Lýðræðisveislan var ekki ókeypis
Kostnaður frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins fyrr á árinu var á sjöunda tug milljóna. Mestu fé var varið í prófkjörin á höfuðborgarsvæðinu, en yfir 20 þúsund manns tóku þátt í því að stilla upp D-listum á landsvísu.
Samanlagður kostnaður þeirra frambjóðenda sem spreyttu sig í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins um landið allt fyrir alþingiskosningarnar nam alls að minnsta kosti 58 milljónum króna, samkvæmt því sem lesa má út úr uppgjörum frambjóðenda á vef Ríkisendurskoðunar og svörum frambjóðenda til Kjarnans.
Þá er einungis horft til þeirra frambjóðenda sem vörðu yfir 500 þúsund krónum í sína framboðsbaráttu, en gera má ráð fyrir að þeir frambjóðendur sem skiluðu inn yfirlýsingu um að þeir hafi varið minna en 500 þúsund krónum til framboðsins hafi varið einhverjum tugum eða hundruðum þúsunda í að koma sér á framfæri.
Líklega var því heildarkostnaður frambjóðenda vegna prófkjörsbaráttu flokksins á landsvísu eitthvað inn á sjöunda tug milljóna – en nær allt féð sem frambjóðendur höfðu úr að moða fékkst með framlögum einstaklinga og fyrirtækja sem standa frambjóðendunum nærri.
Sjálfstæðisflokkurinn hélt prófkjör í öllum kjördæmum og alls tóku 20.771 kjósendur þátt í að velja fólkið sem síðan skipaði listana sem boðnir voru fram 25. september.
Það má því nærri láta að fyrir hvert einasta atkvæði sem greitt var í prófkjörum flokksins hafi frambjóðendur kostað til um 3.000 krónum, ef útgjöld frambjóðenda til baráttunnar eru talin saman.
Guðlaugur Þór og Áslaug Arna í sérflokki
Prófkjör flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum var að venju helsti vettvangur baráttunnar og sá þar sem frambjóðendur vörðu mestu til. Þar voru þátttakendur í prófkjörinu flestir og barátta á milli ólíkra arma innan flokksins hvergi sýnilegri. Í ár greiddu 7.493 manns atkvæði í prófkjörinu í Reykjavík, en þátttakendur voru einungis 3.430 talsins árið 2016, er síðast var haldið prófkjör í borginni.
Áberandi barátta Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er sennilega á meðal ástæðna fyrir stóraukinni þátttöku frá síðasta prófkjöri. Þau ætluðu sér bæði fyrsta sætið í prófkjörinu og þegar atkvæði höfðu verið talin hafði Guðlaugur Þór unnið góðan sigur.
Þeir sem studdu Áslaugu Örnu og reyndu að koma í veg fyrir sigur Guðlaugs hins vegar, „þeir töpuðu“, eins og utanríkisráðherrann sagði sjálfur eftirminnilega, hálf raddlaus, er hann fagnaði sigri í prófkjörinu með stuðningsmönnum sínum.
Mest púður fór í prófkjörsbaráttu þeirra tveggja, en Guðlaugur Þór setti 11,1 milljón í slaginn (þar af yfir 4 milljónir úr eigin vasa) og Áslaug Arna 8,7 milljónir. Aðrir frambjóðendur í Reykjavíkurprófkjörinu stóðu þeim allnokkuð að baki.
Diljá Mist Einarsdóttir og Hildur Sverrisdóttir, sem höfnuðu í þriðja og fjórða sæti í prófkjöri flokksins og voru kjörnar örugglega inn á þing í kosningunum þann 25. september, vörðu 4,5 og 3,3 milljónum króna í sína slagi.
Fleiri sóttust eftir sætunum sem þær stöllur hrepptu og vörðu til þess allnokkru fé, án þess að uppskera eins og stefnt var að.
Friðjón R. Friðjónsson, sem hafnaði í 8. sæti í prófkjörinu, varði um 4,2 milljónum króna í sína baráttu og Kjartan Magnússon, sem hafnaði í sjöunda sæti í setti 2,3 milljónir í slaginn. Í fimmta og sjötta sæti í prófkjörinu höfnuðu svo þeir Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson, en hvorugur þeirra varði yfir 500 þúsund krónum í prófkjörsbaráttuna. Það gerði Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra heldur ekki, en hún hlaut ekki brautargengi í prófkjörinu – náði ekki inn
Brynjar, sem upphaflega lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að taka sæti á lista sökum niðurstöðu sinnar í prófkjörinu, gerði það þó á endum en féll út af þingi á meðan að Birgir Ármannsson hélst inni, sem þriðji þingmaður flokksins í Reykjavík suður.
Vilhjálmur segist hafa varið um fimm milljónum í slag við Guðrúnu
Annar áberandi kosningaslagur var í prófkjörinu í Suðurkjördæmi, en þar kom inn nýliðinn Guðrún Hafsteinsdóttir og sóttist eftir fyrsta sætinu á lista, sem Páll Magnússon skipaði í kosningunum 2017. Það gerði Vilhjálmur Árnason þingmaður einnig.
Vilhjálmur hefur ekki enn skilað inn yfirliti til Ríkisendurskoðunar um uppgjör prófkjörs síns, en hann segir Kjarnanum að hann telji sig hafa varið um 5 milljónum króna í prófkjörið. Guðrún sjálf setti rúmar 2 milljónir króna í prófkjörsbaráttuna og hafði betur á endanum á meðan Vilhjálmur var að gera sér annað sætið að góðu.
Sá sem hafnaði í þriðja sæti í prófkjörinu í Suðurkjördæmi, Ásmundur Friðriksson, varði 3,2 milljónum í baráttu sinni, en aðrir frambjóðendur í kjördæminu vörðu ýmist minna eða hafa ekki skilað inn uppgjöri til Ríkisendurskoðunar.
Vert er að taka fram að fjórði og nýjasti þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi, Birgir Þórarinssonar, tók ekki þátt í neinu prófkjöri, enda var honum stillt upp í efsta sæti á lista Miðflokksins í kjördæminu. Svo færði hann sig yfir í annað þingflokksherbergi einungis tveimur vikum eftir kosningar.
Arnar Þór og Jón Gunnarsson kostuðu mestu til í Kraganum
Í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi formannsins Bjarna Benediktssonar, var barátta um 2.-4. sætið á lista flokksins, sem mátti gefa sér að yrðu svo gott sem örugg þingsæti. Arnar Þór Jónsson héraðsdómari varði mestu til í þessari baráttu, eða 4,7 milljónum króna. Hann náði ekki þeim árangri sem hann ætlaði sér í prófkjörinu og varð að láta sér fimmta sætið á listanum lynda, sem síðan fleytti honum ekki inn á þing.
Jón Gunnarsson varði næstmestu í sína baráttu, 4,5 milljónum króna og náði öðru sæti í prófkjörinu eins og hann stefndi að. Bryndís Haraldsdóttir hafnaði í þriðja sæti, en hún varði 1,9 milljónum króna í sína baráttu – eða nokkru meira en Óli Björn Kárason sem setti rúmar 1,3 milljónir króna í slaginn.
Formaðurinn Bjarni og aðrir frambjóðendur í kjördæminu hafa skilað inn yfirlýsingum til Ríkisendurskoðunar um að barátta þeirra hafi kostað minna en 500 þúsund krónur.
Minnstur tilkostnaður í Norðvestur og Norðaustur
Þrátt fyrir að bitist hafi verið um oddvitasætin í bæði Norðvestur- og Norðausturkjördæmum í prófkjörunum sem þar fóru fram snemma í sumar voru fjárútlát frambjóðanda þar mun töluvert minni en í kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu og í Suðurkjördæmi.
Teitur Björn Einarsson, sem hafnaði í þriðja sæti í prófkjörinu í NV-kjördæmi varði mestu til, eða rúmlega 1,7 milljónum króna á meðan að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sem hreppti oddvitasætið, þrátt fyrir að Haraldur Benediktsson hafi ekki ætlað sér að láta það af hendi, varði rúmum 1,4 milljónum króna í sína baráttu. Sjálfur kostaði Haraldur til 670 þúsund krónum, í sinni prófkjörsbaráttu.
Í Norðausturkjördæmi varði enginn frambjóðandi yfir 500 þúsund krónum í sína baráttu, samkvæmt því sem fram kemur á vef Ríkissendurskoðunar en reyndar hefur ekkert yfirlit borist þangað frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, sem hafnaði í öðru sæti í prófkjörinu.
Þeir Njáll Trausti Friðbertsson og Gauti Jóhannesson sem sóttust eftir oddvitasætinu hafa báðir skilað inn yfirlýsingum um að kostnaður vegna framboða þeirra hafi verið undir hálfri milljón.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans