Mynd: Pexels

Djúp efnahagsleg dýfa, skarpt viðbragð en blindflug framundan

Síðasta vika var versta vikan á hlutabréfamörkuðum heims frá hruninu 2008. Mörg hættumerki eru uppi í efnahagskerfum heimsins sem gætu leitt til frekari niðursveiflu, þótt að útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 hafi verið ráðandi í þróuninni til skamms tíma. Ísland hefur sannarlega ekki farið varhluta af áhrifunum.

Árið 2019 var gott á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði, þrátt fyrir ýmsar efna­hags­legar áskor­anir í hag­kerf­inu. Alls jókst mark­aðsvirði skráðra félaga um 30 pró­sent á því ári og Úrvals­vísi­talan, sem end­ur­speglar gengi tíu verð­mæt­ustu félag­anna sem skráð eru á aðal­mark­að, hækk­aði um 31,4 pró­sent. 

Heild­ar­mark­aðsvirði skráðra félaga var 1.251 millj­arðar króna í lok árs 2019.  

Úrvals­vísi­talan hækkað um 31,4 pró­sent á árinu 2019 og stóð í lok þess árs 2.121 stig­i. 

Mark­að­ur­inn hafði haldið áfram að hækka hóf­lega á fyrstu vikum árs­ins 2020 og Úrvals­vísi­talan var 2,3 pró­sentum hærri 19. febr­úar síð­ast­lið­inn en um ára­mót. 

Þá breytt­ist allt. Á einni viku, þeirri síðustu, lækk­aði mark­aðsvirði þeirra félaga sem skráð eru á Aðal­mark­að, og eru 20 tals­ins, um 10,8 pró­sent eða 135 millj­arða króna. Öll félögin 20 lækk­uðu í virð­i. 

Staðan hér­lendis var í takti við það sem var að ger­ast á hluta­bréfa­mörk­uðum út um allan heim þar sem versta vika frá því í fjár­mála­hrun­inu haustið 2008 var að eiga sér stað.  Alls þurrk­uð­ust út um fimm trilljónir Banda­ríkja­dala af mark­aðsvirði fyr­ir­tækja á alþjóð­legum hluta­bréfa­mörk­uðum á einni viku. 

Ástæðan var ein­föld: alþjóð­leg áhrif útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­dómn­um.

Mesta lækkun frá 2009

Mark­aðsvirði langstærsta félags­ins á mark­aði, Mar­el, lækk­aði eðli­lega mest eða um 49,3 millj­arða króna þrátt fyrir að hlut­falls­leg lækkun á bréfum félags­ins hafi ekki verið með þeim mestu. Arion banki, næst stærsta skráða félag­ið, lækk­aði um 15,9 millj­arða króna í síð­ustu viku.

Á mánu­dag var allt áfram rautt á mark­aðnum og öll félögin lækk­uðu á ný. Úrvals­vísi­talan fór niður um 2,82 pró­sent og hafði þá lækkað um 13,5 pró­sent á rúmri viku. Það er mesta lækkun á slíku tíma­bili frá árinu 2009, eða í eft­ir­málum hruns­ins.

Stærsta ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækið á mark­aði, Icelanda­ir, var líka í vanda. Það aft­ur­kall­aði nýlega afkomu­spá sína þar sem for­svars­menn þess töldu ein­sýnt að ógjörn­ingur væri að spá fyrir um hvernig næstu vikur myndu þró­ast. Á rúmri viku féll virði Icelandair um 15,4 millj­arða króna. Ef þessi þróun myndi halda áfram í dag, þriðju­dag, gæti gengi bréfa í Icelandair náð sínum lægsta punkti frá sept­em­ber­mán­uði 2011. 

Það gerð­ist hins vegar ekki.

Hag­vaxt­ar­spá helm­inguð

En spólum aðeins til baka fyrst. Það eru nokkrir sam­verk­andi þættir sem valda því að efna­hags­lega ógnin af útbreiðslu veirunnar er svona mik­il. Sá fyrsti eru afleið­ingar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til til að hefta útbreiðslu hans. Enn sem komið er eru stærstu afleið­ingar þess í Kína, stærsta fram­leiðslu­ríki heims, með þeim afleið­ingum að margar flóknar fram­leiðlsu­keðjur sem treysta á vörur frá Kína til að virka, hafa rofn­að, að minnsta kosti tíma­bund­ið. Sú næsta er að hræðslan við veiruna dregur veru­lega úr neyslu. Fólk fer síður í versl­anir og ferð­ast vita­skuld mun minna. Ferða­lög vegna við­skipta, kaup­stefna eða ráð­stefna hafa sér­stak­lega dreg­ist veru­lega sam­an. 

Á mánu­dag birti Efna­hags- og fram­fara­stofn­unin (OECD) að hag­vöxtur í heim­inum gæti orðið ein­ungis 1,5 pró­sent á þessum ári, sem er mun lægra en sá þriggja pró­senta vöxtur sem stofn­unin spáði áður en veiran kom upp á yfir­borð­ið. 

Verði sú sviðs­mynd að veru­leika myndi verða sam­dráttur í Evr­ópu og Jap­an. Hag­vöxtur í Banda­ríkj­unum yrði nálægt núll­in­u. 

Þetta er hins vegar ekki svartasta sviðs­myndin sem OECD hefur teiknað upp. Ef veiran breið­ist út víðar en í Asíu, Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um, og inn á suð­ur­hvel jarð­ar, gætu mál enn versn­að.

OECD sagði í yfir­lýs­ingu sinni að stofn­unin telji að útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 sé mesta ógn við fjár­mála­kerfi heims­ins frá fjár­málakrepp­unni 2008. 

Sam­eig­in­leg við­brögð stærstu ríkja

Vegna þessa hefur verið gripið til sam­þættra við­bragða. Þau hófust strax um síð­ustu helgi þegar gefið var til kynna að helstu olíu­fram­leiðslu­ríki heims ætl­uðu að draga úr fram­leiðslu til að hindra frek­ari verð­lækkun á olíu og svo tíð­indum af því að G7-­rík­in, rík­ustu ríki heims, ætl­uðu að bregð­ast við stöð­unni sam­eig­in­lega. Auk þess tók Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn og Alþjóða­bank­inn ákvörðun um að opna á lána­línur til þeirra ríkja sem gætu verið í erf­ið­leikum með að takast á við stöð­una vegna skorts á lausa­fé. 

Þessi tíð­indi gerðu það að verkum að verð á hluta­bréfum hækk­aði strax í byrjun viku á alþjóða­mörk­uð­um. Sú upp­risa náði til Íslands á þriðju­dag þegar Úrvals­vísi­talan hækk­aði um 3,3 pró­sent. Ell­efu af félög­unum 20 á Aðal­mark­aði kaup­hall­ar­innar hækk­uðu yfir þrjú pró­sent innan þess dags. Öll félög utan eins hækk­uðu í verð­i. 

Á þriðju­dag sendu fjár­mála­ráð­herrar G-7 ríkj­anna svo frá sér yfir­lýs­ingu, í kjöl­far síma­fundar sem þeir héldu, þar sem þeir sögð­ust ætla að nota „öll mögu­leg tól“ til að bregð­ast við efna­hags­legum afleið­ingum útbreiðslu veirunn­ar. Þótt ekki hafi verið sér­stak­lega til­greint hvaða aðgerðir væri um að ræða er ljóst að í þeim felst fyrst og fremst að lækka vexti og auka aðgengi að ódýru fjár­magni, líkt og gert var víð­ast hvar eftir fjár­málakrepp­una 2008. Seðla­bankar myndu þá sjá hag­kerf­unum fyrir súr­efni svo þau gætu eytt sér í gang. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt seðlabankastjóra landsins, Jerome Powell, harðlega fyrir að lækka ekki hratt vexti.
Mynd: EPA

Ástr­alski seðla­bank­inn hafði lækkað sína stýri­vexti aðfara­nótt þriðju­dags og í gær ákvað banda­ríski seðla­bank­inn, sem hefur legið undir linnu­lausri gagn­rýni frá Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta fyrir að lækka ekki vexti, að gera einmitt það. Nánar til­tekið um 0,5 pró­sentu­stig. Ákvörð­unin vakti athygli, enda næsti fundur banka­stjóra seðla­bank­ans ekki áætl­aður fyrr en 18. mar­s. 

Minna svig­rúm til að veita súr­efni

Svig­rúmið sem seðla­bankar heims­ins hafa til að bregð­ast við með því að lækka vexti er þó allt annað og miklu minna nú en það var á árunum fyrir banka­hrun­ið. Vextir í Banda­ríkj­unum höfðu til að mynda verið hækk­aðir upp í 5,25 pró­sent árið 2006 og því var hægt að lækka þá veru­lega, og hratt. Fyrir lækk­un­ina í gær voru hæstu vext­irnir hins vegar 1,75 pró­sent og svig­rúmið því aug­ljós­lega lít­ið.

Á Íslandi er uppi aðeins rýmri staða, en stýri­vextir Seðla­banka Ísland eru sem stendur 2,75 pró­sent. Þeir voru lækk­aðir við síð­ustu vaxta­á­kvörðun í byrjun febr­úar og hafa alls lækkað um 17,5 pró­sentu­stig frá því í maí í fyrra. Næsti vaxta­á­kvörð­un­ar­dagur hans er 18. mars næst­kom­and­i. 

Það er hins vegar ljóst að mikil óvissa er um hvernig mál munu þró­ast í nán­ustu fram­tíð. Útbreiðsla veirunnar er nefni­lega ekki eina breytan sem talin er ógna efna­hags­kerfum heims­ins um þessar mund­ir. 

Nouriel Rou­bini, hag­fræði­pró­fessor við við­skipta­deild New York háskóla, sem hefur það upp­örvandi við­ur­nefni „Dr. Doom“ vegna þess að hann spáði fyrir fjár­málakrepp­unni 2008, skrif­aði í síð­ustu vik­unni grein í Fin­ancial Times. Þar var hann mjög afdrátt­ar­laus í spá sinni um mögu­lega hættu sem að steðj­aði og sagði að fjár­festar hefðu verið í sjálfs­blekk­ing­ar­leik með því að neita að horfast í augu við alvar­leika máls­ins. Hann nefndi þar ýmis­legt annað en útbreiðslu veirunnar sem gæti haft þessi áhrif, eins og við­skipta­stríð Banda­ríkj­anna við Kína, for­seta­kosn­ing­arnar þar í landi, loft­lags­vand­ann og auknar tölvu­árás­ir. 

Mark­aðir í Banda­ríkj­unum lækk­uðu aftur í gær þrátt fyrir stýri­vaxta­lækk­un­ina um tæp­lega þrjú pró­sent. Staðan á Íslandi í dag var skap­legri og í nokkru jafn­væg­i. 

Framundan er hins vegar blind­flug, sem erfitt er að sjá fyrir um hvernig end­ar.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar