Vafi um fjölmiðlafrelsi á Íslandi

Lögbann á fréttaflutning, hótanir valdamanna um málsóknir í miðri kosningabaráttu, óvarleg umræða um hlutverk fjölmiðla og kerfislægar ákvarðanir sem leiða af sér erfitt rekstrarumhverfi og hefur spekileka í för með sér. Svona er íslenskt fjölmiðlaumhverfi í dag.

Fjölmiðlafrelsi er vandasamt hugtak. Sérstaklega þegar á að mæla það í samfélagi þar sem fjölmiðlafólk þarf að mestu ekki að óttast líkamlegt ofbeldi og spilling birtist frekar sem kerfislægar strokur og í aðgengi að upplýsingum, tækifærum eða fjármunum annarra en í peningagreiðslum í brúnum bréfpokum sem skipta um hendur í dimmum bílakjöllurum.

Hérlendis mældist fjölmiðafrelsi til að mynda eitt það mesta í heiminum fyrir hrun, þegar sömu blokkirnar og áttu bankana áttu allar stærstu einkareknu fjölmiðlassamsteypurnar. Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um frammistöðu fjölmiðla á þessum tíma, þegar þeir áttu að vera sem frjálsastir, var sú að þeir hafi ekki náð að rækja það lykilhlutverk sem þeir gegna í lýðræðissamfélagi sem þeir eiga að gegna með því að að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag.

Í skýrslu nefndarinnar kom fram að þeir lærdómar sem draga þyrfti að þessu ástandi væru þeir að leita yrði leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar. Þá þyrfti að styrkja sjálfstæði ritstjórna og setja eignarhaldi einkaaðila á fjölmiðlum hófleg mörk. Efla þyrfti menntun fjölmiðlafólks og skapa þeim skilyrði til sérhæfingar í einstökum málaflokkum og koma þyrfti á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hefði það markmið að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni.

Fjölmiðlafrelsi á undanhaldi

Nokkuð ljóst er að við höfum ekki innleitt þessa lærdóma. Eignarhald á þremur stærstu einkareknu fjölmiðlasamsteypum landsins á einkamarkaði  (365 miðlum, Árvakri og Pressunni) hefur verið með þeim hætti undanfarin tæpan áratug að þær hafa verið í eigu fólks sem hefur verið til rannsóknar vegna efnahagsglæpa eða í ákæruferli vegna slíkra, í eigu sérhagsmunahópa með skýr pólitísk markmið sem fjölmiðlar hafa verið nýttir markvisst til að ná eða fjármagnaðir af huldufólki sem fjölmiðlalög duga ekki til að opinbera. 

Samanlagt hafa þessar samsteypur verið reknar í gegndarlausu tapi sem hleypur á milljörðum króna og ein þeirra, Pressan, hefur komist upp með að taka himinhá lán hjá skattgreiðendum með því að skila ekki opinberum gjöldum líkt og lög gera ráð fyrir, án neinna sýnilegra afleiðinga. Þannig tókst henni að skapa sér samkeppnisforskot á aðra miðla sem reka sig með eðlilegum og löglegum hætti.

Hið opinbera hefur ekkert gert til að mæta þessari stöðu. Nefnd var skipuð til að finna leiðir að betra rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla í upphafi árs en hún hefur ekki skilað af sér neinum niðurstöðum enn sem komið er. Til að gera rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiðla enn meira krefjandi er Ríkisútvarpið öflugur þátttakandi á auglýsingamarkaði og tekur til sín um 2,2 milljarða króna af honum á ári til viðbótar við þá 3,8 milljarða króna sem stofnunin fær úr ríkissjóði. 

Rekstrarumhverfið gerir það því að verkum að nær allir fjölmiðlar á einkamarkaði tapa fé á hverju ári, starfsmannavelta er mikil, spekileki úr greininni óstöðvandi og fjölmiðlamannastarfið er orðið láglaunastarf. Við slíkar aðstæður er ómögulegt að ná þeim markmiðum sem lærdómar Rannsóknarnefndar Alþingis töldu að nauðsynlegt yrði að ná til að fjölmiðlar næðu að gegna því mikilvæga hlutverki í lýðræðinu sem þeir eiga að gegna.

Á undanförnum árum hefur fjölmiðlafrelsið hérlendis enda mælst lægra en áður. Þannig var Ísland til að mynda í tíunda sæti á lista samtakanna Blaðamenn án landamæra (Reporters Without Borders) síðast þegar frelsi fjölmiðla er mælt, og hafði þá stokkið upp um heil níu sæti á milli ára. Landið er töluverður eftirbátur hinna Norðurlandanna á þeim lista, en Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk sitja í efstu fjórum sætum hans. 

Ástæða þess að Ísland er það ofarlega á listanum er fyrst og síðast sú að mikið er gert úr metnaðarfullri þingsályktunartillögu sem samþykkt var 2010 um að gera Ísland að forysturíki m.a. í vernd uppljóstrara, gagnsæis, tjáningarfrelsis og fjölmiðlafrelsis. Lítið hefur hins vegar verið gert með innihald þeirrar tillögu.

Hætt er við því að Ísland muni hrapa niður slíka lista á næstu árum í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað hérlendis að undanförnu, og raktir verða hér á eftir.

GRECO skoðar Ísland

Áður en að því kemur er vert að greina frá því að fleiri eru að huga að fjölmiðlafrelsi á Íslandi en samtök sem reyna að mæla slíkt. Í vettvangsferð sendinefndar GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, vegna fimmtu úttektar samtakanna á Íslandi, sem fór fram fyrr í mánuðinum var einnig verið að velta því umtalsvert fyrir sér.

Í yfirstandandi úttekt er GRECO að horfa fyrst og síðast á spillingu, annars vegar meðal valdhafa; forseta, ráðherra, ráðuneytisstjóra og annarra handhafa æðstu embætta og hins vegar í löggæslunni; lögreglu, Landhelgisgæslunni og tollgæslunni.

GRECO-nefndin fundaði meðal annars með fulltrúum fjölmiðla til að fá upplýsingar um hvernig stjórnvöld og stjórnmálamenn hafi brugðist við, og jafnvel beitt sér, í kjölfar umfjöllunar um ýmis mál sem komið hafa upp hérlendis á undanförnum árum.

Á meðal þeirra mála sem GRECO-nefndin hafði áhuga á voru Lekamálið og eftirköst þess, hið svokallaða Orku Energy-mál, Panamaskjölin og sérstaklega Wintris-málið og hótanir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gagnvart völdum fjölmiðlum um málsóknir. Þá hafði nefndin mikinn áhuga á því hvernig íslenska fjölmiðlaumhverfið væri saman sett, hvernig eignarhaldi á því væri háttað og á rekstrarskilyrðum þess.

Fjölmörg alvarleg atvik komið upp

Þau eru fjölmörg atvikin sem teljast verða alvarleg þegar kemur að samskiptum fjölmiðla og stjórnmála á undanförnum árum. Þar má týna til ummæli Vigdísar Hauksdóttur, þáverandi formanns fjárlaganefndar, í ágúst 2013 þegar hún lýsti yfir óánægju með fréttaflutning RÚV, sagði fréttastofu stofnunarinnar vera vinstri sinnaða og halla undir Evrópusambandið og hótaði henni í kjölfarið niðurskurði. 

Í upphafi Lekamálsins svokallaða reyndi Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, að fá ritstjóra DV til að reka blaðamennina sem skrifuðu um málið. Í mars 2016, í aðdraganda birtingu umfjöllunar úr Panamaskjölunum og Wintris-málsins, réðust valdir þingmenn hart gegn nafngreindum fjölmiðlum á opinberum vettvangi og RÚV meðal annars kallað óvinur Framsóknarflokksins númer 1

Lekamálið leiddi af sér mótmæli á Austurvelli og á endanum afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem innanríkisráðherra.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í ágúst sama ár steig Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fram og sagði að sín tilfinning væri að sumir fjölmiðlar væru „Orðnir lítið annað en skel, umgjörð um ­starf­semi þar sem hver fer fram á eigin for­send­um. Engin stefna, ­mark­mið eða skila­boð og þar með nán­ast eng­inn til­gang­ur, ann­ar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast ­síðan á að grípa gjall­ar­hornið sem fjöl­mið­ill­inn er orð­inn ­fyrir þá og dæla út skoð­unum yfir sam­fé­lag­ið. Ein í dag - önnur á morg­un. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegg­inn?“

Þá eru ótalin öll þau ummæli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lét falla um fjölmiðla á meðan að hann var forsætisráðherra og eftir að hann þurfti að segja af sér úr þeirri stöðu en gegndi enn þá ábyrgðarhlutverki í íslenskum stjórnmálum. Alvarlegasta hótun hans er án efa sú sem hann setti fram í viðtali við Morgunblaðið 3. október síðastliðinn. Þar sagðist hann vera að undirbúa málsókn gegn þremur fjölmiðlum vegna umfjöllunar um Wintris-málið, en að þær málsóknir yrðu að bíða fram yfir kosningar.

Öll ofangreind ummæli koma í kjölfar þess að íslenskir fjölmiðlar hafa með umfjöllun sinni opinberað, með vísun í gögn, pólitísk hneykslismál sem hafa haft meiri afleiðingar fyrir sitjandi valdamenn en áður hefur þekkst í Íslandssögunni. 

Lögbann á umfjöllun um samspil stjórnmála og viðskipta

En alvarlegasta atvikið átti sér stað í byrjun viku. Þá var sett lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media upp úr gögnum Glitnis. Þær fréttir sem þegar höfðu birst uppúr gögnunum höfðu fjallað um Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og fjölskyldu hans og tengsl viðskipta og stjórnmála. Í fréttunum hafði verið sýnt fram á að ýmislegt sem Bjarni hafði sagt opinberlega um viðskipti sín stangaðist á við þau gögn sem miðlarnir voru með undir höndum.

Bjarni brást upphaflega við umfjölluninni með því að segja að hún hafi verið gerð til að koma höggi á sig og Sjálfstæðisflokkinn í aðdraganda kosninga. Jon Henley, blaðamaður The Guardian, sem vann hluta umfjöllunarinnar í samstarfi við íslensku miðlanna, hefur sagt að þetta sé alrangt. Upp­lýs­ing­arnar sem umfjöll­unin byggir á hafi komið til The Guardian snemma í sept­em­ber í stóru gagna­magni úr banka­skjölum og tölvupóstum. Hann hafi í kjöl­farið haft sam­band við íslenska starfs­bræður sína 5. sept­em­ber og í kjöl­farið hafi þeir byrjað að vinna úr gögn­un­um. Ákveðið hafi verið að flýta birt­ingu umfjöll­un­ar­innar vegna til þess að hafa minni áhrif á þær kosn­ingar sem fram und­an­ eru á Íslandi. Það hafi verið gert að und­ir­lagi íslensku blaða­mann­anna sem komu að vinnslu henn­ar.  

Forsíðu Stundarinnar í morgun.

Á mánudag lagði Glitnir Holdco, eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, fram lögbannsbeiðni á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media. Þar var farið fram á að öll gögn sem voru grundvöllur umfjöllunarinnar yrðu afhent, að fréttir sem þegar hefðu verið skrifaðar yrðu fjarlægðar af internetinu og að miðlunum yrði meinað að skrifa frekari fréttir upp úr gögnunum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst á síðastnefndu beiðnina.

Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar, var einn gesta sjónvarpsþáttar Kjarnans á miðvikudag þar sem lögbannið var rætt. Þar sagði hún að þegar hefði skapast alvarlegt ástand með málinu. „Þöggunin á sér stað núna. Lögbannið er á. Það á bara eftir að staðfesta það hjá dómstólum. Lögbannið var lagt á af fulltrúa framkvæmdavaldsins. Dómstólar hafa ekki fengið þetta mat, heldur bara fulltrúi framkvæmdavaldsins. Það er bara alvarlegt. Ég lít svo á að núna séum við að upplifa þöggun.“

Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Gagnsæis, var einnig gestur þáttarins. Hann sagði þar að verið væri að krefjast aðgerða sem  „í rauninni væri óhugsandi að gætu átt sér stað nema í einhverju harðstjórnar- og einræðisríki, að þeirra sé krafist í samfélagi eins og okkar. Ég held að við ættum að gera þá kröfu líka til fyrirtækja að þau séu tilbúin að verja og styðja samfélagssáttmálann og eðlilega lýðræðislega umræðu.“

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan.

Lögbannið fordæmt og almenningur á móti

Á miðvikudag lýsti fulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um frelsi fjölmiðla yfir áhyggjum sínum af lögbanninu. Hann hvatti íslensk stjórnvöld til að aflétta lögbanninu. Fultrúar flesta stjórnmálaflokka á Íslandi hafa annað hvort fordæmt lögbannið eða gagnrýnt það mjög harkalega og Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna hafa gert það sömuleiðis. Þá sendi Rithöfundasamband Íslands frá sér ályktun vegna lögbannsins og það sama gerðu PEN á Íslandi, samtök rithöfunda, þýðenda og ritstjóra. Þá sendu Gagnsæi, samtök gegn spillingu, frá sér harðorða tilkynningu þar sem lögbannið er fordæmt.

Og almenningur virðist sammála. Honum finnst ákvörðun framkvæmdavaldsins, í þessu tilfelli Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, með öllu óboðleg. Þessi afstaða kom skýrt fram í könnun MMR á skoðun þjóðarinnar til lögbanns á fréttaflutning fjölmiðla. Niðurstöðurnar voru birtar í gær. Þar kom fram að 77 prósent Íslendinga væru andvígir lögbanninu og að einungis 11,4 prósent voru því fylgjandi. Athygli vakti að stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins var mun líklegra til að segjast fylgjandi lögbanninu en stuðningsfólk annarra flokka. Alls sögðust 34 prósent þeirra vera fylgjandi því. Næst mestur stuðningur við lögbannið var á meðal kjósenda Framsóknarflokksins, en 18 prósent þeirra styðja það. Stuðningur við lögbannið er vart mælanlegur hjá kjósendum Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna.

Í könnun MMR kom líka fram að stuðningur við lögbannið er mestur hjá þeim sem eru með milljón krónur eða meira í heimilistekjur og er meir hjá eldra fólki en þeim sem yngri eru. Þá eru stjórnendur eða æðstu embættismenn mun meira fylgjandi því að lögbann sé sett á fréttaflutning fjölmiðla upp úr gögnunum, en nálægt fjórði hver svarandi sem tilheyrði þeirri starfsstétt var fylgjandi lögbanninu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar