Mynd: Birgir Þór Harðarson

Milljarðar gætu ratað úr fyrirtæki í eigu borgarinnar í ríkissjóð vegna afleiðusamninga við Glitni

Orkuveita Reykjavíkur vildi ekki gera upp afleiðusamninga við Glitni HoldCo vegna þess að hún taldi að félagið hefði framselt samninganna til ríkissjóðs og að það hefði þegar fengið bætur fyrir afglöp endurskoðenda í sátt við PwC. Hún taldi líka að Glitnir hefði verið ógjaldfær þegar bankinn gerði samninga og þeir því ógildir vegna þess að hann gat ekki staðið við sinn hlut. Orkuveitan tapaði málinu á föstudag.

Á föstu­dag féll dómur í Lands­rétti í máli sem Orku­veita Reykja­víkur höfð­aði á hendur Glitni HoldCo, félags utan um eft­ir­stöðvar þrota­bús Glitn­is. 

Málið sner­ist um afleiðu­samn­inga sem Orku­veitan hafði gert við Glitni á árunum 2002 til 2008, eða áður en bank­inn féll með látum haustið 2008, til að verja sig fyrir geng­is­á­hættu, enda tekjur Orku­veit­unnar að mestu í íslenskum krónum en fjár­hags­legar skuld­bind­ingar að mestu í erlendum mynt­um. Með samn­ing­unum tók Orku­veitan stöðu með krón­unni en þegar hún féll mynd­að­ist tap á samn­ing­un­um. Það tap vildi Glitnir HoldCo sækja.

Mála­rekst­ur­inn hafði staðið yfir síðan 2012 og á meðan að á honum stóð hefur grund­völlum máls­ins tekið breyt­ing­um.

En nið­ur­staða Lands­réttar var sú að dómur hér­aðs­dóms skyldi standa órask­að­ur. Verði það end­an­leg nið­ur­staða þá mun Orku­veit­an, sem er að stærstum hluta í eigu Reykja­vík­ur­borg­ar, þurfa að greiða Glitni að minnsta kosti 3,3 millj­arða króna þegar drátt­ar­vextir fram að síð­ustu ára­mótum eru taldir til. Heild­ar­upp­hæðin sem þarf að greiða er hærri, enda drátt­ar­vextir haldið áfram að safn­ast upp á þeim ell­efu mán­uðum sem liðnir eru af árinu 2021. 

Til að setja þessa tölu í sam­hengi þá var hagn­aður Orku­veit­unnar allt árið í fyrra 5,6 millj­arðar króna. Því er um að upp­hæð sem nemur tæp­lega 60 pró­sent af árs­hagn­aði Orku­veit­unn­ar, fyr­ir­tækis sem greiddi fjóra millj­arða króna í arð til eig­enda sinna í ár. 

Þessi upp­hæð, verði hún inn­heimt að fullu, mun þó ekki sitja að uppi­stöðu eftir í Glitni HoldCo eða hjá hlut­höfum þess félags, fyrr­ver­andi kröfu­höfum Glitn­is. Sam­kvæmt stöð­ug­leika­sam­komu­lag­inu sem gert var undir lok árs 2015 skuld­batt Glitnir HoldCo sig til að greiða allar íslenskar krónur sem hann átti eða kæmi til að eign­ast til íslenska rík­is­sjóðs. 

Því mun fyr­ir­tæki sem Reykja­vík á 94 pró­sent hlut í, og tvö smærri sveit­ar­fé­lög rest­ina, þurfa að óbreyttu að greiða Glitni HoldCo á fjórða millj­arð króna sem rennur svo í rík­is­sjóð. Höf­uð­borg­in, Akra­nes og Borg­ar­byggð tapa, en rík­is­sjóður hagn­ast. 

Leynd hvílir yfir eigum sem Glitnir HoldCo rukkaði inn fyrir ríkið

Þegar sam­komu­lag náð­ist milli íslenska rík­is­ins og kröfu­hafa Glitnis um greiðslu stöð­ug­leika­fram­lags svo að hægt yrði að ljúka nauða­samn­ingi bank­ans, var ljóst að stærsti hluti alls stöð­ug­leika­fram­lags­ins sem greiddur yrði í rík­is­sjóð úr ranni kröfu­hafa allra föllnu bank­anna myndi koma úr Glitni. Þar mun­aði mestu um allt hlutafé í Íslands­banka, sem ákveðið var á loka­metr­unum að myndi fara til rík­is­ins, en ekki bara afrakst­ur­inn af sölu hans líkt og í til­felli Arion banka.

Ýmsar aðrar eign­ir, meðal ann­ars ætl­aðar skuldir ákveð­inna ein­stak­linga eða félaga, voru á meðal þeirra sem Glitnir skuld­batt sig að láta rík­inu í té. Þar á meðal eru svokallaðar „eftirstæðar eignir“ í íslenskum krónum. Einn flokkur þeirra kallaðist „skilyrtar fjársópseignir“.

Í Þær eignir urðu áfram í vörslu og umsýslu félaga sem stofnuð voru utan um þrotabú föllnu bankanna en andvirði þeirra átti að renna í ríkissjóð eftir því sem það féll til. Það þýðir á mannamáli að bankafélögin seldu eignir, ráku dómsmál eða beittu öðrum verkfærum til að breyta þessum fjársópseignum í reiðufé og framseldu svo ríkissjóði afraksturinn.

Mikil leynd hefur ríkt um hvaða eignir er að um að ræða. Í frétt Viðskiptablaðsins frá árinu 2016 er vitnað í svar fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins þar sem segir að ráðuneytinu sé „óheimilt samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki að miðla upplýsingum um þessar eignir“.

Glitnir HoldCo hefur sömuleiðis ekki viljað upplýsa um hvaða eignir sé að ræða, hvernig þeim hefur verið komið í verð né hvað hefur fengist fyrir eignir sem voru seldar.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort sótt verður um áfrýj­un­ar­leyfi til Hæsta­réttar Íslands í mál­inu eins og er, sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans. 

Töldu að samn­ing­arnir hefðu verið fram­seldir

Orku­veitan vildi að hún yrði sýknuð í mál­inu vegna þess að hún telur að Glitnir HoldCo sé ekki lengur eig­andi þeirra afleiðu­samn­inga sem gerðir voru. Það var rök­stutt aðal­lega með tölvu­pósti frá rík­is­end­ur­skoðun þar sem fram kemur að eft­ir­stæðar eignir Glitnis hafi verið fram­seldar rík­inu 10. des­em­ber 2015. Auk þess vís­aði Orku­veitan í að í árs­reikn­ingi Glitnis HoldCo vegna árs­ins 2015 hefðu kröfur vegna afleiðu­samn­inga verið færðar niður í núll krón­ur. Það væri stað­fest­ing á því að Glitnir héldi ein­fald­lega ekki lengur á kröf­un­um. 

Við mála­rekst­ur­inn var hins vegar lagður fram tölvu­póstur frá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu frá 6. febr­úar í fyrra þar sem kom fram að afleiðu­samn­ing­arnir hafi ekki verið fram­seldir rík­is­sjóði. Í dómi Lands­réttar segir að dóm­arar máls­ins telji að yfir­lýs­ingar Seðla­banka  Íslands,  fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins og rík­is­end­ur­skoð­unar stað­festi að „eig­in­legt fram­sal á afleiðu­samn­ing­unum sjálfum til íslenska rík­is­ins hafi ekki átt sér stað“. 

Það verður þó ekki séð að rík­is­end­ur­skoðun hafi stað­fest slíkt með áður­nefndum tölvu­pósti. Þvert á mót­i. 

Neit­uðu að birta stöð­ug­leika­samn­inga

Í öðru máli sem Glitnir HoldCo höfð­aði vegna upp­gjörs afleiðu­samn­inga gegn Útgerð­ar­fé­lagi Reykja­vík­ur, og lauk eftir dóm sem féll í hér­aði í fyrra­vor, voru sömu máls­á­stæður að hluta til und­ir.

Eftir að Útgerð­ar­fé­lagið tap­aði mál­inu, og var gert að greiða rúm­lega þrjá millj­arða króna í gegnum Glitni og í rík­is­sjóð, skrif­aði Run­ólfur Viðar Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri þess, grein sem birt­ist í Kjarn­anum. Þar sagði hann meðal ann­ars að í fyr­ir­­spurn til Rík­­is­end­­ur­­skoð­anda sem hann hafi séð eftir að mál­­flutn­ingi lauk hafi sagt: „Það liggur skýrt fyrir að svo­­kall­aðar eft­ir­­stæðar eignir (retained assets) voru hluti af eigna­safn­inu sem slitabú Glitnis fram­­seldi rík­­inu með samn­ingi, dags. 10. des­em­ber 2015, um upp­­­gjör á stöð­ug­leika­eign­um. „Um þessar eignir sagði starfs­­maður Rík­­is­end­­ur­­skoð­anda enn­frem­ur: „Eft­ir­­stæðar eign­ir, þ.m.t. afleið­u­­samn­ing­­ar, hafa allar verið metnar og færðar upp til eignar í efna­hags­­reikn­ingi rík­­is­­sjóðs…”.

Lög­maður Orku­veit­unar skor­aði á Glitni HoldCo að leggja fram stöð­ug­leika­sam­komu­lag sitt við íslenska ríkið til að útkljá þetta mál end­an­lega. Við því varð félagið ekki. Það breytti engu í huga dóm­ara Lands­rétt­ar. Þeir töldu ekki ljóst af máls­gögnum að kröfu­rétt­indi hefðu verið fram­seld íslenska rík­inu heldur talið að „ein­ungis efn­is­legur ávinn­ingur af inn­heimtu samn­ing­anna hefði verið fram­seldur íslenska rík­in­u“.

Sömdu án þess að við­ur­kenna sekt

Orku­veitan bar líka fyrir sig að Glitnir HoldCo væri þegar búið að fá greitt vegna afleiðu­samn­ing­anna í sátt sem félagið gerði við end­ur­skoð­un­ar­fyr­ir­tækið PwC ehf. um fébóta­greiðslur vegna end­ur­skoð­un­ar­starfa þess fyrir Glitni á árunum 2007 og 2008. 

Málið sem Glitnir höfð­aði gegn PwC var ekk­ert smá­­mál. Í stefnu þess, sem birt var í mars 2012 voru sér­­stak­­lega til­­­greind fimm atriði þar sem PwC átti að hafa brotið gegn lög- og samn­ings­bundnum skyldum sín­­um. Í fyrsta lagi hefði PwC ekki upp­­lýst um að stjórn­­endur Glitnis hefðu veitt útlán til inn­­­byrðis tengdra aðila langt umfram leyf­i­­leg hámörk, í öðru lagi leynt útlána­á­hættu bank­ans til aðila sem töld­ust tengd­ir, í þriðja lagi veitt stór­­felld útlán til fjár­­vána eign­­ar­halds­­­fé­laga, í fjórða lagi van­­rækt afskrift­­ar­­skyldu sína og í fimmta lagi van­­rækt að upp­­lýsa um þá gríð­­ar­­lega miklu fjár­­hags­­legu hags­muni sem bank­inn var með í eigin bréfum með þeim afleið­ingum að eigið fé hans var veru­­lega of hátt skráð. 

Sáttir náð­ust milli Glitnis og PwC í nóv­­em­ber 2013. Trún­­aður ríkti um upp­­hæð­ina sem PwC greiddi en í umfjöllun Kjarn­ans um hana frá þessum tíma kom fram að PwC hefði greitt hund­ruð millj­­óna króna til að kom­­ast hjá máls­höfðun sem hinn fallni banki hafði höfðað á hendur PwC á Íslandi og í Bret­landi. Sam­komu­lagið var gert „án við­­ur­­kenn­ingar sak­­ar“. Það sner­ist því um að end­­ur­­skoð­un­­ar­­fyr­ir­tækið greiddi bætur án þess að hafa við­­ur­­kennt að hafa gert nokkuð rang­t. 

Lands­réttur komst að þeirri nið­ur­stöðu að Orku­veit­unni hafi ekki tek­ist að sanna að sáttin við PwC hafi náð yfir afleiðu­samn­ing­anna. 

Hefði með sak­næmum hætti leynt ógjald­færni

Í þriðja lagi taldi Orku­veitan að Glitnir HoldCo hefði með sak­næmum hætti leynt því að bank­inn hefði í reynd verið ógjald­fær þegar þrír af afleiðu­samn­ing­unum voru gerðir á árinu 2008. 

Þannig hefði Glitnir aldrei getað staðið við sinn hluta samn­ing­anna ef á það hefði reynt og það ætti að leiða til ógild­ingar samn­ing­anna. Umræddir þrír samn­ingar og fram­leng­ingar þeirra mynd­uðu að stofni til þann höf­uð­stól sem Glitnir HoldCo krafði Orku­veit­una um í mál­inu.

Þessu var líka hafnað af Lands­rétti.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar