Auglýsing

Það er merkilegt að búa í samfélagi þar sem það borgar sig að fylgja ekki lögum. Að beygja reglurnar sjálfum sér í hag og fara fram með óheilindum. Þar sem það veitir forskot að vera óheiðarlegur. Þannig er málum hins vegar háttað hérlendis. Að minnsta kosti ef sá brotlegi er snyrtilegur og í jakkafötum.

Í gærmorgun var greint frá því að þekktur lögmaður, Sigurður G. Guðjónsson, hefði, fyrir hönd ónafngreindra fjárfesta, keypt fjölmiðla Pressusamstæðunnar, þriðja stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækis landsins. Samtals er ætlað kaupverð metið á sjötta hundruð milljónir króna og er það greitt með reiðufé og yfirtöku skulda.

Umrædd fjölmiðlasamsteypa hefur verið byggð upp með því að fara í hverja skuldsettu yfirtökuna á fætur annarri. Á þeirri vegferð safnaði hún upp skuldum upp á mörg hundruð milljónir króna. 

Auglýsing

Ekkert í rekstri umræddra fjölmiðla bendir til þess að þeir séu 600 milljóna króna virði. Ef einhver hefði raunverulegan áhuga á að eignast DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, ÍNN og tengda vefi þá hefði sá hinn sami getað keypt þá út úr þrotabúi Pressunnar eftir nokkrar vikur á brotabrot af því sem borgað var fyrir miðlanna. Í vikunni átti nefnilega að taka fyrir gjaldþrotabeiðni tollstjóra á hendur einu félagi samstæðunnar sem hélt utan um lykilmiðla innan hennar.

En það var ekki vilji til þess. Í staðinn fóru fram viðskipti sem eru augljóslega ekki á viðskiptalegum forsendum. Í þeim fólst að greidd var nánast nákvæmlega sú upphæð sem til þurfti til að hreinsa upp mörg hundruð milljóna króna hala af opinberum skuldum, lán sem helstu forsvarsmenn Pressunnar höfðu gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir og prentskuldir. Aðrar skuldir, sem eru meðal annars lífeyrisskuldir og alls kyns viðskiptaskuldir, voru skildar eftir. Þær eru hið minnsta upp á nokkur hundruð milljónir króna. Nær engar eignir eru eftir í Pressunni til að mæta þeim. Með öðrum orðum virðist tilgangur þess að kaupverðið var það sem það var sá að koma í veg fyrir að forsvarsmenn Pressunnar myndu þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sínum, og mögulega sæta fangelsisvist fyrir. Og einhverjir, sem hafa ekki verið opinberaðir, voru tilbúnir að greiða mörg hundruð milljónir króna fyrir.

Stenst þetta lög?

Kaupin voru gerð án vitneskju stærstu hluthafa Pressunnar, eins sérkennilega og það hljómar. Þar er um að ræða eignarhaldsfélagið Dalinn sem setti milljónir króna inn í samstæðuna í vor og eignaðist við það 68 prósent hlut í Pressunni. Hins vegar hafði ekki verið haldinn hluthafafundur til að skipa stjórn sem endurspeglaði eigendaskiptingu (frá því að hún var tilkynnt í lok ágúst) þegar stjórn Pressunnar ákvað að selja nær alla fjölmiðla samstæðunnar til Sigurðar G. á þriðjudag. Í stjórninni sátu minnihlutaeigendur. Sömu menn og yfir vofði möguleg fangelsisvist ef ekki tækist að gera upp við tollstjóra. 

Salan á miðlunum fór fram án vitneskju og vilja þeirra sem eiga meirihluta í Pressunni. Erfitt er að sjá að það standist t.d. 1. málsgrein 51. greinar einkahlutafélagalaga þar sem stendur: „Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera nokkrar þær ráðstafanir sem[...]eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.“

Faldir yfirráðamenn

Allan þann tíma sem Pressusamstæðan hefur verið að safna undir sig fjölmiðlum með skuldasöfnun og ólöglegum leiðum til að afla sér rekstrarfjár hefur aldrei verið hægt að nálgast upplýsingar um hver það væri sem fjármagnaði veisluna. Þótt við skattgreiðendur hefðum gert það að stórum hluta með því að lána án samþykkis skatttekjur okkar í reksturinn þá er ljóst að umtalsverðir fjármunir til viðbótar hafa runnið inn í samstæðuna.

Í kringum reyfarakennt fjárkúgunarmál sumarið 2015 var staðfest að Pressan fékk tug milljóna fyrirgreiðslu hjá MP banka, sem í dag heitir Kvika. Kjarninn greindi frá því í apríl síðastliðnum að Kvika banki hefði framselt skuldabréf á Pressusamstæðuna til eignarhaldsfélagsins . Ekki hefur fengist upplýst hvert tap Kviku á fyrirgreiðslu til Pressunnar var. Þegar frá eru talin seljendalán þá er lítið sem ekkert annað vitað um  hverjir hafa fjármagnað reksturinn. Og Fjölmiðlanefnd hefur ekki talið lög um fjölmiðla, sem gera kröfu um að eignarhald og/eða yfirráð allra fjölmiðla sé rekjanlegt til einstaklinga, nái til þeirra sem láni fé í fjölmiðlarekstur.

Þannig hafa yfirráð yfir Pressunni, þeir sem hafa haldið henni fjárhagslega á floti, verið dulin. Og það eru þau enn. Ekkert hefur verið gefið upp um hverjir standa að baki félaginu sem Sigurður G. Guðjónsson veitir forsvar fyrir, þrátt fyrir að allir sem vilji vita það geri sér grein fyrir því að lögmaðurinn var ekki að setja á sjötta hundrað milljónir króna í uppkaup á fjölmiðlarekstri sjálfur. Sérstaklega þar sem við blasir að kaupin eru ekki að neinu leyti gerð á viðskiptalegum forsendum. Það er önnur ástæða fyrir þeim. Áfram er eignarhaldið og/eða yfirráðin á þriðja stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins dulin. Án þess að stjórnsýslan geri nokkuð við því.

Er tilefni til stolts?

Verst af öllu hefur þó verið að Pressusamstæðan hefur fengið að komast upp með það árum saman að skila ekki staðgreiðslu skatta sem þegar hafði verið dregið af starfsfólki. Virðisaukaskatti sem öllum fyrirtækjum ber að greiða. Tryggingargjaldi. Lífeyrissjóðs-, stéttarfélags- og meðlagsgreiðslum sem búið var að draga af launum starfsfólks en stjórnendur ákváðu að skila ekki á réttan stað, heldur eyða sjálfir í reksturinn. Og til að borga eigin svimandi háu laun.

Umfangið er stjarnfræðilegt og tíminn sem þetta fékk að viðgangast er ofar öllum skilningi. Þegar kaupin voru gerð á þriðjudag voru 120 milljónir króna greiddar til tollstjóra til að koma í veg fyrir að gjaldþrotabeiðni hans yrði afgreidd fyrir dómstólum. Til viðbótar skuldar samstæðan 250 milljónir króna hið minnsta í opinber gjöld. 

Það skal viðurkennast að manni fallast eiginlega hendur þegar svona lagað er opinberað. Það er nefnilega ekki bara verið að fara á svig við lög, svindla á tollstjóra, taka óheimilt lán hjá skattgreiðendum og brjóta öll eðlileg siðferðisviðmið sem eiga að gilda í viðskiptum. Það er líka verið að skapa sér samkeppnisforskot og draga úr möguleikum þeirra sem virða leikreglurnar, reka sína fjölmiðla heiðarlega og borga sínar skuldbindingar til að stunda sinn rekstur á jafnræðisgrundvelli.

Það er gjörsamlega óþolandi fyrir fyrirtæki eins og Kjarnann, sem skuldar ekkert, hefur alltaf haft allar upplýsingar um eignarhald uppi á borðum og sker frekar niður í launum og starfsmannahaldi en að borga ekki skuldbindingar sínar, að þurfa að keppa við lögbrjóta án þess að það hafi neinar afleiðingar. Eftir margra ára ólöglega starfsemi er bara ráðist í gamaldags kennitöluflakk þar sem hluti kröfuhafa eru skildir eftir og faldir áhrifamenn fá að dyljast í jakkafatafaldinum á Sigurði G. Guðjónssyni á meðan að lagðar eru línurnar fyrir áframhaldandi ósjálfbæran rekstur.

Björn Ingi segir í tilkynningu að hann sé „gríðarlega stoltur af þessum viðskiptum og finn fyrir miklum létti.“ Það er skiljanlegt að hann finni fyrir létti. Nú mun hann ekki fara í fangelsi. En yfir hverju hann sé stoltur er erfitt að átta sig á. Því að fólk sem lánaði honum pening verður skilið eftir með sárt ennið og ógreiddar kröfur eftir svæsið kennitöluflakk? Er hann stoltur yfir því að hafa náð að snúa á Róbert Wessman, haft af honum fé og skilið hann og viðskiptafélaga hans eftir kjánalega með meirihlutaeign í verðlausu félagi? Eða er hann stoltur af því að hafa fengið menn sem þora ekki að opinbera sig til að greiða mörg hundruð milljónir umfram markaðsvirði fyrir fjölmiðlasamsteypu á fallandi fæti? Þetta eru að minnsta kosti ekki atriði sem flest venjulegt fólk með sómakennd væri stolt af.

En svona er þetta víst oftast hér á Íslandi. Það gerist eitthvað skrýtið og vondu karlarnir vinna. Það er val að breyta því. Val stjórnmálamanna sem geta breytt leikreglunum. Val eftirlitsstofnana sem geta tryggt að það borgi sig ekki að brjóta lög. Val siðlegra fyrirtækja að eiga ekki í viðskiptum við lögbrjóta. Og val almennings sem getur kosið þá fjölmiðla sem hann neytir og trúir að séu að starfa með hagsmuni hans að leiðarljósi.

Hægt er að gerast stuðningsmaður Kjarnans hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari