Mynd: EPA

Rúmlega þriggja milljarða króna greiðsla fer að óbreyttu í ríkissjóð

Útgerðarfélag Reykjavíkur var í vikunni dæmt til að greiða Glitni HoldCo tvo milljarða króna auk dráttarvaxta vegna afleiðusamninga sem gerðir voru í aðdraganda hrunsins. Með dráttarvöxtum nemur upphæðin rúmum þremur milljörðum króna. Hún mun renna í ríkissjóð vegna stöðugleikasamnings sem gerður var við þrotabú Glitnis.

Þegar sam­komu­lag náð­ist milli íslenska rík­is­ins og kröfu­hafa Glitnis um greiðslu stöð­ug­leika­fram­lags svo að hægt yrði að ljúka nauða­samn­ingi bank­ans, var ljóst að stærsti hluti alls stöð­ug­leika­fram­lags­ins sem greiddur yrði í rík­is­sjóð úr ranni kröfu­hafa allra föllnu bank­anna myndi koma úr Glitni. Þar mun­aði mestu um allt hlutafé í Íslands­banka, sem ákveðið var á loka­metr­unum að myndi fara til rík­is­ins, en ekki bara afrakst­ur­inn af sölu hans líkt og í til­felli Arion banka. 

Ýmsar aðrar eign­ir, meðal ann­ars ætl­aðar skuldir ákveð­inna ein­stak­linga eða félaga, voru á meðal þeirra sem Glitnir skuld­batt sig að láta rík­inu í té. Á meðal þeirra var allur ávinn­ingur af inn­heimtu afleiðu­samn­inga sem Útgerð­ar­fé­lag Reykja­vík­ur, að mestu í eigu Guð­mundar Krist­jáns­son­ar, hafði gert við Glitni haustið 2008. Alls var um 31 samn­ing að ræða og heild­ar­skuld félags­ins við bank­ann vegna upp­gjörs þeirra var áætluð tveir millj­arðar króna. Útgerð­ar­fé­lagið hefur árum saman neitað að greiða þetta upp­gjör og meðal ann­ars borið fyrir sig að Glitnir hafi haft hag af því að fella íslensku krón­una og þar með gert það að verkum að afleiðu­samn­ing­arnir hefðu endað í tapi.

Glitnir hefur alla tíð hafnað þessu og stefndi Útgerð­ar­fé­lagi Reykja­víkur til að greiða millj­arð­ana tvo. Málið hefur þvælst í dóms­kerf­inu frá árinu 2012 og nið­ur­staða fékkst loks í vik­unni. Fjöl­skip­aður hér­aðs­dómur Reykja­víkur sagði að Útgerð­ar­fé­lag Reykja­víkur þyrfti að borga skuld­ina með drátt­ar­vöxtum frá maí­mán­uði 2016.

Sam­an­lögð upp­hæð sem Útgerð­ar­fé­lagið verður að óbreyttu greiða, að með­töldum drátt­ar­vöxt­um, er um 3,1 millj­arður króna. Ef nið­ur­staða hér­aðs­dóms hefði verið á þann veg að félagið ætti að greiða drátt­ar­vexti frá haustinu 2008, þá hefði upp­hæðin verið á níunda millj­arð króna.

For­svars­menn Útgerð­ar­fé­lags Reykja­víkur hafa ekki tekið ákvörðun um hvort að mál­inu verði áfrýjað eða ekki. 

Lyk­il­menn úr Seðla­bank­anum báru vitni

Deil­urnar hafa staðið yfir meira og minna frá haustinu 2008. Glitnir höfð­aði mál sum­­­arið 2012 og krafð­ist þess að Útgerð­­ar­­fé­lag­ið, sem þá hét enn Brim, myndi greiða millj­­arð­anna tvo auk drátt­­ar­­vaxta. Því var vísað frá árið 2106 en stefnt á ný í kjöl­far­ið. Þess vegna reikn­ast drátt­ar­vextir frá maí­mán­uði 2016. 

Málið hefur tekið á sig marg­s­­konar mynd­­ir. Meðal ann­­ars kærði Útgerð­­ar­­fé­lagið fram­­ferði Ólafs Eirík­s­­son­­ar, lög­­­manns Glitnis HoldCo, í dóms­­mál­inu til Úrskurð­­ar­­nefndar lög­­­manna sem úrskurð­aði í mál­inu þann í lok jan­úar 2018. Þar var hátt­­semi hans, sem í fólst að veita lyk­il­vitni rangar upp­­lýs­ingar um stað­­reyndir og láta hjá líða að til­­kynna Útgerð­­ar­­fé­lag­inu að til stæði að hafa sam­­band við vitn­ið, sögð vera aðfinnslu­verð. 

Þá kærði Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­víkur til lög­­­reglu, þann 17. apríl 2018, það sem í árs­­reikn­ingi fyr­ir­tæk­is­ins er kallað þá „hátt­­semi að rang­­færa sönn­un­­ar­­gögn“ í dóms­­mál­inu. Sú hátt­­semi á að hafa falið í sér „að „klippa“ eða fjar­lægja með öðrum hætti, 7 cm neðan af öllum samn­ingum svo að þeir myndu líta út á annan veg en þeir gerð­u.“

Lykilmenn úr Seðlabanka Íslands voru kallaðir fyrir sem vitni í tengslu við greiðslu stöðugleikaframlagsins.
Mynd: Seðlabanki Íslands.

Það vekur athygli að fyrir dóm voru kall­aðir bæði Haukur C. Bene­dikts­son, starfs­maður Seðla­banka Íslands sem stýrði Eigna­safni Seðla­banka Íslands (ESÍ) um ára­bil, og Steinar Þór Guð­geirs­son, lög­maður Seðla­banka Íslands í tengslum við greiðslu stöð­ug­leika­fram­lags­ins. 

Til­gangur þess að láta þá bera vitni var sá að reyna að sýna fram á að Glitnir HoldCo, eign­ar­halds­fé­lagið um eft­ir­stand­andi eignir Glitnis eftir að nauða­samn­ingur bank­ans var klár­aður í des­em­ber 2015, ætti í raun ekki kröf­una sem verið væri að sækja fyrir dómi, heldur íslenska rík­ið. Hún hafi verið að meðal þeirra stöð­ug­leika­fram­laga sem greidd hefðu verið til að leysa úr deilum rík­is­ins og kröfu­hafa föllnu bank­anna sem leiddi af sér að hægt yrði að slíta þrota­búum Kaup­þings, Lands­bank­ans og Glitnis og greiða út eft­ir­stand­andi eignir þeirra til rétt­mætra eig­enda. Í lok síð­asta árs var stöð­ug­leika­fram­lagið sem greitt var til rík­is­ins metið á 460 millj­arða króna þegar það hefur inn­heimst að fullu. 

Þessi skoðun Útgerð­ar­fé­lags­ins var meðal ann­ars rök­studd með því að kröf­una væri hvergi að finna í árs­reikn­ingi Glitnis HoldCo eftir að stöð­ug­leika­samn­ing­arnir voru gerð­ir. 

Vildu að stöð­ug­leika­samn­ing­ur­inn yrði gerður opin­ber

Útgerð­ar­fé­lag Reykja­víkur óskaði eftir því fyrir dómi að stöð­ug­leika­samn­ing­ur­inn yrði gerður opin­ber og hélt því fram að félagið hefði undir höndum mat frá rík­is­end­ur­skoð­anda sem segði að umræddar kröfur væru í eigu rík­is­sjóðs. Vegna þessa voru Haukur og Steinar kall­aðir fyrir sem vitni. Báðir sögðu þeir að  kröfur vegna þeirra afleiðu­samn­inga sem málið snýst um hefðu ekki verið fram­seldar til Seðla­banka Íslands á grund­velli samn­ings um stöð­ug­leika­fram­lag í tengslum við nauða­samn­ing Glitn­is. Fyrir liggur hins vegar að tæk­ist Glitni HoldCo að inn­heimta kröf­urnar myndi afrakstur þess fara til rík­is­ins. Það er því rík­is­sjóður sem mun fá millj­arð­anna tvo ef Útgerð­ar­fé­lagið lætur nú staðar numið og borg­ar. 

Í til­kynn­ingu sem Run­ólfur Viðar Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri Útgerð­ar­fé­lags Reykja­vík­ur, sendi á fjöl­miðla á þriðju­dags­kvöld, sagði að Haukur hefði óhlýðn­ast dóm­ara máls­ins og neitað að mæta með stöð­ug­leika­samn­ing­inn fyrir dóm.  „Vitn­is­burður fram­kvæmda­stjór­ans hjá Seðla­banka Íslands, stang­ast á við full­yrð­ingar í árs­reikn­ingum Glitnis 2015 til 2019, rík­is­reikn­ingi fyrir 2016 og Rík­is­end­ur­skoð­anda. ÚR unir illa úrskurði hér­aðs­dóms sér­stak­lega í ljósi þess að þrotabú Glitnis og full­trúar hins opin­bera kom­ast undan kröfu um að sanna aðild sína að mál­inu. Það skýtur skökku við þegar gerðar eru auknar kröfur af almenn­ingi og hinu opin­bera til einka­að­ila um gagn­sæi að opin­berir aðilar haldi kyrfi­lega leyndum samn­ingum sem þeir gera við þrotabú í eigu erlendra huldu­sjóða og hindri þannig fram­gang eðli­legrar rétt­vísi hér á land­i,“ sagði í til­kynn­ing­unn­i. 

Þessum mála­til­bún­aði var þó, líkt og áður sagði, hafnað af hér­aðs­dómi Reykja­vík­ur.

Eigið fé Útgerð­ar­fé­lags­ins á þriðja tug millj­arða

Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­víkur hét um ára­bil Brim. Nafni félags­­ins var breytt þegar það keypti ráð­andi hlut í HB Granda á árinu 2018. Nafni HB Granda var svo breytt í Brim á hlut­hafa­fundi í ágúst 2019. Guð­­mundur Krist­jáns­­son, sem er end­an­­legur eig­andi að um 75 pró­­sent alls hluta­fjár í Útgerð­­ar­­fé­lagi Reykja­víkur og tók sjálfur við sem for­­stjóri HB Granda eftir inn­­komu sína þar, hefur ávallt verið kenndur við það nafn og kall­aður Guð­­mundur í Brim­­i. Þar sem fyr­ir­tækið hefur aldrei við­ur­kennt kröfu Glitnis HoldCo þá hefur hún aldrei verið færð í rekstur eða efna­hag þess.

Guðmundur Kristjánsson er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Mynd: Brim.

Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­víkur er risa­stórt fyr­ir­tæki. Rekstr­­ar­­tekjur þess á árinu 2018 voru um 22,4 millj­­arðar króna ef miðað er við gengi evru í lok þess árs. Hagn­aður af starf­­sem­inni var um 1,5 millj­­arður króna á því ári.

Eigið fé fyr­ir­tæk­is­ins var 27,3 millj­­arðar króna í árs­­lok 2018 jókst á milli ára og skuldir þess grynn­k­uðu umtals­vert, eða um 6,5 millj­­arða króna. Á árinu 2019 á Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­víkur að greiða um 7,7 millj­­arða króna af lang­­tíma­skuldum til lána­­stofn­ana. Skuld­­irnar voru þó enn umtals­verðar í árs­lok, alls um 32,4 millj­­arðar króna.

Því blasir við að Útgerð­ar­fé­lagið hefur getu til þess að greiða skuld­ina við Glitni HoldCo, sem mun að óbreyttu renna í rík­is­sjóð sem hluti af stöð­ug­leika­fram­lag­inu

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar