Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Bjarni Benediktsson lifir af enn ein pólitísku endalokin

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki náð inn í ríkisstjórn eftir nýafstaðnar kosningar töldu margir að tími Bjarna Benediktssonar á formannsstóli væri liðinn. En nú er hann, eftir tólf og hálft ár á formannsstóli, að mynda fjórðu ríkisstjórn sína. „Teflon-maðurinn“ hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir, séð fylgi flokksins skreppa saman, komið sjálfum sér í vandræði, staðist atlögur samherja og andstæðinga, en alltaf lent á fótunum.

Fylgi Sjálf­stæð­is­flokks­ins í könnun Gallup sem birt­ist sex dögum fyrir nýliðnar kosn­ingar mæld­ist 21,2 pró­sent. Fylgi flokks­ins hefur ein­ungis einu sinni mælst lægra í könn­unum fyr­ir­tæk­is­ins, í könnun sem birt var 30. nóv­em­ber 2008, nokkrum vikum eftir banka­hrun­ið, þegar það mæld­ist 20,6 pró­sent. Nokkrum mán­uðum síðar hlaut Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sína verstu útreið í kosn­ingum í sögu hans, og end­aði í stjórn­ar­and­stöðu í fyrsta sinn í 18 ár. 

Hann komst aftur til valda 2013 og hefur síðan þá, einn flokka, verið sam­fellt í rík­is­stjórn. Kann­anir í aðdrag­anda kosn­ing­ana sem fóru fram um síð­ustu helgi bentu um margt til þess að það gæti breyst. Ef sú staða sem birt­ist í Gallup-könn­un­inni tæpri viku fyrir kosn­ingar hefði raun­ger­st, og flokk­ur­inn endað í stjórn­ar­and­stöðu, hefði það senni­lega leitt til enda­loka for­manns­fer­ils Bjarna Bene­dikts­son­ar. 

En líkt og svo oft áður breytti Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn stöð­unni á síð­ustu metr­un­um. Fylgið end­aði í 24,4 pró­sent og flokk­ur­inn tap­aði fyrsta þing­manni í tveimur kjör­dæm­um, en hélt sama þing­manna­fjölda og rík­is­stjórnin sem hann á aðild að bætti við sig þing­styrk. 

Auglýsing

Á nokkrum dögum breytt­ist staðan úr því að geta leitt af sér póli­tísk enda­lok fyrir for­mann­inn, í að nær öruggt þykir að Bjarni sé að fara að mynda sína fjórðu rík­is­stjórn. 

Tók við for­mennsku á erf­iðum tíma

For­manns­fer­ill Bjarna hefur ekki alltaf verið dans á rós­um. Hann tók við Sjálf­stæð­is­flokknum 39 ára gam­all í mars 2009, nokkrum mán­uðum eftir áður­nefnda Gallup-könnun sem sýndi flokk­inn í sögu­legum vand­ræð­um. Bjarni sigr­aði þá hinn eldri og reynd­ari Krist­ján Þór Júl­í­us­son í for­manns­slag á lands­fundi. Bjarni fékk 58 pró­sent atkvæða en Krist­ján Þór 40,4 pró­sent.

Hans fyrsta stóra verk­efni var að leiða flokk­inn í gegnum kosn­ingar um mán­uði síð­ar. Nið­ur­staða þeirra varð, líkt og áður sagði, sú versta í sögu Sjálf­stæð­is­flokks­ins, 23,7 pró­sent atkvæða.

Þar skipti tvennt mestu máli. Í fyrsta lagi að Sjálf­stæð­is­flokknum var kennt um að hafa skapað það umhverfi sem leiddi til banka­hruns­ins með veik­ingu eft­ir­lits, fleyt­ingu krón­unnar og einka­væð­ingu banka­kerf­is­ins. For­tíð Bjarna í við­skipta­líf­inu – þar sem hann var stór­tækur til loka árs 2008 – hjálp­aði ekki til. 

Í öðru lagi var greint frá því í fjöl­miðl­um, skömmu eftir að Bjarni tók við sem for­mað­ur, að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefði tekið við styrkjum upp á 50 millj­ónir króna frá útrás­ar­fjár­fest­inga­fé­lag­inu FL Group, þá aðal­eig­enda Glitn­is, og Lands­banka Íslands, seint á árinu 2006. Þeir styrkir hafa enn ekki verið end­ur­greiddir í dag, 15 árum eftir að þeir voru veitt­ir, þrátt fyrir vil­yrði um að það yrði gert.

Bjarni Benediktsson og fulltrúar forystu annarra flokka bíða kosningaúrslita 2009. Síðar átti Bjarni eftir að mynda ríkisstjórn með tveimur hinna sem biðu þarna með honum.
Mynd: EPA

Líkt og við var búist skil­aði nið­ur­staðan í kosn­ing­unum 2009 flokknum í stjórn­ar­and­stöðu gegn fyrstu hreinu, tveggja flokka vinstri­st­jórn lýð­veld­is­sög­unn­ar. Þetta var í fyrsta sinn síðan 1991 sem flokk­ur­inn var í þeirri stöðu að stýra ekki land­in­u. 

Atlaga að innan

Í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2013 hélt Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn lands­fund og þar fékk Bjarni óskorað umboð, þegar hann var end­ur­kjör­inn sem for­maður með 80 pró­sent atkvæða. Hall­dór Gunn­ars­son í Holti, sem boðið hafði sig fram gegn Bjarna fékk ein­ungis tvö pró­sent atkvæða en Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri, sem var ekki í for­manns­fram­boði, fékk samt sem áður 19 pró­sent atkvæða.

Auglýsing

Það óskor­aða umboð ent­ist ekki lengi. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mæld­ist dap­ur­lega í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2013 og margir flokks­menn voru farnir að sjá fyrir sér fjögur ár til við­bótar utan rík­is­stjórnar sem raun­veru­legan mögu­leika. Á þessum tíma sveifl­að­ist fylgið úr 19 í um 23 pró­sent í sumum könn­unum og allt stefndi í nýtt lág­fylg­is­met.

Þann 11. apríl birti Við­skipta­blaðið nið­ur­stöður skoð­ana­könn­unar þar sem kom fram að mun fleiri sögð­ust reiðu­búnir að kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn ef Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, vara­for­maður flokks­ins, væri for­maður í stað Bjarna Bene­dikts­son­ar. Sama kvöld sat Bjarni fyrir svörum í For­ystu­sæt­inu, kosn­inga­þætti á RÚV. Þar var hann spurður út í þessa skoð­ana­könn­un.

Íhug­aði stöðu sína sem for­manns

Bjarni sagði að hann hefði aldrei kveinkað sér undan árásum and­stæð­inga sinna og að sér hefði aldrei komið til hugar að hætta sem for­maður þess vegna. Það væri hins vegar erf­ið­ara að takast á við gagn­rýni innan flokks­ins. Hann sagði það aug­ljóst að könn­un­inni væri beint gegn sér og að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem könnun sem þessi birt­ist í Við­skipta­blað­inu, sem væri í eigu fyrr­ver­andi kosn­inga­stjóra Hönnu Birnu og þar væri starfs­menn sem styddu Hönnu Birnu. Þar átti hann við Pétur Árna Jóns­son, eig­anda blaðs­ins, og Gísla Frey Val­dórs­son, þáver­andi blaða­mann þess sem síðar varð aðstoð­ar­maður Hönnu Birnu í inn­an­rík­is­ráðu­neyt­inu. Könn­unin hafi þó fengið Bjarna til að velta hlut­unum fyrir sér og íhuga sína stöðu sem for­manns.

Í við­tal­inu ræddi Bjarni einnig heið­ar­lega stöðu flokks­ins í skoð­ana­könn­unum svona skömmu fyrir kosn­ing­ar. „Þetta fylgis­tap er okkur mjög mikið áhyggju­efni og fyrir mig per­sónu­lega mikil von­brigði vegna þess að flokk­ur­inn hafði verið með um 30 pró­sent og yfir frá miðju ári 2010, alveg fram í febr­úar á þessu ári[...]­Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur tapað mjög miklu fylgi á mjög skömmum tíma og ég held að það sé blanda af mörgum þáttum og ég skal alls ekki taka sjálfan mig út úr þeirri mynd. En ég bendi á að ég hef verið for­maður í fjögur ár og að jafn­aði hefur fylgið verið langt um meira en það er í dag,“ sagði Bjarni. „Ég hef áhyggjur af fylgi flokks­ins, ég vil allt gera til að auka það.“ 

Í fram­hald­inu sagð­ist Bjarni ekki vera búinn að taka ákvörðun um afsögn en úti­lok­aði hana ekki. „Í dag verð ég að játa, í þess­ari krísu sem flokk­ur­inn er í, að ég get ekki úti­lokað neitt.“

Sama dag, þann 11. apríl 2013, birti Gallup nýj­ustu skoð­ana­könnun sína. Þar mæld­ist fylgi Sjálf­stæð­is­flokks­ins 22,2 pró­sent 16 dögum fyrir kosn­ing­ar.

Vítamíns­sprauta sem skil­aði flokknum í rík­is­stjórn

Á end­anum varð For­ystu­sæt­is-við­talið, þar sem Bjarni virt­ist nán­ast beygja af um tíma, vítamín­sprauta fyrir kosn­inga­bar­áttu Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Hann afréð að halda áfram sem for­maður og flokk­ur­inn fékk á end­anum 26,7 pró­sent atkvæða, 19 þing­menn og gat myndað tveggja flokka rík­is­stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um, sem vann mik­inn kosn­inga­sigur vorið 2013.

Tveir hamingjusamir formenn nýrra stjórnarflokka eftir að hafa myndað ríkisstjórn árið 2013.
Mynd: EPA

Svo komu Panama­skjölin sem leiddu til þess að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þá for­sæt­is­ráð­herra, neydd­ist til að segja af sér vegna þess að hann hafði átt aflands­fé­lagið Wintris og sagt ósatt í við­tali sem tekið var við hann vegna þess. Inni í félag­inu voru að minnsta kosti á annan millj­arð króna og Wintris átti kröfur upp á mörg hund­ruð millj­­ónir króna í bú föllnu bank­anna, sem rík­­is­­stjórn Sig­­mundar Dav­­íðs hafði unnið að því að semja um.

Skjölin sýndu líka að Bjarni hefði átt þriðj­ungs­hlut í félag­inu Falson&Co. sem skráð var á Seychelles-eyj­­­um. Þær eyjar eru þekkt skatta­­skjól. Bjarni átti hlut í félag­inu vegna fast­­eigna­við­­skipta í Dubai sem hann tók þátt í árið 2006. Falson-hóp­­ur­inn gekk út úr við­­skipt­unum árið 2008 og ári seinna var félagið gert upp með tapi og Falson sett í afskrán­ing­­ar­­ferli. 

Sex af hverjum tíu vildu að Bjarni segði af sér

Staða Bjarna var í lausu lofti í byrjun apr­íl 2016, eftir að fyrstu fréttir úr Pana­ma­skjöl­unum voru sagð­­ar. Í könnun Félags­­vís­inda­­stofn­un­­ar, sem gerð var í byrjun apríl 2016, kom fram að 60 pró­­sent lands­­manna vildu að Bjarni segði af sér ráð­herra­emb­ætti vegna aflands­­fé­laga­­eignar sinn­­ar.

Fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar fóru fram í kjölfar opinberunnar á Panamaskjölunum. Þau beindust meðal annars að Bjarna Benediktssyni.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Á meðan Sig­­mundur Davíð stóð í ströngu hér á Íslandi, og sagði síðan af sér, missti Bjarni af flug­­inu sínu úr fjöl­­skyld­u­fríi á Flór­­ída. Ekk­ert heyr­ist í honum í fjöl­miðlum fyrr en hann var kom­inn til lands­ins og á fund for­­seta Íslands á Bessa­­stöð­­um. Þá hafði Bjarna tek­ist að afla sér nógu miklum stuðn­­ingi bak við tjöldin til þess að halda velli sem mik­il­væg stoð í ann­­ars flóknu stjórn­­­ar­­sam­­starfi við Fram­­sókn­­ar­­flokk­inn.

Kosn­ingar voru þó boð­aðar um haustið og þegar leið að þeim styrkt­ist staða Sjálf­stæð­is­flokks­ins jafnt og þétt. Á end­anum fékk flokk­ur­inn 29 pró­sent atkvæða þegar búið að var telja atkvæðin og þing­menn hans urðu 21 tals­ins. Það er besti árangur sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur náð undir stjórn Bjarna frá því að hann tók við flokkn­um. 

Í fyrsta sinn for­sæt­is­ráð­herra

Staðan var þó áfram flók­in. Vegna ýmissa úti­lok­ana á sam­starfi reynd­ist afar erfitt að mynda stjórn og þegar leið að jólum var jafn­vel viðruð sú hug­mynd að fjór­flokk­ur­inn gamli: Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Fram­sókn, Vinstri græn og Sam­fylk­ing­in, sem hafði næstum dottið út af þingi, myndu slá saman í for­dæma­lausa stjórn.

Á end­anum var þó mynduð rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar sem hafði minnsta mögu­lega meiri­hluta á þingi, 32 þing­menn á móti 31 sem sátu í stjórn­ar­and­stöðu. Bjarni sett­ist í fyrsta sinn í stól for­sæt­is­ráð­herra.

Auglýsing

Á sama tíma og myndun þeirrar stjórnar var á loka­metr­unum kom í ljós að fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyti Bjarna hafði setið á tveimur skýrsl­um, sem fjöll­uðu ann­­ars vegar um aflands­fé­laga­eign Íslend­inga og hins vegar um Leið­rétt­ing­una, tvö stærstu mál þess kjör­­tíma­bils sem hófst árið 2013 og lauk haustið 2016, frá því fyrir kosn­ing­arn­ar. Þær voru loks birtar í jan­úar 2017.

Svan­­dís Svav­­­ar­s­dótt­ir, þáver­andi þing­­flokks­­for­­maður Vinstri grænna, óskaði eftir því skrif­­lega að umboðs­­­maður Alþingis myndi fjalla um hvort Bjarni hefði brotið gegn 6. grein c siða­reglna ráð­herra með því að birta ekki skýrslu um aflands­­­fé­lög fyrr en nokkrum vikum eftir að hún lá fyr­­­ir.

Umboðs­­maður til­­kynnti síðar um að ekki væri til­­efni til að taka til athug­unar hvort Bjarni hefði brotið gegn siða­­­reglum ráð­herra með því að birta ekki skýrslu um eignir Íslend­inga í aflands­­­fé­lögum fyrr en raun bar vitni. Ástæðan var fyrst og fremst að Bjarni hafði við­­­ur­­­kennt að það hafi verið mis­­­tök af hans hálfu að birta ekki skýrsl­una mun fyrr en gert var.

Klaufa­skapur og slök dóm­greind

Rík­is­stjórnin var kynnt til leiks 10. jan­úar 2017. Bene­dikt Jóhann­es­son, þáver­andi for­maður Við­reisn­ar, sagði í stöðu­upp­færslu á Face­book að Bjarni hafi ekki sýnt af sér ásetn­ing um felu­­leik þegar hann ákvað að birta ekki skýrsl­una um aflandseignir Íslend­inga fyrr en þremur mán­uðum eftir að hún var kynnt honum og tæpum fjórum mán­uðum eftir að henni var skilað inn til ráðu­­neytis hans. Eftir að hafa rætt málið við Bjarna telur Bene­dikt að um hafi verið að ræða klaufa­­skap og slaka dóm­­greind. „Það breytir því ekki að mín skoðun (og allra í þing­­flokkn­um) er sú að hann hefði átt að birta skýrsl­una strax og hann fékk hana í hend­­ur.“ 

Sam­starfið reynd­ist erfitt og flokk­arnir sem stóðu að henni voru ítrekað ósam­mála um stór mál­efni. Ágrein­ingur skap­að­ist um Reykja­vík­­­­­ur­flug­­­völl, um hvernig ætti að leysa sjó­­­manna­verk­­­fall, áfeng­is­frum­varp­, end­­­ur­­­skipun á nefnd um end­­­ur­­­skoðun búvöru­­­samn­inga, jafn­­­­­launa­vottun og um sölu á hlut í Arion banka til erlendra vog­un­­­ar­­­sjóða, einka­­­rekstur í heil­brigð­is- og mennta­­­kerf­um, svo fátt eitt sé nefnt. Þeim tókst meira að segja að vera ósam­­mála um lyk­il­­for­­sendur fjár­­­mála­á­ætl­­unar rík­­is­­stjórn­­­ar­inn­­ar. Í maí sýndu mæl­ingar að ein­ungis 31,4 pró­sent lands­manna voru ánægðir með hana.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar varð skammlíf. Hún lifði einungis í nokkra mánuði á árinu 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Við lok vor­­þings varð svo allt vit­­laust þegar Lands­rétt­­ar­­málið knúði litlu flokk­anna tvo til að standa við bakið á Sig­ríði Á. And­er­sen, þá dóms­­mála­ráð­herra, þrátt fyrir að margir innan þeirra hafi í einka­­sam­­tölum síðar sagt að þeir hafi haft megna and­­styggð á máls­­með­­­ferð­inni. Hæst­i­­réttur dæmdi síðan í des­em­ber 2017 að Sig­ríður hefði brotið gegn stjórn­sýslu­lögum þegar hún fór gegn mati hæfn­is­­nefndar við skipun dóm­­ara við Lands­rétt. Enn síðar komst Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu að sömu nið­ur­stöð­u. 

Upp­reist æru sprengir allt upp að nýju

Rík­­is­­stjórnin virt­ist fegin að sleppa inn í sum­­­ar­frí Alþingis sem átti að standa í um þrjá og hálfan mán­uð. Fríið varð þó ekki jafn frið­­­sælt og reiknað hafði verið með þegar fjöl­miðlar fóru að greina frá því að dæmdir kyn­­ferð­is­brota­­menn hefðu fengið upp­­reist æru haustið 2016. 

Þolendur og aðstand­endur þeirra, ásamt fjöl­miðlum og þing­­mönnum stjórn­­­ar­and­­stöðu, fóru að kalla eftir gögnum um mál­in. 

Mestur fókus var á tveimur þeirra. Ann­­ars vegar upp­­reist æru Róberts Dow­ney, áður Róbert Árni Hreið­­ar­s­­son, og hins vegar upp­­reist æru Hjalta Sig­­ur­jóns Hauks­­son­­ar. Kraf­ist var aðgengis að með­­­mæla­bréfum sem skilað var inn þegar mönn­unum var veitt upp­­reist æra, en dóms­­mála­ráðu­­neytið hafn­aði að afhenda gögn­in. 

Bjarni í leiðtogakappræðum árið 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í sept­­em­ber komst úrskurð­­ar­­nefnd um upp­­lýs­inga­­mál síðan að þeirri nið­­ur­­stöðu að þau ættu að verða opin­ber. Þann 13. sept­­em­ber kynnti Bene­dikt Jóhann­es­­son, þá fjár­­­mála- og efna­hags­­mála­ráð­herra, fyrsta fjár­­laga­frum­varp rík­­is­­stjórn­­­ar­inn­­ar. Dag­inn eftir sendi Bene­dikt Sveins­­­son, faðir Bjarna Bene­dikts­­­sonar þá for­­­sæt­is­ráð­herra og for­­­manns Sjálf­­­stæð­is­­­flokks­ins, frá sér yfir­­lýs­ingu þar sem hann gekkst við því að vera einn þeirra sem skrif­uðu undir með­­­­­mæla­bréf með upp­­­reist æru Hjalta Sig­­­ur­jóns Hauks­­­son­­­ar. Dóms­­mála­ráð­herra greindi frá því síðar sama dag að hún hefði greint Bjarna frá því í júlí að faðir hans væri á meðal með­­­mæl­enda Hjalta, en á þeim tíma fengu aðrir ekki upp­­lýs­ingar um mál­ið.

Skömmu eftir mið­­nætti 15. sept­­em­ber 2016 tók stjórn Bjartrar fram­­tíðar þá ákvörðun að slíta rík­­is­­stjórn­­­ar­­sam­­starf­inu vegna alvar­­legs trún­­að­­ar­brests. Rík­­is­­stjórn Bjarna Bene­dikts­­sonar reynd­ist því skamm­lífasta meiri­hluta­­stjórn lýð­veld­is­­sög­unn­­ar. Hún sat í 247 daga.

Boðað var til kosn­inga í annað sinn á einu ári.

Erf­iðar kosn­ingar 2017

Nið­­ur­­staða kosn­­ing­anna var ekki til að gera stöð­una í stjórn­­­mál­unum skýr­­ari. Átta flokkar náðu inn á þing og höfðu aldrei verið fleiri. Þáver­andi stjórn­­­ar­and­­stöð­u­­flokk­­arnir fjór­ir, Vinstri græn, Sam­­fylk­ing, Fram­­sókn­­ar­­flokkur og Píratar náðu minnsta mög­u­­lega meiri­hluta þing­­manna og gátu myndað rík­­is­­stjórn ef þeir vildu. Flokk­­arnir voru samt sem áður ekki með meiri­hluta atkvæða á bak við sig, tæp­­lega 49 pró­­sent lands­­manna kusu þá.

Auglýsing

Rík­­is­­stjórn Bjarna beið afhroð og tap­aði tólf þing­­mönn­­um. Flokk­­arnir sem hana mynd­uðu höfðu 32 þing­­menn en voru nú með 20. Sjálf­­stæð­is­­flokk­­ur­inn tap­aði flestum þeirra, eða fimm, og fékk sína næst verstu kosn­­inga­n­ið­­ur­­stöðu í sög­unni og jafn­­aði sög­u­­legt lág­­mark sitt í þing­­manna­­fjölda á 63 sæta Alþingi.

Í aðdrag­anda kosn­ing­anna gerð­ist sá for­dæma­lausi atburður að lög­bann var sett á fréttaum­fjöllun Stund­ar­innar að beiðni Glitnis HoldCo, eign­ar­halds­fé­lag utan um eft­ir­stand­andi eignir hins fallna banka Glitn­is. Umfjöll­un­ar­efnið sem lög­bannið var sett á: Bjarni Bene­dikts­son, fjöl­skylda hans og tengsl við­skipta og stjórn­mála.

Hin ólík­lega stjórn um stöð­ug­leika

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­­maður Vinstri grænna, hafði sett það á odd­inn hjá flokki sínum að kom­­ast í rík­­is­­stjórn í aðdrag­anda kosn­­inga. Hún fékk stjórn­­­ar­­mynd­un­­ar­um­­boð hjá for­­seta Íslands til að mynda stjórn stjórn­­­ar­and­­stöð­u­­flokk­anna fjög­­urra, Vinstri grænna, Sam­­fylk­ing­­ar, Pírata og Fram­­sókn­­ar­­flokks­ins.

Full­­trúar flokk­anna hófu for­m­­legar við­ræður í byrjun nóv­­em­ber 2017 en Sig­urður Ingi Jóhanns­son, for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins sleit þeim 6. nóv­em­ber. For­ystu­menn hinna flokk­anna sem tóku þátt í þeim hafa síðar ásakað Fram­sókn og Vinstri græn um að hafa sett á fót leik­rit. Mark­mið þeirra hafi aldrei verið að mynda miðju-vinstri stjórn heldur að horfa til Sjálf­stæð­is­flokks­ins sem sam­starfs­að­ila. 

Undir lok nóv­em­ber­mán­aðar lá sú nið­ur­staða fyrir að mynda þá stjórn. For­­sæt­is­ráð­herra yrði Katrín Jak­obs­dótt­­ir. Hún yrði þá önnur konan til að gegna því emb­ætti á eftir Jóhönnu Sig­­urð­­ar­dóttur og fyrsti for­­maður Vinstri grænna til að leiða rík­­is­­stjórn. 

Formenn þeirra ólíku flokka sem mynduðu ríkisstjórn utan um stöðugleika síðla árs 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Stjórn­­­ar­sátt­­mál­inn bar þess merki að vera mála­miðlun þriggja flokka með mjög ólíkar áhersl­­ur. Þar af leið­andi var lítið um útfærðar aðgerðir eða skýrar stefnur í hon­­um. Þess í stað var mik­ill texti í sátt­­mál­­anum sem hver flokkur fyrir sig sem á aðild að rík­­is­­stjórn­­inni gat nýtt til að sýna að hann hafi náð helstu áherslum sínum fram. Þeim áherslum varð þó fyrst og fremst náð fram í gegnum þá ráð­herra­stóla sem hver flokkur fékk í sinn hlut. 

Í sátt­­mál­­anum var skýrt kveðið á um hvert meg­in­­mark­mið rík­­is­­stjórn­­­ar­innar væri. Þar stóð að „um­fram allt er á kjör­­tíma­bil­inu lögð áhersla á að við­halda efna­hags­­legum stöð­ug­­leika og að aðgerðir tengdar vinn­u­­mark­aði skili sér í raun­veru­­legum kjara­­bót­­um.“

Flókin verk­efni

Rík­is­stjórnin tókst á við flókin verk­efni. Lands­rétt­ar­málið tap­að­ist fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu og Sig­ríður Á. And­er­sen var knúin til að segja af sér emb­ætti dóms­mála­ráð­herra í kjöl­far­ið. 

Síðan tók við erfitt og langt stríð á vinnu­mark­aði á sama tíma og annað flug­fé­lag lands­ins, WOW air, barð­ist fyrir lífi sínu. Það þurfti þrot þess til að ýta á að hinir svoköll­uðu lífs­kjara­samn­ingar voru loks und­ir­rit­aðir í apríl 2019, en stjórn­völd lögðu til langan lof­orða­lista til að þeir myndu klár­ast. 

Auglýsing

Snemma árs 2020 skall svo á kór­ónu­veiru­far­aldur sem kúventi öllum fyrri áformum rík­is­stjórn­ar­innar og breytti verk­efni hennar algjör­lega. Heil­brigð­isvá sem á sér enga hlið­stæðu í nútíma-Ís­landi herj­aði á og efna­hags­legar afleið­ingar urðu þær að rík­is­sjóður verður rek­inn í mörg hund­ruð millj­arða króna halla yfir nokk­urra ára tíma­bil vegna lægri tekna og auk­inna gjalda sem félli til vegna aðgerða sem rík­is­sjóður borgar fyr­ir. 

Bjarni kom sér í vanda á Þor­láks­messu 2020 þegar hann var við­staddur við­burð í Ásmund­ar­sal þar sem grunur var um að sótt­varn­ar­brot hefði verið framið. Hann baðst afsök­unar og for­sæt­is­ráð­herra tjáði Bjarna óánægju sína um málið en fór ekki fram á afsögn hans. 

Tæp staða skömmu fyrir kosn­ingar

Í ágúst 2021, rúmum mán­uði fyrir kosn­ing­ar, virt­ist staða Sjálf­stæð­is­flokks og rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dóttur ágæt. Hún var fyrsta rík­is­stjórnin sem hefur setið heilt kjör­tíma­bil sem meiri­hluta­stjórn á Íslandi frá árinu 2007. Þrátt fyrir að tveir þing­menn Vinstri grænna hafi gengið úr skaft­inu á kjör­tíma­bil­inu og stefnu­mál flokk­anna þriggja sem hana mynd­uðu virt­ust á pappír mörg hver vera ósam­rým­an­leg þá tókst að halda sam­starf­inu sam­an, meira að segja í gegnum veiru­far­ald­ur.

Í kosn­inga­spá Kjarn­ans mæld­ust flokk­arnir þrír með næstum 49 pró­sent sam­an­lagðan stuðn­ing seint í ágúst og um 60 pró­sent líkur á að geta haldið meiri­hluta. Þegar leið á kosn­inga­bar­átt­una breytt­ist þessi staða skarpt og tveimur dögum fyrir kosn­ingar var hún þannig að sam­an­lagt fylgi þeirra mæld­ist 45,1 pró­sent en lík­urnar á áfram­hald­andi setu rétt yfir 30 pró­sent.

Þar spil­aði inn í að þá mæld­ust níu flokkar með mann inni á þingi en þeir höfðu verið átta í ágúst. Við það flutt­ust jöfn­un­ar­menn frá stjórn­ar­flokk­unum til smærri flokka. 

Í fyrsta sinn í langan tíma hafði líka örlað á gagn­rýni frá áhrifa­mönnum innan flokks­ins á Bjarna.

„Holl­usta við for­­mann má ekki breyt­­ast í með­­­virkni“

Páll Magn­ús­­son, þáver­andi odd­viti Sjálf­­stæð­is­­flokks í Suð­ur­kjör­dæmi sem hafði ákveðið að hætta þing­mennsku, skrif­aði fyrst grein í Morg­un­blaðið þar sem hann sagði að helstu vanda­­mál flokks­ins fælust ann­­ars vegar í klofn­ingi í báða enda og hins vegar í víð­tækum trú­verð­ug­­leika­bresti vegna umsvifa fjöl­­skyldu for­­manns­ins í við­­skipta­líf­inu og tengsla sjá­v­­­ar­út­­­vegs­ráð­herr­ans Krist­jáns Þórs Júl­í­us­sonar við Sam­herja.

Slagorð Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2021 var „Land tækifæranna“. Hér sést Bjarni flytja ræðu í Garðabæ nokkrum dögum fyrir kosningar.
Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Í við­tali við Frétta­blaðið í ágúst bætti Páll svo í og sagði að honum fynd­ist stundum eins og flokkur sinn væri orð­inn nokk­­urs konar fram­­kvæmda­­stjóri Íslands. Ástæða þess sé að flokk­­ur­inn hafi verið svo lengi í rík­­is­­stjórn og for­­maður hans svo lengi í fjár­­­mála­ráðu­­neyt­in­u.  Að mati Páls hefði þessi staða orsakað það að hug­­sjónir og raun­veru­­leg stjórn­­­mál víki fyrir skrif­finnsku og emb­ætt­is­ræði. „Í Sjálf­­stæð­is­­flokknum hefur skap­­ast and­­rými fyrir þá skoðun að þú sért að bregð­­ast flokknum með því að gagn­rýna for­yst­una [...] Ég vil hins vegar meina að þú sért að bregð­­ast með því að gera það ekki þegar þörf er á, eins og nú er. [...] Holl­usta við for­­mann má ekki breyt­­ast í með­­­virkni, því þá er hún skað­­leg. Sjálf­­stæð­is­­menn hljóta að ræða hvort það sé full­­reynt að ná árangri með núver­andi for­­manni og for­yst­u.“

Rík­is­stjórnin ríg­hélt

Þegar búið var að telja atkvæðin sem lands­menn greiddu stjórn­mála­flokkum 25. sept­em­ber 2021 lá fyrir þó fyrir að rík­is­stjórnin myndi ríg­halda. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn bætti veru­lega við sig og fjölg­aði þing­mönnum sínum um átta. Vinstri græn töp­uðu mun minna en kann­anir höfðu gefið til kynna og fengu einum þing­manni færri en flokk­ur­inn hafði endað síð­asta kjör­tíma­bil með og var þriðju kosn­ing­arnar í röð stærsti vinstri flokkur lands­ins. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hélt sínum þing­manna­fjölda en fékk hlut­falls­lega færri atkvæði en fyrir fjórum árum, og næst minnsta fylgið í sögu sinn­i. 

Það þýddi að Bjarni hafði þar með leitt flokk­inn í gegnum fjórar af fimm verstu kosn­ingar sem hann hefur átt. En samt hafði hann nær örugg­lega tryggt Sjálf­stæð­is­flokknum enn eina rík­is­stjórn­ar­þátt­tök­una og áfram­hald­andi völd. Eng­inn starf­andi for­maður stjórn­mála­flokks kemst nálægt því að hafa leitt flokk sinn jafn lengi og Bjarni, sem hefur nú verið for­maður í tólf og hálft ár. Ein­ungis tveir for­menn Sjálf­stæð­is­flokks hafa setið lengur en hann, Ólafur Thors sem var for­maður í 27 ár, og Davíð Odds­son, sem stýrði flokknum í rúm­lega 14 og hálft ár.

Davíð Oddsson, sem sést hér kjósa sjálfan sig í forsetakosningum 2016, er sá formaður Sjálfstæðisflokks sem setið hefur næst lengst. Bjarni gæti tekið fram úr honum á kjörtímabilinu.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ef Bjarni heldur áfram í rúm tvö ár í við­bót nær hann Davíð en verður samt sem áður ekki orð­inn 55 ára. 

„Teflon-­mað­ur­inn“

Bjarni hefur sýnt að hann getur staðið að sér póli­tískar aðstæð­ur, hneykslis sem fáir aðrir geta og gagn­rýni bæði innan og utan flokks. Þá hefur for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins sýnt að hann býr yfir getu til að snúa erf­iðri stöðu í sigra. Fyrir vikið er Bjarni oft kall­aður „teflon-­mað­ur­inn“ með skírskotun í pönn­urnar sem ekk­ert á að fest­ast við.

Minnk­andi fylgi hefur ekki dregið úr áhrifum Sjálf­stæð­is­flokks­ins né tæki­færum Bjarna til að stjórna. Alltaf eru til aðrir sem eru til­búnir að leiða flokk­inn til valda. 

Umræður innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins og utan um hvort það sé full­reynt að ná árangri með núver­andi for­manni og for­ystu verða því að bíða betri tíma. 

Sem stendur bendir nefni­lega allt til þess að Bjarni Bene­dikts­son sé að mynda enn eina rík­is­stjórn­ina. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar