Auglýsing

Stærsta dagblað landsins, Fréttablaðið, er borið frítt út í 90 þúsund eintökum á hverjum degi. Þótt lestur blaðsins hafi hríðfallið undanfarin ár er enn um að ræða einn áhrifamesta fjölmiðil landsins. Og undanfarna daga hefur hann afvegaleitt lesendur sína. Vísvitandi.

Blaðið heldur því ítrekað fram, líkt og um staðreynd sé að ræða, að í símtali sem var hluti af málsgögnum í Al Thani-málinu hafi ekki verið að ræða um Ólaf Ólafsson, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsi í málinu. Það er beinlínis rangt, því augljóslega er verið að ræða hann og engan annan í hluta símtalsins. Þar er verið að tala um hvernig Al Thani snúningurinn skuli vera teiknaður upp og meðal annars rætt um þann bita kökunnar sem Ólafur Ólafsson átti að fá út úr honum. Um þetta er hægt að lesa í dómi Hæstaréttar og um þetta er enginn vafi. Það getur síðan vel verið að hluti símtalsins snúist um annan Óla. Það skiptir engu máli.

Ekki deilt um hvað gerðist

Þeir sem þekkja Al Thani-málið vel, og ég hef skrifað um það frá því á haustdögum 2008, vita nefnilega að það hefur í raun aldrei verið deilt um hvað mennirnir, sem dæmdir voru til þungrar refsingar í málinu, gerðu. Þeir neita því ekki einu sinni sjálfir. Það er bara deilt um hvort það hafi verið ólöglegt. Hvort um glæpi hafi verið að ræða eða bara siðlausa, óábyrga og fullkomnlega skeytingalausa hegðun sem lögin næðu ekki utan um.

Auglýsing

Nú liggur niðurstaða Hæstaréttar fyrir. Í þeirri niðurstöðu er tekin afstaða gagnvart þessum gjörningum. Hún er ítarleg, byggir á gríðarlegu magni gagna og vitnisburða og er skýr. Mennirnir fjórir eru sekir um það sem Hæstiréttur kallar alvarlegustu efnahagsbrot Íslandssögunnar. Og það er alveg kýrskýrt að þeir voru ekki dæmdir í fangelsi á grundvelli eins símtals.

Það liggur fyrir að mennirnir sem dæmdir voru í fangelsi, og fólkið í kringum þá, eru ósáttir við það að þurfa að sitja inni. Það er skiljanlegt, enda frelsissvipting hræðilegt hlutskipti. En réttarríkið hvílir á hugmyndinni um að athöfnum fylgi ábyrgð og samfélagssáttmálinn er þannig að svona séu menn látnir axla hana.

Öld peninga þar sem eigendur þeirra bera ekki ábyrgð

Það sem er nýtt, á þessari öld peninganna, er að hinir sterkefnuðu dæmdu menn, fólkið í kringum þá, og ótrúlega vel borguðu lögmennirnir þeirra eru að teygja sig mun lengra í að berjast gegn endanlegri niðurstöðu dómstóla en áður hefur sést.

Niðurstöður dóma Hæstaréttar hafa oft verið tortryggðar áður, en aldrei hefur verið reynt jafn skipulega að grafa undan dómskerfinu eftir að hrunmálin svokölluðu voru tekin til meðferðar innan þess. Sá hópur, sem í krafti aðgengis að peningum setti íslenskt hagkerfi á hliðina og olli varanlegum skaða á þjóðarsálinni með vítaverðu athæfi sínu, er nefnilega þeirrar skoðunar að athöfnum þeirra eigi ekki að fylgja ábyrgð.

Fréttir með tilgang

Ritstjóri Fréttablaðsins segir í leiðara í dag að dagblaðið segi fréttir og að þessar ásakanir séu fréttir. Það er rétt hjá henni að bréf eiginkonu Ólafs Ólafssonar og ásakanir um að sérstakur saksóknari sé að ljúga í Aurum-málinu eru fréttnæmar, og það er engin að gera athugasemdir við að þær fréttir séu sagðar. Það sem er vítavert er hvernig fréttirnar eru sagðar. Skrif Fréttablaðsins byggjast ekki á því að upplýsa lesendur. Þar eru hlutirnir settir grímulaust fram á afvegaleiðandi hátt til að leiða lesendur að ákveðinni hugmynd um að réttarkerfið sé rotið og hafi brotið gróflega á mannréttindum manna sem hafa verið dæmdir sekir.

Í fréttaflutningi sínum af málinu hafa miðlar 365 rætt við eftirfarandi sérfræðinga til að gefa fréttinni vængi: Bjarnfreð Ólafsson (sem var til rannsóknar í Al Thani-málinu, kom að gerð fléttunnar, var skattaráðgjafi Ólafs Ólafssonar og stjórnarmaður í Kaupþingi), Brynjar Níelsson (sem var lögmaður grunaðs manns í Al Thani-málinu sem var á endanum ekki ákærður og hefur tjáð sig ítrekað opinberlega um að honum þyki niðurstaða dómstóla í málinu röng), Þórólfur Jónsson (fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings og lögmaður Ólafs Ólafssonar), Jón Steinar Gunnlaugsson (sem vann greinargerð fyrir Ólaf Ólafsson þar sem Al Thani-dómurinn er rengdur) og Ragnar H. Hall (fyrrum verjandi Ólafs Ólafssonar). Allir þessir menn eru auðvitað frjálsir af skoðunum sínum og mega tjá þær að vild. En samhengið og tengslin skipta máli þegar skoðanir þeirra eru notaðar sem andlag frétta.

Það stendur yfir vegferð um að mál Ólafs Ólafssonar verði tekið upp að nýju á grundvelli símtals, og Fréttablaðið er þátttakandi í þeirri vegferð. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að taka þátt í slíkum vegferðum. Þá eru þeir hættir að gera gagn og farnir að vera ógn.

Beinharðir hagsmunir

Undir liggja beinharðir hagsmunir. Hagsmunir þeirra sem eru undir í hrunmálunum. Einn þeirra er Jón Ásgeir Jóhannesson, sá sem ræður mestu innan 365 miðla óháð því hvernig eignarhaldið er skráð. Þetta vita allir sem þar hafa unnið. Og það vita það líka allir sem hafa unnið fréttir um hruntengd mál fyrir 365 miðla að Jón Ásgeir hefur oft reynt að beita eigendavaldinu til að hafa áhrif á fréttaskrif af sér eða tengdum aðilum. Þetta er ekki slúður eða sögur frá þriðja aðila. Ég hef upplifað þetta margoft sjálfur.

Á meðan ég starfaði á Fréttablaðinu fór hann meira að segja fram á það við þáverandi ritstjóra minn að ég yrði rekinn fyrir að skrifa fullkomlega sanna og löglega frétt. Hann gerði engar athugasemdir við sannleiksgildi fréttarinnar, heldur fannst hún óþægileg og vildi ekki að fjölmiðlarnir sínir skrifuðu slíkar fréttir um sig. Í þessum aðstæðum reyndi mjög á að hafa sterkan ritstjóra sem stóð í lappirnar gagnvart þessari misbeitingu. Afleiðingar þess urðu þær að viðkomandi ritstjóri var þynntur út með niðurlægjandi hætti og á endanum hrakinn úr starfi.

Hæstiréttur er að taka fyrir mál tengt Jóni Ásgeiri á mánudag. Áhuga Fréttablaðsins á að grafa undan trúverðugleika dómstólanna verður alltaf að skoða í því samhengi. Sá afvegaleiðandi fréttaflutningur sem átt hefur sér stað undanfarna daga er alvarlegasta misnotkun á fjölmiðli sem átt hefur sér stað síðan að Fréttablaðið birti ákærurnar í Baugsmálinu með viðhengi sakborninga málsins, og þá eigenda blaðsins, þar sem þeir  „útskýrðu“ fyrir lesendum af hverju ákæran væri steypa. Í raun hefðu þeir ekkert brotið af sér heldur væri verið að brjóta á þeim.

Þá, líkt og nú, er verið að nota fjölmiðil til að blekkja lesendur til að horfa á afmörkuð aukaatriði í stað þess að sjá heildarmyndina. Þetta er gert annað hvort með einbeittum vilja eða af algjöru skilningsleysi gagnvart því hversu alvarleg misnotkun fjölmiðla með þessum hætti er. Hvort sem er hræðir.

Það er sannarlega varðhundur að gelta. En hann er ekki að gelta fyrir lýðræðið eða sannleikann. Hann er að gelta fyrir ákveðna og afmarkaða hagsmuni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Öflugt húsnæðiskerfi fyrir alla
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None