gstudioimagen1 / Freepik

Kúlupennar, skíði, timbur og dekk flutt inn frá Rússlandi eins og fátt hafi í skorist

Innrás Rússa í Úkraínu hefur um margt breytt viðskiptatengslum Íslands og Rússlands og innflutningur þaðan dregist verulega saman. Í margvíslegum vöruflokkum hefur þó lítil breyting orðið á innflutningi frá landinu og í sumum þeirra hefur mánaðarlegur innflutningur jafnvel aukist, ef horft er til verðmætis varningsins.

Frá því að inn­rás Rússa í Úkra­ínu hófst hefur inn­flutn­ingur varn­ings frá Rúss­landi dreg­ist veru­lega sam­an, sam­fara því sem Ísland hefur tekið þátt í því að setja á nýjar við­skipta­þving­anir á landið og vest­ræn fyr­ir­tæki hvött til þess, stundum undir tölu­verðum þrýst­ingi neyt­enda, að draga sig úr við­skiptum við rúss­neska aðila.

Þó er marg­vís­leg vara enn flutt til Íslands frá Rúss­landi og í ýmsum vöru­flokkum hefur lítt dregið úr inn­flutn­ingi og í sumum vöru­flokkum hefur inn­flutn­ing­ur­inn aukist, sam­kvæmt grein­ingu Kjarn­ans á tölum Hag­stof­unnar um inn­flutn­ing frá Rúss­landi yfir 20 mán­aða tíma­bil frá jan­úar 2021 til ágúst 2022.

Toll­verð þess varn­ings sem fluttur var inn til Íslands frá Rúss­landi í ágúst­mán­uði nam 185,8 millj­ónum króna, sam­kvæmt tölum frá Hag­stof­unni. Það er ein­ungis rúmur þriðj­ungur af toll­virði þess varn­ings sem var fluttur var til Íslands frá Rúss­landi í hverjum mán­uði að með­al­tali á síð­asta ári, en með­al­verð­mæti inn­flutn­ings­ins nam 531,2 millj­ónum króna á mán­uði í fyrra.

Frá mars og fram í ágúst á þessu ári, eða frá því að inn­rás Rúss­lands í Úkra­ínu var haf­in, hafa vörur verið fluttar til Íslands frá Rúss­landi fyrir alls tæpa 2,2 millj­arða króna. Hæst var toll­verð­mætið í mars á þessu tíma­bili, 862 millj­ónir króna, en það hrap­aði svo niður í 217 millj­ónir króna í apríl og hefur hæst farið í 333 millj­ónir króna í júní, sam­kvæmt þeim tölum Hag­stof­unnar sem nú þegar eru til reiðu.

Kjarn­inn lagð­ist yfir það hvaða vörur helst er verið að flytja til Íslands frá Rúss­landi og hvernig þró­unin hefur verið í inn­flutn­ingi þess varn­ings frá því að inn­rás Rússa í Úkra­ínu hófst. Upp­hæð­irnar sem hér er talað um eru toll­verð varn­ings­ins, en það er heiti yfir end­an­legt verð vöru sem hingað til lands er kom­in. Er þá átt við verð vör­unnar að við­bættum flutn­ings­kostn­aði, trygg­inga­kostn­aði og öllum öðrum kostn­aði sem leggst á verð vör­unnar erlendis og á leið til lands­ins.

Inn­flutn­ing­ur­inn sem hefur jafn­vel auk­ist

Inn­flutn­ingur á vörum sem falla undir toll­flokk­inn skíði frá Rúss­landi hefur heldur færst í auk­ana frá fyrra ári. Verð­mætið var talið í tugum þús­unda á fyrri hluta síð­asta árs, en fór upp í um og yfir tvær millj­ónir króna flesta mán­uði seinni hluta árs­ins 2021. Toll­verð varn­ings í þessum flokki sem fluttur var inn frá Rúss­landi nam svo 7,4 millj­ónum í apríl og hefur numið hátt í tveimur millj­ónum króna að með­al­tali alla mán­uði síð­an. Sam­kvæmt laus­legri athugun blaða­manns er rúss­neska göngu­skíða­merkið Spine selt hjá úti­vist­ar­versl­unum hér á landi.

Undir toll­flokknum aðrar vélar og tæki ót.a. byrj­aði nokkur inn­flutn­ingur í sum­ar, sem var umfram þann inn­flutn­ing sem var á fyrra ári og framan af þessu ári. Nam verð­mæti inn­flutn­ings­vara undir þessum toll­flokki 5,1 milljón í júní, 6,7 millj­ónum í júlí og 4 millj­ónum í ágúst.

Íslend­ingar flytja inn tölu­vert mikið af timbri frá Rúss­landi. Það hefur lítið breyst í þeim efnum þrátt fyrir inn­rás Rússa í Úkra­ínu. Í toll­flokknum önnur fura, sög­uð, höggv­in, flög­uð, birkt, hefl­uð, slípuð o.þ.h., > 6 mm þykkur hefur inn­flutn­ingur auk­ist frá fyrra ári, raunar fremur mik­ið, en verð á timbri hefur líka hækkað tals­vert. Í stökum mán­uði í fyrra fór inn­flutn­ings­verð­mætið mest í rúmar 25 millj­ónir en á þessu ári hefur toll­verð inn­flutn­ings eins mán­aðar hæst farið í 95 millj­ón­ir, í júlí­mán­uði.

Undir toll­flokknum aðrir hluti og bún­aður til íþrótta eða úti­leikja ót.a.; sund­laugar og vað­laugar var svo nær ekk­ert flutt inn allt síð­asta ár, en skyndi­lega í júlí á þessu ári nam inn­flutn­ings­verð­mæti varn­ing sem féll undir flokk­inn 11,5 millj­ónum króna.

Það sem er lítt breytt frá því fyrir inn­rás

Fyrstu mán­uði árs­ins 2021 var ekk­ert flutt inn til Íslands frá Rúss­landi af vörum sem falla í toll­flokk­inn flúr­skinsinni­ljósakrónur og -ljós, í loft eða á veggi. Nokkur inn­flutn­ingur hófst hins vegar á vörum frá Rúss­landi í þessum toll­flokki í maí í fyrra og var toll­verðið sam­tals á fjórða tug millj­óna króna árið 2021, þar af rúmar 22 millj­ónir í októ­ber. Það sem af er þessu ári hefur verið stöð­ugur inn­flutn­ingur á vörum í þessum flokki, alls fyrir á þriðja tug millj­óna króna. Mest var flutt inn í júlí og ágúst, eða fyrir um 7 millj­ónir króna í hvorum mán­uði.

Mik­ill fjöldi penna, í toll­flokki sjálf­blek­unga, stylógraf­penna og ann­arra penna, er fluttur hingað til lands í hverjum mán­uði og nær ekk­ert lát virð­ist á þeim inn­flutn­ingi þrátt fyrir inn­rás Rússa í Úkra­ínu. Íslend­ingar hafa flutt inn penna að and­virði einnar til fjög­urra millj­óna króna frá Rúss­landi nær alla mán­uði sem skoð­aðir voru. Nam inn­flutn­ings­verð­mætið 3,6 millj­ónum króna í júlí.

Inn­flutn­ing­ur­inn á rúss­nesku vodka hingað til lands hefur ekki verið mik­ill, en verð­mæti inn­flutn­ings­ins hljóp á nokkrum hund­ruðum þús­unda í hverjum mán­uði í fyrra og hefur hald­ist nokkuð svip­aður frá því að inn­rás Rússa í Úkra­ínu hófst. Inn­flutn­ings­verð­mætið nam 270 þús­und krónum í ágúst.

Tölu­vert hefur verið flutt inn af nýjum gúmmí­hjól­börðum fyrir fólks­bíla frá Rúss­landi, en toll­virðið nam sam­an­lagt á þriðja hund­rað millj­óna árið 2021. Á þessu ári nam inn­flutn­ing­ur­inn numið um 50 millj­ónum fram í ágúst – en stærstu dekkja­send­ing­arnar á síð­ast ári komu að haust­lagi og í upp­hafi vetr­ar.

Íslend­ingar flytja inn sígar­ettur frá Rúss­landi fyrir nokkrar millj­ónir í hverjum mán­uði. Undir toll­flokknum aðrar sígar­ettur hefur inn­flutn­ingur haldið fullum dampi það sem af er ári, og fluttar voru inn rúss­neskar rettur fyrir 1,6 millj­ónir í ágúst.

Í hverjum ein­asta mán­uði í fyrra voru fluttir inn hlutir í toll­flokknum aðrir hlutar og fylgi­hlutir í yfir­bygg­ingar bíla fyrir nokkrar millj­ónir króna frá Rúss­landi. Það hefur haldið áfram og voru vörur að toll­virði 4,1 milljón króna fluttir inn í ágúst­mán­uði.

Tölu­verður inn­flutn­ingur er alla mán­uði frá Rúss­landi til Íslands undir toll­flokknum önnur ljós og luktir sem örygg­is­bún­aður á öku­tæki og hefur hann lítt raskast frá inn­rás. Íslenskir aðilar fluttu inn ljós og luktir á bíla frá Rúss­landi að and­virði 12,6 millj­óna í júní og 17,3 millj­óna í júlí.

Inn­flutn­ingur hefur hald­ist nokkuð stöð­ugur í toll­flokkum fleiri bíla­parta. Fluttir voru inn aðrir hemlar og afl­hemlar og hlutar í þá fyrir 1-3 millj­ónir króna nær alla mán­uði síð­asta árs og það hefur haldið áfram. Inn­flutn­ing­ur­inn nam 2 millj­ónum króna í ágúst. Svip­aða sögu má segja af toll­flokki dri­f­öxla með mis­muna­drifi.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru fluttir íhlutir í þvottavélar frá Rússlandi hingað til lands að tollvirði 7,2 milljóna króna í júlí síðastliðnum.
Pexels

Flesta mán­uði eru fluttar ryksugur frá Rúss­landi til Íslands, greini­lega í nokkru magni ef marka má toll­virð­ið, sem hleypur alla jafna á millj­ónum króna. Toll­virði varn­ings sem féll undir toll­flokk­inn aðrar ryksugur hefur tekið litlum breyt­ingum frá því í fyrra, í júní nam inn­flutn­ing­ur­inn 8,9 millj­ónum króna, í júlí 5,1 milljón og í ágúst 4,6 millj­ón­um.

Nær alla mán­uði þessa árs og þess síð­asta hafa svo verið flutt inn tæki í toll­flokknum vélar og tæki til hit­unar eða eld­unar á hvers konar drykkjum og mat­væl­um, í veit­inga­rekstri frá Rúss­landi. Aldrei þó fyrir hærri upp­hæð en í ágúst síð­ast­liðn­um, er toll­verðið nam 6,3 millj­ónum króna. Buxur karla eða drengja, úr baðm­ull hafa verið fluttar inn frá Rúss­landi alla mán­uði sem skoð­aðir voru, oft­ast fyrir rúma milljón á mán­uði.

Í hverjum mán­uði sem skoð­aðir voru hafa verið fluttar inn vörur fyrir nokkrar millj­ónir til Íslands frá Rúss­landi í toll­flokknum hlutar í lyft­ur, skúffu­bönd eða renni­stiga. Á þessu hefur engin breyt­ing orðið frá því að inn­rásin í Úkra­ínu hófst og nam toll­verð þess varn­ings sem fluttur var inn í júlí 3,5 millj­ónum króna og 2,4 millj­ónum í ágúst.

Alla mán­uði á því tíma­bili sem var skoðað hefur verið ein­hver inn­flutn­ingur á vörum sem falla undir toll­flokk hluta í mjalta- og mjólk­ur­búsvélar og hefur hann hald­ist nokkuð svip­aður frá inn­rás. Í ágúst­mán­uði voru fluttir inn íhlutir í slíkar vélar fyrir rúmar tvær millj­ónir króna.

Undir toll­flokknum aðrar vélar til vinnslu á mat­vöru og drykkj­ar­vöru, þó ekki til vinnslu á feiti eða olíu úr dýra­rík­inu hefur verið reglu­legur inn­flutn­ingur á vél­um, þó ekki hafi verið inn­flutn­ingur alla mán­uði á því tíma­bili sem skoðað var. Hann hefur haldið áfram eftir inn­rás Rússa og nam verð­mæti inn­flutn­ings í þessum toll­flokki 20,2 millj­ónum króna í ágúst­mán­uði.

Hið sama á við um inn­flutn­ing á hlutum í þvotta­vélar en hann hefur verið óreglu­legur á tíma­bil­inu, en hlaupið á nokkrum millj­ónum alls níu mán­uði af þeim tutt­ugu sem voru skoð­að­ir. Verð­mæti inn­flutn­ings­ins nam mest 7,2 millj­ónum króna í júlí síð­ast­liðn­um, sem er hærri upp­hæð en í nokkrum stökum mán­uði í fyrra.

Íslend­ingar hafa verið að flytja inn nokkuð af vörum undir toll­flokknum raf­magns­heyrn­ar­tíðni­magn­arar fyrir hljóð­færi eða söng­kerfi á und­an­förnum miss­erum og hefur sá inn­flutn­ingur lítt raskast frá inn­rás, þó að reyndar hafi ekk­ert verið flutt inn undir þessum flokki í ágúst. Toll­verð inn­fluttra magn­ara frá Rúss­landi nam þannig 13 millj­ónum í apríl og 10 millj­ónum í júlí.

Íslenskir aðilar fluttu inn mótað járn­grýti með reglu­legu milli­bili á síð­asta ári, eða um það bil annan hvern mán­uð. Þar hefur verið um ansi vænar summur að ræða í hvert sinn eða á bil­inu 90-140 millj­ónir króna að toll­virði. Síð­asta send­ing barst í júní og var toll­verð hennar tæpar 250 millj­ónir króna, sem þýðir að send­ingin nam um 75 pró­sentum af virði alls inn­flutn­ings frá Rúss­landi til Íslands í þeim mán­uði.

Þrýst­ings­mælar að toll­virði hund­ruða þús­unda hið minnsta voru fluttir inn í hverjum mán­uði í fyrra. Svo er enn. Hið sama á við um vörur í toll­flokki eld­húsinn­rétt­inga og ein­inga í þær úr viði.

Það sem helst virð­ist hafa dreg­ist saman – eða jafn­vel snar­hætt

Á síð­asta ári og í upp­hafi þessar var inn­flutn­ingur á vélum eða tækjum til síunar eða hreins­unar á vökva stundum veru­legur hluti af inn­flutn­ingi frá Rúss­landi til Íslands. Í jan­úar 2021 var toll­verð varn­ings sem í þennan flokk féll 128 millj­ónir króna og enn meira í jan­úar 2022, eða 157 millj­ónir króna – eða jafn­vel rúmur helm­ingur alls toll­virts inn­flutn­ings frá Rúss­landi. Frá því að inn­rás Rússa hófst hefur inn­flutn­ingur vara af þessu tagi þó verið mun minni en á síð­asta ári. Í mars nam hann 69 millj­ón­um, en svo 15 millj­ónum í apríl og toll­verð­mætið nam ein­ungis 461 þús­und krónum í maí og 141 þús­und krónum í júlí. Í ágúst voru þó fluttar inn vörur af þessu tagi að and­virði 13,7 millj­óna.

Allt síð­asta ár og þar til í mars á þessu ári voru fluttar inn vörur í toll­flokknum önnur spankefli fyrir allt að 71 milljón króna á mán­uði, en þó nær alltaf fyrir á bil­inu 12-23 millj­ón­ir. Í apríl á þessu ári voru flutt inn spankefli fyrir nákvæm­lega 0 krónur og hefur það hald­ist með sama hætti síð­an.

Undir toll­flokknum aðrir raf­magns­leið­arar fyrir <=1.000 V nam inn­flutn­ingur frá Rúss­landi nokkrum millj­ónum flesta mán­uði síð­asta árs. Hann er enn til staðar en verð­mæti inn­flutn­ings hefur þó frá inn­rás verið nokkuð undir með­al­tali síð­asta árs.

Inn­flutn­ingur ann­arra öku­hjóla og hluta í þau nam yfir 10 millj­ónum króna all­nokkra mán­uði í fyrra og í upp­hafi þessa árs og hljóp inn­flutn­ings­verð­mætið eig­in­lega alltaf á nokkrum millj­ón­um, þar til í júní er það lækk­aði snöggt niður í nokkra tugi þús­unda og hefur enn lækkað síð­an. Allt síð­asta ár og til og með í apríl á þessu ári voru fluttar inn hillur og skápar úr viði fyrir nokkrar millj­ónir á mán­uði, en eng­inn inn­flutn­ingur hefur verið í þeim toll­flokki síðan þá. Í toll­flokknum önnur við­ar­hús­gögn hefur svo ekki verið nein hreyf­ing síðan í júní, en allt síð­asta ár og vel fram á þetta ár nam virði inn­flutn­ings nokkrum hund­rað­þús­und­köllum upp í á aðra milljón í mán­uði hverj­um.

Frum­fram­leitt álblendi var flutt frá Rúss­landi til Íslands fyrir nokkur hund­ruð millj­ónir flesta mán­uði síð­asta árs og fyrstu mán­uði þessa árs. Eftir að inn­rásin hófst og fram í ágúst hefur hins vegar ein­ungis verið flutt inn álblendi frá Rúss­landi í maí, og þá fyrir tæpar 122 millj­ón­ir.

Inn­flutn­ingur á óblendnu hrá­járni sem inni­heldur innan við 0,5 pró­sent fos­fór nam nokkrum millj­ónum króna flesta mán­uði síð­asta árs og í byrjun þessa. Ekk­ert hefur verið flutt inn af því síðan í maí.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar