EPA

Jólagjöfin í ár byrjar á Ó

Fyrsta frétt á öllum miðlum: Nýtt afbrigði. Mögulega meira smitandi en þau fyrri. Mögulega hættulegra. Orð á borð við „kannski“, „líklega“, „sennilega“ og „hugsanlega“ umlykja veiruafbrigðið Ómíkron sem hefur fleiri stökkbreytingar, sumar áður óséðar, en hið skæða Delta. En það sem einkennir það þó fyrst og fremst er óvissa. Að minnsta kosti ennþá.

Það er rík ástæða fyrir því að hið nýja kór­ónu­veiru­af­brigði Ómíkron veldur mörgum vís­inda­mönnum áhyggj­um. Og það er líka rík ástæða fyrir því að það veldur heila­brot­um. Því þótt í gena­mengi þess megi finna um fimm­tíu stökk­breyt­ingar, þar af í það minnsta 26 sem ekki hafa sést í öðrum afbrigð­um, þýðir það ekki endi­lega að Ómíkron sé verra en þau afbrigði sem hingað til hafa greinst í far­aldr­in­um.

Stundum vinna stökk­breyt­ingar sam­an, ef þannig má að orði kom­ast, og gera veirur skað­legri. En þær geta líka jafnað hverja aðra út – unnið gegn hverri annarri. Veiru­fræðin eru flók­in, m.a. af þessum sök­um, og því eru vís­inda­menn margir hverjir hik­andi við að slá því föstu að Ómíkron, sem fyrst var rað­greint í Suð­ur­-Afr­íku í síð­ustu viku, eigi eftir að ná yfir­hönd­inni, taka við af hinu alræmda Delta sem síð­ustu mán­uði hefur drottnað yfir öðrum afbrigðum kór­ónu­veirunnar í heim­in­um.

Sumar stökk­breyt­ing­arnar sem Ómíkron hefur eru þess eðlis að þær hafa allt það til að bera til að auka smit­hæfni veirunnar og mögu­leika hennar á að kom­ast fram­hjá ónæm­is­vörnum lík­am­ans. En til að kom­ast að hinu sanna þarf að skoða aðrar stökk­breyt­ingar þess ítar­lega og svo sam­spilið þeirra á milli. Að því verk­efni vinna nú vís­inda­menn um heim all­an. Talað hefur verið um að það muni taka 2-3 vikur þar til myndin verður orðin skýr. Á meðan mun kór­ónu­veiran halda áfram að breið­ast út eins og hún hefur gert í að verða tvö ár. Halda áfram að stökkva fim­lega úr einum lík­ama yfir í ann­an, sumum bólu­settum en öðrum ekki, og breyt­ast í hvert skipti. Þannig hefur gengið nokkuð rösk­lega á gríska staf­rófið frá upp­hafi far­ald­urs­ins: Alfa, Beta, Gamma, Delta, Mu, Lambda. Og Ómíkron. Slík nöfn gefur Alþjóða heil­brigð­is­stofn­unin aðeins afbrigðum sem hafa margar stökk­breyt­ingar og eru þar með orðin tölu­vert ólík þeim sem á undan komu.

Ein af stóru spurn­ing­unum sem vís­inda­menn eru að reyna að fá svör við er hversu vel bólu­efnin sem þegar hafa verið þróuð og fram­leidd munu gagn­ast gegn Ómíkron. Til að svara spurn­ing­unni eru vís­inda­menn, m.a. við Smit­sjúk­dóma­stofnun Suð­ur­-Afr­íku, að búa til gervi­veiru sem inni­heldur allar þær stökk­breyt­ingar sem ein­kenna afbrigðið og skoða sam­spil þeirra. Þeir hafa gert þetta áður og not­uðu sömu aðferð er Beta-af­brigðið skaut upp koll­inum í Suð­ur­-Afr­íku í fyrra. Þá komust þeir einmitt að því að það að skoða aðeins eina ein­angr­aða stökk­breyt­ingu var ekki nóg til að kom­ast að hinu sanna.

Ein stökk­breyt­ingin sem Ómíkron hefur er sú hin sama og Alfa-af­brigð­ið, sem fyrst upp­götv­að­ist í Bret­landi, hafði. Þessi stökk­breyt­ing er talin gera það að verkum að veiran á auð­veld­ara með að kom­ast inn í frumur lík­am­ans. En hana er hins vegar ekki að finna í Delta sem reynd­ist svo verða það afbrigði sem skæð­ast hefur verið hingað til. Delta hefur nefni­lega stökk­breyt­ingar sem valda enn meiri sýk­ing­ar­hæfni en Alfa hafði.

Þegar Delta kom fram á sjón­ar­sviðið og fór að breið­ast út um allan heim voru sömu spurn­ingar uppi og nú. Hvernig munu bólu­efnin gagnast? Mun það valda alvar­legri veik­ind­um? Mun það leggj­ast verr á ákveðna ald­urs­hópa en við höfum áður séð?

Bólu­efnin gagn­ast gegn Delta. Virknin er þó ekki jafn­mikil og gegn fyrstu afbrigðum veirunnar sem þau voru þróuð út frá. Fleiri börn hafa sýkst af Delta en afbrigð­unum sem komu á undan þótt alvar­leg veik­indi í þeim ald­urs­hópi séu mjög fátíð.

EPA

Vís­bend­ingar eru svo um að mótefna­svar lík­am­ans eftir bólu­setn­ingu dvíni með tím­an­um. Jafn­vel á nokkrum mán­uð­um. Og því eru örv­un­ar­bólu­setn­ingar hafn­ar, fyrst og fremst á Vest­ur­löndum þar sem bólu­setn­ing­ar­hlut­fall var þegar hæst.

Líkt og Delta varð Ómíkron lík­leg­ast til í sam­fé­lagi þar sem fáir eru bólu­sett­ir. Marg­falt meiri líkur eru á að smit­ast af kór­ónu­veirunni ef fólk er óbólu­sett og sömu­leiðis eru mun meiri líkur á því að veikj­ast alvar­lega. Þetta er kjör­lendi veirunnar – nóg af óvörðum lík­ömum til að sýkja og stökk­breyt­ast í. Fjölga sér út í hið óend­an­lega.

En hvað vitum við í raun og veru um Ómíkron og mögu­legar afleið­ingar þess? Að svo stöddu er það fátt þótt afbrigðið sé vissu­lega ekki óskrifað blað.

Ættum við að fara á taugum vegna fram­komu þess? Nei, segja okkar fremstu vís­inda­menn en á sama tíma er ljóst að því þarf að gefa góðan gaum. Vona það besta en búa sig undir það versta.

EPA

Vís­inda­menn þekkja gena­mengi afbrigð­is­ins. Vita hvar stökk­breyt­ing­arnar á brodd­prótein­inu eru að finna. En þeir vita ekki enn hvaða þýð­ingu þessar breyt­ingar munu í raun hafa á smit­hæfni og veik­indi sem veiran veld­ur. Ákveðnar kenn­ingar hafa verið settar fram, byggðar á fyrri reynslu líkt og að framan er rak­ið. Þær duga þó ekki til að slá neinu föstu um hvernig Ómíkron mun haga sér í sam­fé­lagi manna.

Læknar í Suð­ur­-Afr­íku hafa bent á að þeir sem smit­ast hafa af Ómíkron í land­inu svo vitað sé hafi enn sem komið er ekki veikst alvar­lega. En svo margt er enn á huldu varð­andi bylgj­una sem nú er að rísa í land­inu að slíka full­yrð­ingu er ekki hægt að setja fram án marg­vís­legra fyr­ir­vara. Í fyrsta lagi er aðeins um 0,8 pró­sent allra jákvæðra sýna rað­greind. Það er því langt í frá vitað hversu útbreitt veiru­af­brigðið í raun er. Af 61 far­þega úr einni og sömu flug­vél­inni sem lenti í Amster­dam á sunnu­dag greindust fjórtán sýktir af afbrigð­inu. Úti­lokað þykir að þeir hafi smitað hvern ann­an. Svo ólíkt er „ætt­ar­tré“ hverrar veiru fyrir sig.

Í annan stað þá er ungt fólk að sýkj­ast í meira mæli í Suð­ur­-Afr­íku um þessar mundir en þeir sem eldri eru. Það aftur kann fyrst og fremst að skýr­ast af ólíkri hegðun þess­ara ald­urs­hópa en við vitum að kór­ónu­veiran leggst verr á eldra fólk. Aðeins um fjórð­ungur Suð­ur­-Afr­íku­búa eru bólu­sett­ir.

Að sama skapi er ekki vitað hvort og þá hversu mikil vörn bólu­efn­anna sem notuð eru í heim­inum í dag er gagn­vart afbrigð­inu. Afskap­lega ólík­legt verður þó að telj­ast að það kom­ist alfarið inn fyrir varnir lík­am­ans sem fást með bólu­setn­ingu. Við erum ekki á byrj­un­ar­reit hvað nýjan far­aldur varðar í þeim efn­um.

Þegar Delta fór að breið­ast út um heim­inn var reynt að spýta í lóf­ana í bólu­setn­ing­um. Reyna að fækka lík­ömum sem veiran getur búið þægi­lega um sig í. Það hefur skipt lyk­il­máli í bar­átt­unni. Smit­tölur m.a. á Íslandi eru í hæstu hæðum en alvar­leg veik­indi ekki nálægt því jafn algeng og við sáum í fyrstu bylgj­un­um. Það sama hefur átt sér stað víða.

Far­ald­ur­inn er á fleygi­ferð í Evr­ópu þessar vik­urn­ar. Dag­leg smit hafa aldrei verið fleiri og mörg ríki hafa þurft að grípa til hertra aðgerða til að reyna að hægja á útbreiðsl­unni. Tempra hana eins og stundum er sagt. Það hefur ekk­ert með Ómíkron að gera. Bylgjan hófst áður en það kom til sög­unn­ar. Tak­mark­anir á hegðun fólks höfðu víð­ast verið afnumdar að mestu. Vet­ur­inn kall­aði á meiri sam­veru inn­an­dyra. Þetta tvennt, nánd og inni­vera, eru eft­ir­lætis aðstæður veirunn­ar.

Mörg lönd hafa í örvænt­ingu gripið til þess að loka landa­mærum sínum fyrir komu fólks frá sunn­an­veðri Afr­íku. Slíkt mun hafa slæmar afleið­ingar fyrir efna­hag þess­ara þegar fátæku ríkja og hefur Alþjóða heil­brigð­is­mál­stofn­un­in, Sam­ein­uðu þjóð­irnar og fleiri hvatt til hóf­stillt­ari við­bragða.

EPA

Ferða­bönn hafa hingað til gagn­ast lítið ein og sér. Það er gamla tuggan; skimun, rakn­ing og ein­angrun sem hefur reynst áhrifa­rík­ust. Rað­grein­ingar eru nauð­syn­legar og það hefur nú enn og aftur sýnt sig. Í dag varð ljóst að Ómíkron kom ekki í fyrsta skipti með flugi frá Suð­ur­-Afr­íku á sunnu­dag. Þegar farið var að rýna í nið­ur­stöður sýna upp­götv­að­ist að afbrigðið hafði fund­ist í tveimur öðrum ein­stak­lingum nokkrum dögum fyrr – nokkrum dögum áður en suð­ur­a­frísk yfir­völd til­kynntu WHO um upp­götvun sína. Enn er á huldu hvort að þessir sjúk­lingar höfðu tengsl við sunn­an­verða Afr­íku.

Ómíkron hefur nú verið greint í að minnsta kosti nítján lönd­um. Til­fellin eru flest í Suð­ur­-Afr­íku en þó aðeins 77. Óhætt er að full­yrða að það eigi eftir að grein­ast í fleiri löndum á næstu dögum og vik­um.

Ef upp­götvun Ómíkron er að senda jarð­ar­búum ein­hver skila­boð þá eru það þau að dreifa bólu­efnum jafnt um heim­inn. Mis­skipt­ingin er gríð­ar­leg. Þau ríki sem hafa efni á því að kaupa for­gang að bólu­efnum hjá fram­leið­endum hafa gert það og hafa mörg hver að sama skapi ekki staðið við skuld­bind­ingar sínar um að gefa skammta sem þau hafa tryggt sér. „Um­fram­skammt­ar“ var hug­tak sem breytt­ist nokkuð þegar „örv­un­ar­skammt­ar“ urðu að veru­leika.

Bólu­efna­skortur er enn stærsta hindr­unin sem stendur í vegi fyrir því að bólu­setja fleiri í efna­minni ríkj­um. Skortur á heil­brigð­is­starfs­fólki er önnur hindrun en lægri og hik við að láta bólu­setja sig er ekki talið stór­kost­leg breyta auk þess sem vinna má á slíku með fræðslu og upp­lýs­inga­gjöf.

Ómíkron er ekki jóla­gjöfin sem við vildum fá í fang­ið. Óvissa um áhrif þess ekki held­ur. En á meðan skipt­ing dropanna dýr­mætu verður jafn gríð­ar­lega ójöfn og raun ber vitni verður hætta á nýjum og jafn­vel skað­legri afbrigðum kór­ónu­veirunnar SAR­S-CoV-2, hvort sem þau heita Ómíkron eða eitt­hvað allt ann­að, áfram við­var­andi. Gríska staf­rófið mun mögu­lega ekki duga til.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar