Jólagjöfin í ár byrjar á Ó
Fyrsta frétt á öllum miðlum: Nýtt afbrigði. Mögulega meira smitandi en þau fyrri. Mögulega hættulegra. Orð á borð við „kannski“, „líklega“, „sennilega“ og „hugsanlega“ umlykja veiruafbrigðið Ómíkron sem hefur fleiri stökkbreytingar, sumar áður óséðar, en hið skæða Delta. En það sem einkennir það þó fyrst og fremst er óvissa. Að minnsta kosti ennþá.
Það er rík ástæða fyrir því að hið nýja kórónuveiruafbrigði Ómíkron veldur mörgum vísindamönnum áhyggjum. Og það er líka rík ástæða fyrir því að það veldur heilabrotum. Því þótt í genamengi þess megi finna um fimmtíu stökkbreytingar, þar af í það minnsta 26 sem ekki hafa sést í öðrum afbrigðum, þýðir það ekki endilega að Ómíkron sé verra en þau afbrigði sem hingað til hafa greinst í faraldrinum.
Stundum vinna stökkbreytingar saman, ef þannig má að orði komast, og gera veirur skaðlegri. En þær geta líka jafnað hverja aðra út – unnið gegn hverri annarri. Veirufræðin eru flókin, m.a. af þessum sökum, og því eru vísindamenn margir hverjir hikandi við að slá því föstu að Ómíkron, sem fyrst var raðgreint í Suður-Afríku í síðustu viku, eigi eftir að ná yfirhöndinni, taka við af hinu alræmda Delta sem síðustu mánuði hefur drottnað yfir öðrum afbrigðum kórónuveirunnar í heiminum.
Sumar stökkbreytingarnar sem Ómíkron hefur eru þess eðlis að þær hafa allt það til að bera til að auka smithæfni veirunnar og möguleika hennar á að komast framhjá ónæmisvörnum líkamans. En til að komast að hinu sanna þarf að skoða aðrar stökkbreytingar þess ítarlega og svo samspilið þeirra á milli. Að því verkefni vinna nú vísindamenn um heim allan. Talað hefur verið um að það muni taka 2-3 vikur þar til myndin verður orðin skýr. Á meðan mun kórónuveiran halda áfram að breiðast út eins og hún hefur gert í að verða tvö ár. Halda áfram að stökkva fimlega úr einum líkama yfir í annan, sumum bólusettum en öðrum ekki, og breytast í hvert skipti. Þannig hefur gengið nokkuð rösklega á gríska stafrófið frá upphafi faraldursins: Alfa, Beta, Gamma, Delta, Mu, Lambda. Og Ómíkron. Slík nöfn gefur Alþjóða heilbrigðisstofnunin aðeins afbrigðum sem hafa margar stökkbreytingar og eru þar með orðin töluvert ólík þeim sem á undan komu.
Ein af stóru spurningunum sem vísindamenn eru að reyna að fá svör við er hversu vel bóluefnin sem þegar hafa verið þróuð og framleidd munu gagnast gegn Ómíkron. Til að svara spurningunni eru vísindamenn, m.a. við Smitsjúkdómastofnun Suður-Afríku, að búa til gerviveiru sem inniheldur allar þær stökkbreytingar sem einkenna afbrigðið og skoða samspil þeirra. Þeir hafa gert þetta áður og notuðu sömu aðferð er Beta-afbrigðið skaut upp kollinum í Suður-Afríku í fyrra. Þá komust þeir einmitt að því að það að skoða aðeins eina einangraða stökkbreytingu var ekki nóg til að komast að hinu sanna.
Ein stökkbreytingin sem Ómíkron hefur er sú hin sama og Alfa-afbrigðið, sem fyrst uppgötvaðist í Bretlandi, hafði. Þessi stökkbreyting er talin gera það að verkum að veiran á auðveldara með að komast inn í frumur líkamans. En hana er hins vegar ekki að finna í Delta sem reyndist svo verða það afbrigði sem skæðast hefur verið hingað til. Delta hefur nefnilega stökkbreytingar sem valda enn meiri sýkingarhæfni en Alfa hafði.
Þegar Delta kom fram á sjónarsviðið og fór að breiðast út um allan heim voru sömu spurningar uppi og nú. Hvernig munu bóluefnin gagnast? Mun það valda alvarlegri veikindum? Mun það leggjast verr á ákveðna aldurshópa en við höfum áður séð?
Bóluefnin gagnast gegn Delta. Virknin er þó ekki jafnmikil og gegn fyrstu afbrigðum veirunnar sem þau voru þróuð út frá. Fleiri börn hafa sýkst af Delta en afbrigðunum sem komu á undan þótt alvarleg veikindi í þeim aldurshópi séu mjög fátíð.
Vísbendingar eru svo um að mótefnasvar líkamans eftir bólusetningu dvíni með tímanum. Jafnvel á nokkrum mánuðum. Og því eru örvunarbólusetningar hafnar, fyrst og fremst á Vesturlöndum þar sem bólusetningarhlutfall var þegar hæst.
Líkt og Delta varð Ómíkron líklegast til í samfélagi þar sem fáir eru bólusettir. Margfalt meiri líkur eru á að smitast af kórónuveirunni ef fólk er óbólusett og sömuleiðis eru mun meiri líkur á því að veikjast alvarlega. Þetta er kjörlendi veirunnar – nóg af óvörðum líkömum til að sýkja og stökkbreytast í. Fjölga sér út í hið óendanlega.
En hvað vitum við í raun og veru um Ómíkron og mögulegar afleiðingar þess? Að svo stöddu er það fátt þótt afbrigðið sé vissulega ekki óskrifað blað.
Ættum við að fara á taugum vegna framkomu þess? Nei, segja okkar fremstu vísindamenn en á sama tíma er ljóst að því þarf að gefa góðan gaum. Vona það besta en búa sig undir það versta.
Vísindamenn þekkja genamengi afbrigðisins. Vita hvar stökkbreytingarnar á broddpróteininu eru að finna. En þeir vita ekki enn hvaða þýðingu þessar breytingar munu í raun hafa á smithæfni og veikindi sem veiran veldur. Ákveðnar kenningar hafa verið settar fram, byggðar á fyrri reynslu líkt og að framan er rakið. Þær duga þó ekki til að slá neinu föstu um hvernig Ómíkron mun haga sér í samfélagi manna.
Læknar í Suður-Afríku hafa bent á að þeir sem smitast hafa af Ómíkron í landinu svo vitað sé hafi enn sem komið er ekki veikst alvarlega. En svo margt er enn á huldu varðandi bylgjuna sem nú er að rísa í landinu að slíka fullyrðingu er ekki hægt að setja fram án margvíslegra fyrirvara. Í fyrsta lagi er aðeins um 0,8 prósent allra jákvæðra sýna raðgreind. Það er því langt í frá vitað hversu útbreitt veiruafbrigðið í raun er. Af 61 farþega úr einni og sömu flugvélinni sem lenti í Amsterdam á sunnudag greindust fjórtán sýktir af afbrigðinu. Útilokað þykir að þeir hafi smitað hvern annan. Svo ólíkt er „ættartré“ hverrar veiru fyrir sig.
Í annan stað þá er ungt fólk að sýkjast í meira mæli í Suður-Afríku um þessar mundir en þeir sem eldri eru. Það aftur kann fyrst og fremst að skýrast af ólíkri hegðun þessara aldurshópa en við vitum að kórónuveiran leggst verr á eldra fólk. Aðeins um fjórðungur Suður-Afríkubúa eru bólusettir.
Að sama skapi er ekki vitað hvort og þá hversu mikil vörn bóluefnanna sem notuð eru í heiminum í dag er gagnvart afbrigðinu. Afskaplega ólíklegt verður þó að teljast að það komist alfarið inn fyrir varnir líkamans sem fást með bólusetningu. Við erum ekki á byrjunarreit hvað nýjan faraldur varðar í þeim efnum.
Þegar Delta fór að breiðast út um heiminn var reynt að spýta í lófana í bólusetningum. Reyna að fækka líkömum sem veiran getur búið þægilega um sig í. Það hefur skipt lykilmáli í baráttunni. Smittölur m.a. á Íslandi eru í hæstu hæðum en alvarleg veikindi ekki nálægt því jafn algeng og við sáum í fyrstu bylgjunum. Það sama hefur átt sér stað víða.
Faraldurinn er á fleygiferð í Evrópu þessar vikurnar. Dagleg smit hafa aldrei verið fleiri og mörg ríki hafa þurft að grípa til hertra aðgerða til að reyna að hægja á útbreiðslunni. Tempra hana eins og stundum er sagt. Það hefur ekkert með Ómíkron að gera. Bylgjan hófst áður en það kom til sögunnar. Takmarkanir á hegðun fólks höfðu víðast verið afnumdar að mestu. Veturinn kallaði á meiri samveru innandyra. Þetta tvennt, nánd og innivera, eru eftirlætis aðstæður veirunnar.
Mörg lönd hafa í örvæntingu gripið til þess að loka landamærum sínum fyrir komu fólks frá sunnanveðri Afríku. Slíkt mun hafa slæmar afleiðingar fyrir efnahag þessara þegar fátæku ríkja og hefur Alþjóða heilbrigðismálstofnunin, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri hvatt til hófstilltari viðbragða.
Ferðabönn hafa hingað til gagnast lítið ein og sér. Það er gamla tuggan; skimun, rakning og einangrun sem hefur reynst áhrifaríkust. Raðgreiningar eru nauðsynlegar og það hefur nú enn og aftur sýnt sig. Í dag varð ljóst að Ómíkron kom ekki í fyrsta skipti með flugi frá Suður-Afríku á sunnudag. Þegar farið var að rýna í niðurstöður sýna uppgötvaðist að afbrigðið hafði fundist í tveimur öðrum einstaklingum nokkrum dögum fyrr – nokkrum dögum áður en suðurafrísk yfirvöld tilkynntu WHO um uppgötvun sína. Enn er á huldu hvort að þessir sjúklingar höfðu tengsl við sunnanverða Afríku.
Ómíkron hefur nú verið greint í að minnsta kosti nítján löndum. Tilfellin eru flest í Suður-Afríku en þó aðeins 77. Óhætt er að fullyrða að það eigi eftir að greinast í fleiri löndum á næstu dögum og vikum.
Ef uppgötvun Ómíkron er að senda jarðarbúum einhver skilaboð þá eru það þau að dreifa bóluefnum jafnt um heiminn. Misskiptingin er gríðarleg. Þau ríki sem hafa efni á því að kaupa forgang að bóluefnum hjá framleiðendum hafa gert það og hafa mörg hver að sama skapi ekki staðið við skuldbindingar sínar um að gefa skammta sem þau hafa tryggt sér. „Umframskammtar“ var hugtak sem breyttist nokkuð þegar „örvunarskammtar“ urðu að veruleika.
Bóluefnaskortur er enn stærsta hindrunin sem stendur í vegi fyrir því að bólusetja fleiri í efnaminni ríkjum. Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er önnur hindrun en lægri og hik við að láta bólusetja sig er ekki talið stórkostleg breyta auk þess sem vinna má á slíku með fræðslu og upplýsingagjöf.
Ómíkron er ekki jólagjöfin sem við vildum fá í fangið. Óvissa um áhrif þess ekki heldur. En á meðan skipting dropanna dýrmætu verður jafn gríðarlega ójöfn og raun ber vitni verður hætta á nýjum og jafnvel skaðlegri afbrigðum kórónuveirunnar SARS-CoV-2, hvort sem þau heita Ómíkron eða eitthvað allt annað, áfram viðvarandi. Gríska stafrófið mun mögulega ekki duga til.