Bára Huld Beck Helgi Magnús Gunnarsson
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Bára Huld Beck

Ísland bjóði upp á „skálkaskjól“ fyrir netglæpi

Vararíkissaksóknari segir „hreint galið“ að glæpamenn hafi vettvang „í túnfætinum hjá okkur, til að fremja glæpi sína undir nafnleynd“ og vísar þar til þjónustu nokkurra netþjónustufyrirtækja sem hýsa starfsemi sína hér á landi.

Íslenskum yfir­völdum ber­ast stundum rétt­ar­beiðnir erlendis frá vegna rann­sókna á net­glæpum af ýmsu tagi, en geta lítið brugð­ist við, þar sem hér á landi fjarar slóðin hrein­lega út og endar hjá fyr­ir­tækjum sem reka án laga­legra tak­mark­ana inter­net­þjón­ustur sem tryggja við­skipta­vinum um allan heim fulla nafn­leynd.

Vara­rík­is­sak­sókn­ar­inn Helgi Magnús Gunn­ars­son vakti athygli á þessu í Face­book-­færslu fyrir skemmstu og sagði þar að dæmi væri um að þjón­ustur væru skráðar erlend­is, til dæmis í Belís, en bjóði svo upp á þjón­ustu eða hýs­ingu fyrir við­skipta­vini sína hér á landi.

„Hreint galið“

Helgi Magnús var ber­orður í færslu sinni um málið og sagði að við værum með „vett­vang fyrir glæpa­menn, í tún­fæt­inum hjá okk­ur, til að fremja glæpi sína undir nafn­leynd,“ og kall­aði það „hreint galið.“ „Þetta kann að skapa ein­hverjum gagna­verum ávinn­ing en er að mínu viti algjör­lega sið­laust og ekki gott fyrir ásýnd lands­ins að við rekum slíkt skálka­skjól,“ skrif­aði Helgi Magn­ús.

Hann nefndi svo dæmi um að þjón­usta með hýs­ingu hér á landi hefði verið nýtt til þess að krefj­ast tug­millj­óna króna lausn­ar­gjalds fyrir gögn sem tekin höfðu verið í gísl­ingu á stóru sjúkra­húsi úti í heimi. Engin leið væri fyrir hér­lend yfir­völd til að verða að liði við rann­sókn­ina.

Helgi Magnús til­tók ekki neinar sér­stakar inter­net­þjón­ustur á nafn í færslu sinni, en Kjarn­inn hefur heim­ildir fyrir því að hið minnsta þrjár þjón­ustur sem hægt sé að nýta með þeim hætti sem vara­rík­is­sak­sókn­ari lýsir hafi verið til skoð­unar hjá yfir­völdum hér á landi.

Á vef­síðum þess­ara þjón­ustu­veit­enda má lesa að íslensk lög­gjöf sé lyk­il­þáttur í þeirri þjón­ustu sem boðið sé upp á. Í fyrsta lagi má nefna CTempl­ar, sem er dulkóðuð tölvu­póst­þjón­usta, „bryn­var­inn tölvu­póst­ur“ sem leyfir not­endum að vera full­kom­lega nafn­lausir í sam­skiptum sín á milli án nokk­urrar raf­rænnar slóð­ar.

Á vef þjón­ust­unnar er sér­stök umfjöllun um íslenska gagna­leynd­ar­lög­gjöf og útskýrt af hverju hún hafi orðið til þess að fyr­ir­tækið valdi að hýsa starf­semi sína hér á landi.

CTemplar segist notast við vefþjóna á Íslandi til hýsingar þar sem hér á landi sé lagaleg vernd þeirra sem vilja nota tölvupóst á öruggan hátt sú sterkasta.
Skjáskot af vef CTEmplar.

Efst á lista er það að Ísland sé ekki með neina lög­gjöf sem varði gagna­geymslu vef­pósts. „Þegar þú eyðir tölvu­pósti, þá er honum eytt undir eins og engin afrit eru geymd. Það er vert að taka fram að íslensku fjar­skipta­lögin nr. 81/2003 skylda net­veitu­fyr­ir­tæki til að halda utan um og geyma gögn í 6 mán­uði. CTemplar er ekki net­veitu­fyr­ir­tæki, svo þessi gagna­geymslu­lög eiga ekki við um okk­ur,“ segir á vef­síð­unni.

Í annað stað er svo tekið fram að Ísland bjóði upp á algjört nafn­leysi eftir lög­legum leið­um, þar sem íslensk lög geri ekki kröfur um skrán­ingu IP-talna. Því er bætt við að hér sé meira að segja hægt að kaupa SIM-kort í far­síma án skrán­ing­ar. Sterk vörn upp­ljóstr­ara hér á landi, dóm­stólar sem passi vel upp á per­sónu­vernd og lítil þátt­taka Íslands í alþjóða­samn­ingum um gagna­skipti eru einnig nefnd sem ástæður fyrir því að CTemplar hýsir þjón­ustu sína á Íslandi.

Á vef CTempl­ar, sem haldið er úti af fyr­ir­tæk­inu sem skráð er á Seychelles-eyjum í Ind­lands­hafi, kemur fram að heim­il­is­fang félags­ins, ef ske kynni að ein­hverjum lang­aði að senda þeim bréf­póst, sé í Ármúla 4-6 í Reykja­vík, en þar rak félagið Orange Project ehf. skrif­stofu­hót­el. Orange Project varð gjald­þrota í lok árs 2020.

Fjar­skrif­stofa í Hafn­ar­torgi

Ekki er þó lík­legt að ein­hverjir starfs­menn á vegum CTemplar hafi haft vinnu­að­stöðu í Ármúl­an­um, ekki frekar en það er lík­legt að starfs­menn frá fyr­ir­tæki sem heitir Wit­hheld for Pri­vacy sitji á skrif­stofu­hót­eli sem fyr­ir­tækið Regus rekur við Kalkofnsveg 2, í Hafn­ar­torgi.

Íslenska félagið withheld for privacy ehf. var stofnað í febrúar 2021. Skráður eigandi þess er Mexíkómaðurinn Sergio Raygoza Hernandez.

Við Kalkos­fnsveg er Wit­hheld for Pri­vacy, sem rekið er undir íslenskri kenni­tölu, skráð með skrif­stofu og síma­núm­er, en lík­lega er um að ræða svo­kall­aða fjar­skrif­stofu (e. virtual office) sem hægt er að leigja af Regus fyrir rúmar 12 þús­und krónur á mán­uði, sam­kvæmt vef skrif­stofu­hót­els­ins.

Þjón­ustan sem Wit­hheld for Pri­vacy býður upp á felst í því að gera þeim sem eru að tryggja sér lén undir vef­síður kleift að fara huldu höfði – þannig að þriðju aðilar eins og t.d. lög­gæslu­yf­ir­völd geti ekki rakið skrán­ingu léns­ins aftur til ein­stak­lings eða fyr­ir­tæk­is, sam­kvæmt því sem fram kemur á vef fyr­ir­tæk­is­ins.

Fyr­ir­tæki í Belís seg­ist til húsa á Klapp­ar­stíg

Í mið­bænum er svo önnur þjón­usta skráð til húsa, sem hefur verið til skoð­unar hjá íslenskum lög­gæslu­yf­ir­völd­um, sem geta þó lítið aðhafst. Það er OrangeWebsite, sem hefur áður verið til umfjöll­unar í íslenskum fjöl­miðl­um, meðal ann­ars fyrir að hýsa nýnas­ista­vef­síð­una The Daily Stormer, sem var með lén með .is end­ingu til skamms tíma.

Á vef OrangeWebsite seg­ist fyr­ir­tækið vera til húsa á Klapp­ar­stíg 7, en það er fjöl­býl­is­hús. Sam­kvæmt frétt Stund­ar­innar frá 2017 kann­að­ist eng­inn íbúi í hús­inu við fyr­ir­tækið og póstur til fyr­ir­tæk­is­ins reglu­lega end­ur­send­ur. Nánar var fjallað um þetta félag í Stund­inni síð­asta haust, í tengslum við Pand­óru­skjölin svoköll­uðu, en gögn sem þar láku sýndu fram á að Íslend­ingur búsettur í Taílandi hefur verið við­rið­inn starf­sem­ina.

Í við­tali við Stund­ina sagði mað­ur­inn, Aðal­steinn Pétur Karls­son, að hann gæti ekki látið sína „per­sónu­legu skoðun stýra hvað er verið að hýsa.“

„Við förum bara eftir því sem lögin á Íslandi segja,“ sagði hann í við­tali við Stund­ina. „Ef að Ísland er að segja að þetta sé í lagi, þá er þetta í lag­i.“

Auglýsingaborði á vef OrangeWebsite hreykir sér af því að hýsing fyrirtækisins sé keyrð áfram af 100 prósent grænni orku.
Skjáskot

OrangeWebsite býður upp á hýs­ingu og ýmsar lausnir frá gagna­veri á Íslandi og seg­ist á vef sínum þjón­usta við­skipta­vini í yfir 100 lönd­um, en reyndar eru þær tölur frá árinu 2014. Félagið á bak við OrangeWebsite heitir IceNetworks Ltd. og hefur bæði verið skráð í Belís í Mið-Am­er­íku og á Seychelles-eyj­um.

Helgi Magnús sagði í færslu sinni að þegar ná þyrfti í fyr­ir­tæki af þessu tagi þá væri ýmist upp­lýs­ingum um við­skipta­vin­inn ekki til að dreifa, ekki næð­ist í neinn fyr­ir­svars­mann starf­sem­innar eða upp­lýs­ing­arnar vistaðar ein­hvers staðar þar sem engin leið væri að nálg­ast þær og „eng­inn vilji til að afhenda þær, enda er við­skipta­mód­elið einmitt þetta, skálka­skjól.“

Ísland toppar flesta lista um net­frelsi

Frelsi á inter­net­inu er nær hvergi meira en á Íslandi, sam­kvæmt alþjóð­legum mæli­kvörð­um. Í nýj­ustu úttekt Freedom House á net­frelsi í heim­in­um, er Ísland efst á lista með 96 stig af 100 mögu­leg­um.

Margt af því sem gert hefur verið til að liðka fyrir net­frelsi á Íslandi á und­an­förnum árum á rætur sínar að rekja til þings­á­lykt­un­ar­til­lögu sem sam­þykkt var mót­at­kvæða­laust á Alþingi árið 2010, um að Ísland skapi sér afger­andi laga­lega sér­stöðu varð­andi vernd tján­ing­ar- og upp­lýs­ing­ar­frels­is.

Þar voru lagðar fram til­lögur til þess að „um­breyta land­inu þannig að hér verði fram­sækið umhverfi fyrir skrán­ingu og starf­semi alþjóð­legra fjöl­miðla og útgáfu­fé­laga, sprota­fyr­ir­tækja, mann­rétt­inda­sam­taka og gagna­vers­fyr­ir­tækja“ og sagði í til­lög­unni að slíkar breyt­ingar myndu „treysta stoðir lýð­ræð­is, verða hvati til nauð­syn­legra umbóta hér­lendis og auka gagn­sæi og aðhald“, auk þess sem stefnu­mörk­unin „gæti gefið þjóð­inni aukið vægi á erlendum vett­vangi og orðið lyfti­stöng í atvinnu- og efna­hags­mál­u­m.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent