Kúlupennar, skíði, timbur og dekk flutt inn frá Rússlandi eins og fátt hafi í skorist
Innrás Rússa í Úkraínu hefur um margt breytt viðskiptatengslum Íslands og Rússlands og innflutningur þaðan dregist verulega saman. Í margvíslegum vöruflokkum hefur þó lítil breyting orðið á innflutningi frá landinu og í sumum þeirra hefur mánaðarlegur innflutningur jafnvel aukist, ef horft er til verðmætis varningsins.
Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur innflutningur varnings frá Rússlandi dregist verulega saman, samfara því sem Ísland hefur tekið þátt í því að setja á nýjar viðskiptaþvinganir á landið og vestræn fyrirtæki hvött til þess, stundum undir töluverðum þrýstingi neytenda, að draga sig úr viðskiptum við rússneska aðila.
Þó er margvísleg vara enn flutt til Íslands frá Rússlandi og í ýmsum vöruflokkum hefur lítt dregið úr innflutningi og í sumum vöruflokkum hefur innflutningurinn aukist, samkvæmt greiningu Kjarnans á tölum Hagstofunnar um innflutning frá Rússlandi yfir 20 mánaða tímabil frá janúar 2021 til ágúst 2022.
Tollverð þess varnings sem fluttur var inn til Íslands frá Rússlandi í ágústmánuði nam 185,8 milljónum króna, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Það er einungis rúmur þriðjungur af tollvirði þess varnings sem var fluttur var til Íslands frá Rússlandi í hverjum mánuði að meðaltali á síðasta ári, en meðalverðmæti innflutningsins nam 531,2 milljónum króna á mánuði í fyrra.
Frá mars og fram í ágúst á þessu ári, eða frá því að innrás Rússlands í Úkraínu var hafin, hafa vörur verið fluttar til Íslands frá Rússlandi fyrir alls tæpa 2,2 milljarða króna. Hæst var tollverðmætið í mars á þessu tímabili, 862 milljónir króna, en það hrapaði svo niður í 217 milljónir króna í apríl og hefur hæst farið í 333 milljónir króna í júní, samkvæmt þeim tölum Hagstofunnar sem nú þegar eru til reiðu.
Kjarninn lagðist yfir það hvaða vörur helst er verið að flytja til Íslands frá Rússlandi og hvernig þróunin hefur verið í innflutningi þess varnings frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Upphæðirnar sem hér er talað um eru tollverð varningsins, en það er heiti yfir endanlegt verð vöru sem hingað til lands er komin. Er þá átt við verð vörunnar að viðbættum flutningskostnaði, tryggingakostnaði og öllum öðrum kostnaði sem leggst á verð vörunnar erlendis og á leið til landsins.
Innflutningurinn sem hefur jafnvel aukist
Innflutningur á vörum sem falla undir tollflokkinn skíði frá Rússlandi hefur heldur færst í aukana frá fyrra ári. Verðmætið var talið í tugum þúsunda á fyrri hluta síðasta árs, en fór upp í um og yfir tvær milljónir króna flesta mánuði seinni hluta ársins 2021. Tollverð varnings í þessum flokki sem fluttur var inn frá Rússlandi nam svo 7,4 milljónum í apríl og hefur numið hátt í tveimur milljónum króna að meðaltali alla mánuði síðan. Samkvæmt lauslegri athugun blaðamanns er rússneska gönguskíðamerkið Spine selt hjá útivistarverslunum hér á landi.
Undir tollflokknum aðrar vélar og tæki ót.a. byrjaði nokkur innflutningur í sumar, sem var umfram þann innflutning sem var á fyrra ári og framan af þessu ári. Nam verðmæti innflutningsvara undir þessum tollflokki 5,1 milljón í júní, 6,7 milljónum í júlí og 4 milljónum í ágúst.
Íslendingar flytja inn töluvert mikið af timbri frá Rússlandi. Það hefur lítið breyst í þeim efnum þrátt fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Í tollflokknum önnur fura, söguð, höggvin, flöguð, birkt, hefluð, slípuð o.þ.h., > 6 mm þykkur hefur innflutningur aukist frá fyrra ári, raunar fremur mikið, en verð á timbri hefur líka hækkað talsvert. Í stökum mánuði í fyrra fór innflutningsverðmætið mest í rúmar 25 milljónir en á þessu ári hefur tollverð innflutnings eins mánaðar hæst farið í 95 milljónir, í júlímánuði.
Undir tollflokknum aðrir hluti og búnaður til íþrótta eða útileikja ót.a.; sundlaugar og vaðlaugar var svo nær ekkert flutt inn allt síðasta ár, en skyndilega í júlí á þessu ári nam innflutningsverðmæti varning sem féll undir flokkinn 11,5 milljónum króna.
Það sem er lítt breytt frá því fyrir innrás
Fyrstu mánuði ársins 2021 var ekkert flutt inn til Íslands frá Rússlandi af vörum sem falla í tollflokkinn flúrskinsinniljósakrónur og -ljós, í loft eða á veggi. Nokkur innflutningur hófst hins vegar á vörum frá Rússlandi í þessum tollflokki í maí í fyrra og var tollverðið samtals á fjórða tug milljóna króna árið 2021, þar af rúmar 22 milljónir í október. Það sem af er þessu ári hefur verið stöðugur innflutningur á vörum í þessum flokki, alls fyrir á þriðja tug milljóna króna. Mest var flutt inn í júlí og ágúst, eða fyrir um 7 milljónir króna í hvorum mánuði.
Mikill fjöldi penna, í tollflokki sjálfblekunga, stylógrafpenna og annarra penna, er fluttur hingað til lands í hverjum mánuði og nær ekkert lát virðist á þeim innflutningi þrátt fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Íslendingar hafa flutt inn penna að andvirði einnar til fjögurra milljóna króna frá Rússlandi nær alla mánuði sem skoðaðir voru. Nam innflutningsverðmætið 3,6 milljónum króna í júlí.
Innflutningurinn á rússnesku vodka hingað til lands hefur ekki verið mikill, en verðmæti innflutningsins hljóp á nokkrum hundruðum þúsunda í hverjum mánuði í fyrra og hefur haldist nokkuð svipaður frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Innflutningsverðmætið nam 270 þúsund krónum í ágúst.
Töluvert hefur verið flutt inn af nýjum gúmmíhjólbörðum fyrir fólksbíla frá Rússlandi, en tollvirðið nam samanlagt á þriðja hundrað milljóna árið 2021. Á þessu ári nam innflutningurinn numið um 50 milljónum fram í ágúst – en stærstu dekkjasendingarnar á síðast ári komu að haustlagi og í upphafi vetrar.
Íslendingar flytja inn sígarettur frá Rússlandi fyrir nokkrar milljónir í hverjum mánuði. Undir tollflokknum aðrar sígarettur hefur innflutningur haldið fullum dampi það sem af er ári, og fluttar voru inn rússneskar rettur fyrir 1,6 milljónir í ágúst.
Í hverjum einasta mánuði í fyrra voru fluttir inn hlutir í tollflokknum aðrir hlutar og fylgihlutir í yfirbyggingar bíla fyrir nokkrar milljónir króna frá Rússlandi. Það hefur haldið áfram og voru vörur að tollvirði 4,1 milljón króna fluttir inn í ágústmánuði.
Töluverður innflutningur er alla mánuði frá Rússlandi til Íslands undir tollflokknum önnur ljós og luktir sem öryggisbúnaður á ökutæki og hefur hann lítt raskast frá innrás. Íslenskir aðilar fluttu inn ljós og luktir á bíla frá Rússlandi að andvirði 12,6 milljóna í júní og 17,3 milljóna í júlí.
Innflutningur hefur haldist nokkuð stöðugur í tollflokkum fleiri bílaparta. Fluttir voru inn aðrir hemlar og aflhemlar og hlutar í þá fyrir 1-3 milljónir króna nær alla mánuði síðasta árs og það hefur haldið áfram. Innflutningurinn nam 2 milljónum króna í ágúst. Svipaða sögu má segja af tollflokki driföxla með mismunadrifi.
Flesta mánuði eru fluttar ryksugur frá Rússlandi til Íslands, greinilega í nokkru magni ef marka má tollvirðið, sem hleypur alla jafna á milljónum króna. Tollvirði varnings sem féll undir tollflokkinn aðrar ryksugur hefur tekið litlum breytingum frá því í fyrra, í júní nam innflutningurinn 8,9 milljónum króna, í júlí 5,1 milljón og í ágúst 4,6 milljónum.
Nær alla mánuði þessa árs og þess síðasta hafa svo verið flutt inn tæki í tollflokknum vélar og tæki til hitunar eða eldunar á hvers konar drykkjum og matvælum, í veitingarekstri frá Rússlandi. Aldrei þó fyrir hærri upphæð en í ágúst síðastliðnum, er tollverðið nam 6,3 milljónum króna. Buxur karla eða drengja, úr baðmull hafa verið fluttar inn frá Rússlandi alla mánuði sem skoðaðir voru, oftast fyrir rúma milljón á mánuði.
Í hverjum mánuði sem skoðaðir voru hafa verið fluttar inn vörur fyrir nokkrar milljónir til Íslands frá Rússlandi í tollflokknum hlutar í lyftur, skúffubönd eða rennistiga. Á þessu hefur engin breyting orðið frá því að innrásin í Úkraínu hófst og nam tollverð þess varnings sem fluttur var inn í júlí 3,5 milljónum króna og 2,4 milljónum í ágúst.
Alla mánuði á því tímabili sem var skoðað hefur verið einhver innflutningur á vörum sem falla undir tollflokk hluta í mjalta- og mjólkurbúsvélar og hefur hann haldist nokkuð svipaður frá innrás. Í ágústmánuði voru fluttir inn íhlutir í slíkar vélar fyrir rúmar tvær milljónir króna.
Undir tollflokknum aðrar vélar til vinnslu á matvöru og drykkjarvöru, þó ekki til vinnslu á feiti eða olíu úr dýraríkinu hefur verið reglulegur innflutningur á vélum, þó ekki hafi verið innflutningur alla mánuði á því tímabili sem skoðað var. Hann hefur haldið áfram eftir innrás Rússa og nam verðmæti innflutnings í þessum tollflokki 20,2 milljónum króna í ágústmánuði.
Hið sama á við um innflutning á hlutum í þvottavélar en hann hefur verið óreglulegur á tímabilinu, en hlaupið á nokkrum milljónum alls níu mánuði af þeim tuttugu sem voru skoðaðir. Verðmæti innflutningsins nam mest 7,2 milljónum króna í júlí síðastliðnum, sem er hærri upphæð en í nokkrum stökum mánuði í fyrra.
Íslendingar hafa verið að flytja inn nokkuð af vörum undir tollflokknum rafmagnsheyrnartíðnimagnarar fyrir hljóðfæri eða söngkerfi á undanförnum misserum og hefur sá innflutningur lítt raskast frá innrás, þó að reyndar hafi ekkert verið flutt inn undir þessum flokki í ágúst. Tollverð innfluttra magnara frá Rússlandi nam þannig 13 milljónum í apríl og 10 milljónum í júlí.
Íslenskir aðilar fluttu inn mótað járngrýti með reglulegu millibili á síðasta ári, eða um það bil annan hvern mánuð. Þar hefur verið um ansi vænar summur að ræða í hvert sinn eða á bilinu 90-140 milljónir króna að tollvirði. Síðasta sending barst í júní og var tollverð hennar tæpar 250 milljónir króna, sem þýðir að sendingin nam um 75 prósentum af virði alls innflutnings frá Rússlandi til Íslands í þeim mánuði.
Þrýstingsmælar að tollvirði hundruða þúsunda hið minnsta voru fluttir inn í hverjum mánuði í fyrra. Svo er enn. Hið sama á við um vörur í tollflokki eldhúsinnréttinga og eininga í þær úr viði.
Það sem helst virðist hafa dregist saman – eða jafnvel snarhætt
Á síðasta ári og í upphafi þessar var innflutningur á vélum eða tækjum til síunar eða hreinsunar á vökva stundum verulegur hluti af innflutningi frá Rússlandi til Íslands. Í janúar 2021 var tollverð varnings sem í þennan flokk féll 128 milljónir króna og enn meira í janúar 2022, eða 157 milljónir króna – eða jafnvel rúmur helmingur alls tollvirts innflutnings frá Rússlandi. Frá því að innrás Rússa hófst hefur innflutningur vara af þessu tagi þó verið mun minni en á síðasta ári. Í mars nam hann 69 milljónum, en svo 15 milljónum í apríl og tollverðmætið nam einungis 461 þúsund krónum í maí og 141 þúsund krónum í júlí. Í ágúst voru þó fluttar inn vörur af þessu tagi að andvirði 13,7 milljóna.
Allt síðasta ár og þar til í mars á þessu ári voru fluttar inn vörur í tollflokknum önnur spankefli fyrir allt að 71 milljón króna á mánuði, en þó nær alltaf fyrir á bilinu 12-23 milljónir. Í apríl á þessu ári voru flutt inn spankefli fyrir nákvæmlega 0 krónur og hefur það haldist með sama hætti síðan.
Undir tollflokknum aðrir rafmagnsleiðarar fyrir <=1.000 V nam innflutningur frá Rússlandi nokkrum milljónum flesta mánuði síðasta árs. Hann er enn til staðar en verðmæti innflutnings hefur þó frá innrás verið nokkuð undir meðaltali síðasta árs.
Innflutningur annarra ökuhjóla og hluta í þau nam yfir 10 milljónum króna allnokkra mánuði í fyrra og í upphafi þessa árs og hljóp innflutningsverðmætið eiginlega alltaf á nokkrum milljónum, þar til í júní er það lækkaði snöggt niður í nokkra tugi þúsunda og hefur enn lækkað síðan. Allt síðasta ár og til og með í apríl á þessu ári voru fluttar inn hillur og skápar úr viði fyrir nokkrar milljónir á mánuði, en enginn innflutningur hefur verið í þeim tollflokki síðan þá. Í tollflokknum önnur viðarhúsgögn hefur svo ekki verið nein hreyfing síðan í júní, en allt síðasta ár og vel fram á þetta ár nam virði innflutnings nokkrum hundraðþúsundköllum upp í á aðra milljón í mánuði hverjum.
Frumframleitt álblendi var flutt frá Rússlandi til Íslands fyrir nokkur hundruð milljónir flesta mánuði síðasta árs og fyrstu mánuði þessa árs. Eftir að innrásin hófst og fram í ágúst hefur hins vegar einungis verið flutt inn álblendi frá Rússlandi í maí, og þá fyrir tæpar 122 milljónir.
Innflutningur á óblendnu hrájárni sem inniheldur innan við 0,5 prósent fosfór nam nokkrum milljónum króna flesta mánuði síðasta árs og í byrjun þessa. Ekkert hefur verið flutt inn af því síðan í maí.
Lestu meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna