Wikimedia/RhinoMind Rjómabollur í Danmörku. Mynd: Wikimedia Commons - RhinoMind
Danskar rjómabollur. Á ofanverðri 19. öld fluttu danskir bakarar þann sið að borða bollur í föstuinngangi með sér til Íslands.
Wikimedia/RhinoMind

Hvað varð um bolluvöndinn?

Alsiða var í eina tíð að börn vektu foreldra sína með flengingum á bolludag en bolluvöndurinn hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Vöndurinn er ekki útdauður enn að sögn þjóðfræðings, þó minna fari fyrir flengingum en áður.

Sá siður að gæða sér á rjóma­bollum á mánu­degi í sjö­undu viku fyrir páska er orðin rót­gróin hefð og full­yrða má að fjöldi þeirra bolla sem lands­menn gæða sér á á bollu­degi auk­ist með hverju árinu. Minna hefur hins vegar farið fyrir bollu­vend­inum sem börn flengdu for­eldra sína með stóran hluta síð­ustu aldar og var fastur liður á bollu­degi.

Les­endur sem slitu barns­skónum hér á landi á síð­ustu öld kann­ast eflaust við það að hafa í æsku vakið for­eldra sína að morgni bollu­dags með hrópum og fleng­ing­um. „Bolla! Bolla! Bolla!“ görg­uðu börnin á sama tíma og þau flengdu for­eldra sína með þartil­gerðum bollu­vendi og þannig unnu þau sér inn rjóma­boll­ur.

En hvaðan kemur þessi sið­ur, að hefja bollu­dag með fleng­ing­um? Eins og margir aðrir mis­rót­grónir siðir kemur þessi til Íslands frá frænd­þjóðum okkar í Skand­ínavíu, líkt og Dag­rún Ósk Jóns­dótt­ir, þjóð­fræð­ingur við Háskóla Íslands, útskýrir í sam­tali við Kjarn­ann.

Teng­ist kaþ­ólskum sið

„Hann virð­ist koma frá Dan­mörku og hinum Norð­ur­lönd­unum hing­að. Árni Björns­son hefur tengt þetta við hirt­ingar í kaþ­ólskum sið, þar sem að þeir voru í upp­hafi föst­unnar að hýða sig. Svo hefur verið vísað í að bollu­vönd­ur­inn sjálfur sé svo­lítið í lag­inu eins og stökk­ull sem var not­aður til að dreifa vígðu vatni við upp­haf föst­unn­ar,“ segir Dag­rún.

Þrátt fyrir þessa teng­ingu við hýð­ingar segir Dag­rún að sið­ur­inn hafi aldrei haft á sér þetta alvar­lega yfir­bragð hér á landi. „Hvaða rætur sem þessi siður hef­ur, eins og þessar kaþ­ólsku hirt­ing­ar, þá var það alveg klár­lega þannig að þegar dag­ur­inn kemur til Íslands þá var þetta bara orð­inn ein­hver gam­an­leikur fyrir börn. Þegar hann berst hingað þá er þetta bara skemmtun og ærsla­gangur fyrir krakka, að hrekkja for­eldra sína og reyna að græða boll­ur.“

Þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Í upp­hafi voru bollu­vendir iðu­lega not­aðir á morgn­anna. „Þá átti að „bolla“ fólk, að slá það með bollu­vend­in­um. Þá þurfti sá sem var með bollu­vönd­inn að vera full­klæddur og sá sem var boll­aður að vera óklædd­ur. Þannig að börnin reyndu svo­lítið að grípa for­eldra sína í rúm­inu áður en þau voru farin á fæt­ur,“ segir Dag­rún en þegar leið á öld­ina breytt­ust regl­urn­ar. Hún segir að í sinni barn­æsku hafi til dæmis mátt „bolla“ óháð tíma dags auk þess sem fólk mátti vera eins mikið klætt og það vildi.

Að sögn Dag­rúnar barst sú hefð að halda upp á bollu­dag hingað til lands á seinni hluta 19. aldar og festi sig í sessi í upp­hafi 20. ald­ar. Hún bendir einnig á að upp­haf þess­arar hefðar megi rekja til komu danskra bak­ara til lands­ins, að baka bollur á þessum degi í föstu­inn­gangi.

Elsta aug­lýs­ing um bollu­vendi frá 1912

Sið­ur­inn virð­ist hafa breiðst nokkuð hratt út um land­ið. Dag­rún segir að um og upp úr alda­mót­unum 1900 hafi heitið bollu­dagur verið ráð­andi í Reykja­vík og í kaup­stöðum en á lands­byggð­inni hafi dag­ur­inn hins vegar ýmist verið kall­aður fleng­inga­dagur eða flengi­dag­ur. „Þannig að þar virð­ist samt hafa verið þessi hefð til staðar að vera með bollu­vönd og að flengja til að fá bollu.“

Auglýsing Hagkaupa frá 1998. Þá kostaði bolluvöndurinn 47 krónur en í dag samsvarar það 134 krónum samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands.

Bollu­vend­irnir festu sig í sessi skömmu eftir land­nám boll­unn­ar. „Elsta aug­lýs­ingin um bollu­vönd er frá 1912. Þá var hægt að fara og kaupa þá, þá voru bollu­vendir til sölu. Svo er í Æsk­unni að mig minnir aug­lýs­ing frá 1925 þar sem verið er að selja bollu­vendi og þar er aðeins útskýrt hvað þeir eru. Þá er nefnt að þetta séu tré­hríslur með skauti á end­an­um, þannig að það er eins og það hafi þurft aðeins útskýr­ingar við. Þetta virð­ist því vera komið snemma á 20. öld­inn­i,“ segir Dag­rún og bendir á að bollu­vendir hafi verið til sölu langt fram eftir 20. öld, til að mynda í bak­ar­íum og í Hag­kaup­um.

Þrátt fyrir að minna fari fyrir bollu­vend­inum nú en hér áður fyrr, þá er þessi siður ekki útdauður enn. „Það er svo­lítið áhuga­vert að oft virð­ast leik­skólar verða ein­hvers konar vernd­arar hefð­ar­innar og bollu­vendir eru föndraðir á nokkrum leik­skólum enn þá. Oft er þetta pappa­diskur sem er heft­aður saman á spýtu. En ann­ars held ég að það fari ekki mikið fyrir þeim,“ segir Dag­rún.

Ein­falt mál að föndra bollu­vönd

Að mati Dag­rúnar er erfitt að festa reiður á það hvað hafi valdið hnignun bollu­vand­ar­ins. „Þegar hefðir hverfa, þá er eitt­hvað í sam­fé­lag­inu sem veldur þeim breyt­ingum að það er ekki þörf á hefð­inni eða að það verður of mik­ið, hún er meira til ama en skemmt­un­ar. Þó að það sé erfitt að segja nákvæm­lega í til­felli bollu­vand­ar­ins.“

Fyrir áhuga­sama er lítið mál að föndra bollu­vönd, hægt er að kom­ast af með lítið annað en papp­írs­af­ganga og dag­blöð. Þeir bollu­vendir sem algeng­astir voru í versl­unum voru aftur á móti að uppi­stöðu til gerðir úr kreppapp­ír. Hér að neðan má horfa á kennslu­stund rit­höf­und­ar­ins Her­dísar Egils­dóttur í bollu­vanda­gerð. Þessi klippa er frá árinu 1985 og er úr barna­tíma Rík­is­sjón­varps­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar