Innrásin á Wembley
„Enska vandamálið“ – fótboltabullurnar skæðu – varð að martröð á úrslitaleik EM karla. Aðstæður voru vissulega óvenjulegar, þetta var Leikurinn, með stórum staf, sá sem átti að færa „fótboltann aftur heim“. Og það í heimsfaraldri, eftir margra mánaða innilokun og takmarkanir. Þótt Wembley sé leikvangur en ekki virki, líkt og framkvæmdastjóri Enska knattspyrnusambandsins orðaði það, er ljóst að fjölmargt fór úrskeiðis. Og það þarf að rannsaka. Ekki síst þarf að kafa djúpt í bresku þjóðarsálina og komast að því hvers vegna andúð á fólki sem er ekki hvítt á hörund er jafn útbreidd og raun ber vitni.
Þegar allt var orðið hreint og snyrtilegt á og fyrir utan Wembley-leikvanginn morguninn eftir úrslitaleikinn hékk enn eitthvað óþægilegt, allt að því óhreint, í loftinu. Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu karla, EM 2020, var lokið. En þó ekki. Úrslitaleikurinn hafði ekki farið eins og Englendingar höfðu vonast eftir. Hann var ekki „stærsti dagur enskra íþrótta“ og fótboltinn var ekki „loksins kominn heim“ eins og kyrjað hafði verið dagana á undan. Tapið var súrt og vonbrigðin að sjá Ítali taka bikarinn til Rómar gríðarleg en hið raunverulega áfall var allt annað og miklu alvarlegra. Það hafði byrjað snemma á mótinu. Þegar stuðningsmennirnir, ensku fótboltabullurnar, sýndu með afgerandi hætti af hverju þeir eru kallaðir einmitt það, bullur. Skemmdarvargar. Óeirðarseggir. Fautar. Ruddar.
„Enska vandamálið“, hin ógnandi og ofbeldisfulla hegðun stuðningsmannanna sem hefur verið þekkt í áratugi, birtist heimsbyggðinni í allri sinni ömurlegu mynd á EM 2020. Hin ljóta, blóðuga ringulreið sem bullurnar sköpuðu, þar sem fantabrögðum var beitt í allar áttir, verður lengi í minnum höfð. „Enska vandamálið“ nær ekki utan um það sem gerðist. „Enska martröðin“ kemst nær því.
En hvað var það eiginlega sem gerðist?
Þeir púuðu á meðan þjóðsöngvar liða sem England keppti við í aðdraganda úrslitaleiksins. Það var ein birtingarmyndin. Þeir höguðu sér dólgslega gagnvart stuðningsmönnum þeirra liða. Ýttu. Kýldu. Spörkuðu. Hræktu. Öskruðu.
En það var þó ekkert í líkingu við það sem átti eftir að eiga sér stað í aðdraganda úrslitaleiksins sjálfs sem fram fór á Wembley á sunnudag.
Talið er að þúsundir manna hafi troðið sér inn á leikvanginn án þess að eiga aðgöngumiða. Sumir brutust í gegnum girðingar og öryggishlið. Margir starfsmenn á Wembley slösuðust við að reyna að stöðva innrásina og enn fleiri urðu fyrir kynþáttaníði af hálfu bullanna.
Þegar inn á leikvanginn var komið voru þeir í stríðsham. Réðust á aðra stuðningsmenn enska landsliðsins. Tóku sig saman. Spörkuðu í liggjandi mann.
Þeir áreittu og réðust að fjölskyldum leikmanna landsliðsins. Létu rasísk orð dynja á þeim.
Þeir hertóku VIP-svæði leikvangsins. Settust í hvaða sæti sem þeim datt í hug. Börn, m.a. sonur ítalska landsliðsþjálfarans, varð að sitja í tröppum.
Fjölmargar sögur fara af því að einhverjir hafi með stolti sogið kókaín upp í nefið án þess að skeyta um hverjir sæju til.
Með margvíslegu athæfi brutu þeir allar þær reglur sem settar höfðu verið vegna COVID-19. Strunsuðu inn á leikvanginn um hvaða hlið sem var, án þess að sýna neikvætt PCR-próf. Þeir rufu svo allar sóttvarnir sem settar höfðu verið upp í kringum ítölsku stuðningsmennina.
Það fór svo ekki mikið fyrir drengilyndi og raunverulegum stuðningi við landsliðið þegar tveir ungir menn, svartir á hörund, skoruðu ekki úr sínum vítaspyrnum. Ókvæðisorðum var látið rigna yfir þá. Ungu mennina sem eru framtíð enska landsliðsins. Rasismi í tengslum við fótboltann afhjúpaðist áþreifanlega.
Lundúnalögreglan staðfesti á mánudagskvöld að 53 hefðu verið handteknir á Wembley vegna brota af ýmsu tagi, m.a. ofbeldisbrot. Nítján lögreglumenn sem voru að störfum á Wembley þetta kvöld særðust.
„Það sem við sáum í gær var óásættanleg hegðun lítils hóps fólks sem ætlaði að nota fótboltann sem afsökun til að haga sér skelfilega gagnvart almenningi og lögreglumönnum,“ sagði Laurence Taylor, yfirlögregluþjónn, um sólarhring eftir leikinn.
„Við rekum leikvang, ekki virki,“ sagði framkvæmdastjóri Enska knattspyrnusambandið (FA) í sínu uppgjöri að leik loknum en sambandið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir veika öryggisgæslu. Það hefur nú heitið því að rannsaka atburðina ofan í kjölinn og sagði í tilkynningu að hegðun þeirra sem réðust inn á völlinn með ólögmætum hætti væri óásættanleg, hættuleg og bryti gegn öllum þeim öryggisráðstöfunum sem settar voru upp. Boris Johnson forsætisráðherra hefur fordæmt hegðun bullanna. Það hefur Vilhjálmur prins, sem viðstaddur var leikinn ásamt syni sínum og eiginkonu, einnig gert. Og auðvitað miklu fleiri.
Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, er sagt íhuga aðgerðir gegn FA vegna atburðanna og brota á öryggisreglum. Öll uppákoman gæti svo mögulega veikt vonir um að stórmót og úrslitaviðureignir, m.a. í meistaradeildinni, verði haldin á Wembley í bráð. Áform um að halda heimsmeistaramót karla í fótbolta árið 2030 gætu einnig verið í uppnámi.
„Þetta var hræðilegt. Einn versti dagur lífs míns,“ hefur The Athletic eftir starfsmanni á Wembley að úrslitaleiknum loknum. Sá hefur unnið við öryggisgæslu á mörgum leikvöngum. Þetta var það allra versta sem hann hefur séð.
Andrúmsloftið á Wembley var óþægilegt þegar um hádegisbil. Eins og óveðursský væru að hrannast upp ofan við fagurgrænt grasið sem nokkrum tímum seinna yrði vettvangur úrslitaviðureignarinnar milli Ítalíu og Englands á EM karla.
Fyrir utan var fólk löngu farið að safnast saman. Drekka. Og drekka. Takmarkanir vegna COVID-19 höfðu verið útfærðar með þeim hætti að um 65 þúsund áhorfendur yrðu á Wembley um kvöldið. Það þýddi að um fjórðungur sætanna var tómur.
Fyrir utan leikvanginn, á götunni á milli hans og lestarstöðvarinnar, var mannfjöldinn orðinn mikill. Hávaðinn var gríðarlegur en ólætin ekki enn byrjuð. Fólk hélt áfram að streyma að. Það var drukkið meira. Sungið hærra. Og öskrað.
Einhverjir fóru að klifra. Upp á biðskýli. Upp ljósastaura. Öðrum fór að líða illa í mannþrönginni. Fundu á sér að allt myndi fara úr böndunum. Þannig leið öryggisvörðum líka. Eitthvað átti eftir að fara stórkostlega úrskeiðis.
Dæmi eru um fólk sem átti miða hafi ákveðið að yfirgefa svæðið á þessum tímapunkti. Reyna ekki einu sinni að komast inn á leikvanginn. „Það skapaðist upplausnarástand,“ segir maður sem gerði nákvæmlega þetta: Fór heim. Með miðann í vasanum. „Þetta átti að vera gleðilegt. Fögnuður. Hvert erum við eiginlega komin?“
Vegna COVID-19 var úrslitaleikurinn ekki sýndur á risaskjám um alla London eins og venjan er með stórviðburði sem þessa. Það þrengdi þá kosti sem stuðningsmenn höfðu til að koma saman. Þeir þyrptust á barina í kringum Wembley – miðalausir. Líklega ætluðu þeir flestir að horfa á leikinn þar. Höfðu ekki planað annað. En sumir voru vissulega mættir með ekkert gott í huga. Þeir ætluðu inn. Sama hvað það kostaði.
Þetta var ekkert nýtt. Í undanúrslitunum hafði þetta vandamál gert vart við sig. Talið var að í það minnsta 200 manns hefðu t.d. komist inn á leikinn við Dani án miða.
Það voru vissulega lögreglumenn fyrir utan Wembley en þeir virtust örfáir miðað við þann fjölda fólks sem þar var saman kominn. Fyrir leikinn hafði lögreglan hvatt fólk sem átti ekki aðgangsmiða að halda sig fjarri. „Augljóslega þá hundsuðu margir þau tilmæli,“ sagði Taylor yfirlögregluþjónn daginn eftir uppákomuna.
Some fans have attempted to storm into Wembley ahead of the Euro 2020 final🔽pic.twitter.com/XyYRRXBFHY
— Mirror Football (@MirrorFootball) July 11, 2021
Maður sem notar hjólastól og hafði tryggt sér miða á leikinn segir það hafa verið þrautina þyngri að komast inn á leikvanginn. Röðin sem var sérstaklega hugsuð fyrir fatlaða haggaðist ekki, enda sagði dyravörðurinn að fólk án miða hefði ruðst inn. Það yrði að bíða með að hleypa fleirum inn í bili.
Hann sá starfsfólk á hlaupum á eftir fólki. Hópur hafði ruðst inn á svæði í stúkunni sem er sérstaklega frátekið fyrir fólk sem notar hjólastóla. „Það var augljóst að þeir höfðu ákveðið að yfirtaka þetta svæði,“ segir maðurinn í samtali við The Athletic. „Þeir bara ruddust inn.“ Felldu starfsfólk á leið sinni þangað og tröðkuðu á því.
Innrásin var ekki bundin við svæðið fyrir fatlaða. Hún átti sér stað um allan leikvanginn. „Fólk stökk yfir girðingar. Hljóp inn um allt,“ segir maðurinn. Þeir sem áttu miða voru ráðalausir. Gátu ekki hreyft sig. Bárust bara með straumnum. Æstum og reiðum hópnum. Troðningurinn var mikill. Sumir hikuðu ekki við að slá frá sér – kæmust þeir ekki leiðar sinnar. „Þetta var eins og uppþot. Þetta var ógeðslegt.“
Samfélagsmiðlar urðu fljótt yfirfullir af myndskeiðum af því sem fram fór. Af fólki að brjóta sér leið inn á leikvanginn úr öllum áttum. Af ráðalausum starfsmönnum vallarins og lögreglumönnum.
Þeir sem brutust inn fengu sumir hverjir óblíðar móttökur frá þeim sem þar voru fyrir og áttu miða. Þannig skapaðist nokkurs konar stríðsástand. Högg voru látin dynja á viðkomandi. Spörk líka. „Viltu vinna vinnuna þína, andskotinn hafi það,“ heyrist á einu myndskeiðinu hrópað að starfsmanni vallarins. En að verjast innrásarlýð er ekki beinlínis það sem óbreyttir vallarstarfsmenn eru þjálfaðir í að gera.
Þeir voru hræddir. Þetta fólk hafði ekki farið í gegnum öryggishlið. Það gat verið vopnað. Og í einhverjum tilvikum reyndist það raunin. Allar sóttvarnir voru farnar lönd og leið.
Enginn átti að komast inn á völlinn nema að geta sýnt fram á bólusetningu eða nýlegt og neikvætt COVID-próf. Þetta stóð skýrum stöfum á aðgöngumiðanum. Það var enginn áhugi hjá Enska knattspyrnusambandinu að verða þekkt fyrir hópsmit á úrslitaleik EM karla. Talið er að þúsundir manna hafi ekki fylgt þessum reglum. Þúsundir manna fóru ekki inn um öryggishliðin eins og til var ætlast.
Bent hefur verið á að engin sérstök áhersla hafi hvort eð er verið sett á að skanna og skoða COVID-vottorð þeirra sem mættu á leikinn gegn Þjóðverjum. Í úrslitaleiknum hafi augljóslega verið ákveðið að bæta þar úr og það olli því að gríðarlega langar biðraðir mynduðust. Ringulreiðin var svo mikil að foreldrar urðu viðskila við börn sín.
Það aftur skapaði aðstæður sem bullurnar nýttu sér. Þær fóru um allt. Líka inn á svæði sem var tekið frá fyrir stuðningsmenn ítalska landsliðsins. Slíkt hefur alltaf verið tekið föstum tökum – en það var eins og enginn réði við neitt. „Sóttvarnarkúlan“ sem mynda átti um ítölsku stuðningsmennina var því sprengd ítrekað.
Fjölskyldur leikmanna, sem höfðu tryggt sér miða í VIP-stúkunum, urðu fyrir áfalli. Þangað inn ruddust bullurnar og fylltu sæti, ganga og önnur rými. Þær sýndu af sér ógnandi hegðun og öryggisverðir gátu ekkert aðhafst. „Þetta var eins og vígvöllur,“ lýsir einn fjölskyldumeðlimur því sem við blasti. Eftir leikinn tók rasískur orðaflaumur bullanna við. Sem og meira ofbeldi. Með ólíkindum þykir að fólk hafi ekki slasast alvarlega.
„Það var stór hópur drukkinna manna sem reyndi að ryðjast inn,“ voru orðin sem Mark Bullingham, framkvæmdastjóri Enska knattspyrnusambandsins, notaði daginn eftir leikinn. Í stað þess að ræða við blaðamenn um fótbolta, eins og hann hafði vonast eftir, var þetta eina umfjöllunarefnið. „Ég verð að biðja þá stuðningsmenn sem þetta bitnaði á afsökunar og einnig alla leikmenn.“
En hefði FA, sem á Wembley, getað komið í veg fyrir ólætin og ringulreiðina sem skapaðist? „Við rekum leikvang, ekki virki,“ svaraði Bullingham.
Lundúnalögreglan sagði í yfirlýsingu að fjölmargir lögreglumenn hefðu verið á vakt í London og við Wembley til að tryggja öryggi fólks. „Mikill meirihluti fólks gat öruggur fylgst með leiknum,“ sagði í yfirlýsingunni. Þar sagði einnig að vissulega hefði hópur fólks ruðst inn en að lögreglan og starfsmenn vallarins hafi brugðist hratt við og hjálpast að við að koma því aftur út.
FA er á svipuðum slóðum í sínum opinberu yfirlýsingum. Segja að öryggisgæsla hafi verið meiri en gerðar hefðu verið kröfur um fyrirfram. Hins vegar hafi hópur fólks sýnt af sér hættulega hegðun og virt öryggisráðstafanir að vettugi.
Þetta voru óvenjulegar aðstæður. Um það eru allir sammála. Því eru margir sérfræðingar á því að UEFA láti þetta ekki hafa áhrif á framhaldið á Wembley. Að stórleikir fari þar fram samkvæmt dagskrá á næstunni. Þetta hafi ekki sett varanlegt strik í reikninginn.
Það er liðið eitt og hálft ár frá því að faraldurinn hófst. Svipaður tími er því liðinn frá því að fólk fór síðast á fótboltaleik. Og spennan fyrir nákvæmlega þessum leik var ólýsanleg. Það eru allir orðnir langþreyttir. Lögreglumenn líka. Lögreglumenn sem hafa undanfarna mánuði þurft að sinna störfum tengdum faraldrinum, reyna að hafa stjórn á hópamyndunum. Sekta fyrir brot á sóttvarnaráðstöfunum.
Geoff Pearson, prófessor í refsirétti við Háskólann í Manchester og sérfræðingur í öryggismálum tengdum íþróttaleikvöngum, hefur skoðað málefni Wembley sérstaklega. Hann segir að ímynd vallarins sé sú í hugum margra að þar sé farið mjúkum höndum um þá sem brjóti af sér. Um það séu mörg dæmi, allt frá því gamli Wembley var og hét. Vitað er að þetta hefur gerst áður, að fólk ryðjist inn. Spenni upp glugga. Troði sér inn um þá. Slíkar sögur eru vel þekktar í gegnum tíðina. Samkvæmt rannsóknum Pearson sagðist yfir helmingur hans viðmælenda hafa komist inn á Wembley án miða. „Þannig að þó að upplausnarástandið og ofbeldið sem varð fyrir utan Wembley eigi sér kannski engin fordæmi þá var þetta ekki allt án fordæma. Og þetta mun halda áfram að gerast nema að róttækar breytingar á skipulagi verði gerðar.“
Bullur áberandi í áratugi
Ensku fótboltabullurnar hafa verið áberandi í áratugi. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar ætlaði allt um koll að keyra í þeirra röðum. Svo tók að lægja. En nú virðist sem að aldan sé að rísa á ný. Þetta er vissulega minnihluti stuðningsmanna enska landsliðsins og liða á Englandi en hann er svo hávær – svo áberandi – að hann eyðileggur ítrekað fyrir öllum öðrum.
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, ræddi „enska vandamálið“ nýverið í útvarpsfréttum. Hann sagði að þótt fótboltabullur væru víða vandamál þá virtist ofbeldi í kringum fótboltaleiki vera verra á Englandi en annars staðar. „Vegna þess að hvað sem gerist, hvort sem þeir spila heima eða heiman, þá verður einhver múgstemning sem magnast upp við ákveðnar aðstæður. Og fótboltinn veitir einhvers konar umgjörð sem dregur saman alls konar vandamál og þætti, eins og þjóðarstolt, eins og sjálfsmynd, vímuefnaneyslu, eitraða karlmennsku, hörku leiksins, að tilheyra einhverjum hópi; dregur þetta saman í einhvers konar suðupott, þegar svona tilfinningar og hugmyndir koma saman, og brjótast út í kringum þennan íþróttakappleik.“
Aðrir sérfræðingar eru á sama máli. „Það sem á að vera partí breytist í eyðileggingu,“ segir Piara Powar, sem fer fyrir samtökum sem berjast gegn kynþáttafordómum í fótbolta, FARE.
Sumir stuðningsmenn hafa varið hegðun óeirðaseggjanna. Bent á að hefð sé fyrir því að „stelast inn“ á leiki án miða. Þessi hefð sýni hversu ástríðufullir þeir sem hana stunda eru gagnvart fótboltanum. Að það sé skiljanlegt að fólk hafi viljað sjá þennan stærsta fótboltaleik í sögu Englands í 55 ár. Miðarnir hafi líka verið svo dýrir að þeir hafi ekki verið á færi margra tryggra stuðningsmanna landsliðsins.
Pearson segir að vissulega hafi margir upplifað mikil vonbrigði að fá ekki miða. Fá ekki að verða vitni að leik sem átti að færa fótboltann „heim“ eins og sagt var. Örvænting hafi gripið um sig meðal ákveðinna hópa. Pearson segir að krefja verði lögregluna um svör um hvernig þeir mátu hættuna þennan dag. Hvaða sviðsmyndir hún hafi dregið upp. Snemma dags hafi verið ljóst í hvað stefndi. En samt fór allt úr böndunum. Hann bendir þó á að viðfangsefnið hafi verið gríðarlega stórt. Drukknir og æstir stuðningsmenn hafi fyllt götur, bari, torg og garða. Það var því í mörg horn að líta fyrir lögregluna.
Taken aback by the response to this. Over 400k views for our attempt to piece together what happened with the crowd trouble at Wembley. Worth reading the comments too - people who went talking about how they had a negative experience. pic.twitter.com/W9V78hHStV
— Ros Atkins (@BBCRosAtkins) July 14, 2021
Nákvæmlega hversu stór hópurinn var sem hagaði sér með þessum hætti á og við Wembley á sunnudaginn er kannski ekki stóra málið. Hann var stór. Líklega brutust þúsundir inn án miða. Það er ekki þar með sagt að þeir hafi allir farið um með yfirgangi og ofbeldi. En svartur blettur er kominn á stuðningsmenn enska landsliðsins. Því oftast er það þannig, að fámennur hópur getur skaðað orðspor stórs hóps. „Þetta var ljótt, ógeðslegt. Viðurstyggð.“ Með þessum orðum hafa stuðningsmenn sem urðu vitni að því sem gerðist m.a. lýst ástandinu. „Ég veit að fólk trúir því kannski ekki núna en þetta er ekki dæmigerð hegðun enskra stuðningsmanna,“ segir einn stuðningsmaður við The Athletic. „Við urðum öll fyrir barðinu á þessum þrjótum.“
Naflaskoðun nauðsynleg
Þessi myrka hlið fótboltans, íþróttarinnar sem er dýrkuð og dáð um alla veröld, birtist öllum sem fylgdust með leikjunum, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum í kjölfarið. Þjjóðernishyggjan, rasisminn og ofdrykkja eru vandamál sem þarf að takast á, skrifar blaðamaður Politico. Hægri sinnaðir öfgamenn hafi lengi herjað á verkamannastétt Englands. Dulbúið aðskilnaðarhyggju sína sem ástríðu fyrir föðurlandinu. „Við erum á hættulegum krossgötum í okkar samfélagi og hinar ólíku leiðir framundan hafa orðið sýnilegri eftir þessa helgi. Hugmyndin um að fjölbreytileiki sé utanaðkomandi ógn fyrir allt sem breskt eða enskt er er ógnvænleg sem hefur í gegnum alla mannkynssöguna leitt til hörmunga.“
Hann skrifar að breska þjóðin þurfi að fara í ítarlega naflaskoðun. Annars aukist hatrið og andúðin og atburðir eins og þeir sem urðu á Wembley endurtaki sig.