Mynd: Pexels

Djúp efnahagsleg dýfa, skarpt viðbragð en blindflug framundan

Síðasta vika var versta vikan á hlutabréfamörkuðum heims frá hruninu 2008. Mörg hættumerki eru uppi í efnahagskerfum heimsins sem gætu leitt til frekari niðursveiflu, þótt að útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 hafi verið ráðandi í þróuninni til skamms tíma. Ísland hefur sannarlega ekki farið varhluta af áhrifunum.

Árið 2019 var gott á íslenskum hlutabréfamarkaði, þrátt fyrir ýmsar efnahagslegar áskoranir í hagkerfinu. Alls jókst markaðsvirði skráðra félaga um 30 prósent á því ári og Úrvalsvísitalan, sem endurspeglar gengi tíu verðmætustu félaganna sem skráð eru á aðalmarkað, hækkaði um 31,4 prósent. 

Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga var 1.251 milljarðar króna í lok árs 2019.  

Úrvalsvísitalan hækkað um 31,4 prósent á árinu 2019 og stóð í lok þess árs 2.121 stigi. 

Markaðurinn hafði haldið áfram að hækka hóflega á fyrstu vikum ársins 2020 og Úrvalsvísitalan var 2,3 prósentum hærri 19. febrúar síðastliðinn en um áramót. 

Þá breyttist allt. Á einni viku, þeirri síðustu, lækkaði markaðsvirði þeirra félaga sem skráð eru á Aðalmarkað, og eru 20 talsins, um 10,8 prósent eða 135 milljarða króna. Öll félögin 20 lækkuðu í virði. 

Staðan hérlendis var í takti við það sem var að gerast á hlutabréfamörkuðum út um allan heim þar sem versta vika frá því í fjármálahruninu haustið 2008 var að eiga sér stað.  Alls þurrkuðust út um fimm trilljónir Bandaríkjadala af markaðsvirði fyrirtækja á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum á einni viku. 

Ástæðan var einföld: alþjóðleg áhrif útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Mesta lækkun frá 2009

Markaðsvirði langstærsta félagsins á markaði, Marel, lækkaði eðlilega mest eða um 49,3 milljarða króna þrátt fyrir að hlutfallsleg lækkun á bréfum félagsins hafi ekki verið með þeim mestu. Arion banki, næst stærsta skráða félagið, lækkaði um 15,9 milljarða króna í síðustu viku.

Á mánudag var allt áfram rautt á markaðnum og öll félögin lækkuðu á ný. Úrvalsvísitalan fór niður um 2,82 prósent og hafði þá lækkað um 13,5 prósent á rúmri viku. Það er mesta lækkun á slíku tímabili frá árinu 2009, eða í eftirmálum hrunsins.

Stærsta ferðaþjónustufyrirtækið á markaði, Icelandair, var líka í vanda. Það afturkallaði nýlega afkomuspá sína þar sem forsvarsmenn þess töldu einsýnt að ógjörningur væri að spá fyrir um hvernig næstu vikur myndu þróast. Á rúmri viku féll virði Icelandair um 15,4 milljarða króna. Ef þessi þróun myndi halda áfram í dag, þriðjudag, gæti gengi bréfa í Icelandair náð sínum lægsta punkti frá septembermánuði 2011. 

Það gerðist hins vegar ekki.

Hagvaxtarspá helminguð

En spólum aðeins til baka fyrst. Það eru nokkrir samverkandi þættir sem valda því að efnahagslega ógnin af útbreiðslu veirunnar er svona mikil. Sá fyrsti eru afleiðingar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til til að hefta útbreiðslu hans. Enn sem komið er eru stærstu afleiðingar þess í Kína, stærsta framleiðsluríki heims, með þeim afleiðingum að margar flóknar framleiðlsukeðjur sem treysta á vörur frá Kína til að virka, hafa rofnað, að minnsta kosti tímabundið. Sú næsta er að hræðslan við veiruna dregur verulega úr neyslu. Fólk fer síður í verslanir og ferðast vitaskuld mun minna. Ferðalög vegna viðskipta, kaupstefna eða ráðstefna hafa sérstaklega dregist verulega saman. 

Á mánudag birti Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) að hagvöxtur í heiminum gæti orðið einungis 1,5 prósent á þessum ári, sem er mun lægra en sá þriggja prósenta vöxtur sem stofnunin spáði áður en veiran kom upp á yfirborðið. 

Verði sú sviðsmynd að veruleika myndi verða samdráttur í Evrópu og Japan. Hagvöxtur í Bandaríkjunum yrði nálægt núllinu. 

Þetta er hins vegar ekki svartasta sviðsmyndin sem OECD hefur teiknað upp. Ef veiran breiðist út víðar en í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum, og inn á suðurhvel jarðar, gætu mál enn versnað.

OECD sagði í yfirlýsingu sinni að stofnunin telji að útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 sé mesta ógn við fjármálakerfi heimsins frá fjármálakreppunni 2008. 

Sameiginleg viðbrögð stærstu ríkja

Vegna þessa hefur verið gripið til samþættra viðbragða. Þau hófust strax um síðustu helgi þegar gefið var til kynna að helstu olíuframleiðsluríki heims ætluðu að draga úr framleiðslu til að hindra frekari verðlækkun á olíu og svo tíðindum af því að G7-ríkin, ríkustu ríki heims, ætluðu að bregðast við stöðunni sameiginlega. Auk þess tók Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn ákvörðun um að opna á lánalínur til þeirra ríkja sem gætu verið í erfiðleikum með að takast á við stöðuna vegna skorts á lausafé. 

Þessi tíðindi gerðu það að verkum að verð á hlutabréfum hækkaði strax í byrjun viku á alþjóðamörkuðum. Sú upprisa náði til Íslands á þriðjudag þegar Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,3 prósent. Ellefu af félögunum 20 á Aðalmarkaði kauphallarinnar hækkuðu yfir þrjú prósent innan þess dags. Öll félög utan eins hækkuðu í verði. 

Á þriðjudag sendu fjármálaráðherrar G-7 ríkjanna svo frá sér yfirlýsingu, í kjölfar símafundar sem þeir héldu, þar sem þeir sögðust ætla að nota „öll möguleg tól“ til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum útbreiðslu veirunnar. Þótt ekki hafi verið sérstaklega tilgreint hvaða aðgerðir væri um að ræða er ljóst að í þeim felst fyrst og fremst að lækka vexti og auka aðgengi að ódýru fjármagni, líkt og gert var víðast hvar eftir fjármálakreppuna 2008. Seðlabankar myndu þá sjá hagkerfunum fyrir súrefni svo þau gætu eytt sér í gang. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt seðlabankastjóra landsins, Jerome Powell, harðlega fyrir að lækka ekki hratt vexti.
Mynd: EPA

Ástralski seðlabankinn hafði lækkað sína stýrivexti aðfaranótt þriðjudags og í gær ákvað bandaríski seðlabankinn, sem hefur legið undir linnulausri gagnrýni frá Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að lækka ekki vexti, að gera einmitt það. Nánar tiltekið um 0,5 prósentustig. Ákvörðunin vakti athygli, enda næsti fundur bankastjóra seðlabankans ekki áætlaður fyrr en 18. mars. 

Minna svigrúm til að veita súrefni

Svigrúmið sem seðlabankar heimsins hafa til að bregðast við með því að lækka vexti er þó allt annað og miklu minna nú en það var á árunum fyrir bankahrunið. Vextir í Bandaríkjunum höfðu til að mynda verið hækkaðir upp í 5,25 prósent árið 2006 og því var hægt að lækka þá verulega, og hratt. Fyrir lækkunina í gær voru hæstu vextirnir hins vegar 1,75 prósent og svigrúmið því augljóslega lítið.

Á Íslandi er uppi aðeins rýmri staða, en stýrivextir Seðlabanka Ísland eru sem stendur 2,75 prósent. Þeir voru lækkaðir við síðustu vaxtaákvörðun í byrjun febrúar og hafa alls lækkað um 17,5 prósentustig frá því í maí í fyrra. Næsti vaxtaákvörðunardagur hans er 18. mars næstkomandi. 

Það er hins vegar ljóst að mikil óvissa er um hvernig mál munu þróast í nánustu framtíð. Útbreiðsla veirunnar er nefnilega ekki eina breytan sem talin er ógna efnahagskerfum heimsins um þessar mundir. 

Nouriel Roubini, hagfræðiprófessor við viðskiptadeild New York háskóla, sem hefur það uppörvandi viðurnefni „Dr. Doom“ vegna þess að hann spáði fyrir fjármálakreppunni 2008, skrifaði í síðustu vikunni grein í Financial Times. Þar var hann mjög afdráttarlaus í spá sinni um mögulega hættu sem að steðjaði og sagði að fjárfestar hefðu verið í sjálfsblekkingarleik með því að neita að horfast í augu við alvarleika málsins. Hann nefndi þar ýmislegt annað en útbreiðslu veirunnar sem gæti haft þessi áhrif, eins og viðskiptastríð Bandaríkjanna við Kína, forsetakosningarnar þar í landi, loftlagsvandann og auknar tölvuárásir. 

Markaðir í Bandaríkjunum lækkuðu aftur í gær þrátt fyrir stýrivaxtalækkunina um tæplega þrjú prósent. Staðan á Íslandi í dag var skaplegri og í nokkru jafnvægi. 

Framundan er hins vegar blindflug, sem erfitt er að sjá fyrir um hvernig endar.


Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar