakaríum og í Hagkaupum.
Þrátt fyrir að minna fari fyrir bolluvendinum nú en hér áður fyrr, þá er þessi siður ekki útdauður enn. „Það er svolítið áhugavert að oft virðast leikskólar verða einhvers konar verndarar hefðarinnar og bolluvendir eru föndraðir á nokkrum leikskólum enn þá. Oft er þetta pappadiskur sem er heftaður saman á spýtu. En annars held ég að það fari ekki mikið fyrir þeim,“ segir Dagrún.
Einfalt mál að föndra bolluvönd
Að mati Dagrúnar er erfitt að festa reiður á það hvað hafi valdið hnignun bolluvandarins. „Þegar hefðir hverfa, þá er eitthvað í samfélaginu sem veldur þeim breytingum að það er ekki þörf á hefðinni eða að það verður of mikið, hún er meira til ama en skemmtunar. Þó að það sé erfitt að segja nákvæmlega í tilfelli bolluvandarins.“
Fyrir áhugasama er lítið mál að föndra bolluvönd, hægt er að komast af með lítið annað en pappírsafganga og dagblöð. Þeir bolluvendir sem algengastir voru í verslunum voru aftur á móti að uppistöðu til gerðir úr kreppappír. Hér að neðan má horfa á kennslustund rithöfundarins Herdísar Egilsdóttur í bolluvandagerð. Þessi klippa er frá árinu 1985 og er úr barnatíma Ríkissjónvarpsins.