Ísland bjóði upp á „skálkaskjól“ fyrir netglæpi
Vararíkissaksóknari segir „hreint galið“ að glæpamenn hafi vettvang „í túnfætinum hjá okkur, til að fremja glæpi sína undir nafnleynd“ og vísar þar til þjónustu nokkurra netþjónustufyrirtækja sem hýsa starfsemi sína hér á landi.
Íslenskum yfirvöldum berast stundum réttarbeiðnir erlendis frá vegna rannsókna á netglæpum af ýmsu tagi, en geta lítið brugðist við, þar sem hér á landi fjarar slóðin hreinlega út og endar hjá fyrirtækjum sem reka án lagalegra takmarkana internetþjónustur sem tryggja viðskiptavinum um allan heim fulla nafnleynd.
Vararíkissaksóknarinn Helgi Magnús Gunnarsson vakti athygli á þessu í Facebook-færslu fyrir skemmstu og sagði þar að dæmi væri um að þjónustur væru skráðar erlendis, til dæmis í Belís, en bjóði svo upp á þjónustu eða hýsingu fyrir viðskiptavini sína hér á landi.
„Hreint galið“
Helgi Magnús var berorður í færslu sinni um málið og sagði að við værum með „vettvang fyrir glæpamenn, í túnfætinum hjá okkur, til að fremja glæpi sína undir nafnleynd,“ og kallaði það „hreint galið.“ „Þetta kann að skapa einhverjum gagnaverum ávinning en er að mínu viti algjörlega siðlaust og ekki gott fyrir ásýnd landsins að við rekum slíkt skálkaskjól,“ skrifaði Helgi Magnús.
Hann nefndi svo dæmi um að þjónusta með hýsingu hér á landi hefði verið nýtt til þess að krefjast tugmilljóna króna lausnargjalds fyrir gögn sem tekin höfðu verið í gíslingu á stóru sjúkrahúsi úti í heimi. Engin leið væri fyrir hérlend yfirvöld til að verða að liði við rannsóknina.
Helgi Magnús tiltók ekki neinar sérstakar internetþjónustur á nafn í færslu sinni, en Kjarninn hefur heimildir fyrir því að hið minnsta þrjár þjónustur sem hægt sé að nýta með þeim hætti sem vararíkissaksóknari lýsir hafi verið til skoðunar hjá yfirvöldum hér á landi.
Á vefsíðum þessara þjónustuveitenda má lesa að íslensk löggjöf sé lykilþáttur í þeirri þjónustu sem boðið sé upp á. Í fyrsta lagi má nefna CTemplar, sem er dulkóðuð tölvupóstþjónusta, „brynvarinn tölvupóstur“ sem leyfir notendum að vera fullkomlega nafnlausir í samskiptum sín á milli án nokkurrar rafrænnar slóðar.
Á vef þjónustunnar er sérstök umfjöllun um íslenska gagnaleyndarlöggjöf og útskýrt af hverju hún hafi orðið til þess að fyrirtækið valdi að hýsa starfsemi sína hér á landi.
Efst á lista er það að Ísland sé ekki með neina löggjöf sem varði gagnageymslu vefpósts. „Þegar þú eyðir tölvupósti, þá er honum eytt undir eins og engin afrit eru geymd. Það er vert að taka fram að íslensku fjarskiptalögin nr. 81/2003 skylda netveitufyrirtæki til að halda utan um og geyma gögn í 6 mánuði. CTemplar er ekki netveitufyrirtæki, svo þessi gagnageymslulög eiga ekki við um okkur,“ segir á vefsíðunni.
Í annað stað er svo tekið fram að Ísland bjóði upp á algjört nafnleysi eftir löglegum leiðum, þar sem íslensk lög geri ekki kröfur um skráningu IP-talna. Því er bætt við að hér sé meira að segja hægt að kaupa SIM-kort í farsíma án skráningar. Sterk vörn uppljóstrara hér á landi, dómstólar sem passi vel upp á persónuvernd og lítil þátttaka Íslands í alþjóðasamningum um gagnaskipti eru einnig nefnd sem ástæður fyrir því að CTemplar hýsir þjónustu sína á Íslandi.
Á vef CTemplar, sem haldið er úti af fyrirtækinu sem skráð er á Seychelles-eyjum í Indlandshafi, kemur fram að heimilisfang félagsins, ef ske kynni að einhverjum langaði að senda þeim bréfpóst, sé í Ármúla 4-6 í Reykjavík, en þar rak félagið Orange Project ehf. skrifstofuhótel. Orange Project varð gjaldþrota í lok árs 2020.
Fjarskrifstofa í Hafnartorgi
Ekki er þó líklegt að einhverjir starfsmenn á vegum CTemplar hafi haft vinnuaðstöðu í Ármúlanum, ekki frekar en það er líklegt að starfsmenn frá fyrirtæki sem heitir Withheld for Privacy sitji á skrifstofuhóteli sem fyrirtækið Regus rekur við Kalkofnsveg 2, í Hafnartorgi.
Við Kalkosfnsveg er Withheld for Privacy, sem rekið er undir íslenskri kennitölu, skráð með skrifstofu og símanúmer, en líklega er um að ræða svokallaða fjarskrifstofu (e. virtual office) sem hægt er að leigja af Regus fyrir rúmar 12 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt vef skrifstofuhótelsins.
Þjónustan sem Withheld for Privacy býður upp á felst í því að gera þeim sem eru að tryggja sér lén undir vefsíður kleift að fara huldu höfði – þannig að þriðju aðilar eins og t.d. löggæsluyfirvöld geti ekki rakið skráningu lénsins aftur til einstaklings eða fyrirtækis, samkvæmt því sem fram kemur á vef fyrirtækisins.
Fyrirtæki í Belís segist til húsa á Klapparstíg
Í miðbænum er svo önnur þjónusta skráð til húsa, sem hefur verið til skoðunar hjá íslenskum löggæsluyfirvöldum, sem geta þó lítið aðhafst. Það er OrangeWebsite, sem hefur áður verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum, meðal annars fyrir að hýsa nýnasistavefsíðuna The Daily Stormer, sem var með lén með .is endingu til skamms tíma.
Á vef OrangeWebsite segist fyrirtækið vera til húsa á Klapparstíg 7, en það er fjölbýlishús. Samkvæmt frétt Stundarinnar frá 2017 kannaðist enginn íbúi í húsinu við fyrirtækið og póstur til fyrirtækisins reglulega endursendur. Nánar var fjallað um þetta félag í Stundinni síðasta haust, í tengslum við Pandóruskjölin svokölluðu, en gögn sem þar láku sýndu fram á að Íslendingur búsettur í Taílandi hefur verið viðriðinn starfsemina.
Í viðtali við Stundina sagði maðurinn, Aðalsteinn Pétur Karlsson, að hann gæti ekki látið sína „persónulegu skoðun stýra hvað er verið að hýsa.“
„Við förum bara eftir því sem lögin á Íslandi segja,“ sagði hann í viðtali við Stundina. „Ef að Ísland er að segja að þetta sé í lagi, þá er þetta í lagi.“
OrangeWebsite býður upp á hýsingu og ýmsar lausnir frá gagnaveri á Íslandi og segist á vef sínum þjónusta viðskiptavini í yfir 100 löndum, en reyndar eru þær tölur frá árinu 2014. Félagið á bak við OrangeWebsite heitir IceNetworks Ltd. og hefur bæði verið skráð í Belís í Mið-Ameríku og á Seychelles-eyjum.
Helgi Magnús sagði í færslu sinni að þegar ná þyrfti í fyrirtæki af þessu tagi þá væri ýmist upplýsingum um viðskiptavininn ekki til að dreifa, ekki næðist í neinn fyrirsvarsmann starfseminnar eða upplýsingarnar vistaðar einhvers staðar þar sem engin leið væri að nálgast þær og „enginn vilji til að afhenda þær, enda er viðskiptamódelið einmitt þetta, skálkaskjól.“
Ísland toppar flesta lista um netfrelsi
Frelsi á internetinu er nær hvergi meira en á Íslandi, samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum. Í nýjustu úttekt Freedom House á netfrelsi í heiminum, er Ísland efst á lista með 96 stig af 100 mögulegum.
Margt af því sem gert hefur verið til að liðka fyrir netfrelsi á Íslandi á undanförnum árum á rætur sínar að rekja til þingsályktunartillögu sem samþykkt var mótatkvæðalaust á Alþingi árið 2010, um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingarfrelsis.
Þar voru lagðar fram tillögur til þess að „umbreyta landinu þannig að hér verði framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja“ og sagði í tillögunni að slíkar breytingar myndu „treysta stoðir lýðræðis, verða hvati til nauðsynlegra umbóta hérlendis og auka gagnsæi og aðhald“, auk þess sem stefnumörkunin „gæti gefið þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og orðið lyftistöng í atvinnu- og efnahagsmálum.“
Lesa meira
-
18. júlí 2022Kaup Ardian á Mílu í uppnámi
-
13. maí 2022„Langþráður draumur“ um gagnkvæmt reiki milli fjarskiptafyrirtækja í augsýn
-
15. mars 2022Sektarheimildin sem íslensku fjarskiptafyrirtækin vildu alls ekki sjá snýr aftur
-
4. febrúar 2022Fjögurra prósenta sektarheimild Fjarskiptastofu verði felld á brott og frestað
-
7. janúar 2022Ísland bjóði upp á „skálkaskjól“ fyrir netglæpi