Wembley

Innrásin á Wembley

„Enska vandamálið“ – fótboltabullurnar skæðu – varð að martröð á úrslitaleik EM karla. Aðstæður voru vissulega óvenjulegar, þetta var Leikurinn, með stórum staf, sá sem átti að færa „fótboltann aftur heim“. Og það í heimsfaraldri, eftir margra mánaða innilokun og takmarkanir. Þótt Wembley sé leikvangur en ekki virki, líkt og framkvæmdastjóri Enska knattspyrnusambandsins orðaði það, er ljóst að fjölmargt fór úrskeiðis. Og það þarf að rannsaka. Ekki síst þarf að kafa djúpt í bresku þjóðarsálina og komast að því hvers vegna andúð á fólki sem er ekki hvítt á hörund er jafn útbreidd og raun ber vitni.

Þegar allt var orðið hreint og snyrti­legt á og fyrir utan Wembley-­leik­vang­inn morg­un­inn eftir úrslita­leik­inn hékk enn eitt­hvað óþægi­legt, allt að því óhreint, í loft­inu. Evr­ópu­meist­ara­mót­inu í knatt­spyrnu karla, EM 2020, var lok­ið. En þó ekki. Úrslita­leik­ur­inn hafði ekki farið eins og Eng­lend­ingar höfðu von­ast eft­ir. Hann var ekki „stærsti dagur enskra íþrótta“ og fót­bolt­inn var ekki „loks­ins kom­inn heim“ eins og kyrjað hafði verið dag­ana á und­an. Tapið var súrt og von­brigðin að sjá Ítali taka bik­ar­inn til Rómar gríð­ar­leg en hið raun­veru­lega áfall var allt annað og miklu alvar­legra. Það hafði byrjað snemma á mót­inu. Þegar stuðn­ings­menn­irn­ir, ensku fót­bolta­bull­urn­ar, sýndu með afger­andi hætti af hverju þeir eru kall­aðir einmitt það, bull­ur. Skemmd­ar­varg­ar. Óeirð­ar­segg­ir. Faut­ar. Rudd­ar.

„Enska vanda­mál­ið“, hin ógn­andi og ofbeld­is­fulla hegðun stuðn­ings­mann­anna sem hefur verið þekkt í ára­tugi, birt­ist heims­byggð­inni í allri sinni ömur­legu mynd á EM 2020. Hin ljóta, blóð­uga ringul­reið sem bull­urnar sköp­uðu, þar sem fanta­brögðum var beitt í allar átt­ir, verður lengi í minnum höfð. „Enska vanda­mál­ið“ nær ekki utan um það sem gerð­ist. „Enska martröð­in“ kemst nær því.

Auglýsing

En hvað var það eig­in­lega sem gerð­ist?

Þeir púuðu á meðan þjóð­söngvar liða sem Eng­land keppti við í aðdrag­anda úrslita­leiks­ins. Það var ein birt­ing­ar­mynd­in. Þeir hög­uðu sér dólgs­lega gagn­vart stuðn­ings­mönnum þeirra liða. Ýttu. Kýldu. Spörk­uðu. Hræktu. Öskr­uðu.

En það var þó ekk­ert í lík­ingu við það sem átti eftir að eiga sér stað í aðdrag­anda úrslita­leiks­ins sjálfs sem fram fór á Wembley á sunnu­dag.

Talið er að þús­undir manna hafi troðið sér inn á leik­vang­inn án þess að eiga aðgöngu­miða. Sumir brut­ust í gegnum girð­ingar og örygg­is­hlið. Margir starfs­menn á Wembley slös­uð­ust við að reyna að stöðva inn­rás­ina og enn fleiri urðu fyrir kyn­þátt­a­níði af hálfu bull­anna.

Þegar inn á leik­vang­inn var komið voru þeir í stríðs­ham. Réð­ust á aðra stuðn­ings­menn enska lands­liðs­ins. Tóku sig sam­an. Spörk­uðu í liggj­andi mann.

Þeir áreittu og réð­ust að fjöl­skyldum leik­manna lands­liðs­ins. Létu rasísk orð dynja á þeim.

Þeir hertóku VIP-­svæði leik­vangs­ins. Sett­ust í hvaða sæti sem þeim datt í hug. Börn, m.a. sonur ítalska lands­liðs­þjálf­ar­ans, varð að sitja í tröpp­um.

Fjöl­margar sögur fara af því að ein­hverjir hafi með stolti sogið kókaín upp í nefið án þess að skeyta um hverjir sæju til.

Með marg­vís­legu athæfi brutu þeir allar þær reglur sem settar höfðu verið vegna COVID-19. Struns­uðu inn á leik­vang­inn um hvaða hlið sem var, án þess að sýna nei­kvætt PCR-­próf. Þeir rufu svo allar sótt­varnir sem settar höfðu verið upp í kringum ítölsku stuðn­ings­menn­ina.

Það fór svo ekki mikið fyrir drengi­lyndi og raun­veru­legum stuðn­ingi við lands­liðið þegar tveir ungir menn, svartir á hör­und, skor­uðu ekki úr sínum víta­spyrn­um. Ókvæð­is­orðum var látið rigna yfir þá. Ungu menn­ina sem eru fram­tíð enska lands­liðs­ins. Ras­ismi í tengslum við fót­bolt­ann afhjúpað­ist áþreif­an­lega.

Stappa af fólki við inngangana að Wembley á sunnudag.
EPA

Lund­úna­lög­reglan stað­festi á mánu­dags­kvöld að 53 hefðu verið hand­teknir á Wembley vegna brota af ýmsu tagi, m.a. ofbeld­is­brot. Nítján lög­reglu­menn sem voru að störfum á Wembley þetta kvöld særð­ust.

„Það sem við sáum í gær var óásætt­an­leg hegðun lít­ils hóps fólks sem ætl­aði að nota fót­bolt­ann sem afsökun til að haga sér skelfi­lega gagn­vart almenn­ingi og lög­reglu­mönn­um,“ sagði Laurence Taylor, yfir­lög­reglu­þjónn, um sól­ar­hring eftir leik­inn.

„Við rekum leik­vang, ekki virki,“ sagði fram­kvæmda­stjóri Enska knatt­spyrnu­sam­bandið (FA) í sínu upp­gjöri að leik loknum en sam­bandið hefur verið harð­lega gagn­rýnt fyrir veika örygg­is­gæslu. Það hefur nú heitið því að rann­saka atburð­ina ofan í kjöl­inn og sagði í til­kynn­ingu að hegðun þeirra sem réð­ust inn á völl­inn með ólög­mætum hætti væri óásætt­an­leg, hættu­leg og bryti gegn öllum þeim örygg­is­ráð­stöf­unum sem settar voru upp. Boris John­son for­sæt­is­ráð­herra hefur for­dæmt hegðun bull­anna. Það hefur Vil­hjálmur prins, sem við­staddur var leik­inn ásamt syni sínum og eig­in­konu, einnig gert. Og auð­vitað miklu fleiri.

Evr­ópska knatt­spyrnu­sam­band­ið, UEFA, er sagt íhuga aðgerðir gegn FA vegna atburð­anna og brota á örygg­is­regl­um. Öll upp­á­koman gæti svo mögu­lega veikt vonir um að stór­mót og úrslita­viður­eign­ir, m.a. í meist­ara­deild­inni, verði haldin á Wembley í bráð. Áform um að halda heims­meist­ara­mót karla í fót­bolta árið 2030 gætu einnig verið í upp­námi.

EPA

„Þetta var hræði­legt. Einn versti dagur lífs míns,“ hefur The Athletic eftir starfs­manni á Wembley að úrslita­leiknum lokn­um. Sá hefur unnið við örygg­is­gæslu á mörgum leik­vöng­um. Þetta var það allra versta sem hann hefur séð.

And­rúms­loftið á Wembley var óþægi­legt þegar um hádeg­is­bil. Eins og óveð­urs­ský væru að hrann­ast upp ofan við fag­ur­grænt grasið sem nokkrum tímum seinna yrði vett­vangur úrslita­viður­eign­ar­innar milli Ítalíu og Eng­lands á EM karla.

Fyrir utan var fólk löngu farið að safn­ast sam­an. Drekka. Og drekka. Tak­mark­anir vegna COVID-19 höfðu verið útfærðar með þeim hætti að um 65 þús­und áhorf­endur yrðu á Wembley um kvöld­ið. Það þýddi að um fjórð­ungur sæt­anna var tóm­ur.

Fyrir utan leik­vang­inn, á göt­unni á milli hans og lest­ar­stöðv­ar­inn­ar, var mann­fjöld­inn orð­inn mik­ill. Hávað­inn var gríð­ar­legur en ólætin ekki enn byrj­uð. Fólk hélt áfram að streyma að. Það var drukkið meira. Sungið hærra. Og öskr­að.

Ein­hverjir fóru að klifra. Upp á bið­skýli. Upp ljósastaura. Öðrum fór að líða illa í mann­þröng­inni. Fundu á sér að allt myndi fara úr bönd­un­um. Þannig leið örygg­is­vörðum líka. Eitt­hvað átti eftir að fara stór­kost­lega úrskeið­is.

Dæmi eru um fólk sem átti miða hafi ákveðið að yfir­gefa svæðið á þessum tíma­punkti. Reyna ekki einu sinni að kom­ast inn á leik­vang­inn. „Það skap­að­ist upp­lausn­ar­á­stand,“ segir maður sem gerði nákvæm­lega þetta: Fór heim. Með mið­ann í vas­an­um. „Þetta átti að vera gleði­legt. Fögn­uð­ur. Hvert erum við eig­in­lega kom­in?“

Auglýsing

Vegna COVID-19 var úrslita­leik­ur­inn ekki sýndur á risa­skjám um alla London eins og venjan er með stór­við­burði sem þessa. Það þrengdi þá kosti sem stuðn­ings­menn höfðu til að koma sam­an. Þeir þyrpt­ust á bar­ina í kringum Wembley – miða­laus­ir. Lík­lega ætl­uðu þeir flestir að horfa á leik­inn þar. Höfðu ekki planað ann­að. En sumir voru vissu­lega mættir með ekk­ert gott í huga. Þeir ætl­uðu inn. Sama hvað það kost­aði.

Þetta var ekk­ert nýtt. Í und­an­úr­slit­unum hafði þetta vanda­mál gert vart við sig. Talið var að í það minnsta 200 manns hefðu t.d. kom­ist inn á leik­inn við Dani án miða.

Það voru vissu­lega lög­reglu­menn fyrir utan Wembley en þeir virt­ust örfáir miðað við þann fjölda fólks sem þar var saman kom­inn. Fyrir leik­inn hafði lög­reglan hvatt fólk sem átti ekki aðgangs­miða að halda sig fjarri. „Aug­ljós­lega þá hundsuðu margir þau til­mæli,“ sagði Taylor yfir­lög­reglu­þjónn dag­inn eftir upp­á­kom­una.

Maður sem notar hjóla­stól og hafði tryggt sér miða á leik­inn segir það hafa verið þraut­ina þyngri að kom­ast inn á leik­vang­inn. Röðin sem var sér­stak­lega hugsuð fyrir fatl­aða hagg­að­ist ekki, enda sagði dyra­vörð­ur­inn að fólk án miða hefði ruðst inn. Það yrði að bíða með að hleypa fleirum inn í bili.

Hann sá starfs­fólk á hlaupum á eftir fólki. Hópur hafði ruðst inn á svæði í stúkunni sem er sér­stak­lega frá­tekið fyrir fólk sem notar hjóla­stóla. „Það var aug­ljóst að þeir höfðu ákveðið að yfir­taka þetta svæð­i,“ segir mað­ur­inn í sam­tali við The Athlet­ic. „Þeir bara rudd­ust inn.“ Felldu starfs­fólk á leið sinni þangað og tröðk­uðu á því.

Starfsmenn vallarins að reyna að stöðva hóp sem braust inn án miða.

Inn­rásin var ekki bundin við svæðið fyrir fatl­aða. Hún átti sér stað um allan leik­vang­inn. „Fólk stökk yfir girð­ing­ar. Hljóp inn um allt,“ segir mað­ur­inn. Þeir sem áttu miða voru ráða­laus­ir. Gátu ekki hreyft sig. Bár­ust bara með straumn­um. Æstum og reiðum hópn­um. Troðn­ing­ur­inn var mik­ill. Sumir hik­uðu ekki við að slá frá sér – kæmust þeir ekki leiðar sinn­ar. „Þetta var eins og upp­þot. Þetta var ógeðs­leg­t.“

Sam­fé­lags­miðlar urðu fljótt yfir­fullir af mynd­skeiðum af því sem fram fór. Af fólki að brjóta sér leið inn á leik­vang­inn úr öllum átt­um. Af ráða­lausum starfs­mönnum vall­ar­ins og lög­reglu­mönn­um.

Þeir sem brut­ust inn fengu sumir hverjir óblíðar mót­tökur frá þeim sem þar voru fyrir og áttu miða. Þannig skap­að­ist nokk­urs konar stríðs­á­stand. Högg voru látin dynja á við­kom­andi. Spörk líka. „Viltu vinna vinn­una þína, and­skot­inn hafi það,“ heyr­ist á einu mynd­skeið­inu hrópað að starfs­manni vall­ar­ins. En að verj­ast inn­rás­ar­lýð er ekki bein­línis það sem óbreyttir vall­ar­starfs­menn eru þjálfaðir í að gera.

Þeir voru hrædd­ir. Þetta fólk hafði ekki farið í gegnum örygg­is­hlið. Það gat verið vopn­að. Og í ein­hverjum til­vikum reynd­ist það raun­in. Allar sótt­varnir voru farnar lönd og leið.

Skjáskot úr myndskeiðum sem sýndu fólk að brjótast inn á leikvanginn.

Eng­inn átti að kom­ast inn á völl­inn nema að geta sýnt fram á bólu­setn­ingu eða nýlegt og nei­kvætt COVID-­próf. Þetta stóð skýrum stöfum á aðgöngu­mið­an­um. Það var eng­inn áhugi hjá Enska knatt­spyrnu­sam­band­inu að verða þekkt fyrir hópsmit á úrslita­leik EM karla. Talið er að þús­undir manna hafi ekki fylgt þessum regl­um. Þús­undir manna fóru ekki inn um örygg­is­hliðin eins og til var ætl­ast.

Bent hefur verið á að engin sér­stök áhersla hafi hvort eð er verið sett á að skanna og skoða COVID-vott­orð þeirra sem mættu á leik­inn gegn Þjóð­verj­um. Í úrslita­leiknum hafi aug­ljós­lega verið ákveðið að bæta þar úr og það olli því að gríð­ar­lega langar biðraðir mynd­uð­ust. Ringul­reiðin var svo mikil að for­eldrar urðu við­skila við börn sín.

Það aftur skap­aði aðstæður sem bull­urnar nýttu sér. Þær fóru um allt. Líka inn á svæði sem var tekið frá fyrir stuðn­ings­menn ítalska lands­liðs­ins. Slíkt hefur alltaf verið tekið föstum tökum – en það var eins og eng­inn réði við neitt. „Sótt­varn­ar­kúlan“ sem mynda átti um ítölsku stuðn­ings­menn­ina var því sprengd ítrek­að.

Fjöl­skyldur leik­manna, sem höfðu tryggt sér miða í VIP-stúk­un­um, urðu fyrir áfalli. Þangað inn rudd­ust bull­urnar og fylltu sæti, ganga og önnur rými. Þær sýndu af sér ógn­andi hegðun og örygg­is­verðir gátu ekk­ert aðhafst. „Þetta var eins og víg­völl­ur,“ lýsir einn fjöl­skyldu­með­limur því sem við blasti. Eftir leik­inn tók rasískur orða­flaumur bull­anna við. Sem og meira ofbeldi. Með ólík­indum þykir að fólk hafi ekki slasast alvar­lega.

Ruslið var eitt. Árásarhamur stuðningsmanna annað.

„Það var stór hópur drukk­inna manna sem reyndi að ryðj­ast inn,“ voru orðin sem Mark Bull­ing­ham, fram­kvæmda­stjóri Enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins, not­aði dag­inn eftir leik­inn. Í stað þess að ræða við blaða­menn um fót­bolta, eins og hann hafði von­ast eft­ir, var þetta eina umfjöll­un­ar­efn­ið. „Ég verð að biðja þá stuðn­ings­menn sem þetta bitn­aði á afsök­unar og einnig alla leik­menn.“

En hefði FA, sem á Wembley, getað komið í veg fyrir ólætin og ringul­reið­ina sem skap­að­ist? „Við rekum leik­vang, ekki virki,“ svar­aði Bull­ing­ham.

Lund­úna­lög­reglan sagði í yfir­lýs­ingu að fjöl­margir lög­reglu­menn hefðu verið á vakt í London og við Wembley til að tryggja öryggi fólks. „Mik­ill meiri­hluti fólks gat öruggur fylgst með leikn­um,“ sagði í yfir­lýs­ing­unni. Þar sagði einnig að vissu­lega hefði hópur fólks ruðst inn en að lög­reglan og starfs­menn vall­ar­ins hafi brugð­ist hratt við og hjálp­ast að við að koma því aftur út.

FA er á svip­uðum slóðum í sínum opin­beru yfir­lýs­ing­um. Segja að örygg­is­gæsla hafi verið meiri en gerðar hefðu verið kröfur um fyr­ir­fram. Hins vegar hafi hópur fólks sýnt af sér hættu­lega hegðun og virt örygg­is­ráð­staf­anir að vettugi.

Auglýsing

Þetta voru óvenju­legar aðstæð­ur. Um það eru allir sam­mála. Því eru margir sér­fræð­ingar á því að UEFA láti þetta ekki hafa áhrif á fram­haldið á Wembley. Að stór­leikir fari þar fram sam­kvæmt dag­skrá á næst­unni. Þetta hafi ekki sett var­an­legt strik í reikn­ing­inn.

Það er liðið eitt og hálft ár frá því að far­ald­ur­inn hófst. Svip­aður tími er því lið­inn frá því að fólk fór síð­ast á fót­bolta­leik. Og spennan fyrir nákvæm­lega þessum leik var ólýs­an­leg. Það eru allir orðnir lang­þreytt­ir. Lög­reglu­menn líka. Lög­reglu­menn sem hafa und­an­farna mán­uði þurft að sinna störfum tengdum far­aldr­in­um, reyna að hafa stjórn á hópa­mynd­un­um. Sekta fyrir brot á sótt­varna­ráð­stöf­un­um.

Geoff Pear­son, pró­fessor í refsirétti við Háskól­ann í Manchester og sér­fræð­ingur í örygg­is­málum tengdum íþrótta­leik­vöng­um, hefur skoðað mál­efni Wembley sér­stak­lega. Hann segir að ímynd vall­ar­ins sé sú í hugum margra að þar sé farið mjúkum höndum um þá sem brjóti af sér. Um það séu mörg dæmi, allt frá því gamli Wembley var og hét. Vitað er að þetta hefur gerst áður, að fólk ryðj­ist inn. Spenni upp glugga. Troði sér inn um þá. Slíkar sögur eru vel þekktar í gegnum tíð­ina. Sam­kvæmt rann­sóknum Pear­son sagð­ist yfir helm­ingur hans við­mæl­enda hafa kom­ist inn á Wembley án miða. „Þannig að þó að upp­lausn­ar­á­standið og ofbeldið sem varð fyrir utan Wembley eigi sér kannski engin for­dæmi þá var þetta ekki allt án for­dæma. Og þetta mun halda áfram að ger­ast nema að rót­tækar breyt­ingar á skipu­lagi verði gerð­ar.“

Bullur áber­andi í ára­tugi

Ensku fót­bolta­bull­urnar hafa verið áber­andi í ára­tugi. Á átt­unda og níunda ára­tug síð­ustu aldar ætl­aði allt um koll að keyra í þeirra röð­um. Svo tók að lægja. En nú virð­ist sem að aldan sé að rísa á ný. Þetta er vissu­lega minni­hluti stuðn­ings­manna enska lands­liðs­ins og liða á Englandi en hann er svo hávær – svo áber­andi – að hann eyði­leggur ítrekað fyrir öllum öðr­um.

Viðar Hall­dórs­son, pró­fessor í félags­fræði við Háskóla Íslands, ræddi „enska vanda­mál­ið“ nýverið í útvarps­fréttum. Hann sagði að þótt fót­bolta­bullur væru víða vanda­mál þá virt­ist ofbeldi í kringum fót­bolta­leiki vera verra á Englandi en ann­ars stað­ar. „Vegna þess að hvað sem ger­ist, hvort sem þeir spila heima eða heiman, þá verður ein­hver múg­stemn­ing sem magn­ast upp við ákveðnar aðstæð­ur. Og fót­bolt­inn veitir ein­hvers konar umgjörð sem dregur saman alls konar vanda­mál og þætti, eins og þjóð­arstolt, eins og sjálfs­mynd, vímu­efna­neyslu, eitr­aða karl­mennsku, hörku leiks­ins, að til­heyra ein­hverjum hópi; dregur þetta saman í ein­hvers konar suðu­pott, þegar svona til­finn­ingar og hug­myndir koma sam­an, og brjót­ast út í kringum þennan íþrótta­kapp­leik.“

Aðrir sér­fræð­ingar eru á sama máli. „Það sem á að vera partí breyt­ist í eyði­legg­ing­u,“ segir Piara Powar, sem fer fyrir sam­tökum sem berj­ast gegn kyn­þátta­for­dómum í fót­bolta, FARE.

Óbreyttir starfsmenn leikvangsins reyna að hafa hemil á skrílnum fyrir utan Wembley.

Sumir stuðn­ings­menn hafa varið hegðun óeirða­seggj­anna. Bent á að hefð sé fyrir því að „stel­ast inn“ á leiki án miða. Þessi hefð sýni hversu ástríðu­fullir þeir sem hana stunda eru gagn­vart fót­bolt­an­um. Að það sé skilj­an­legt að fólk hafi viljað sjá þennan stærsta fót­bolta­leik í sögu Eng­lands í 55 ár. Mið­arnir hafi líka verið svo dýrir að þeir hafi ekki verið á færi margra tryggra stuðn­ings­manna lands­liðs­ins.

Pear­son segir að vissu­lega hafi margir upp­lifað mikil von­brigði að fá ekki miða. Fá ekki að verða vitni að leik sem átti að færa fót­bolt­ann „heim“ eins og sagt var. Örvænt­ing hafi gripið um sig meðal ákveð­inna hópa. Pear­son segir að krefja verði lög­regl­una um svör um hvernig þeir mátu hætt­una þennan dag. Hvaða sviðs­myndir hún hafi dregið upp. Snemma dags hafi verið ljóst í hvað stefndi. En samt fór allt úr bönd­un­um. Hann bendir þó á að við­fangs­efnið hafi verið gríð­ar­lega stórt. Drukknir og æstir stuðn­ings­menn hafi fyllt göt­ur, bari, torg og garða. Það var því í mörg horn að líta fyrir lög­regl­una.

Nákvæm­lega hversu stór hóp­ur­inn var sem hag­aði sér með þessum hætti á og við Wembley á sunnu­dag­inn er kannski ekki stóra mál­ið. Hann var stór. Lík­lega brut­ust þús­undir inn án miða. Það er ekki þar með sagt að þeir hafi allir farið um með yfir­gangi og ofbeldi. En svartur blettur er kom­inn á stuðn­ings­menn enska lands­liðs­ins. Því oft­ast er það þannig, að fámennur hópur getur skaðað orð­spor stórs hóps. „Þetta var ljótt, ógeðs­legt. Við­ur­styggð.“ Með þessum orðum hafa stuðn­ings­menn sem urðu vitni að því sem gerð­ist m.a. lýst ástand­inu. „Ég veit að fólk trúir því kannski ekki núna en þetta er ekki dæmi­gerð hegðun enskra stuðn­ings­manna,“ segir einn stuðn­ings­maður við The Athletic. „Við urðum öll fyrir barð­inu á þessum þrjót­u­m.“

Nafla­skoðun nauð­syn­leg

Þessi myrka hlið fót­bolt­ans, íþrótt­ar­innar sem er dýrkuð og dáð um alla ver­öld, birt­ist öllum sem fylgd­ust með leikj­un­um, sam­fé­lags­miðlum og fjöl­miðlum í kjöl­far­ið. Þjjóð­ern­is­hyggj­an, ras­ism­inn og ofdrykkja eru vanda­mál sem þarf að takast á, skrifar blaða­maður Polit­ico. Hægri sinn­aðir öfga­menn hafi lengi herjað á verka­manna­stétt Eng­lands. Dul­búið aðskiln­að­ar­hyggju sína sem ástríðu fyrir föð­ur­land­inu. „Við erum á hættu­legum kross­götum í okkar sam­fé­lagi og hinar ólíku leiðir framundan hafa orðið sýni­legri eftir þessa helgi. Hug­myndin um að fjöl­breyti­leiki sé utan­að­kom­andi ógn fyrir allt sem breskt eða enskt er er ógn­væn­leg sem hefur í gegnum alla mann­kyns­sög­una leitt til hörm­unga.“

Hann skrifar að breska þjóðin þurfi að fara í ítar­lega nafla­skoð­un. Ann­ars auk­ist hat­rið og andúðin og atburðir eins og þeir sem urðu á Wembley end­ur­taki sig.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar