Auglýsing

Það er merki­legt að búa í sam­fé­lagi þar sem það borgar sig að fylgja ekki lög­um. Að beygja regl­urnar sjálfum sér í hag og fara fram með óheil­ind­um. Þar sem það veitir for­skot að vera óheið­ar­leg­ur. Þannig er málum hins vegar háttað hér­lend­is. Að minnsta kosti ef sá brot­legi er snyrti­legur og í jakka­föt­um.

Í gær­morgun var greint frá því að þekktur lög­mað­ur, Sig­urður G. Guð­jóns­son, hefði, fyrir hönd ónafn­greindra fjár­festa, keypt fjöl­miðla Pressu­sam­stæð­unn­ar, þriðja stærsta einka­rekna fjöl­miðla­fyr­ir­tækis lands­ins. Sam­tals er ætlað kaup­verð metið á sjötta hund­ruð millj­ónir króna og er það greitt með reiðufé og yfir­töku skulda.

Umrædd fjöl­miðla­sam­steypa hefur verið byggð upp með því að fara í hverja skuld­settu yfir­tök­una á fætur annarri. Á þeirri veg­ferð safn­aði hún upp skuldum upp á mörg hund­ruð millj­ónir króna. 

Auglýsing

Ekk­ert í rekstri umræddra fjöl­miðla bendir til þess að þeir séu 600 millj­óna króna virði. Ef ein­hver hefði raun­veru­legan áhuga á að eign­ast DV, DV.is, Eyj­una, Press­una, ÍNN og tengda vefi þá hefði sá hinn sami getað keypt þá út úr þrota­búi Pressunnar eftir nokkrar vikur á brota­brot af því sem borgað var fyrir miðl­anna. Í vik­unni átti nefni­lega að taka fyrir gjald­þrota­beiðni toll­stjóra á hendur einu félagi sam­stæð­unnar sem hélt utan um lyk­ilmiðla innan henn­ar.

En það var ekki vilji til þess. Í stað­inn fóru fram við­skipti sem eru aug­ljós­lega ekki á við­skipta­legum for­send­um. Í þeim fólst að greidd var nán­ast nákvæm­lega sú upp­hæð sem til þurfti til að hreinsa upp mörg hund­ruð millj­óna króna hala af opin­berum skuld­um, lán sem helstu for­svars­menn Pressunnar höfðu geng­ist í sjálf­skuld­ar­á­byrgð fyrir og prent­skuld­ir. Aðrar skuld­ir, sem eru meðal ann­ars líf­eyr­is­skuldir og alls kyns við­skipta­skuld­ir, voru skildar eft­ir. Þær eru hið minnsta upp á nokkur hund­ruð millj­ónir króna. Nær engar eignir eru eftir í Press­unni til að mæta þeim. Með öðrum orðum virð­ist til­gangur þess að kaup­verðið var það sem það var sá að koma í veg fyrir að for­svars­menn Pressunnar myndu þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sín­um, og mögu­lega sæta fang­els­is­vist fyr­ir. Og ein­hverj­ir, sem hafa ekki verið opin­berað­ir, voru til­búnir að greiða mörg hund­ruð millj­ónir króna fyr­ir.

Stenst þetta lög?

Kaupin voru gerð án vit­neskju stærstu hlut­hafa Pressunn­ar, eins sér­kenni­lega og það hljóm­ar. Þar er um að ræða eign­ar­halds­fé­lagið Dal­inn sem setti millj­ónir króna inn í sam­stæð­una í vor og eign­að­ist við það 68 pró­sent hlut í Press­unni. Hins vegar hafði ekki verið hald­inn hlut­hafa­fundur til að skipa stjórn sem end­ur­spegl­aði eig­enda­skipt­ingu (frá því að hún var til­kynnt í lok ágúst) þegar stjórn Pressunnar ákvað að selja nær alla fjöl­miðla sam­stæð­unnar til Sig­urðar G. á þriðju­dag. Í stjórn­inni sátu minni­hluta­eig­end­ur. Sömu menn og yfir vofði mögu­leg fang­els­is­vist ef ekki tæk­ist að gera upp við toll­stjóra. 

Salan á miðl­unum fór fram án vit­neskju og vilja þeirra sem eiga meiri­hluta í Press­unni. Erfitt er að sjá að það stand­ist t.d. 1. máls­grein 51. greinar einka­hluta­fé­laga­laga þar sem stend­ur: „Fé­lags­stjórn, fram­kvæmda­stjóri og aðrir þeir er hafa heim­ild til að koma fram fyrir hönd félags­ins mega ekki gera nokkrar þær ráð­staf­anir sem[...]eru fallnar til þess að afla ákveðnum hlut­höfum eða öðrum ótil­hlýði­legra hags­muna á kostnað ann­arra hlut­hafa eða félags­ins.“

Faldir yfir­ráða­menn

Allan þann tíma sem Pressu­sam­stæðan hefur verið að safna undir sig fjöl­miðlum með skulda­söfnun og ólög­legum leiðum til að afla sér rekstr­ar­fjár hefur aldrei verið hægt að nálg­ast upp­lýs­ingar um hver það væri sem fjár­magn­aði veisl­una. Þótt við skatt­greið­endur hefðum gert það að stórum hluta með því að lána án sam­þykkis skatt­tekjur okkar í rekst­ur­inn þá er ljóst að umtals­verðir fjár­munir til við­bótar hafa runnið inn í sam­stæð­una.

Í kringum reyfara­kennt fjár­kúg­un­armál sum­arið 2015 var stað­fest að Pressan fékk tug millj­óna fyr­ir­greiðslu hjá MP banka, sem í dag heitir Kvika. Kjarn­inn greindi frá því í apríl síð­ast­liðnum að Kvika banki hefði fram­selt skulda­bréf á Pressu­sam­stæð­una til eign­ar­halds­fé­lags­ins . Ekki hefur feng­ist upp­lýst hvert tap Kviku á fyr­ir­greiðslu til Pressunnar var. Þegar frá eru talin selj­enda­lán þá er lítið sem ekk­ert annað vitað um  hverjir hafa fjár­magnað rekst­ur­inn. Og Fjöl­miðla­nefnd hefur ekki talið lög um fjöl­miðla, sem gera kröfu um að eign­ar­hald og/eða yfir­ráð allra fjöl­miðla sé rekj­an­legt til ein­stak­linga, nái til þeirra sem láni fé í fjöl­miðla­rekst­ur.

Þannig hafa yfir­ráð yfir Press­unni, þeir sem hafa haldið henni fjár­hags­lega á floti, verið dul­in. Og það eru þau enn. Ekk­ert hefur verið gefið upp um hverjir standa að baki félag­inu sem Sig­urður G. Guð­jóns­son veitir for­svar fyr­ir, þrátt fyrir að allir sem vilji vita það geri sér grein fyrir því að lög­mað­ur­inn var ekki að setja á sjötta hund­rað millj­ónir króna í upp­kaup á fjöl­miðla­rekstri sjálf­ur. Sér­stak­lega þar sem við blasir að kaupin eru ekki að neinu leyti gerð á við­skipta­legum for­send­um. Það er önnur ástæða fyrir þeim. Áfram er eign­ar­haldið og/eða yfir­ráðin á þriðja stærsta einka­rekna fjöl­miðla­fyr­ir­tæki lands­ins dul­in. Án þess að stjórn­sýslan geri nokkuð við því.

Er til­efni til stolts?

Verst af öllu hefur þó verið að Pressu­sam­stæðan hefur fengið að kom­ast upp með það árum saman að skila ekki stað­greiðslu skatta sem þegar hafði verið dregið af starfs­fólki. Virð­is­auka­skatti sem öllum fyr­ir­tækjum ber að greiða. Trygg­ing­ar­gjaldi. Líf­eyr­is­sjóðs-, stétt­ar­fé­lags- og með­lags­greiðslum sem búið var að draga af launum starfs­fólks en stjórn­endur ákváðu að skila ekki á réttan stað, heldur eyða sjálfir í rekst­ur­inn. Og til að borga eigin svim­andi háu laun.

Umfangið er stjarn­fræði­legt og tím­inn sem þetta fékk að við­gang­ast er ofar öllum skiln­ingi. Þegar kaupin voru gerð á þriðju­dag voru 120 millj­ónir króna greiddar til toll­stjóra til að koma í veg fyrir að gjald­þrota­beiðni hans yrði afgreidd fyrir dóm­stól­um. Til við­bótar skuldar sam­stæðan 250 millj­ónir króna hið minnsta í opin­ber gjöld. 

Það skal við­ur­kenn­ast að manni fall­ast eig­in­lega hendur þegar svona lagað er opin­ber­að. Það er nefni­lega ekki bara verið að fara á svig við lög, svindla á toll­stjóra, taka óheim­ilt lán hjá skatt­greið­endum og brjóta öll eðli­leg sið­ferð­is­við­mið sem eiga að gilda í við­skipt­um. Það er líka verið að skapa sér sam­keppn­is­for­skot og draga úr mögu­leikum þeirra sem virða leik­regl­urn­ar, reka sína fjöl­miðla heið­ar­lega og borga sínar skuld­bind­ingar til að stunda sinn rekstur á jafn­ræð­is­grund­velli.

Það er gjör­sam­lega óþol­andi fyrir fyr­ir­tæki eins og Kjarn­ann, sem skuldar ekk­ert, hefur alltaf haft allar upp­lýs­ingar um eign­ar­hald uppi á borðum og sker frekar niður í launum og starfs­manna­haldi en að borga ekki skuld­bind­ingar sín­ar, að þurfa að keppa við lög­brjóta án þess að það hafi neinar afleið­ing­ar. Eftir margra ára ólög­lega starf­semi er bara ráð­ist í gam­al­dags kenni­tölu­flakk þar sem hluti kröfu­hafa eru skildir eftir og faldir áhrifa­menn fá að dylj­ast í jakka­fatafald­inum á Sig­urði G. Guð­jóns­syni á meðan að lagðar eru lín­urnar fyrir áfram­hald­andi ósjálf­bæran rekst­ur.

Björn Ingi segir í til­kynn­ingu að hann sé „gríð­ar­lega stoltur af þessum við­skiptum og finn fyrir miklum létt­i.“ Það er skilj­an­legt að hann finni fyrir létti. Nú mun hann ekki fara í fang­elsi. En yfir hverju hann sé stoltur er erfitt að átta sig á. Því að fólk sem lán­aði honum pen­ing verður skilið eftir með sárt ennið og ógreiddar kröfur eftir svæsið kenni­tölu­flakk? Er hann stoltur yfir því að hafa náð að snúa á Róbert Wessman, haft af honum fé og skilið hann og við­skipta­fé­laga hans eftir kjána­lega með meiri­hluta­eign í verð­lausu félagi? Eða er hann stoltur af því að hafa fengið menn sem þora ekki að opin­bera sig til að greiða mörg hund­ruð millj­ónir umfram mark­aðsvirði fyrir fjöl­miðla­sam­steypu á fallandi fæti? Þetta eru að minnsta kosti ekki atriði sem flest venju­legt fólk með sóma­kennd væri stolt af.

En svona er þetta víst oft­ast hér á Íslandi. Það ger­ist eitt­hvað skrýtið og vondu karl­arnir vinna. Það er val að breyta því. Val stjórn­mála­manna sem geta breytt leik­regl­un­um. Val eft­ir­lits­stofn­ana sem geta tryggt að það borgi sig ekki að brjóta lög. Val sið­legra fyr­ir­tækja að eiga ekki í við­skiptum við lög­brjóta. Og val almenn­ings sem getur kosið þá fjöl­miðla sem hann neytir og trúir að séu að starfa með hags­muni hans að leið­ar­ljósi.

Hægt er að ger­ast stuðn­ings­maður Kjarn­ans hér.

Meira úr sama flokkiLeiðari