Reyfarakennd saga um fjárkúgun, ástir og eignarhald á fjölmiðli

Búið er að ákæra systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttur fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sumarið 2015. Málið er reyfarakennt og minnir mun meira á skáldsögu en íslenskan raunveruleika.

sigmundur_malin_hlin.jpg
Auglýsing

Systur á fertugsaldri eru handteknar í úthverfi Hafnarfjarðar fyrir að reyna að kúga fé út úr forsætisráðherra þjóðar. Önnur þeirra er fyrrum ástkona umsvifamikils fjölmiðlaeigenda sem á sér langa pólitíska forsögu. Svo virðist sem þær hafi ætlað að notfæra sér upplýsingar sem þær höfðu undir höndum, og þær töldu að sýndu fram á að forsætisráðherrann hefði tekið þátt í fjármögnun á kaupum á fjölmiðli án þess að slík kaup væru gerð opinber, til að hafa af forsætisráðherranum átta milljónir króna.  Þetta hljómar eins kvikmyndahandrit, en er íslenskur veruleiki. Og í dag var greint frá því að rannsókn málsins sé lokið og að það fari inn á borð ríkissaksóknara í vikunni.

Til að skilja samhengi atburðanna almennilega þarf að fara aðeins aftur í tíma, nánar tiltekið til ágúst 2014.

Ásakanir um að Framsókn hafi ráða yfir DV

Síðsumars 2014 hófust mikil átök um eignarhald DV þegar hópur undir forystu Þorsteins Guðnasonar vildi fá meirihluta í stjórn í takt við eign sína. Eignarhaldið var að mestu tilkomið vegna þess að Gísli Guðmundsson, kenndur við B&L, hefði lánað Reyni Traustasyni, þáverandi aðaleiganda og ritstjóra DV, fé fyrir tveimur árum og framselt kröfu vegna þess láns til Þorsteins. Allt í allt sagði Þorsteinn að hann og viðskiptafélagar hans hefðu sett 85 milljónir króna í DV.

Auglýsing

Eftir að hópurinn í kringum Þorstein hafði náð yfirráðum í DV ráku þeir Reyni og flestir aðrir stjórnendur miðilsins hættu störfum í kjölfarið.

Ólafur M. Magnússon, kenndur við Kú, er til hægri á myndinni.Þann 29. október 2014 hafði Kjarninn eftir Ólafi M. Magnússyni, framkvæmdastjóra mjólkurbúsins Kú og fyrrum stjórnarformanni DV, að Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins hefði fundað þrívegis með sér undir því yfirskini að menn tengdir Framsóknarflokknum vildu kaupa DV. Þetta hafi gerst á þeim tíma þegar Ólafur var enn stjórnarformaður DV, en hann sagði sig úr stjórninni í maí 2013. Orðrétt sagði Ólafur: „Þegar ég var stjórnarformaður DV á sínum tíma þá kom framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og hitti mig nokkrum sinnum og spurði hvort ég gæti beitt mér fyrir því að menn tengdir flokknum gætu komist í að kaupa bréf í DV með einhverjum hætti. Það yrði auðvitað ekki flokkurinn sjálfur, heldur menn sem Kaupfélag Skagfirðinga myndi útvega fjármuni til þess að gera það. Ég ljáði auðvitað aldrei máls á þessu.“

Hrólfur hafnaði því að Framsóknarflokkurinn hafi viljað eignast hlut í DV. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér sagði: „Hvorki ég fyrir hönd flokksins, né Framsóknarflokkurinn hefur farið þessa á leit og fullyrðingar Ólafs Magnússonar þar um eru rangar. Ólafur Magnússon kom nokkrum sinnum á minn fund til að ræða ýmis persónuleg málefni, bæði fjárhagsleg og önnur. Aldrei var einu orði minnst á að Framsóknarflokkurinn hefði hug á að eignast hlut í blaðinu, en Ólafur hafði orð á því að fyrra bragði að DV væri í fjárþröng og þyrfti á auknu hlutafé að halda.“

Pressan kaupir 70 prósent í DV

Ólafur var síðan beðinn um að taka sæti í stjórn DV að nýju eftir að nýir eigendur, undir forystu Þorsteins Guðnasonar, tóku við miðlinum í september 2014. Hann sagði að í kjölfarið hafi Þorsteinn sagt honum að í bígerð væri stór sameining DV við annan fjölmiðil.

Þann 21. nóvember 2014 var svo tilkynnt að Pressan ehf., móðurfélag Vefpressunnar og vefmiðlanna Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt, hefði náð samkomulagi við eigendur meirihluta hlutafjár í útgáfufélaginu DV ehf. um kaup á ráðandi hlut í félaginu, um 70 prósent eignarhlut. Björn Ingi Hrafnsson er aðaleigandi Pressunnar, en hann er margreyndur fjölmiðlamaður sem starfaði auk þess sem aðstoðarmaður ráðherra Framsóknarflokksins um skeið og sat í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir hönd flokksins. Björn Ingi varð skömmu síðar stjórnarformaður og útgefandi DV. Í skriflegu svari til Kjarnans sama dag vildi Björn Ingi ekki gefa upp hvernig kaupin á DV voru fjármögnuð. Hann vildi heldur ekki upplýsa um hvað hafi verið greitt fyrir þann hlut sem félög tengd honum keyptu í DV.

Þann 20. desember 2014, var tilkynnt um að Samkeppniseftirlitið hefði heimilað samruna Pressunnar og DV að lokinni rannsókn. Sama dag var greint frá því að stór hluti kaupverðsins á um 70 prósent hlut í DV ehf. hefði verið fjármagnaður með láni frá seljendum hlutarins.

Í lok árs voru loks gerðar breytingar á stjórnendum DV. Þá voru Eggert Skúlason og Kolbrún Bergþórsdóttir ráðin aðalritstjórar DV og Hörður Ægisson ráðinn viðskiptaritstjóri miðilsins.

Reynt að fjárkúga forsætisráðherra

Aldrei hefur verið upplýst um hvaðan kaupverð Pressunnar ehf. á tæplega 70 prósent hlut í DV kom að öðru leyti en að hluti þess hafi verið greiddur með seljendaláni. Í ljósi þeirra ásakana sem Ólafur M. Magnússon setti fram í fyrrahaust, um að sá stjórnmálaflokkur sem leiðir sitjandi ríkisstjórn, hafi viljað komast yfir miðillinn, hafa allskyns óstaðfestar sögusagnir verið um hvernig fjármögnuninni sé háttað.

Björn Ingi Hrafnsson, aðaleigandi og útgefandi DVÍ byrjun júní 2015 fengu þær sögusagnir vængi þegar Vísir greindi frá því að tvær konur hefðu verið handteknar fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Konurnar heitar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand og eru systur. Samkvæmt reifarakenndri frásögn fjölmiðla áttu þær að hafa sent handskrifað bréf heim til Sigmundar Davíðs þar sem þess var krafist að hann greiddi þeim um átta milljónir króna. Annars myndu upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir hann að verða gerðar opinberar.

Málið var strax tilkynnt til lögreglu sem réðst í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til þess að systurnar voru handteknar í Hafnarfirði, sunnan Vallahverfis, á föstudag. Í fjárkúgunarbréfinu stóð að forsætisráðherra ætti að skilja peningana sem þær vildu fá á þeim stað.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kom fram að þær hefðu báðar játað verknaðinn við yfirheyrslur og þeim sleppt að þeim loknum. Systurnar geta átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi fyrir fjárkúgunina sem þær hafa játað á sig. Rannsókn málsins er nú lokið, um fimm mánuðum eftir að það kom upp.

DV greindi frá því í júníbyrjun 2015 að bréfið frá Hlín og Malín hafi hafist á blíðum nótum en fljótlega hafi tilgangur þess komið í ljós. Sigmundi Davíð og fjölskyldu hans hafi verið verulega brugðið þegar handskrifað bréf með meintri fjárkúgun barst á heimili þeirra. Í frásögn DV sagði að í bréfinu hafi verið farið fram á ákveðna upphæð auk þess sem nákvæm lýsing var á því hvar ætti að afhenda fjármunina. Sá staður var við Krísuvíkurveg, sunnan Vallahverfis í Hafnarfirði. Samkvæmt DV var lögð þung áhersla það í lok bréfsins á að afleiðingarnar yrðu alvarlegar ef að haft yrði samband við lögreglu.

Björn Ingi neitar 

En hvernig tengist þessi reyfarakennda, og fordæmalausa, atburðarrás eignarhaldi DV?

Í fyrsta lagi þá er Hlín fyrrum ritstjóri Bleikt.is, vefs sem Pressan ehf. á og rekur. Í öðru lagi var hún sambýliskona Björns Inga um nokkurra ára skeið. Því sambandi lauk síðla árs 2014. Malín, sem starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu, er, líkt og áður sagði systir Hlínar.

Upplýsingarnar sem hótað var að gera opinberar snérust, að sögn Vísis.is, um fjárhagsleg tengsl Sigmundar Davíðs og Björns Inga Hrafnssonar, aðaleiganda og útgefanda DV. Stundin sagði að upplýsingarnar væri tölvupóstur sem farið hefði á milli forsætisráðherra og Björns Inga í tengslum við kaupin á DV á árinu 2014.Upplýsingarnar snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan ehf. hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka sem notuð hafi verið til kaupanna.

Stöðuuppfærsla Björns IngaBjörn Ingi birti stöðuuppfærslu á Facebook sama dag og málið kom upp til að bregðast við þessum ásökunum. Þar sagði hann Sigmund Davíð ekki hafa fjármagnað kaup Pressunnar á DV og að hann ætti ekki hlut í blaðinu. Þar sagði hann einnig: „Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins. Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“

Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu um málið skömmu síðar. Þar sagði hann að bréf hafi verið sent á heimili hans, í umslagi merkt eiginkonu hans. Þar hafi verið skrifað að ef Sigmundur Davíð myndi ekki greiða nokkrar milljónir króna myndu fjölmiðlar fá upplýsingar sem ættu að reynast honum skaðlegar. Hann segir að af bréfinu að ráða virðast umræddar upplýsingar byggja á getgátum og sögusögnum. Í yfirlýsingunni segir einnig: "Vegna frétta sem birst hafa um málið í dag með vísan til hótananna er rétt að taka fram að ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt. Fjölskyldu minni er verulega brugðið vegna þessara atburða. Ég vil hvetja til hófstilltrar umræðu um málið og minni á að grunaðir gerendur eiga ættingja og vini sem liðið geta fyrir umfjöllunina."

MP banki sendi frá sér yfirlýsingu um málið þann 3. júní 2015. Þar sagðist bankinn, sem í dag hefur sameinast Straumi og heitir Kvika, ekki geta tjáð sig efnislega um hvort nafngreindir einstaklingar eða fyrirtæki eru, eða eru ekki, í viðskiptum við bankann. Bankinn geti ekki rofið trúnað um viðskiptavini eða einstök viðskipti en fullyrðir að vinnulag bankans er í öllum tilvikum í fullu samræmi við þau lög sem gilda um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Í yfirlýsingunni var einnig fjallað um tengsl forsætisráðherra við stjórnendur MP banka. Þar sagði meðal annars: „Í fréttum hefur jafnframt verið fjallað um tengsl forsætisráðherra við MP banka. Rétt er að fjölskyldutengsl eru á milli forstjóra bankans og forsætisráðherra. Þau tengsl hafa legið fyrir lengi og hafa engin áhrif haft á rekstur bankans.“

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku (áðurMP banka) er kvæntur systur Sigmundar Davíðs. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar MP banka, er auk þess einn nánasti ráðgjafi forsætisráðherra í efnahagsmálum og hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hann. 

Önnur systirin ber af sér sakir

Malín tjáði sig um málið í samtali við Vísi sama dag og það rataði í fjölmiðla. Þar sagðist hún ekki hafa tekið þátt í því að skrifa fjárkúgunarbréfið til forsætisráðherra og því hafi hún ekki tekið þátt í fjárkúguninni. „Kjarni málsins er að þarna blandast ég inn í atburðarás sem ég hvorki skipulagði né tengdist nokkurn hátt nema fjölskylduböndum,“ sagði Malín.

 Malín Brand segist ekki hafa tekið þátt í því að skrifa bréfið.Hún sagði að Hlín Einarsdóttir, systir hennar og fyrrverandi ritstjóri Bleikt.is, hefði skrifað og sent bréfið. Hún hafi ekki trúað því að nokkur tæki bréfið alvarlega. Malín viðurkenndi fyrir lögreglu að hafa haft vitneskju um málið og að hún keyrði systur sína á vettvang í Hafnarfirði, þar sem forsætisráðherrann átti að skilja eftir fjármuni samkvæmt fyrirmælum bréfsins. „Ég bíð í bílnum á meðan hún ætlar að athuga hvort sitt ætlunarverk hafi tekist en þegar ég sé í hvað stefnir þá ætla ég bara að keyra í burtu, því þetta var ekki það sem ég hafði hugsað mér.“

Hlín fór í viðtal við DV þann 19. júní 2015. Þar sagði hún systur sína hafa tekið fullan þátt í fjárkúguninni og að ástæðan fyrir henni hafi verið fjárhagsvandræði þeirra systra. Þar kom einnig fram að þegar systurnar voru handteknar hafi þær ætlað að sækja tösku sem innihélt átta milljónir króna í reiðufé. Hlín sagði í viðtalinu að hún hafi glímt við miklar geðraskanir á þessum tíma og að hún hafi verið lögð inn á geðdeild í kjölfar atburðanna.

Spurningum ósvarað

Eftir standa ansi margar spurningar um þetta fordæmalausa mál. Til dæmis hefur enn ekki verið greint frá því nákvæmlega hvers eðlis þær upplýsingar séu sem átti að nota til að kúga fé út úr forsætisráðherra þjóðarinnar. Þ.e. bréfið hefur ekki verið birt.

Það hefur heldur ekki verið greint frá því með nægilega skýrum hætti hvernig kaup Pressunnar á DV voru fjármögnuð haustið 2014. Kjarninn spurði Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastýru Fjölmiðlanefndar, um það í júní 2015 hvort kallað hafi verið eftir upplýsingum um fjármögnun þegar kaup á fjölmiðlum eiga sér stað. Hún sagði að svo væri ekki. Hins vegar hafi verið óskað eftir upplýsingum um yfirráð ef þau eru önnur en skráð eignarhald. „Það teljast yfirráð ef einhver annar en skráður eigandi getur haft áhrif á rekstur og stjórnun fyrirtækis.“

Fjölmiðlanefnd fór yfir samruna Vefpressunnar og DV árið 2014 og kannaði þá meðal annars möguleg yfirráð utan skrásetts eignarhalds. Elfa sagði að forsvarsmenn hins sameinaða útgáfufélags hafi staðfest í tölvupósti að ekki væru í gildi hluthafasamkomulag, lánasamningar né annað sem fellur undir skilgreininguna um yfirráð. Nefndin fór aftur yfir samrunann í dag í ljósi fregna af fjárkúgunartilraun gagnvart forsætisráðherra.

Í gær var svo greint frá því að systurnar hafi verið ákærðar fyrir fjárkúgun og að málið verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir tæpan hálfan mánuð. 

Fréttaskýringin var uppfærð 3. nóvember 2016.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúninu
Arion hagnast um 6 milljarða á þremur mánuðum
Þrátt fyrir lága vexti og efnahagssamdrátt var hagnaður Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs mun meiri en á sama tímabili í fyrra.
Kjarninn 5. maí 2021
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Þeirra er ævintýralega ósanngjarna lýðræðið sem við búum við“
Björn Leví segir að skipting sæta milli þingflokka sé mjög ójöfn. Auðveldasta lausnin til að leysa vandamálið sé að fjölga jöfnunarsætum – það sé ekki flókið né ósanngjarnt.
Kjarninn 5. maí 2021
Samkvæmt því sem segir í nafnlausum skoðanadálki Morgunblaðsins í dag „gæti orðið bið á því“ að blaðið sendi fulltrúa sinn á fund félaga í BÍ til þess að ræða umdeilda skoðanaauglýsingu Samherja sem beindist gegn fréttamanninum Helga Seljan.
Morgunblaðsmenn ekki spenntir fyrir því að ræða auglýsingu Samherja við félagsmenn BÍ
Í ritstjórnardálki í Morgunblaðinu segir að það „gæti orðið bið á því“ að yfirmenn blaðsins þekkist boð um að mæta á fund félaga í Blaðamannafélaginu til að ræða siðferðileg álitaefni í tengslum við birtingu umdeildrar auglýsingar frá Samherja á mbl.is.
Kjarninn 5. maí 2021
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Umræða um málefni innflytjenda gengur fram af þingmanni – Skömm að tala málið niður
Þingmaður Vinstri grænni segir að Íslendingar eigi að sýna þann þroska að geta sinnt útlendingamálum með almennilegum hætti og gera það sem best – „við sem rík þjóð“. Umræða Miðflokksmanna hafi gengið fram af henni í gær.
Kjarninn 5. maí 2021
Þriðjungur fyrstu ferðagjafarinnar fór til tíu fyrirtækja
Nú stendur til að endurnýja ferðagjöf stjórnvalda til að örva eftirspurn innanlands. Rúmur helmingur þeirra sem áttu rétt fyrstu ferðagjöfinni hafa nýtt hana. Á meðal þeirra sem fengu mest í sinn hlut voru eldsneytissalar og skyndibitakeðjur.
Kjarninn 5. maí 2021
Hluti þingliðs Miðflokksins á björtum og fallegum sumardegi fyrr á kjörtímabilinu.
Stillt upp á lista hjá Miðflokknum í öllum kjördæmum
Fimm manna uppstillingarnefndir munu setja saman framboðslista Miðflokksins í öllum kjördæmum landsins fyrir komandi kosningar, en ekki kosið í sæti á lista á félagsfundum. Fylgi flokksins hefur verið í nokkurri lægð að undanförnu.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None