Það virðist vera ansi víðtekin skoðun að í fataframleiðslu stórfyrirtækja í þróunarlöndum felist stórfelld mannréttindabrot og að okkur beri siðferðisleg skylda til að sjá til þess að slíkt viðgangist ekki. Þetta er vissulega rétt, enginn með rænu og vott af siðferðiskennd vill sjá troðið á mannréttindum og það er ekki nokkur vafi á því að margt má, og hreinlega verður, að bæta. Hinn frábæri stjórnandi Last Week Tonight, John Oliver, tók málið fyrir á dögunum og gagnrýndi illa meðferð starfsfólks, lág laun og að fötin væru alltof ódýr.
https://www.youtube.com/watch?v=VdLf4fihP78
Málið er langt í frá svona einfalt
Þetta, viðhorf og aðgerðir sem beint eða óbeint miða að því að draga úr möguleikum fólks til þess að vinna í textíliðnaði í þróunarlöndum, getur verið skaðlegt, þótt það sé vissulega skiljanlegt.
Fyrir skömmu birtist á Kjarnanum fréttaskýring um hvernig fatagjafir til þróunarlanda geta verið skaðlegar, sérstaklega þar sem þær skemma fyrir innlendri fataframleiðslu, sem síðan á dögum iðnbyltingarinnar í Bretlandi hefur verið lykilþáttur í að hjálpa löndum út úr fátækt. Til er fjöldi rannsókna sem rökstyðja vel þetta framlag textíliðnaðar til hagsældar, t.d. hér, hér og hér. Ástæðan er fyrst og fremst sú að slík framleiðsla krefst lítillar tækni og fjármagns, sem skortur er á í þróunarlöndum, en mikils mannafla, sem er enginn skortur er á í þróunarlöndum. Samkvæmt kenningu Ricardo um hlutfallslega yfirburði, sem er ein víðteknasta og lífseigasta kenning hagfræðinnar, ættu lönd í slíkri stöðu að nýta sér það, bæði sjálfum sér og viðskiptalöndum sínum til hagsbóta. Ísland hefur t.d. nýtt sína hlutfallslegu yfirburði í fiskveiðum og orkuvinnslu, sem er grundvöllur þess að lífsskilyrði hér eru með þeim bestu í heiminum.
Textíliðnaður mikilvægur í Bangladesh
Í þróunarlöndum, sérstaklega þar sem Íslamstrú er ráðandi eins og í Bangladesh, hallar töluvert á réttindi og lífsskilyrði kvenna. Tækifæri fyrir konur sem gera þeim kleift að lifa með sæmd eru oft nánast engin. Þrátt fyrir lág laun hefur textíliðnaður haft jákvæð og valdeflandi áhrif á konur í Bangladesh. Tölurnar bera merki um það þar sem tíðni mæðra- og ungbarnadauða hefur fallið um helming á síðastliðnum 20 árum.
Bangladesh er gjarnan nefnt sem dæmi um land þar sem aðstæður verkamanna eru hræðilegar og þegar verksmiðja þar í landi hrundi árið 2013 heyrðust raddir um að sniðganga ætti föt sem eru framleidd í landinu. Textíliðnaður stendur undir bróðurparti útflutnings Bangladesh (83,5 prósent árið 2008) og þar af er 60 prósent vestræn merkjavara. Iðnaðurinn veitir um 4 milljónum manna atvinnu og af þeim eru u.þ.b. 90 prósent konur. Í þróunarlöndum, sérstaklega þar sem Íslamstrú er ráðandi eins og í Bangladesh, hallar töluvert á réttindi og lífsskilyrði kvenna. Tækifæri fyrir konur sem gera þeim kleift að lifa með sæmd eru oft nánast engin. Þrátt fyrir lág laun hefur textíliðnaður haft jákvæð og valdeflandi áhrif á konur í Bangladesh. Tölurnar bera merki um það þar sem tíðni mæðra- og ungbarnadauða hefur fallið um helming á síðastliðnum 20 árum og auk þess hefur frjósemi líka minnkað um nær helming (2,21 árið 2012), en sterk neikvæð fylgni er milli efnhagslegra framfara og frjósemi.
Efnahagslegar framfarir hafa svo sannarlega verið miklar í Bangladesh síðan textíliðnaðurinn tók við sér á 8. og 9. áratugnum; landsframleiðsla á mann hefur nærri því fimmfaldast á 30 árum og hlutfall mannfjöldans undir fátækra mörkum hefur farið úr 72% árið 1989 niður í 43% árið 2009. Vissulega er Bangladesh samkvæmt flestum mælikvörðum ennþá efnahagslega vanþróað land, eitt af þeim fátækustu í Suður-Asíu, og einkennist af mikillri misskiptingu. Þó bendir allt til þess að þjóðin, sérstaklega fátækustu þegnar hennar, væru í verri stöðu ef ekki hefði komið til erlendrar fjárfestingar í textíliðnaði.
Rúmlega 83 prósent af útflutningi Bangladesh er tengt textíliðnaði. Þótt pottur sé víða brotin í aðbúnaði verkamanna þar þá er ljóst að iðnaðurinn er mikilvægasti hlekkurinn í að bæta lífskjör í landinu.
Afríkulönd horfa til textíliðnaðar
Það er ekki tilviljun að þau lönd sem eru allra fátækust í dag, sérstaklega í Afríku sunnan Sahara horfa mikið til uppbyggingar textíliðnaðar sem leið til að brjótast út úr fátækt. Til að nefna dæmi þá birtist vilji til slíkrar uppbyggingar í Tansaníu skýrt í fimm ára þróunaráætlunum landins. Stjórnvöld þar í landi hafa þegar ráðið erlenda ráðgjafa til að vinna að stefnumótun í þeim málum. Enda lifir nær helmingur þjóðarinnar undir fátækramörkum Alþjóðabankans ($1,25 á dag), atvinnuleysi er mikið, sérstaklega á meðal ungs fólks, og fólksfjölgunin er svo hröð að ástandið mun einungis versna að öllu óbreyttu.
Kröfur um bætt kjör geta haft óæskilegar afleiðingar
Oft er því haldið fram að það verði að krefjast þess að laun hækki í textíliðnaði í þróunarlöndum og starfsskilyrði séu bætt. Það á að sjálfsögðu að vera markmiðið til lengri tíma og mun vonandi gerast hægt og bítandi á næstu árum. Slíkar kröfur geta þó verið varasamar af tveimur ástæðum.
Í fyrsta lagi er hætta á að hærri laun verkamanna minnki bilið milli þeirra og sérfræðimenntaðra, sem dregur úr hvötum til menntunar og leiðir til þess að menntað fólk sæki frekar í verksmiðjur. Hvort tveggja er slæmt fyrir hagkerfið. Laun sérfræðimenntaðra í þróunarlöndum eru mjög lág á íslenskan mælikvarða, einfaldlega vegna þess að það er minna til skiptanna, svo það sem hljómar sem lítil hækkun getur haft mjög raskandi áhrif.
Í öðru lagi myndu hærri laun og auknar kröfur um aðbúnað hækka kostnað fyrirtækja, sem gæti dregið úr umsvifum vestrænna fataframleiðanda og hreinlega fælt þá í burtu. Fyrirtækin hafa alltaf þann möguleika að starfa í löndum nær helstu mörkuðum þar sem er betra rekstrarumhverfi og meiri tækniþekking. Í slíkum löndum eru fáir, ef einhverjir, sem lifa undir fátækramörkum Alþjóðabankans og því myndi fjárfesting fyrirtækjanna ekki fara þangað sem þörfin er mest.
Verslum við þróunarlönd
Svo vægt sé til orða tekið eru vankantarnir margir, eins og áður hefur verið nefnt. Það er sjálfsögð krafa að aðstæður verkamanna í þróunarlöndum séu bættar. Eitt stærsta vandamálið sem þessum iðnaði fylgir, og þarfnast verulegrar aðgerða og eftirfylgni, er barnavinna. Í fátækum löndum leiðir örvænting barna og ungmenna oft til þess að alþjóðlegum mannréttindalögum er ekki fylgt eftir og eru oft algerlega hunsuð. Einnig er víða pottur brotinn í umhverfismálum, sem taka þarf tillit til í þessu samhengi.
Það er sjálfsögð krafa að aðstæður verkamanna í þróunarlöndum séu bættar. Eitt stærsta vandamálið sem þessum iðnaði fylgir, og þarfnast verulegrar aðgerða og eftirfylgni, er barnavinna.
En af ofangreindum ástæðum er nauðsynlegt að allt sem miðar að lausnum þessara vandamála sé afar vel ígrundað og hvað sem það kostar, ræni ekki fátækt fólk lífsviðurværi sínu eða fæli fyrirtæki frá því að fjárfesta í löndum sem þurfa hvað mest á fjárfestingu að halda. Vesturlandabúar gera nú þegar nógu mikið með aðgerðum og aðgerðarleysi, meðvitað og ómeðvitað, sem aftrar fátæka meirihluta heimsins frá því að lifa með reisn.